Færsluflokkur: Dægurmál

Böðvarsholtsdrengirnir komnir í gírinn!

Gott að heyra að veðurlag og snjó- og ísmagn er nú á þann hátt að hægt er að halda áfram með þessa þörfu vegagerð.

Aksturinn á þessum vegi er gríðarlegur frá apríl og út september og því fyrr sem hann verður kominn í stand því betra.  Ég er nú á því að þessi leið, frá Hellissandi að Búðum sé nú ein sú skemmtilegri að keyra, hvað þá ef maður gefur sér tíma til að kíkja á þá staði sem á leiðinni verða.

Á eftir að gera það mun oftar eftir olíumalarveg!!!


mbl.is Vegagerð undir Jökli hafin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt gott að frétta!

Uppeldið gengur bara vel.

Auðvitað fyrst og fremst hangið á móðurinni og borðað en er smám saman að þekkja okkur Birtu held ég. 

Sigríður Birta lasin í nótt og þá stálum við Birta rúminu hennar Heklu svona til að auðvelda útfærslu næturinnar.  Ýmislegt sem maður þarf að gera þegar tvö börn eru á heimilinu, margt sem breytist þá.

Búið að ákveða að skíra stúlkuna laugardaginn 22.mars í Ingjaldshólskirkju.  Verður örugglega góður dagur undir Jökli! 

En allavega, þá var aðalatriðið í dag að láta vita að það eru komnar inn nýjar myndir!


Hrikalega stoltur!

Skammt stórra högga á milli!

Eftir viðburðaríka viku þá síðustu var þessi vika undirlögð af lokafrágangi við frumsýningu söngleiksins "Þengill lærir á lífið".  Þann söngleik fluttu nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar í 8. - 10.bekk, sáu um leik, dansa, hljóð, ljós, sviðsuppsetningu, miðasölu og allt sem viðkemur slíkri sýningu.

Þetta var mjög sérstakt fyrir mig persónulega því þetta leikrit er mitt hugarfóstur, lá ófáa klukkutímana í sumar og haust við að klára það.  Búum svo vel hér að eiga mikið af fólki sem hefur áhuga á að vinna með börnum að svona sýningu svo að ég var bara svona "pródúsent" og reddari sýningarinnar.  Gunnsteinn leikstjóri, Harpa danshöfundur og Siggi og Valentína músíkfólk báru hitann og þungann af vinnunni með börnin og gerðu það afar vel.

En aðalfólkið voru krakkarnir.  Geisluðu ótrúlega í gær, náðu sér þvílíkt á strik að ég stóð með álftahúð aftast í salnum og fylgdist með hugarfóstrinu mínu fæðast sem bara ágætis stykki, sem náði góðu lífi í 100 mínútur vegna hæfileika þeirra sem á sviðinu og í kringum það voru.

Held í raun að þetta leikrit og flutningur þess í gær jafnist á við, eða bæti, það besta sem ég hef náð að gera á minni starfsævi.

Skiptir þá engu hvort sem er í stjórnun, kennslu eða þjálfun.  Sveif á bleiku skýi út í kvöldið í Ólafsvík í gær og vona innilega að við náum að fá fólk á sýninguna á sunnudaginn og jafnvel setjum upp fleiri sýningar.

Því ég held að börnin í 8. - 10.bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar eigi það svo sannarlega skilið!!!


Þarf nú ekki snjókomu til!

Var ásamt góðum vinum mínum í Veiðfélagi KristinfræðiKennara úr Breiðholtsskóla í þessum ágætu húsum fyrir nokkrum árum.

Eftir mikið stuðball í Höllinni þrömmuðum við út í myrkrið í átt að næturgistingunni okkar og það gekk nú ekki þrautalaust hjá öllum, menn ætluðu að stytta sér leið í kuldanum, eða fylgja vegi eða beygðu á röngum stað út úr bænum.

Ég get rétt ímyndað mér að það hafi verið útlendingum erfitt að ganga þessa leið á móti hríðarbylnum!

Ábyrgðarhluti fyrir Vestmanneyinga að búa nú til upplýstan göngustíg þarna uppeftir, menn verða náttúrulega að fá aðstoð við að rata heim eftir gleði að vestmanneyskum sið!!!


mbl.is Bretar hætt komnir í hríðarbyl í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn fullkomni Glæpur!

Þá meina ég auðvitað sjónvarpsþáttinn sem rann sinn enda í gær.

Svei mér ef þetta er ekki besta sjónvarpsdrama sem ég hef séð!  Er búinn að vera heltekinn síðustu 20 vikur, ekki misst úr þátt og hápunkturinn var auðvitað í gær þegar gátan var loksins ráðin!

Auðvitað er ég grobbinn af því að allt frá því að leigubílstjórinn Leon kom inní dæmið sem starfsmaður Birk-Larsen var ég sannfærður um að Vagn væri sekur, en vantaði kannski mótívið þangað til á síðustu metrunum, forboðin ást og hatur á elskhuga Nönnu málið, auk þess sem upp hefur tekið sig gamall perraháttur.

Theis ræfillinn og Troels gerðir aumkunarverðir í lokin hvor á sinn hátt, Theis skilur fjölskylduna eftir í vanda og Troels greinilega orðinn strengjabrúða flokksvélar, óhæfur borgarstjóri Kaupmannahafnar, situr bara fyrir valdið eins og Bremer, stjórnað af öðru en hugsjónum.

Sarah Lund einfari orðin útundan alls staðar, fórnaði fjölskyldunni til að leysa málið en situr svo uppi með dáinn félaga, rúin trausti af yfirmönnum sem vildu helst hafa gleymt málinu við fyrsta sökudólg.

Frábær endir fyrir mig allavega á stórkostlegum þáttum sem mig langar til að þakka Danmarks Radio fyrir að fara útí og gefa sér svo mikinn tíma í metnaðarfullt plott og flækjur.

Hvað gerir maður nú á sunnudögum kl. 20:20.  Vonandi er bara stutt í næsta Örn..........


Nýjar myndir - á heimleið

Hæ.

Stutt í kvöld, vesen á tölvunni hans Ödda svo fáum myndum bætt við.  Kíkið samt á.

Á heimleið, ætlum að leggja í hann vestur fyrir hádegi á morgun.  Verður gott að koma heim en auðvitað viðbrigði frá spítalanum.  Ætla að vera duglegur sem aldrei fyrr í heimilisstörfunum!

Bæjó í bili. 


Af Akranesi.

Erum enn á Skaganum og erum bara farin að venjast því ágætlega.  Erum í afar góðu yfirlæti hjá Ödda og Hörpu sem hreinlega dekstra við okkur!

Helga enn að ná upp styrk eftir aðgerðina svo líklegast er að við verðum hér minnst til morguns, kannski lengur.  Við höldum að við fáum að ráða miklu um það hvenær við förum heim og ætlum ekki að fara fyrr en Helga treystir sér.

Stúlkan litla dafnar vel og ætlunin er að demba inn nýjum myndum seinni partinn í dag, alltaf verið að smella af auðvitað.  Þar á meðal verða fyrstu systramyndirnar, í gær sóttum við Birta þær eldri, Thelmu og Heklu, þannig að systurnar fjórar voru á sama staðnum í fyrsta sinn frá fæðingu þeirrar yngstu.

Ég var öfgastoltur að sjá prinsessurnar mínar allar saman.   Það er auðvitað klisja, en mikið finnst manni maður vera ríkur við svoleiðis aðstæður!

 


Aðeins af boltamálum

Ákvað aðeins að demba hér inn smá fótboltadæmi í smástund.

Þannig er nefnilega að í kvöld leika ÍR-ingar til úrslita um Reykjavíkurmeistaratitilinn í fótbolta.  Ég stefni á að kíkja í Egilshöllinni og samgleðjast mínum góðu vinum í ÍR.  Skoðaði leikmannalistann sem þeir innihalda núna og er svo glaður að sjá að þar eru ansi margir drengir sem "aldir hafa verið upp" hjá félaginu.

Þegar við Stjáni komum til ÍR fyrir nokkrum árum var það okkar ætlun að byggja upp lið ÍR-inga.  Því miður steig Kristján út úr því verki eftir eilitlar hremmingar og tímabundið stopp kom í þá hugsjón.

Eina ástæða þess að ég tók að mér starf meistaraflokksþjálfara hjá ÍR var sú að ég taldi hugsjón mína skila liðinu jákvæðu áfram.  Síðasta árið sem ég þjálfaði náði ég að negla öðlingsdrengina Guðfinn og Elvar, auk Erlings Jack, en því miður náði ég ekki í Gunnar Hilmar.  Mig langaði í Baldvin Hallgrímsson en þá var hann að leika á fullu með Þrótti og við höfðm ekki erindi sem erfiði þar, en fengum Óla Tryggva um stund í staðinn.

Þess vegna finnst mér frábært að sjá þetta ÍR lið, byggt upp af ungum ÍR-strákum í bland við þá höfðingja sem okkur tókst að fá til liðs við okkur í nóvember 2005.  Auk auðvitað Mývetningsins geðþekka Baldvins, sem gekk til liðs við ÍR í fyrra.  Vonandi verða Elli Jack og Gunnar Hilmar í formi og til í slaginn í sumar.

Þess vegna ætla ég að fá smá boltafiðring í kvöld og ákvað að setja smá boltahugleiðingu, því stundum finnst mér ég eiga smá í þessu liði og ekki síst nú þegar annar uppáhaldsþjálfarinn minn á Íslandi, snillingur í því að vinna með unga menn, er við stjórnvöl.

Í kvöld, áfram ÍR-ingar. 


Komnar myndir!

Sælt veri fólkið.

Undir myndaalbúm er nú kominn nýr linkur, "nýji erfinginn".  Þar er nú að finna nokkrar myndir af litlu rúsínunni okkar, einni sér og með systrunum sínum þremur.  Við foreldrarnir bíðum betri tíma með myndir af okkur.

Stúlkan hefur það afar gott, braggast vel og er afar vær og góð.  Stundum bara næstum löt.

Helga auðvitað enn afar aum eftir keisaraskurðinn, en þokast nær.  Er stundum aðeins of hörð við sig, en þetta þokast allt í rétta átt.  Stefnt að heimferð einhvern tíma um helgina, en ætlum ekki að vera stressa okkur, heldur fara heim þegar Helga er tilbúinn.

Fær frábæra aðstoð hjá alveg yndislegu starfsfólki Kvennadeildar SHA.  Erum í skýjunum með alla sem að fæðingu stúlkunnar okkar hafa komið.  Frábær andi á sjúkrahúsinu og allir uppteknir af því að láta mæðgunum líða sem allra best.  Algert æði! 

Mér var svo tilkynnt í dag að nú væri ég kominn í KR.  Ég varð undrandi þangað til skýringin kom, KvennaRíki.  Tel nú allar líkur á því að við Helga látum nú gott heita í barneignum og þar með að verða ljóst að KR er málið.  Þetta KR auðvitað hið besta mál, annað en íþróttaliðið vissulega sem er jú bara gott fyrir KR-inga! 

Vona að þið njótið myndanna, meiningin er að reyna að týna hér inn myndir smátt og smátt, um leið og við ætlum að uppfæra eldri myndaalbúm!

Þökkum kærlega góðar kveðjur hér á síðunni og í síma og persónu.  Gott að eiga góða vini! 


Stúlka fædd!

Sælt veri fólkið!

Sé að margir hafa fengið fréttir þrátt fyrir að ég hafi ekki náð að skutla inn fyrr en nú staðfestum fréttum, það er sökum þess að talva Ödda, litla bróður míns, var í lamasessi á fæðingardaginn og sökum þess líka að  ég hef fengið að dveljast langdvölum á kvennadeildinni með dömunum mínum tveim.

En yngsta dóttir mín, sú fjórða í röðinni, fæddist á Akranesi mánudaginn 25.febrúar kl. 09:12.  Var tekin með keisaraskurði sem unnin var af þvílíkri fagmennsku og hlýju að við Helga bæði getum vart lýst ánægju okkar með starfsfólk spítalans og skurðstofugengisins.  Afslappað og þægilegt eru þau lýsingarorð sem eiga þar við.  Drottningin litla vóg nýfædd 3360 grömm (13 og 1/2 mörk) og mældist 52 cm. á lengd.

Eins og reglan er með keisaraskurðsbörn er hún slétt og felld, alveg ofboðslega fallegt barn.  Eins og öll börn eru auðvitað.

Innfæddur Vestlendingur, búið að taka mynd af henni fyrir Skessuhorn og jökullinn skein inn um gluggann þegar við komum af skurðstofunni. 

Ég dvaldist allan fæðingardaginn með þeim á stofu og svaf svo yfir nóttina.  Ég svaf já því hún var bara nokkuð góð við okkur, svaf rúmlega fimm tíma lengst og var ekki með miklar kröfur.  Sem við vonum bara að haldist.

Í dag hefur svo okkar nánasta lið streymt til okkar, Sigríður Birta, Thelma, Hekla, tengdó, pabbi, Gulla, Símon og Skagamennirnir Öddi, Harpa og Sigrún frænka Helgu.  Mamma kíkir svo á morgun og Drífa og Lucy á hinn.  Allir hingað til orðið óskaplega skotnir af henni.

Ekki síst fröken Birta sem dvalist hefur hjá ömmu sinni í Garðabæ og m.a. breytt stássstofunni í gullabú með öllu því sem tilheyrir þegar sú vinnukona tekur sér verk fyrir hendur.  Hún er mjög glöð með systur sína og virðist bara spennt yfir því að vera stóra systir! 

Heilsa mæðgnanna þegar ég kvaddi þær áðan var bara býsna góð, Helga farin að komast aðeins á ról eftir aðgerðina og litla dísin var bara södd og sæl, þó ekki vildi hún sofna strax.

Ekki tókst mér að henda inn myndum, ætlunin er að gera það á morgun.  Kíkið endilega hingað seinni part miðvikudagsins og sjáið hvort mér tekst ekki að standa við það! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband