Færsluflokkur: Dægurmál
Upp er risið rifrildi.
24.2.2014 | 20:25
Hef verið óskaplega hugsi frá því á föstudag að í ljós kom að ríkjandi ríkisstjórn tilkynnti það að hún ætlaði sér að hætta aðildarviðræðum við ESB.
Fyrir það fyrsta þá kom þetta mér þetta ekki á óvart. Kannski vegna þess að ég hef haft það á tilfinninguni frá fyrsta degi ríkisstjórnarinnar að hún sé fyrst og fremst ríkisstjórn Framsóknarflokksins og þeir frambjóðendur þeirra sem ég talaði við allavega í NV-kjördæmi vildu hætta viðræðum. Þeir tjáðu sig ekki endilega allir eins um hvers vegna en þeir hikuðu ekkert við að segja það að Ísland ætti að hætta öllu "Evrópubauki" eins og einn orðaði það.
Það kom mér meira á óvart að heyra af og lesa ummæli félaga minna sem eru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir voru augljóslega slegnir yfir þessu uppátæki sinna manna. Ég leyfði mér að minna þá suma á að í flokknum þeirra réði nú klárlega hægri handleggurinn, sá sem sigraði í Evrópuumræðu á landsfundinum. En þá töluðu þeir og skrifuðu um málflutning formannsins síns og loforðin um þjóðaratkvæðið í kosningabaráttunni.
Ég veit ekki hvernig þeim leið í kvöld að horfa á Bjarna. En mér leið ekki vel fyrir hans hönd, og er hann þó ekki minn formaður. Það var ekki bara það sem hann sagði þegar hann reyndi að tala sig út úr því sem samflokksmenn hans tala um svik.
Heldur það að sjá hann tala niður mótmælin á Austurvelli og reyna að forðast umræðu um þjóðaratkvæði og stjórnarskrána, eða þ.e. hvað hann teldi eðlilegt. Og svaraði ekki afdráttarlaust um hvort hann hefði svikið sjálfan sig. Honum líður augljóslega ekki vel.
Enda hlýtur að vera erfitt fyrir Bjarna Benediktsson að hlusta á samtök vinnuveitenda, iðnaðarins og verslunarinnar auk forstjóra fyrirtækja eins og Össurar, Marel og CCP rífa þessa ákvörðun í sig.
Það sem er sorglegast í þessu öllu er að eftir tæplega árs setu hefur ríkisstjórnin hleypt af stað rifrildi. Ég held samt að þeir haldi að rifrildið snúist um annað en það sem ég held að það snúist um.
ESB er eitt atriðanna í því, mér finnst gjaldmiðillinn stærra atriði.
En stærsta atriðið er einfaldlega það að ríkisstjórnin ætlar sér hiklaust að ganga gegn vilja um 70% þjóðarinnar miðað við skoðanakannanir.
Það snýst rifrildið um og því mun aldrei ljúka fyrr en þjóðin sjálf hefur fengið að koma að þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin ætlar nú að taka ein og sér í skjóli fulltrúalýðræðis.
Fyrir mér er þetta stærsta ákall lengi um það breyta þurfi reglum lýðræðisins rækilega. Annars verða hér endalaus virki reist um lýðræðishöllina okkar við Austurvöll og það mun einfaldlega láta stærri hópi landsmanna líða verr en ásættanlegt getur talist!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annáll...skólamálin
5.1.2014 | 22:52
Ákvað að slá saman pælingu minni varðandi vinnuna mína og þeirri hefð að setja upp sunnudagsmola. Þeir voru í jólafríi en koma nú til baka og blandast fyrst aðeins við vinnupælingar.
Þann 11.júní 2014 verður ákveðinn áfangi í mínu lífi, en þann dag eru 20 ár síðan ég útskrifaðist sem kennari úr K.H.Í. Ég reyndar náði ekki útskriftinni sjálfri þar sem við KS-ingar vorum að spila stórleik á Hofsós-stadium og ég tímdi ekki að sleppa því. En fékk vin minn til að taka skírteinið og náði partýinu um kvöldið. Keypti ramma um skírteinið og gaf afa og ömmu það.
Um haustið byrjaði ég svo að kenna. Í Grunnskóla Siglufjarðar. Man fyrsta daginn eins og hann hefði gerst í gær. Svo uppfullur af því að ég vissi allt, gæti allt og kynni allt sem þyrfti. Hlustaði auðvitað á einhver ráð en hristi hausinn inni í mér þegar ég fékk heilræðin frá mér reyndari. Rakst svo á það fljótlega að ég hefði átt að hlusta. En held ég hafi nú náð ágætum tökum.
Tvö ár í Sigló og sami tími á Kjalarnesi. Þá átta ár í Bakkahverfinu í Breiðholti og í vetur klára ég áttunda veturinn í Snæfellsbæ.
Ég tel mig hafa verið heppinn með samferðafólk í skólastarfi. Skiptir þá ekki máli hvort ég er að ræða um forráðamenn, nemendur eða samstarfsfólk. Er mjög stoltur af þeim störfum sem ég hef náð að vinna í þessum fjórum skólum hingað til. Ekki síst þar sem ég var ekki viss um hvort ég ætlaði að verða kennari fyrr en nokkuð djúpt inni í tímabili mínu í Breiðholtsskóla.
Á þessum 20 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar á starfi íslenskra grunnskóla. Færsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga var að mínu viti gæfuspor þar sem það stytti leið umbjóðenda skólans inn í hann. Í stað þess að bíða tilskipana frá ráðuneyti voru samfélögin sjálf um allt land gerð ábyrg fyrir skólum sínum og smátt og smátt urðu til áherslur á hverjum stað. Nokkuð sem er klárlega til bóta og hefur skipað skólum Íslands mörgum hverjum mjög framarlega.
Það getum við vottað sem höfum ferðast um Evrópu til að skoða skóla. Þeir íslensku eru klárlega í efstu þrepum varðandi aðbúnað nemenda og líka í hugmyndaauðgi og fjölbreytni. Enda kom mér það ekki á óvart að sjá okkur Íslendinga vinna þann þátt PISA könnunar sem sneri að líðan nemenda. Mér kom þó meira á óvart að sjá hversu lítið þeim þætti könnunarinnar hefur verið hampað. En þá það.
Mér finnst þó vert að geta þess að ég þarf í dag sem skólastjóri lítið að velta fyrir mér þeim hlutum sem ég þurfti að gera sem kennari og deildarstjóri forðum. Unglingadrykkja á skólaböllum t.d. fyrirfinnst ekki lengur. Ég hef verið í þeim sporum að þurfa að taka á því þegar fyrirmyndarnemendur urðu uppvísir að slíkum gjörðum og þeim afleiðingum sem brottvísun tímabundið í kjölfarið þýddi. Ég minnist þess líka þegar ég og kollegar mínir smíðuðum fjarvistarkerfi til að bregðast við skrópi barna á aldrinum 14 - 16 ára. Það er ekki vandamál í mínum skóla í dag, langt í frá!
Að auki hafa íslenskir skólar ákveðið að færa sig frá einsleitu mati og horfa til þess að vera skólar án aðgreiningar. Nokkuð sem er sjálfgefið að mínu mati að allir eigi að stefna að, vissulega með því fjármagni sem það þarfnast. Ekki bara í samfélögum eins og Snæfellsbæ sem vill að skólinn sinn sé fyrir alla íbúa, heldur almennt. Vissulega er verkefnið erfitt og krefst aukins mannafla og samhentrar vinnu starfsfólks skólanna í ólíkum starfsstéttum. En hefur orðið okkar skólum til góðs. Um það er ég sannfærður!
En þegar upp er staðið, á 20 ára útskriftarafmælinu, get ég þá staðið teinréttur og sagt að allt í grunnskólunum standi framar en það gerði þegar ég tók við sem umsjónarkennari 7.bekkjar á Sigló fallegan stilltan haustdag árið 1994.
Ég er ekki alveg viss um það...
Það sem er nýjast og þá kannski erfiðast fyrir grunnskólann er hversu ríkur þáttur hann er orðinn í hjarta hvers samfélags. Sameignarhlutverkið sem er vissulega skiljanlegt og nauðsynlegt hefur líka þýtt að um skólann hefur skapast nýtt form umræðu. Sem snýst um þjónustustig. Skólinn er ekki lengur "bara" menntastofnun, heldur ekkert síður uppeldisstofnun. Sem snýst ekki bara um menntun, heldur líka þjónustu við samfélagið.
Þessu hlutverki er ég fullkomlega sammála, en ég óttast töluvert hvert umræðan um skólastarf er að leiða okkur. Í auknum mæli finnst mér fréttaflutningur um grunnskólastarf vera um ósætti (stundum meint) vegna þjónustu skólanna. Það getur verið býsna erfitt fyrir skólafólk að bregðast við slíkri umræðu, því að sjálfsögðu erum við öll sem þar störfum bundin trúnaði við skjólstæðinga okkar þegar kemur að einstökum málum. Því miður hefur það stundum verið túlkað á þann hátt að í því felist viðurkenning á einhverri sekt. En er að sjálfsögðu ekki.
Að sjálfsögðu hendir það í íslenskum skólum að upp koma atvik þar sem verður slíkt ósætti milli aðila skólasamfélagsin. Annað væri einfaldlega ómannlegt. En af reynslu minni af u.þ.b. 300 samstarfsmönnum á þessum 20 árum þá leyfi ég mér að fullyrða það að þegar slíkt kemur upp fer einbeiting þeirra sem í skólunum starfa í það að leysa slíkt ósætti og gera sitt til að það hendi ekki aftur. Geri betur ef svipað atvik kemur upp. Í engu tilviki sem ég hef orðið var við á þessum tíma hefur annað komið upp. Því ég held að ég leyfi mér líka að fullyrða að ástæða þess að fólk ræður sig í vinnu í grunnskóla þá sé það af því að það telur sig geta orðið til gagns við uppeldi í samfélaginu og því leitast fólk alltaf eftir því að gera betur.
Því miður særir þessi umræða. Skólafólk þekkir oft aðstæður sem lýst er í slíkum fréttum, tengir sína starfsreynslu við og á auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem standa "í eldlínunni" hvert sinn. Ég veit að í einstaka tilvikum hefur það orðið til þess að grunnskólinn hefur misst frábæra starfskrafta. Sem er svo leitt.
Vissulega er þetta hluti íslensks raunveruleika. Við erum svolítið að festast í því Íslendingar að telja okkur bara vera að "rýna til gagns" með því að benda endalaust á ósætti í samskiptum eða það sem við teljum neikvætt. Þó við kannski getum engin ráð gefið, eða tillögur um það hvernig betur mætti fara. Því deyja svona fréttir oft út í svakalegu niðurrifi athugasemdakerfanna, eða nýtt mál, jafnvel á öðru sviði tekur athyglina. En skilur þá oft eftir blæðandi sár hjá þeim sem að málum komu innan viðkomandi skóla.
Þarna hefur komið upp vandi, þar sem hið mikilvæga þjónustuhlutverk skóla í samfélaginu á að leysa vanda annars staðar en "heima hjá sér" og ekki með samstarfi allra aðila sem að máli koma.
Þar hefur horfið til hins verra frá árinu 1994.
Á þessu tímabili hef ég komið að ólíkum málum sem varða nemendur og samskipti við heimili. Þar hafa verið reyndar ólíkar leiðir til að leysa ólík mál. Sum hafa gengið upp, á meðan önnur hafa bara alls ekki gengið.
Þannig verður alltaf þegar unnið er með manneskjur, við bregðumst ólíkt við og það er engin leið fær sem leysir öll vandamál. Annars væru engin vandamál til.
Þegar vel hefur tekist til hefur það undantekningalítið verið þar sem að heimili og skóli náðu saman. Það virkar mest og best. Vissulega hafa ekki alltaf fundist leiðir þó allir hafi reynt.
En þar liggur hundurinn grafinn. Það er hlutverk þjónustuaðila að gera sitt allra besta, eins og hjá handboltalandsliðinu 1986 kannski aðeins betur ef það er það sem þarf.
Það er einfaldlega ekki hægt að reikna með því að lausnir finnist á öllu sem upp kemur, en það skiptir máli að halda alltaf áfram að leita lausna. Minn ótti er að umræðan sem "rýnir til gagns" snúist eilítið núna um að benda fingri í átt til annarra, frekar en að reiða fram opinn lófa og sáttahönd. Ef það er rétt og "leið hins ásakandi fingurs" verður ráðandi mun hún skaða á þann hátt að draga kjark úr lausnaleitarstarfi íslenskra skóla. Sem má alls ekki verða.
Þegar ég klára tuttugasta skólaárið mitt sem starfsmaður í vor þá er vert að setjast niður og hugsa sinn þátt í því sem liðið er...um leið og maður horfir fram á veg og ákveður hlutverk sitt á þeirri leið sem verið er að marka.
Ég sakna þess mjög oft að fá ekki að vera meira "á gólfinu" og skapa með nemendum, því það er frábært starf að fá að kenna íslenskum börnum og unglingum. Það er mitt hlutverk núna að skapa kennurunum mínum þau starfsskilyrði að þau njóti síns starfs og hafi tækifæri til að gefa sig öll að því að skapa nemendum okkar frábæra framtíð.
Það hlutverk mitt verð ég að taka alvarlega og það mun ráða því hvert ég horfi til framtíðar.
Því er það von mín að í stað þess að einstaklingar, samfélög og fjölmiðlar verði enn einbeittari en áður í því að taka þátt í umræðu sem vissulega horfir til þess þegar upp kemur ósætti um þjónustu grunnskólans en ekki síður, og helst enn frekar, vera í liðinu sem kemur að því að fjölga mögulegum lausnum og hampa því sem vel er gert.
Þá verðum við enn meira langefst í líðan á meðal nemenda okkar en við vorum í þessari PISA-könnun!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annáll...þjóðmálin
31.12.2013 | 16:23
Þá langar mig aðeins að fara yfir þjóðmálin eins og þau litu út fyrir mér á árinu 2013.
Ég ætla ekki að nota orðið "pólitík" hér því að ég verð alltaf meira viss um það að við eigum helst ekki að nota það orð eða "stjórnmál" í umræðu um það hvað við viljum að löggjafinn skili til samfélagsins.
Það er erfiðara að segja "ég nenni ekki að ræða þjóðmál" heldur en "ég nenni ekki að ræða pólitík".
Er það ekki?
Á árinu 2013 tók ég þá ákvörðun að bjóða mig fram til þess þjónustustarfs sem felst í því að vera þingmaður, tók 4.sæti á lista Bjartrar Framtíðar í kjördæminu mínu. Sunnudaginn 28.apríl vaknaði ég upp með blendnar tilfinningar. Var mjög glaður með útkomu okkar á landsvísu, en var óskaplega svekktur að mitt kjördæmi var það eina sem átti ekki BF - þingmann. Árni Múli vinur minn hefði verið frábær fulltrúi okkar og hann G.Vald ekki síður sem hans varamaður.
En þá það, það sem ekki tókst núna mun takast næst. Í kollinum hef ég reglulega farið yfir það hvernig við getum náð betri árangri í næstu kosningum, er alveg sannfærður um að þá tekst okkur að eiga BF-þingmann, sem kjördæmið þarf!
En við eignuðumst sex manna þingflokk frábærra einstaklinga. Sem hafa frá fyrsta degi unnið á þann hátt að ég hef verið mjög stoltur af því að vera með þeim í flokki. Mínir þingmenn klárlega!
Margir stjórmála- "spekúlantar" hafa átt frekar erfitt með að staðsetja okkur. Enda ekki algengt að stjórnarandstöðuflokkur standi ekki rauðeygður á móti öllu sem mögulegt er. Bendi stanslaust á hvað allt sé ómögulegt hjá "hinu liðinu" og telji sig hafa öll réttustu svörin.
Í ofanálag koma með tillögur um "venjulega hluti fyrir venjulegt fólk" eins og að reyna að lengja sólardaginn í þröngum fjörðum landsins og færa frídaga að helgum.
En svona ætluðum við að vera og ég er svo glaður að okkur er að takast ætlunarverk okkar hingað til. Verða flokkur fólks sem telur sig vera að sinna þjónustustörfum fyrir samfélagið, bjóða upp á virk skoðanaskipti, bæði inni á www.heimasidan.is og síðan með því að heimsækja samfélög reglulega og hlýða á raddir þeirra sem þar vilja hefja upp sína raust.
Reyna svo af fremsta megni að skila þeim viðhorfum inn í þingsalinn.
Það er auðvitað engin launung að við höfum m.a. horft mikið til vinnubragða Besta Flokksins í Reykjavík sem hefur reynt að virkja íbúalýðræðið í sínum vinnubrögðum og klárlega fært borgarstjórnina nær hverfum og einstaklingum.
Það var því pínu leitt að sjá Jón Gnarr taka þá ákvörun að stíga úr stól borgarstjóra, en um leið mikil gleði að hann treysti okkur í Bjartri Framtíð til að taka við kyndlinum. Ég er sannfærður um að sá frábæri hópur sem stillt er upp á okkar lista í borginni mun virkilega ná árangri í kosningunum og síðan í störfum sínum í kjölfarið. Vonandi náum við að stilla upp fleiri listum í sveitarstjórnum og þá alltaf með það að leiðarljósi að verða tæki íbúalýðræðis og almannahagsmuna.
Þegar ég horfi til baka á árið 2013 og hlutverk þjóðmálanna í því er ég býsna sáttur. Okkur tókst að eignast hóp á Alþingi Íslendinga og höfum smátt og smátt öðlast traust stærri hóps í samfélaginu.
Um leið er ég handviss að árið sem er framundan mun verða enn árangursríkara þegar kemur að því að auka áhuga fólks á þjóðmálum og fjölgar í þeim hópi sem telur þau eiga að vera sjálfsagt umræðuefni við öll tækifæri, handviss um það að öll atkvæði séu jafn mikilvæg og fjölbreytileikann eigi að fanga.
Það verður alltaf kjarni BF, bjóða upp á valkost fyrir þá sem eru sammála okkur en líka taka þátt í starfi með þeim sem eru ósammála. Fjölbreytileikinn er málið, en kjarninn er að löggjafinn verði tæki almennings og horft verði til þess að taka ígrundaðar ákvarðanir sem horfa til langtímamarkmiða en forðast að einskorða sig við að slökkva einstaka elda jafnóðum.
Vonandi fjölgar í liðinu okkar, það er algerlega hægt að mæla með því!!!
Á morgun ætla ég aðeins að leyfa hugrenningum mínum í skólamálum og framtíð þeirra að fljóta á síðunni. Farið varlega í kvöld elskurnar!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annáll...einkalíf
30.12.2013 | 13:44
Árið 2013 að kveðja og ég held að það sé ekkert leiðinleg fyrir mann að rifja upp sitt ár...bara svona upp á sögulega geymd sem gaman væri að lesa síðar.
Auðvitað er það hálfgerð sjálfhverfni að gera það á blogginu sínu, en þá það...kannski hafa einhverjir gaman af að frétta af manns gleði og raunum.
Ég ákvað að skipta annálnum í þrennt. Fyrst ætla ég að fara yfir einkalífið mitt og áhugamál á árinu 2013, svo ætla ég að ræða pólitíkina mína þetta árið og síðast en ekki síst ætla ég að losa úr læðingi hugrenningar mínar tengdar þeim geira sem ég starfa við, skólamál, en á ýmsu hefur gengið á þeim bænum þetta árið.
En fyrst er það einkalífið!
Árið 2013 má segja að hafi verið rólegra en mörg önnur í lífi fjölskyldunnar á Helluhól 3. Útskriftir, fermingar, gifting og húsakaup viðfangsefni nokkurra ára á undan, en nú stefndi í frekar yfirvegað ár.
Thelma Rut vann sem au-pair í Charlottenlund í Danmörku frá júlí 2012 og fram í júní 2013 við góðan orðstír. Helga fékk ferðalag til hennar í jólagjöf og fór þangað um miðjan janúar. Ferðin var að sögn afar ljúf enda fjölskylda Thelmu besta fólk og þær Helga orðnar býsna góðar vinkonur. Gleði þeirra var svo mikið að Helga endaði ferðina á að bjóða bestu vinkonu Thelmu, bandarísku stúlkunni Rebeccu að dveljast hjá okkur í sumar, sem stúlkan sú þáði og varð hressileg viðbót í stuðsumar.
Ég sjálfur fór í flakk þetta árið. Í janúarlok fór ég á BETT-sýninguna í London eftir margra ára frestun á því. Skemmst er frá því að segja að mér fannst sýningin frábær í alla staði og mun ræða hana eitthvað meira í vinnuuppgjörinu sem kemur síðar. Það spillti ekki að hafa góða ferðafélaga með, náði að fara á tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni, þ.á.m. sjá hann Suarez minn skora fallegt mark gegn Arsenal sem var auðvitað afskaplega gleðilegt.
Fljótlega upp úr því hófst undirbúningsvinna okkar félaganna á kop.is sem að tengdist hugmynd um að setja á fót ferðir á Liverpoolleiki í tengingu við þann hóp sem að síðuna les. Það endaði með því að við fórum saman fjórir af fimm út til Liverpool í upphafi maí á Merseyside-derbyið og fórum í þeirri ferð rækilega yfir þær hugmyndir sem við töldum að myndi virka í slíkri ferð. Þessi maíferð var skemmtileg að öllu leyti nema leikurinn sjálfur sem endaði 0-0, í fyrsta sinn sem ég fæ markalausan leik í slíkri ferð.
Ferðin var þó pínu erfið fyrir mig. Þar kom til ég var búinn að vera að eiga í vandræðum með verki í hnjám annað slagið um veturinn en hlustaði ekki mikið á skrokkinn og ákvað að byrja samt að flauta sem fótboltadómari. Í aprílbyrjun dæmdi ég leik í Lengjubikar í miklum kulda sem var bara beinlínis hrikaleg pína, ég náði varla að klára hann og í framhaldinu fór ég að skoða hvað gæti verið að. Eftir miklar pælingar þar um varð lendingin að ég væri að kljást við beinmar á báðum hnjám, nokkuð sem er hryllilega pirrandi og skerti hreyfigetuna töluvert. Ég reyndi eitthvað að dæma, en það var mjög erfitt, enda eiginlega eina ráðið að hvíla.
Það hafði svo líka áhrif á sumarfríið mitt, ég haltraði annað slagið og lítið varð úr gönguferðum og slíku brasi. Stærsta og mesta gleðin í fríinu tengdist fjölskylduferð til Portúgal. Sigga tengdó varð sextug á árinu og hugðist bjóða okkur með til útlanda og úr varð að við leigðum íbúð í þorpinu Costa da Caparica sem er í um 20 km. fjarlægð frá Lissabonn við Atlantshafsströndina. Því miður veiktist Ölli tengdó stuttu fyrir ferð og úr varð að við Helga fórum ásamt Sigríði og Sólveigu og áttum frábæra 10 daga í því dásamlega landi Portúgal.
Sólin var ágætlega á sínum stað, þeir tveir sólarlausu dagar sem birtust voru nýttir í frábærar skoðunarferðir um Lissabonn. Þetta var fyrsta ferð Helgu til þessa frábæra lands, en ég er sannfærður um að stutt er í þá næstu.
Sumarið heimafyrir var mun kaldara og sólarminna en þau síðustu og leið auðvitað of fljótt. Húsið var fullt af fólki, mest heimafólkinu sem var auk okkar fjögurra sem alltaf erum þar til húsa voru Thelma og Hekla í sumardvöl eins og áður, hörkuduglegar hóteldömur, auk þess sem áðurnefnd Rebecca var hjá okkur. Við fengum annað slagið gesti sem alltaf gleður okkur óskaplega og við fórum líka í ferðalög, flest þeirra tengdust fótboltastelpunni Sigríði Birtu og þátttöku hennar í mótum. Sem var afskaplega gott og gefandi.
Haustið mætti og þá hófst vinnutörnin. Thelma byrjaði í HÍ í ferðamálafræði og Hekla varð framhaldsskólanemandi og Menntaskólinn við Sund var svo heppinn að fá hana sem nemanda sinn. Sólveig hóf síðasta leikskólaárið og Sigríður komin í elsta bekkinn á Hellissandi, fer haustið 2014 að taka rútuna í Ólafsvík í skólann.
Nýtt verkefni lá fyrir mér, því það tókst að koma saman hópferð í tengslum við kop.is, 27 einstaklingar fóru fyrstu helgina í október í borg guðanna undir styrkri fararstjórn undirritaðs og höfðingjans Babu. Þar úti tóku þeir Lee og Ian á móti okkur og skemmst er frá að segja að allt gekk frábærlega upp. Veðrið dásamlegt, hótelið flott á frábærum stað, sigurleikur í fyrsta leik Luis á Anfield eftir bannið og skemmtanalíf borgarinnar magnað. Þegar þetta kom allt saman var beinlínis ekki hægt að klikka og það gerðist enda ekki. Vonandi tekst að endurtaka þennan leik ansi oft í framtíðinni!
Viku eftir ferðina fór ég svo til Litháen í boði ESB sem viðurkenningu á frábæru Comeniusarstarfi skólans míns. Býsna brösulega gekk að ferðast, breyting í flugi kallaði á nýja bókun á útleiðinni og á heimleiðinni var 12 tíma stopp í Köben. Það var lærdómsríkt að fara á þá ráðstefnu sem mér var stefnt til í Vilnius, að mér skilst mjög hefðbundið vinnulag tengt ESB þar á ferð og það virkaði skilvirkt og flott. Mikil vinna og áreiti frá 8 - 24 alla þrjá dagana og því ekki sanngjarnt að dæma Vilnius eða landið, en þó viðurkenni ég að ákveðin vonbrigði voru í kollinum á mér þegar ég yfirgaf hana. Örugglega enn að slíta barnskóm sem frjáls borg, en eitthvað leið mér ekki vel í þeirri menningu sem manni birtist. Sem var vissulega ekki tímafrekur hluti heimsóknar minnar þangað!
Síðustu mánuðir hafa svo liðið í hefðbundnu samspili vinnu og einkalífs. Auðvitað með beygjum, væntum sem óvæntum, en ekki ástæða til að rekja frekar.
Semsagt þegar í heildina litið frekar mikið útlandaflakkár og minna flandur um íslenskar grundir í tæpu sumri. Fótafúi hafði áhrif á dómgæslu en að öðru leyti góð heilsa, líkamlega sem andlega.
Framundan er árið 2014 sem örugglega mun hafa á sér annan blæ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mín vetrarsól
28.10.2013 | 10:54
Ég man vel eftir kassettu sem hljómaði mikið í Lödunni hjá afa og ömmu þegar verið var að þeytast um í gamla daga. Stundum var bara verið að renna í Fljótin í heimsóknir til vina en svo var líka skellt á skó og rennt til vesturs á Strandirnar eða austur á land til að hitta fjölskyldumeðlimi og vini sem þar voru.
Á þessari kassettu sem ég minnist mest voru lög sem Björgvin Bo Halldórs var að flytja, lög sem ég enn í dag raula með. Skýið, Eina ósk og fleiri slagarar sem karlinn flutti.
Eitt þessara laga heitir Vetrarsól og á síðustu árum hef ég í vetrarbyrjun sest niður og hlustað á þetta lag og látið hugann reika pínulítið í allar áttir. Því texti þessa lags ýtir við svo mörgu sem ég er svo heppinn að hafa fengið innrætt í mínu uppeldi og ég vona að ég sé að reyna að smita til þeirra sem ég ber ábyrgð á að reyna að miðla til.
Maður velur hvernig maður tekur á móti vetrinum. Við erum fá sem myndum velja hann sem okkar uppáhalds tíma á árinu en þó er hann sennilega sú árstíð sem lengst lifir á landinu okkar. Þá skiptir máli að taka á móti honum opnum örmum vitandi það að hann er jafn sjálfsagður okkur og hið vekjandi vor og okkar stutta bjarta sumar. Hvursu myrkur og kaldur sem hann er, þá er hann okkar tími líka.
Svo að í dag vaknaði ég í vetrarfríinu mínu, knúsaði yngstu stelpurnar mínar tvær og gaf þeim morgunmatinn. Þær fluttu sig upp á efri hæðina í meira teiknimyndamaraþon.
Þá fór ég og hitaði mér kaffi, leit út um gluggann þar sem norðanvindurinn lamdi á gulnuðum stráum og leyfum sumarblómanna. Þá ákvað ég að finna Vetrarsól á öldum internetsins.
Það var kominn tími á að undirbúa sig undir vetur númer 42 á minni ævi...ég treysti á að hann verði fullur af mörgum Vetrarsólum, líka hjá ykkur vinir mínir.
En til öryggis sendi ég ykkur hér með smá "hlýja hönd" ef þið viljið þiggja hana
http://www.youtube.com/watch?v=dB9ZC8n0XdY
Mín Vetrarsól.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Manntak - mannvit - manngöfgi
23.9.2013 | 20:34
Þessi þrjú orð eru einkunnarorð skólans míns, Alþýðuskólans á Eiðum.
Skóla sem fæddist 1883 og dó 1995. Um helgina fór ég frá Hellissandi austur á Fljótsdalshérað og hitti fólk sem átti það sameiginlegt með mér að hafa verið fóstrað af þessum stað um sinn.
Fólk sem langaði til að votta staðnum virðingu sína, rifja upp gleði og sorg þeirrar veru og ýta vonandi undir það að framtíð Eiða verði bjartari en nútíð, með einhverjum ráðum.
Áður en ég lagði af stað átti ég von um skemmtilega upplifun. Hafði fylgst með Bjössa, Bryndís, Gerðu og Jóa á fésbókarsíðunni auk þess sem ég samþykkti að sjálfsögðu þann heiður sem mér var réttur með því að bjóða mér að verða kynnir á hluta hátíðarinnar.
En ekkert bjó mig undir það sem ég upplifði held ég. Allt frá fyrsta andartaki þegar maður labbaði inn um dyrnar salarins sem hýsti Cheerios, bjúgu og annað góðgæti eitt sinn en hafði nú hlutverk lítillar krár andaði maður að sér hreinni gleði.
Engu máli skipti hvort ég hitti fólk sem ég þekkti vel, eitthvað eða lítið. Allir vissu að við vorum Eiðafjölskyldan og værum komin í sama tilgangnum. Að njóta samveru sem um stund leyfði okkur að fara afturábak og rifja upp minningar um góðan tíma í lífinu, auðvitað fullan af bæði gleði og sorg. En góðan tíma.
Og alveg sama er hvar hugurinn ber niður. Fyrsta kvöldið var maður sannfærður um að eiga alla að vinum á staðnum. Ingunn vinkona mín hóf forspilið með fallegu ljóði sem sagði svo margt sem mig langaði að segja. Alveg magnaðar tónlistaruppákomur á sex stöðum fylgdu þar á eftir. Í fyrsta sinn langaði mig að vera í sex pörtum til að fá að njóta alls sem var.
Stóru tónleikunum finnst mér eiginlega ekki hægt að lýsa. Maður varð að upplifa þessa 10 klukkutíma til að geta sagt sér hvað fór fram. Ég fékk margar gæsahúðir. Allar hljómsveitirnar höfðu lagt metnað og sál í það sem þær gerðu. Ég átti mér uppáhalds hljómsveitir á tónleikunum en það tengdist mínum tónlistarsmekk. Aðrir áttu aðrar og skiljanlega. Því allar voru góðar. Þegar ég horfði framan í salinn á meðan ég spjallaði milli hljómsveitanna seinni partinn og um kvöldið þá ákvað ég að geyma þessa minningu fast í kollinum. Röddin hefði mátt verða betri en það var það eina. Mér leið undurvel vitandi það að allir tónlistarmennirnir voru klárir og allur salurinn vildi meira. Ballið sem fylgdi var skemmtilegt en friðurinn inni á herberginu sem mér var úthlutað og vakti bara upp ljúfar og fallegar minningar þegar ég fór að sofa var skrýtinn, enda hljómsveitasviðið skammt undan. Ég veit ég sofnaði undir tónum Hound dog, jafn brosandi og þegar ég vaknaði.
Sunnudagurinn var svo eftirrétturinn eftir aðalréttinn. Ekki var hann síðri. Heimafólkið stóð sig frábærlega. Ræðan hans Kristins var svo mikið Kristinn, þarna var stjórinn sem maður þekkti. Írónískur í fyndninni sinni, talaði blaðlaust um sögu staðarins og áminnti okkur um það að við yrðum að passa okkur á því að viðhalda ánægjunni með það sem var og ergja okkur ekki á þróun sem leiddi til þess að hlutverk héraðsskólanna varð ekkert. Ég hlustaði eftir því og hugsa mikið um það núna.
Ásgrímur Ingi ljóðaði fyrir okkur, jafnvel og Ingunn. Ég treysti því að við fáum að sjá þessi ljóð á prenti fyrr en síðar. Magni, Ester, Jónas og Hafþórarnir frábær. Afslöppuð, jarðbundin og indæl en fluttu af svo mikilli tilfinningu að hún fór inn um eyrun og niður í tær. Hápunkturinn fyrir mig var þegar þau fluttu lag sem á sterka tengingu við mömmu mína á þann hátt að það kallaði á tár, hún fékk meira að segja að Koma heim á þessari helgi. Nú er ekki bara Jónas uppáhalds tónlistarmaðurinn minn, þau eru það. Öll fimm og ég vill sjá meira frá þeim saman!
Þar með lauk helginni í tímanum, en ég er ekki viss um að henni verði lokað svo glatt. Eins og Ingi sagði í ljóðinu sínu þá er Eiðastaður iðandi af mannlífi, mannlífi hugans. Eins og Ingunn sagði í sínu þá var lífið á Eiðum þar sem við upplifðum svo mikið af því fyrsta í lífinu að staðurinn verður alltaf í hjartanu.
Mér telst til að ég hafi stoppað á Eiðum í 40 klukkustundir. Ég hefði ekki viljað missa af einni mínútu þess tíma. Það eina sem mig hefði langað til en tókst ekki er að svo mikið var um magnaðar uppákomur að maður náði ekki að tala nógu mikið við Eiðavini. Það er svo margt sem rennur um huga manns og langaði að komast fram sem tókst ekki. Nema í einstaka hvísli milli atriða og í morgunmatnum.
En það er ekki einu sinni nokkuð sem ástæða er til þess að ergja sig á. Nú treystir maður á það að sú gleði sem við sem komumst í Eiða um helgina verði til þess að okkur takist að upplifa það aftur að sú samkennd sem orðin þrjú vekja með okkur, manntak mannvit manngöfgi, kalli á það að við höldum í þá tengingu sem orðin er til.
Þegar ég fór að sofa í Hafnarfirðinum á sunnudagskvöld þá hugsaði ég mest um þau fjögur í stjórn Eiðavina sem voru á staðnum, Bryndísi, Gerðu, Jóa og Bjössa.
Sama hvað ég myndi setja saman mörg þeirra sterkustu lýsingarorða sem ég gæti fundið til að lýsa því hvað mér finnst um framtak þeirra þá myndu þau aldrei ná yfir tilfinningar mínar. Þau verða aldrei nógu stór. Svo ég enda á því sama og ég setti á fésstatusinn minn á miðnætti sunnudagsins.
Auðmjúkar þakkir!
Þangað til næst, Maggi á Garði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eurovision 2013
18.5.2013 | 12:53
Hátíðisdagur á Helluhól 3. Eurovisiondagur er alltaf hátíð hjá mér og mínum, sennilega ein ástæða þess að ákveðið væri að ég sæi um framleiðslu á stelpustóði. Sameiginlegt áhugamál allra á heimilinu, Hekla komin að sunnan og við munum koma henni í gírinn í dag. Pottþétt.
Mér finnst keppnin í ár býsna spennandi. Að vísu hafa ólík verkefni þetta vorið verið að þvælast fyrir mér svo að það var ekki fyrr en á síðustu dögunum að maður virkilega náði að sökkva sér niður í keppnina en þá auðvitað gerði maður það bara!
Heildarútlitið
Mér finnst keppnin í ár með sterkara móti, að því leytinu að það eru að mínu mati fá pissupásulög, þ.e. léleg atriði. Vissulega hrekkur maður við þegar Rúmeninn mun reka upp sín hljóð og ég skil ekki alveg Moldavíulagið - auk þess sem sænska lagið er töluvert "gamble".
En það er fullt af fínum lögum í þessari keppni. Feelgood-lög eins og Ungverjaland, Malta og Spánn. Sykursæta strákadeildin er Azerbaijan og Írland. Grikkirnir með flottan afa og Eyþór með hárið. Stefnir í að Finnar eigi flottasta kjólinn en þó er beðið eftir Bonnie og Cascada áður en kosið verður í þeirri deild á heimilinu.
Þegar maður rennir yfir úrslitalögin 26 þá er töluvert sérstakt þar á ferð. EKKERT land frá fyrrum Júgóslavíu komst í úrslit, fá frá gamla Sovét, enginn Ísraeli og enginn Tyrki. Eða Kýpur, hvað gera Grikkir!?!?!?
Þetta þýðir það held ég að við sjáum mjög óvænta fulltrúa ofarlega. Þetta er pottþétt að hjálpa austurblokkinni, ég tippa á að Rússar og Úkraínumenn fái stærstu skammtana frá þeim löndum, en viðbúið líka að Rúmenía, Ungverjaland og Moldavía græði. Megum ekki gleyma því að menningarheimur tengist jú tónlist og því eðlilegt að svo sé.
Norðurlandaþjóðirnar finnst mér allar með góð lög og við munum setja stig hvert á annað, Svíarnir eru að taka séns með miklu raddflugi síns manns, Finnarnir hafa stolið mikið af athygli en norsku og dönsku skvísurnar sitja ofarlega í veðbönkum.
Eins og áður eiga "stóru fimm" erfitt uppdráttar, en þó held ég að ekki eigi að vanmeta vinsældir Cascada og Bonnie Tyler í álfunni, gætu alveg lent ofarlega.
Ísland
Allir sem hafa fylgst með pælingum mínum í Eurovision þetta árið vita að ég er ekki að fíla lagið okkar. Því miður. En það var ekki annað hægt en að hrífast með flutningi Eyþórs og atriðinu þeirra núna á fimmtudaginn og þeir áttu skilið að komast áfram sem var auðvitað gaman þar sem íslenskan fékk að hljóma. Held að við eigum alltaf að spá í því þegar lögin eru send hvernig lagið hljómar á Íslandi í framtíðinni og Ég á líf mun hljóma.
Að því sögðu held ég að við verðum á kunnuglegum slóðum, á milli 15 og 20 í kvöld. Við erum á erfiðum stað og töpum á því að Rússland, Úkraína og Bretland eru með rólegar ballöður sem munu held ég verða ballöðulögin sem verða valin. Hins vegar er aldrei að vita hvað gerist ef flutningurinn gengur jafnvel upp og á fimmtudaginn.
Það allavega varð til þess að ég sætti mig vel við lagið og held auðvitað með því!
Spáin!
Þá er komið að því að reyna að draga þetta allt saman. Ég held að sjaldan hafi verið eins erfitt að spá fyrir um sigurvegarana í þessari keppni, jöfn lög og eilítið öðruvísi úrslit með fámennri "austurblokk".
Ég hef frá upphafi haldið því fram að það lag sem er "mesta Eurovisionlagið" sé mitt uppáhaldslag, þetta danska. Flautuleikurinn, trommubítið og sandpappírsröddin heillar víða í álfunni og það kemur mér ekki á óvart að veðbankarnir stilli henni efst. Og ég vona að hún vinni, því ég hét því að þegar að Danir vinna þá fer ég á keppnina. Og mun standa við það!
En það hefur oft farið illa að vera spáð sigri og það eru nokkur lönd sem gera tilkall til sigursins. Rússland lendir alltaf ofarlega og geta hæglega unnið, söngkonan er flott og lagið fullt af flottum strengjum. Austurblokkin mun fara á það land, sem og Úkraínu sem er með flott lag og flotta söngkonu.
Norðmenn og Finnar eru með stuðlög og sætar stelpur í flottum dressum sem gætu náð ofarlega og jafnvel á toppinn. Svíarnir munu halda niðri í sér andanum þegar þeirra maður flytur sitt lag. Ef það tekst vel gætu þeir klárlega farið nálægt sigri. Ég held að eitt þessara fimm laga sem ég hef talið hér upp vinni í kvöld.
Í deildinni fyrir neðan, sem gætu staðið upp sem óvæntir sigurvegarar held ég að efst tróni Holland og Azerbaijan auk þess sem að Grikkirnir fara alltaf langt.
Ef maður vill græða pening á veðbönkunum myndi ég svo henda 1 pundi á Þýskaland. Cascada er feykivinsæl í mið-, suður og hluta austur Evrópu og lagið ágætt svo að það gæti alveg gerst að hún sigldi heim sigrinum.
Þar hafiði það, svo er að sjá hvort að ég er sannspár, það myndi þá þýða að "mitt" lag hefði unnið keppnina í fyrsta sinn síðan Ruslana tók sigurinn 2004.
Góða, góða skemmtun elskurnar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pistillinn
26.4.2013 | 00:32
Tveir dagar fram að lýðræðishátíðinni okkar. Ég hlakka mikið til.
Undanfarnar vikur og mánuði hef ég farið um kjördæmið mitt með góðu fólki og hitt enn meira af góðu fólki til að útskýra fyrir þeim Bjarta Framtíð og hvað við stöndum fyrir.
Síðustu viku, daga og nú klukkustundir hafa töluvert fleiri en áður viljað kynnast okkur betur og þar sem að ég verð á flandri á morgun langaði mig að draga hér eitthvað saman sem þeir sem vilja heyra frá mér um flokkinn minn á meðan þeir taka ákvörðun.
Hvers vegna valdi ég Bjarta Framtíð?
Fyrsta sem ég heyrði af BF var í Sprengisandsþætti þar sem Guðmundur Steingrímsson lýsti því sem hann kallaði nýja sýn á pólitík. Ég hef fylgst með, og haft skoðanir á, stjórnmálum býsna lengi en þarna fannst mér bara allt sem hann sagði ríma við það sem mér fannst. Taka stjórnmál út úr uppþornuðu fari skipulags frá því snemma á 20.öld og koma af stað hugsjónaflokki sem mér fannst ansi frjálslyndur.
Því mér fannst vanta frjálslyndan flokk. Síðan hitti ég fleira fólk, snillinginn Heiðu og síðan bættist stöðugt við hóp fólksins sem ég kynntist í gegnum BF. Ég kom heim upprifinn af öllum hittingum og sagði Helgu að það væri eitthvað nýtt að detta í kollinn á mér. Ég hafði virkilega áhuga á því að fara út í pólitík.
Sem ég hef nú gert. Því að mér finnst flokkurinn standa fyrir það sem mig langar til í stjórnmálunum og ég treysti því fólki fullkomlega sem ég hef kynnst að vinna samkvæmt þeim vinnubrögðum sem við teljum að eigi að stýra pólitíkinni. Sýn sem lofar ekki neinu öðru en því að vinna með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi í öllum málum og leita til hennar sem oftast.
Hvað stendur þessi BF fyrir eiginlega.
Ég skora enn á ný á fólk sem veltir okkur fyrir sér að fara inn á www.heimasidan.is og skoða þar sem mest. Þar er auðvitað að finna kjarnann.
En ef við drögum þetta saman þá er flokkurinn Líberal (frjálslyndur) flokkur. Það þýðir semsagt að við myndum í mörgum málaflokkum stilla okkur upp vinstra megin við hina hefðbundnu miðju en líka oft hægra megin. Við erum alþjóðlega sinnaður flokkur, og þar með evrópusinnaður. Viljum vera í sem mestu samstarfi við þjóðir heims. Við erum aktívur umhverfisflokkur og teljum nóg komið í stóriðju á Íslandi, viljum fara varlega í allar virkjunarframkvæmdir og láta náttúruna njóta vafans.
Við viljum koma í veg fyrir sóun, bæði á beinum peningum en líka t.d. berjast við brottfall úr framhalds- og háskólum því það er sóun á hæfileikum. Skoða líka hvað við erum að gera í um 900 nefndum á vegum ríkisins, er þar á ferð einhver tímasóun kannski.
Við viljum auka fjölbreytni. Hef áður talað um að við viljum ekki stóriðju, en búa til skapandi umhverfi fyrir t.d. lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru um 90% starfandi fyrirtækja á Íslandi. Við trúum á það að við ákveðnar ástæður séu möguleikar á aðkomu einkaaðila í heilbrigðis- og menntamálum þjóðarinnar, án þess að sjálfsögðu að draga úr þjónustukröfu.
Við viljum meiri stöðugleika, t.d. með því að klára samninginn við ESB. Því bara það að klára samninginn og leggja hann undir þjóðina mun loka á deilur okkar á meðal sem hafa verið í gangi svo ofboðslega lengi að löngu er tímabært að klára. Svo tekur þjóðin afstöðu.
En við vonum að við náum að landa það góðum samningi að við getum stigið inn í þann stöðugleika sem fylgir traustum gjaldmiðli. Því burtséð frá öllum öðrum efnahagsaðgerðum þá mun nær öllu máli skipta að eiga gjaldmiðil sem er stöðugur og leiðir til vaxtalækkunar og lækkandi vöruverðs. Sem er lykilatriði fyrir okkur öll. Við horfum á þetta sem plan A og ef það verður ekki þarf að hugsa upp plan B, sem við tökum á ef af því verður.
En stöðugleikann þarf líka að finna með því að auka samstarf á meðal okkar. Vera í nánara sambandi við sveitarfélög, atvinnulífið, launþega og annara með það að markmiði að stefna að langtímamarkmiðum. Síðasta slíka vinna tengdist Þjóðarsáttinni, kannski er kominn tími á nýja slíka.
Við viljum nefnilega sátt. Við trúum því að á Alþingi eigi fólk að vinna saman í þegnskyldu fyrir þjóðina sína. Auðvitað eru þar skiptar skoðanir og meiningar en við teljum vel hægt að vinna á þingi í sátt við fólk með ólíka sýn. Trúum ekki á karpstjórnmál og málþóf heldur uppbyggileg skoðanaskipti.
Svona eins og verða í hjónaböndum, fjölskyldum, í vinnunni, í leiknum og á sem flestum stöðum í lífinu. Það er hægt að vinna svoleiðis í pólitík.
Besti Flokkurinn í Reykjavík er búinn að sýna okkur það.
Við sjáum þar öfluga stjórnsýslu rekna fyrir opnum tjöldum og mun minna vesen en hjá flestum öðrum sveitarfélögum. Það þarf ekki að fara milli Pontíusar, Pílatusar og páfans til að klára mál. Einn góður kjósandi lýsti því að flytja heim frá Danmörku við það að flytja til tunglsins, svo mikið væri vesenið í kringum slíkan gjörning.
Hálsaskógur eða raunveruleikinn?
Ég viðurkenni ofurást á Hálsaskógi og lífsviðhorfi því sem þar ríkir í lokin.
Hef mögulega ómeðvitað reynt að beita því viðhorfi í lífi mínu og starfi. Ég trúi á það að "nenna að taka samræðuna" sem stjórntæki til betri vegar. Við verðum að skoða mál út frá sjónarmiðum þeirrar heildar sem verið er að ræða, hvort sem þar er fjölskyldan, vinnan eða samfélagið.
Í lífinu hef ég líka lært að skipta um skoðun þegar ég hef heyrt rök sem leiða mig til þess. Það er frábær tilfinning, sérstaklega þegar maður sér að það var rétt ákvörðun.
Einn galdurinn við Bjarta Framtíð er að mínu mati sú hugmyndafræði sem við höfum unnið eftir.
Opin vefsíða, fyrir alla. Ekki ungliða-, landshluta- eða óháðar deildir innan flokks eða landsfundir stjórna okkur. Við nennum að taka umræðuna, allan sólarhringinn á www.heimasidan.is og þar eru allir jafnir. Formennirnir okkar bæði Gummi og Heiða eru á sama plani og hver sá sem skráir sig inn.
Þurfa að koma með hugmyndir og rökstyðja þær svo vel að þær verði "like-aðar" nógu oft til að verða að tillögum sem síðan verða að verkefnum flokksins. Og ég hef séð þetta gerast.
Svona unnum við ályktunina okkar og síðan kosningaáherslurnar. Ég settist oft niður á kvöldin og nóttinni þar sem sá tími hentaði mér best og kom með mínar hugmyndir og skoðanir að borðinu. Er ógeðslega glaður að sjá margt af því sem ég stakk uppá eða var mjög sammála hefur fengið brautargengi í kosningaáherslunum okkar.
Ég hef áður reynt að skipta mér af, en frumskógurinn í flokkastarfinu óx mér í augum. Hjá okkur er enginn frumskógur, heldur nútímatækni í bland við sterkar skoðanir. Sem svínvirkar.
Svona já...
Þetta hér að ofan hef ég rætt við marga, mjög marga, upp á síðkastið og vitiði hvað....það eru bara allir á því að þetta sé bara býsna góð leið til að stjórna landi!
En svo velta samt margir því fyrir sér hvort að þetta "hafi nú ekki allt verið sagt áður" og að "þið gleymið þessu eins og allir hinir þegar þið komið á þing".
Ég hef einsett mér það í lífinu að nota ekki mikið orðin "aldrei" og "alltaf" og þess vegna auðvitað verður maður að gera eins þegar ég segi mína meiningu á þessu við þetta fólk sem svona kemst að orði.
Ég nota hins vegar orðin "ég treysti" svolítið. Og í þessum efnum treysti ég því fólki sem við í Bjartri Framtíð ætlum að verða þingmenn okkar. Við höfum haldið okkur fast við frjálslyndi okkar frá fyrsta degi og tryggð við vinnubrögðin okkar. Í kosningabaráttu sem hefur einkennst af gömlu upphrópununum og leiðindum í garð framboða höfum við sýnt ný vinnubrögð og einbeitt okkur að okkar málum eingöngu.
Það hefur orðið til þess að ég treysti. Ég treysti mínu fólki í Bjartri Framtíð til að vinna inni á þingi að breytingum í stjórnmálum. Ég treysti því til að vinna af auðmýkt og ákveðni fyrir þjóðina sína og laust við átakaklafa frá gamalli tíð.
Því við fórum öll út í pólitík til að breyta stjórnmálum.
Þú sem hefur lesið alveg hingað niður ert greinilega að hugsa á líkum nótum og ég. Þá kemur síðasta skrefið.
Hugrekki.
Því það þarf hugrekki minn kæri vinur til að taka ákvörðun um að breyta, en það er ógeðslega skemmtilegt.
Ég skora á þig að standa með hugrekkinu og setja X við A laugardaginn 27.apríl.
KOMA SVOOOO!!!!!!!!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meiri sátt
9.4.2013 | 22:49
Það styttist í kosningadag, þegar þetta er skrifað er hann 18 daga undan og framundan lokasprettur undirbúningsins fyrir það þegar þjóðin velur sér 63 fulltrúa sína til að sinna samfélagslegri skyldu sinni á Alþingi næstu fjögur árin.
Eitt af lykilatriðum fyrir Ísland framtíðarinnar er að okkur takist að skapa hér meiri sátt. Of lengi hefur þjóðin staðið hjá og horft á fulltrúa sína við Austurvöll og í raun þá stjórnmálaflokka sem þeir töluðu fyrir ala á ósætti og harðri baráttu sem birtist í stóryrðum, málþófi og mikilli valdabaráttu.
Það hefur farið fram heilmikil vinna víðs vegar um samfélagið að breyta um brag og reyna að útrýma neikvæðni í samskiptum. Auka virðingu og vellíðan einstaklinga og hópa.
Nú er kominn tími á Alþingi. Skoðanaskipti geta, og eiga, að vera eðlilegur hluti lýðræðissamfélags. En öll skoðanaskipti eiga að leiða okkur í endamarkið.
Sem er meiri sátt, sem byggir á virðingu og tilliti.
Það finnst okkur í Bjartri Framtíð vera eitt af lykilatriðum fyrir Ísland á næstu árum og áratugum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vinstri - hægri - snú
19.3.2013 | 15:20
Hermann Níelsson sá góði maður kenndi mér á sínum tíma að marsera og arftaki hans í íþróttakennslunni á Eiðum, Kristleifur Andrésson fullkomnaði það verk. Við vorum bara býsna góð í því að labba í takt, snúa og sveiflast í þær áttir sem okkur var skipað að fara.
Þá var lykilatriði að þekkja mun á vinstri og hægri.
Þessa dagana vilja margir ræða við mig um það hvort að við í Bjartri Framtíð séum "hægra" eða "vinstra" megin í pólitíska litrófinu.
Upphaflega skilgreiningin í pólitíkinni kemur frá Frakklandi, þegar íhaldsmennirnir sem vildu halda einveldinu sátu hægra megin í þinghúsinu en þeir sem vildu færa völdin út til fólksins, lýðræðissinnarnir, voru vinstra megin.
Í mörg hundruð ár held ég að þetta hafi verið góð skýring á litrófinu og lengi vel voru bara allir flokkar annað hvort til hægri eða vinstri. Á Íslandi urðu til flokkar sem völdu sér stöðu og málflutningur þeirra smitaðist mjög af grundvallarhugmyndinni um að hægra megin við miðju réði hinn frjálsi markaður og vinstra megin var það ríkið, fólkið sjálft, sem átti að bera ábyrgð á lausnaleit allra mála.
En þegar við horfum yfir þetta litróf núna á Íslandi þá finnst mér nú málin eitthvað vera farin að flækjast. Sá flokkur sem lengst gengur til hægri gladdist t.d. mest yfir því þegar lýðræðið var virkt vegna IceSave, vissulega ætlar hann sér að lækka skatta og reyna að virkja peningaaflið en þó er þetta afl það sem einna lengst gengur gegn því að sækja um aðgang að stórum innri markaði sem allt atvinnulífið og verslunin kallar eftir. Flokkur sem leiddi okkur inn í NATO og EES. Hugtakið hans núna er "fyrir heimilin". Sem verður seint hefðbundið "hægra" slagorð.
Vinstri flokkarnir hafa vissulega keyrt upp skattkerfið á þá tekjuháu en IceSave liggur sem kragi um þeirra háls og þeir eru sterkastir í að raða okkur inn í hinn opna markað.
Í þessu litrófi reyna menn að skilgreina nýja hugsun sem liggur að baki þeim framboðum sem nú eru að koma inn ný. Sem ég sé bara ekki hvernig á að ganga upp.
Allavega er ljóst mál að Björt Framtíð er ekki að fara að reyna að finna sér uppröðun tengdu franska þinginu á 18.öld. Við erum frjálslyndur flokkur sem ætlar sér að taka á hverju máli fyrir sig og reyna að leita bestu lausna sem mögulegar eru.
Í þeirri leit verður skynsemin látin ráða. Ef t.d. ríkisafskipti eru talin nauðsynleg þá munum við horfa til þeirra, ef að við teljum einkaframtakinu betur varið til að fá bestu lausnina fyrir þjóðina þá munum við gera það. Eins verður þegar upp koma möguleikar á samstarfi við aðra flokka. Ekkert fyrirfram ákveðið eða afskrifað. Besta lausnin og virðing fyrir ólíkum nálgunum lykilatriði.
Við munum því fara til vinstri, eða hægri, út frá þeim málum sem liggja fyrir hverju sinni og stefna ótrauð í þá átt sem leiðir okkur að markinu.
Eins og í íþróttasalnum á Eiðum forðum daga!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)