Færsluflokkur: Dægurmál
Tveir dagar í barnafréttir!
23.2.2008 | 09:22
Síðustu dagar hafa auðvitað að mestu farið í undirbúning fyrir nýjasta erfingjann, sem verður innfæddur Vestlendingur væntanlega!
Við Helga keyrum suður á Akranes á morgun, þar sem Helga svo hefur fæðingarferilinn um miðjan sunnudag, ég mæti svo eftir morgunkaffið um áttaleytið á mánudag og hitti hana rétt fyrir keisaraskurðinn og fæ svo að vera hjá henni áfram allan daginn og fyrstu nóttina.
Búið að vera svolítið sérstakt að vita af þessum fæðingardegi barnsins okkar svona lengi. Maður veit að það er 25.febrúar sem verður afmælisdagur framtíðarinnar og því hefur maður talið niður dagana og auðvitað er komin upp kvíðablandin spenna, sem vex nú með hverjum klukkutímanum.
En tilhlökkun er auðvitað það orð sem að best lýsir stöðunni núna.
Tilhlökkun að sjá þetta barn sem við höfum vitað svo lengi af, hverjum það líkist og hvernig karakter það geymir. Auðvitað erum við eilítið kvíðin fyrir þess hönd að vera fiskur innan um þrjá hrúta á heimilinu en vonum bara að það sé gott í að synda fram hjá jarmi okkar hinna og stungum!
Svo verður þetta í fyrsta skipti sem hjúkrunarkona eða læknir lætur mig vita hvort kynið barnið er. Það er auðvitað líka spennandi.
En á mánudag verður látið vita inn á þessa síðu hvort ég verð umvafinn kvenfólki, sem hefur nú löngum þótt mikil gæfa, eða kominn sé strákur sem mun þá verða varanlega ofdekraður af konunum í kringum hann!
Gaman.
Frábær kokteill, Borgfirðingur (eystri) og Breiðhyltingar.
18.2.2008 | 11:16
B-in 2 eru mögnuð þessa dagana. Kom mér bara ekkert á óvart, okkur ÍR-ingum hefur gengið ágætlega gegn Fjölni síðustu árin í þessu móti og ég var alveg sannfærður um að þennan möguleika myndu menn alveg geta nýtt.
Er mjög glaður að sjá minn góða vin, snillinginn Guðlaug Baldursson, fara svona vel af stað með liðið. Var aldrei í vafa um að hann væri besti kostur ÍR og var líka afar öruggur um það að hans nálgun í fótbolta ætti vel við strákana, sem ég þekki flesta afar vel.
Þetta er mikið gleðiefni fyrir okkur sem styðjum ÍR og verður mjög gaman að fá að sjá liðið spila svo stóran leik og fá góða umfjöllun. Tilbreyting, en eitthvað sem verður oftar á næstu árum, enda ÍR klárlega með burði til að verða alvöru úrvalsdeildarfélag á næstu árum.
Fer greinilega vel saman þegar menn frá Borgarfirði hinum eystri þjálfa í Breiðholtinu. Sá sem lék það síðast heitir Njáll Eiðsson, með honum fórum við upp í þá efstu. Vona heitt og innilega að Laugi karlinn fylgi á eftir hans góða fordæmi.
Enda Breiðholtið að mínu viti stærsta sveitaþorp landsins með öllum þeim góðu kostum sem því fylgja. Áfram ÍR!!!!
![]() |
ÍR-ingar í úrslit gegn Frömurum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo kom rok og rigning!
15.2.2008 | 11:34
Fyrirsögnin bara að vísa í veðrið, vorkenni Jóa og Jún vinum okkar mikið að vera að byggja hús við Selhól þessa dagana, er ekki lítið volk sýnist manni. Við urðum fyrir eilitlum rafmagnstruflunum að þeim völdum en það er ekkert miðað við verk þau sem Jói karlinn stendur í núna. Skilst á honum að einingarnar verði orðnar að húsi í dag og því fjölgar væntanlega fljótlega í götunni.
Annars er tvennt auðvitað aðalatriðið. Á fimmtudaginn næsta verður frumsýning á leikverkinu sem ég samdi í fyrrasumar. Það er á fínni áætlun og verður örugglega heljarskemmtilegt að verða vitni að því. Stebbi, Gunnsteinn, Harpa og Siggi kölluð til fundar og lokapepps í gær, sem gekk vel.
Svo er að styttast í Akranesið og erfingjann. Það verður lagt í hann héðan sunnudaginn 24.febrúar og fæðingin verður svo þann 25.febrúar. Orðið hættulega nálægt og svolítið skrýtið að vita daginn og undirbúa sig þannig.
Undirbúningur á heimilinu auðvitað í gangi. Helga búin að fá Lazyboy stólinn í stofuna og ný kommóða stendur tilbúin, verið að vinna í að redda körfu og öðru smálegu. Thelma og Hekla hafa verið hér þessa vikuna og verða því varar við undirbúninginn, sýnist þær hlakka mikið til.
Í morgun kom svo upp nýtt stuð. Sigríður Birta er komin með hlaupabólu. Fyrst vorum við svekkt, en urðum svo glöð, því enn verra hefði verið ef hún hefði veikst nær fæðingu og núna ætti að vera ljóst að nýburinn verður ekki í hættu með að fá hlaupabólu fljótlega upp úr fæðingunni.
Þannig að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Er farinn að gefa HlaupaBirtu að borða......
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Af blóti og snjó.
7.2.2008 | 21:25
Hæ hó.
Er ferlega leiður á því að hafa ekki farið í það að skrifa meira á bloggið mitt, bara eins og svo oft búið að vera ansi mikið í gangi.
Get auðvitað ekki annað en byrjað á að tala um Þorrablótið í Ólafsvík. Þar auðvitað fékk skólastjórinn á sig föst skot. Var í Liverpoolgallanum, síblaðrandi í spurningaleiknum "Ekkert svar". Vissi enginn svar og Þorgrímur leiddi hann út af sviðinu talandi mikið við sjálfan sig, um sjálfan sig!!!
Eins og það líkist mér eitthvað!
En við skemmtum okkur konunglega á blótinu, maturinn var æði og borðfélagarnir indælasta og skemmtilegasta fólk. Skemmtiatriðin auðvitað innansveitarkrónikur, vel heppnuð. Ari tannlæknir fór á kostum sem skólastjórinn!
Frá laugardegi hefur verið nóg að gera í vinnunni og á heimilinu. Síðasta vika febrúar, fæðingarvikan, kemur nær eins og óð fluga. Nóg sem þarf að gerast áður, í heimilis- og einkalífi.
Ætluðum suður í kvöld, en frestum ferðinni til morgunsins vegna óveðurs. Snjórinn orðinn ansi mikill, farinn að minna mann á gamla vetur í firðinum fagra fyrir norðan og á héraðinu fyrir austan. Bara nokkuð vinalegt í raun, þó ekki á svona degi, þegar maður ætlaði að ferðast.
En koma tímar og ráð!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stórkostleg skemmtun!
4.2.2008 | 08:59
Það er ekki oft sem maður verður vitni að "amerískum endi" í raunveruleikanum.
Það var aftur á móti uppi á teningnum í nótt! Ekki var séns að fara að sofa fyrr en kl. 4, spennan var gígantísk og í raun er engin íþrótt til sem vekur með manni meiri spennu, þetta var óbærilegt.
Gangur leiksins í lokin, þar sem stóra liðið Patriots náði loksins að skora sitt snertimark 3 mínútum fyrir leikslok, var ævintýrið um Öskubuskuna sem enginn hafði trú á.
Lítill bróðir ofurstjörnu, sem horfði á og klappaði fyrir bróður sínum, og hafði verið gagnrýndur í allan vetur sýndi snilldartilþrif og tryggði liðinu sínu sigur hálfri mínútu fyrir leikslok.
Gargandi, Argandi snilld að fylgjast með svona íþróttakappleikjum sem draga fram allan skalann í mínum haus allavega, hreifst fullkomlega með New York Giants þó þeir séu ekki mitt lið í NFL og gladdist með Öskubuskunni, Eli Manning þegar hann var kosinn maður leiksins í lokin.
Íþróttir eru æði!
![]() |
New York Giants unnu Superbowl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Frábær viðskipti hjá mínum mönnum!
2.2.2008 | 09:16
Mikið ofboðslega er ég kátur með þessa frétt sem hefur nú verið staðfest á heimasíðu Lakers!
Í vetur er liðið á fínni leið í átt að því að verða alvöru keppendur að NBA-titlinum og þessi viðskipti munu sko heldur betur færa liðið í þá átt! Pau Gasol þýðir það að þegar að Bynum kemur til baka erum við með svakalegt byrjunarlið sóknarlega, með 4 leikmenn sem geta skorað 20 stig án þess að finna fyrir því. Byrjunarlið með Fisher, Bryant, Odom, Gasol og Bynum! Glæsilegt!
Svo auðvitað er maður með Evrópuhrokann og gleðst yfir því að enn einn úr okkar heimsálfu fái að leika lykilhlutverk með Lakers. Auðvitað var Pétur okkar Guðmundsson fyrstur, honum fylgdi Divac og Gasol verður þriðji Evrópubúinn í liði Lakers, með Vujacic og Radmanonvic. Frábært, just watch us go!!!
Leikmannareglurnar í NBA þýða auðvitað að við misstum leikmenn í staðinn, Crittendon verður örugglega góður leikmaður, en Farmar og Fisher eru flottir leikstjórnendur og því máttum við missa einn, Aaron McKie er bara settur til að jafna út launamálin og viðbúið var að við misstum valrétti 2008 og 2010. Verst finnst mér að missa Kvarme karlinn Brown. Veit að hann hefur ekki náð þeim hæðum sem ætlast var til hans þegar hann kom inn í deildina, en hann var greinilega á skárri leið og maður vonaðist eftir öskubuskuævintýri. Reyndar er samningurinn hans að klárast, kannski kemur hann bara aftur í Staples Center í sumar!?!?!?
Verð nú samt að láta fylgja með aðalástæðu þess að ég er Lakersmaður. Pabbi auðvitað var úti í LA og það var mín leið til að lina sársauka hans að halda með því liði líka! Hann hélt nefnilega (og heldur) með Manchester United og því vorkenndi ég honum það mikið að ekki kom annað til greina en að vera með honum í körfunni!!!
Tímarnir breytast.......
![]() |
Gasol á leið til Lakers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Verður gaman að sjá afraksturinn!
31.1.2008 | 17:27
Aumingja Fernando karlinn!
Náði litlum árangri hjá McLaren og sýndi sig á köflum sem ansi erfiður í samskiptum og samstarfi, alls enginn "team player" þar á ferð.
Er McLaren maður sem varð afar svekktur með hans framlag, en óska honum samt hins besta hjá Renault. Sennilega væri ég Renault maður ef þeir hefðu byrjað fyrr í Formúlu 1. Eftir Wartburgævintýri fjölskyldunnar á Eiðum áttum við Renault bíla sem voru fínir. Gott að keyra og þægilegir í alla staði.
En McLaren náði ég að fíla fyrst og vona auðvitað að þeir leiðrétti endemis klúður síðustu móta á liðnu tímabili nú á því næsta. En Alonso og Renault mega verða í 2.sæti í liðakeppninni og ökuþórakeppninni.
Á eftir Lewis Hamilton og McLaren.......
![]() |
Alonso: Kem til baka til Renault sem betri ökumaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Af smáfuglum og umræðum við kaffiborðið á Selhól.
29.1.2008 | 17:17
Nýjustu heimilisvinirnir á Selhólnum koma úr fuglaríkinu.
Sigríður Birta lengi búin að væla um að við ættum að gefa fuglunum að borða, því það væri svo kalt. Svo pabbi kom við í Kassanum í gær og keypti smáfuglafóður. Kom heim í gær um rökkurbyrjun og við út að henda á skaflinn sem stendur sunnan við húsið.
Sátum við gluggann og ekkert gerðist. Birta ekki kát.
Í dag þegar við komum heim úr leikskólanum var pabbi á því að kíkja á skaflinn, gefa smá meiri mat. Birta ekki spennt, en fékkst með. Þá var allt búið í matnum og leyfar hans (lífrænar) á skaflinum. Við dreifðum nýjum skammti á skaflinn og fórum inn.
Og svei mér þá, um leið og við höfðum klætt okkur úr vetrargallanum hafði skaflinn fyllst af fuglum, einhverjir hundruðir snjótittlinga dönsuðu á skaflinum, Birtu fyrst í stað til mikillar gleði. Svo allt í einu spurði hún mig: "pabbi, mega fuglar kúka í garðinn okkar?" Ég reyndi að ræða um dýr og náttúru, en eftir stendur að hún vill helst ekki að kúkað sé í garðinn á Selhól, þannig að við óskum hér með eftir aðstoð við þann vanda, ef einhver veit gott ráð er það vel þegið. Við viljum samt ekki missa fuglana!
Svo settumst við og fengum okkur kaffi, og ég spurði frétta úr leikskólanum. Ekki stóð á svari.....
"Pabbi, það má ekki reykja". "Nú" sagði ég, "út af hverju ekki".
Svarið:
"Því þá fær mann krabb".
Og ekki orð um það meir. Vona að þessi sannfæring hennar verði eitt af leiðarljósum lífsins hennar!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í amstri hversdagsins
27.1.2008 | 10:41
Fékk föðurlega ábendingu og áminningu, sem alltaf er vel þegið, um að hætta að velta mér upp úr stjórnmálamönnum. Að sjálfsögðu hlýði ég því, ávallt verið hlýðinn gagnvart föður mínum og hann þekkir mig það vel að ég veit að hann vill eitthvað heyra skemmtilegra af Nesinu góða.
Enda alltaf mikið um að vera skemmtilegt hér! Aðalmálið í skólanum hér núna er söngleikur sem ég samdi síðasta sumar. Átti að verða samið í samvinnu við tónlistarskólastjóra, sem svo flutti suður. Þá stökk ég bara í það að semja í kringum íslensk Eighties lög, held bara að það hafi tekist vel. Er með frábært hæfileikafólk í vinnunni með mér og í bæjarfélaginu, þannig að ég er bara "producer" verksins, það eru hér leik-, músík-, dans- og söngstjórar um allt!
Stefnt að frumsýningu í Klifi 8.febrúar. Verður stuð!
Næsta laugardag, 2.febrúar förum við Helga svo á Þorrablót í Ólafsvík. Komumst ekki í fyrra og erum því ákveðin að fara núna. Helga náttúrulega missir sig ekki í matnum (sem ég mun örugglega gera) en auðvitað er mesta skemmtunin að vera með skemmtilegu fólki og horfa á innansveitarkróniku á sviðinu. Sennilega verð ég þar enn minntur á frammistöðuna í Útsvarinu góða. Skilst reyndar að enn séu að koma myndir upp þegar ég leik gulrót annað slagið. Góður að leika gulrót.
Svo líður ekki langur tími þar til herrakvöld Víkings verður. Þar verð ég líka, eftir að hafa keppt í firmakeppni fyrr um daginn. Vonandi með Grunnskóla Snæfellsbæjar, erum að safna í lið sko. Það er laugardaginn 23.febrúar.
Að þeim degi loknum styttist verulega í fæðingu barnsins okkar, settur hefur verið upp dagurinn 27.febrúar á Akranesi. Meira um það síðar og smá spjall um hálfatvinnuljósmyndarann Ödda litla, sem sýndi fádæma takta í fjölskyldumyndatöku nú nýlega!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Koma fram takk, hugsjónafólk Sjálfstæðisflokksins
23.1.2008 | 10:47
Vilhjálmur og Ólafur eru hlægilegir. Sem betur fer talar Kjartan ekki og Júlíus Vífill setti lítið nýtt fram.
Geir fer mildu leiðina, skilaboð hans til flokksmanna um að starfa af heilindum og þeir yrðu að sýna ábyrgð fóru ekki fram hjá mér allavega. Björn og Guðlaugur Þór glaðir með að vera í meirihluta, missa sig í það að styðja of snemma við einkennilega atburðarás sem ekki sér fyrir endann á.
Ég vona að Gísli og Hanna leiði flokkinn út úr þessum ógöngum. Ég allavega trúi því að þetta fólk geti hugsanlega bjargað því sem verður úr þessu. Þau VERÐA að tjá sig. Þau urðu leiðtogar Sjálfstæðisflokksins í borginni þegar Villi tapaði sér, voru langmest áberandi í að úthrópa Björn Inga, réttilega, og ef eitthvað mark á að taka á þessu upphlaupi öllu í borginni eru þau í lykilstöðu.
Ég skora á þau að standa upp og taka völdin í þessu, og af Vilhjálmi. Þau eru jafn mikilvæg í þessum bullleik og gamli slaki Villi og eina leiðin til að borgin græði er að annað hvort þeirra setjist í stól borgarstjóra, NÚNA!!!!!
![]() |
Útilokar ekki samstarf við Frjálslynda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)