Færsluflokkur: Dægurmál

Nýtt undir sólinni?

Þá hafa framboðslistar okkar hjá Bjartri Framtíð opnast einn af öðrum og ég ætla að viðurkenna stolt mitt yfir þeim strax.

Er stoltur af að hafa fengið tækifærið til að vinna með þessu fólki að því að reyna að skapa nýja sýn á íslensk stjórnmál.  Hvernig það tekst til er svo undir okkur komið og kjósendunum í framhaldi af umræðu næstu 48 daga.

Ég finn mikla forvitni og áhuga á okkar framboði.  Mjög margir eru jákvæðir en þeir tala margir líka um það að við séum með okkar stefnuskrá "of almennt orðaða, meira vanti af því að setja fram hvernig BF ætlar að framfylgja áherslum sínum". Algerlega gildandi skoðun og bara gaman að fá hana nú upp á yfirborðið.

Mitt svar er alltaf það sama, Björt Framtíð er tveggja ára verkefni í dag.  Á þessum tveimur árum hefur verið unnið mikið verk í því að koma fólki saman til að tala sig niður á það samfélag sem við viljum taka þátt í að skapa.  Hvernig samfélag það á að vera og hverjar áherslurnar eru.  

Þær er að finna á www.heimasidan.is og á hlekknum "Fylgstu með".  Þar liggja markmiðin okkar og einhverjar hugmyndir að leiðum.  En frá upphafi höfum við áttað okkur á því að við ætlum ekki að taka þátt í loforðakapphlaupinu sem einkennt hefur íslensk stjórnmál í tugi ára.  Fólk sem birtir hugmyndir um einfaldar lausnir á flóknum vanda "ef við fáum stuðning" hefur verið ríkjandi lengi, það má deila um árangurinn á þess slags pólitík.  Ekki spurning.

En það að við segjumst hafa þessa nýju sýn hefur líka kallað á neikvæðni.  Sumir telja okkur "enn einn sama grautinn" og bendla okkur við hina og þessa flokka.  Þá það.

Íslenskir stjórnmálaflokkar eru margir í dag, fjórir eru þeirra elstir.  Allir þeir hópar sem mynda stjórnmálaflokka eiga virðingu skilið, það kallar á ákveðið hugrekki að standa fyrir skoðunum sínum.  

Í þeim öllum er því öflugt fólk, en mismunandi.  Ég held það sé eiginlega alveg á hreinu að við öll sem erum nú í framboði fyrir BF hefðum átt möguleika á að koma að starfi þessara flokka, ef við hefðum haft á því hug og verið samstíga þeirri hugmyndafræði sem í þessum flokkum gildir.

Við völdum það hins vegar ekki.

Við völdum okkur það að búa til Bjarta Framtíð út frá því samfélagi sem við viljum að verði á Íslandi.

Vel má vera að flokkurinn okkar sé ekki nýr undir sólinni, en ég fullyrði það að þeir sem kynna sér hópinn í kjölinn munu skynja brennandi vilja á nýrri sýn fyrir Ísland.  

Vonandi verða þeir margir sem vilja deila þeirri sýn með okkur, en jafnframt verður líka skemmtilegt verkefni að koma að landsstjórninni með þeim sem hafa aðra sýn.  

Þar fer afar verðugt verkefni! 


Stefnumörkun 101

Á undanförnum vikum hefur rignt yfir okkur fréttum af landsfundum stjórnmálaflokka, sem eru vissulega forvitnilegar samkomur um margt held ég.

Á nú reyndar eftir að upplifa svona fjöldafundi, stundum á ég erfitt með að fókusera á fundi þar sem eru fleiri en 100 svo ég er ekkert viss um að ég hefði gaman af þeim.

En það er vissulega búið að vera gaman að heyra af niðurstöðum í stefnumörkun framboðanna fyrir kosningarnar í vor.  Ég er auðvitað alls ekki sammála öllu, en sumu að sjálfsögðu.  Enda alveg haugur af hæfileikafólki þegar þúsundir Íslendinga koma saman.  Það er á hreinu.

En ég skil ekki alveg allt.  Ég skil ekki alveg hvernig menn geta staðið og lofað því að kreppan verði búin bráðum eða að ekki verði flókið að leysa mál sem þó hafa verið umdeild í tugi ára.  Ég hef alveg reynt að hlusta eftir því hvaða rök liggja að baki en hef nú ekki heyrt margt sem sannfærir mig.

Aðallega hefur þetta verið: "Treystið okkur, því við erum betri en hinir".

Eínna mest undrandi varð ég að lesa um ályktun í menntamálum hjá flokknum sem var við völd þegar ný lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla voru sett.  Já og líka lög um fimm ára háskólanám til kennsluréttinda.  Sem hófst í haust.

Á þessum grunni var byggð námskrá sem var gefin út 2011 og enn er verið að vinna greinanámskrár og ýtarhefti vegna þeirra nýjunga sem þar er að finnaEin nýjungin sem mér finnst spennandi er að koma skal á virkum samráðsvettvangi milli skólastiga.  

Nokkuð sem var ýtt úr vör og fóstrað í tíma Menntamálaráðherra úr röðum þessa flokks sem um helgina ályktaði að nú skyldi kennaranám stytt aftur í þrjú ár og að upp skuli taka samræmd röðunarpróf í 10.bekk.

Ég verð að játa vonbrigði mín með það að ekki sé meira traust á áralöngu og víðtæku samstarfi fólks með öflugan bakgrunn í menntamálum en svo að það eigi nú að slá af.  Rétt á meðan að verið er að prenta síðustu leiðbeiningarnar!

Ég beið enda alltaf með að heyra hvort áðurnefndur fyrrverandi ráðherra tæki  til máls og leiddi samflokksmenn sína í allan sannleikann um þá stefnumörkun sem fór fram og talaði fyrir lausninni sem flokkurinn kom á, en virðist nú vilja snúa niður.

Svo að ef að mælikvarðinn á stefnumörkun er þessi finnst mér ástæða til að óttast um hversu mikið er að marka þær hástemmdu stefnuyfirlýsingar sem berast ótt og títt af landsfundum... 


Ábyrgð í tali

Var kennt það ungum að reyna alltaf að taka ábyrgð á því sem ég segði.  Það er vissulega töluvert verk þegar ég á í hlut því ég á til að sletta fram töluverðum fjölda orða!

Í dag hlustaði ég á báðar útvarpsstöðvarnar gefa orðið ljóst vegna umkvörtunarefna.  

Þar komu ansi margir og vildu ræða um alltof háa skatta og í sömu andránni jafnvel benda á hversu svakalegur niðurskurður hefði orðið í grunnkerfum þjóðfélagsins.

Þetta bara yrði að laga. Strax.

Ég held að enginn í okkar samfélagi muni mótmæla því að mikið hefur gengið á í niðurskurði kerfanna okkar og að vissulega fer ákveðið hlutfall okkar í skatta.  Og allt þarf að skoða.

En það skiptir miklu máli núna í vor að ábyrgð verði falin í þeim orðum og samræðu sem mun eiga sér stað í tengslum við það að við erum nú að fara velja okkur nýja fulltrúa inn á löggjafarþingið okkar.  Það er ofboðslega auðvelt að finna orðin sem maður telur að fólk vilji hlusta á, en í öllum orðum manns felst ábyrgð á því að maður ætli sér að standa við þau.

Ég held að það skipti nefnilega mjög miklu máli að við áttum okkur öll á þeirri sameiginlegu ábyrgð sem felst í því að búa í samfélagi sem stendur algerlega og fellur með þátttöku þegna þess í samtryggingunni.

Umræðan fram til 27.apríl ætti að horfa til þess að við virkjum okkur öll í þágu þjóðarinnar, förum yfir hvar svigrúm liggur til að spara svo að við getum bætt það í kerfunum sem þarf að laga.

En ekki bíða eftir því að riddarinn á hvíta orð-hestinum komi og bjargi öllum með galdralausnum... 


Eurovision, partur tvö

Fyrra undanúrslitakvöldið búið og bæði lögin sem ég vildi fá áfram komust í Hörpuna.

Svavar Knútur bætir miklu við þessa keppni og nú treysti ég á að ákall hans til "Art-fartanna" falli í frjóan jarðveg og Retro Stefson t.d. hendi í Eurovisionlag fyrir næstu keppni.

Birgitta fannst mér langbest þetta kvöld, dýfulag í dýfubúningi og í raun eina atriðið sem notaði sér möguleikana á sviði og myndvinnslu. Stílhreinir og flottir búningar í hávegum, innkoma skuggaraddanna flott og ég er sannfærð um að notkun vindvélarinnar kom úr húmorísku hlið Birgittu. Það tóku allir eftir þessari gargandi klassík sem hefur kallað fram öflug viðbrögð í gegnum tíðina.

Einu vonbrigðin hjá mér voru að Eyþór ynni keppni tvímenningana í rokkfræðinni. Ég einhvern veginn tengi ekki við þetta lag sem hann syngur og mér fannst sviðsframkoman og múnderingin ekki til að góla neitt vei yfir. Magni karlinn stóð sig vel en tapaði sennilega á því að þetta lag er langt frá því það besta sem hann hefur flutt í þessari keppni og því samanburðurinn lagt hann að velli.

En ég hef trú á því að dómnefnd kippi honum inn í Hörpuúrslitin.

Kvöldið í kvöld finnst mér innihalda veikari lög. Ég hef grun um það að keppnin um sigur standi milli þeirra þriggja sem komust áfram í gær. Þó finnst mér nýliðinn Elíza koma með skemmtilegt tvist í laginu "Ég syng" og efast ekki um að það lag verður vinsælt í stúlknahópnum á Helluhól 3. Dúrúrúrúddu....

Hin tvö lögin sem ég held að fari áfram verða "Til þín" sem fer áfram á Jógvan og hans vinsældum og síðan held ég að Klara í Nylon (sorry, hún bara heitir það) fari áfram með "Skuggamynd" og Hallgrímur eigi þá tvö lög í Hörpunni næstu helgi.

Þessi þrjú áfram, Magna bætt við og sjö lög í úrslitum.

Það er mín Eurovision spá, sjáum til hver niðurstaðan verður.


Eurovision - part 1

Jæja.

Loksins komið að máli málanna, við erum að leggja af stað í nýja Eurovisionferð. Þarf ekkert að útlista fyrir vinum mínum og ættingjum hvernig stemmingin verður hjá mér og stúlkunum á Helluhól 3 í kvöld og annað kvöld. Þar verður ýmislegt rætt um íslensku lögin.

Ennþá frekar núna þar sem ég mun ekki verða á landinu lokakvöldið 2.febrúar en mun þó reyna að draga upp net á hótelinu mínu og fylgjast með. Þó það verði í London.

Já. Ég er ekkert að grínast!

Eurovision hefur oft verið skotspónn mislélegrar fyndni og sérkennilegra fordóma fyrir þeirri gerð listar sem þar er keppt í. Auðvitað eru lögin misgóð eða misléleg, en sannleikurinn er auðvitað sá að það er ekki margt skemmtilegra til en tónlist og það að búa til sjónvarp um tónlist er frábært.

Ég sé ekki að X-factor og Idol keppnir komist með tær þar sem Eurovision hefur hælana í listsköpun en með grimmri markaðssetningu og útópíu um drauma og velgengni hefur það farið á flug.

Í kvöld koma fram sex íslensk frumsamin lög með misþekktum flytjendum. Við munum fylgjast með alls konar þáttum og kjósa svo. Lýðræðið frábæra mun velja þrjú áfram og að klukkutímanum eða eina og hálfa loknum höfum við brosað, hlegið, borðað snakk og orðið fúl eða glöð. Sjónvarp sem vekur tilfinningar er gott sjónvarp og Eurovision verður á bóndadagsdisknum mínum.

Ég hef valið tvö lög sem ég vill fá áfram í kvöld og mun kjósa. Fáum kemur örugglega á óvart að ég ætla að treysta því að sú eðalkona, Birgitta Haukdal, verði á skjánum áfram um næstu helgi, enda ein besta barnapía sem ég hef haft auk þess að vera góð söngkona með gott lag og fullt af skemmtilegum hljóðfærum með upphækkun. Svo er það hann Svavar Knútur og hún Hreindís sem eru með "feelgood" lagið í ár. Svona lag þar sem maður man eftir berjaferð, eltingarleikjum, hestaferð eða einhvers annars sem vekur manni bros og gleði.

Látið gleðina byrja...


Gott mál og glæsilegt

Flott að sjá að Lars ætlar sér að nýta krafta Eiðs.

Fer ekkert á milli mála að Eiður er einn af bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar og það mótlæti sem hann hefur gengið í gegnum undanfarin ár sýnist mér ætla að styrkja hann til að eiga öflugan endi á ferlinum.

Hann og Kolbeinn geta klárlega breytt ásjónu sóknarleiksins okkar!


mbl.is Eiður Smári í hópnum gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endirinn á langri sögu

Ekki held ég nú að þessi ákvörðun hans Jóns frænda míns komi á óvart.

En fróðlegt verður að fylgjast með landsfundi VG og hvort að væringarnar á síðustu árum og þó sérstaklega mánuðum og vikum leiði til breytinga í áherslum þeirra varðandi það að klára viðræðuferlið við ESB.

Það er afskaplega mikilvægt að skýrar línur liggi fyrir varðandi áframhaldandi aðildarviðræður.

Fyrir alla flokka, ekki bara VG. 


mbl.is „Kornin sem fylltu mælinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Straumar og stefnur

Hef haft lúmskt gaman af því að heyra stjórnmálamenn reyna að stilla Bjartri Framtíð upp í ákveðnu samhengi við vinstri og hægri stefnur eða flokka.

Búa til að við séum útibú eða stofnuð til að viðhalda núverandi stjórnvöld, af manninum sem kom þeim til starfa. Mikið talað um að við séum eins og þessir og hinir.

Án þess að nokkur blaðamaður eða starfsmaður spyrji út í það hvað það er í stefnu okkar sem staðsetur okkur í gömlum förum annarra stjórnmálasamtaka. Hefði gaman af að heyra svörin við því.

Þeir sem vilja kynna sér stefnuna okkar eiga auðvitað ekki að hlusta á alls konar sleggjur, þeim bendi ég á síðuna okkar:

www.heimasidan.is

Smella þar á ályktun stjórnar nr. 1. Þar fer grunnkjarninn í stefnu okkar og þá getur fólk dæmt fyrir sig sjálft. Ég er mjög stoltur af því sem þarna stendur og er enn glaðari með þróunina frá því að við stóðum að henni þessari.

En ég held þó að það sem við erum helst að bjóða uppá núna og til framtíðar er að við ætlum okkur að halda í þá hugsjón að átakastjórnmál og hagsmunagæsla sé arfleifð fortíðar og tími kominn til að líta á stjórnmál sem vettvang samstarfs og opinnar umræðu.

Sú sýn er byggð á raunverulegum vilja okkar. Vissulega láta fulltrúar gömlu flokkana eins og þetta sé ekki nýtt, segja sumir að við séum bara að "teikna bleikar rósir".

Þá það - en við ætlum okkur þetta samt.

Endilega lesið sjálf, og takið þátt í starfinu okkar, það er öllum frjálst!


Hvað koma margar svona réttar fréttir?

Allt verður manni að vopni, tel mig auðvitað hafa haft um þetta nokkurn grun, en vissulega gleðst maður alltaf þegar maður telur sig hafa fengið staðfestingu á nokkrum slíkum sannleik.

Elska ykkur samt systkini mín, af heilum og gáfuðum hug.

Þið eruð örugglega betri en ég í einhverju öðru!

Kissing 


mbl.is Elsta systkinið gáfaðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin okkar

Undanfarin ár, og kannski áratugi, hefur stundum fokið upp umræða á landinu okkar um samskipti höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Því miður hefur sú umræða oft miðast að því að draga upp mynd af tveimur óskyldum svæðum sem séu stöðugt að bítast um fólk og verðmæti.

Mér finnst fyrir margt löngu kominn tími til að sú umræða verði flutt upp úr hálfkæringsmuldri með smá fýlusvip og við förum að einblína að því að finna leiðir til að styrkja þetta samband. Verulega.

Reykjavík er falleg og góð borg undir Esjurótum og við sundin blá. Þar býr svo mikill haugur af góðu fólki að það er beinlínis ekki annað mögulegt en að þar sé öflugt mannlíf.

Ég hef verið svo heppinn á lífsflandri mínu að vinna og búa á mörgum stöðum í borginni. Í Hlíðunum, Vogunum, miðbænum og Kjalarnesinu. En að öllum öðrum svæðum ólöstuðum er mitt svæði í borginni Breiðholtið, enda var það í tíu ár hluti af lífi mínu. Ég vona að ég hafi náð að skila eitthvað í átt til þess viðlíka því sem það gaf mér.

En svo kallaði dreifbýlið á mig og mína. Eftir þessa tíu ára dvöl, sem má svo bæta við öðrum fimm tengdum skólagöngu, ákvað ég að yfirgefa höfuðborgarsvæðið og flytja í það 1700 manna sveitarfélag sem er heimili mitt í dag.

Þar líður mér meira en vel, hér er gott fólk og gott mannlíf. Kynni fólks verða nánari með þeim kostum og göllum sem því fylgir. Eins og höfuðborgin hefur sína kosti og galla.

Mér finnst þess vegna ákaflega mikilvægt að við áttum okkur öll á því að í landinu góða þar sem 320 þúsund sálir búa setjumst við niður og finnum út úr því hvernig við getum einum rómi sagt "þetta er borgin okkar" og ekki síður "þetta er dreifbýlið okkar".

Eigum við ekki að prófa það?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband