Færsluflokkur: Dægurmál
Er að koma vor?
17.4.2008 | 15:18
Voðalega væri það nú gaman!
Hefðbundin vorverk í gangi í minni vinnu. Undirbúningur fyrir samræmdu prófin, árshátíðir framundan og mikill þeytingur.
Undanfarna daga hefur margt góðra gesta verið í heimsókn í skólanum okkar, skólastjórar á Vesturlandi fyrst í síðustu viku og umhverfisráðherrann í gær. Í millitíðinni var ég á bæjarmálafundi J-listans í Snæfellsbæ til að ræða um skólamál.
Afar gaman að gestir og tilhlýðendur lýstu hrifningu á því sem við vorum að gera enda frábært fólk í öllum rúmum hér, hvort sem eru nemendur eða starfsmenn! Þeir sem vilja kíkja meira eftir því ættu að líta á vefsíðuna okkar, www.gsnb.is - en hún er nú komin í fínt tilraunarennsli.
Af fjölskyldunni er auðvitað allt gott, Sólveig Harpa bara braggast og verður stöðugt mannalegri. Stóra systir er nú orðin miklu sjóaðri í því að eiga systkin svo að lífið er bara ljúft á Selhólnum.
En vonandi fer nú kuldatrekk og kalsa að ljúka. Kominn tími á hæga vorvinda með hlýju og vætu sem að gefa af sér græna jörð og blómaangan.
Megi guð vaka yfir störfum ykkar vinir mínir!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í dag fyllir undirritaður 37 árin!
14.4.2008 | 22:09
Ótrúlegur þroski sem maður finnur streyma inn á hverjum afmælisdegi.
Þessi afmælisdagur, 14.apríl 2008, er númer 37 í röð minna afmælisdaga, sem eiga auðvitað eftir að verða miklu fleiri og sumir kannski merkari. Við vorum afslöppuð hér á heimilinu með daginn, en auðvitað fékk maður meira knús frá dömunum mínum öllum og Fúsi kokkur stjórnaði afmælissöng í 9:30 kaffinu.
Allt stefndi í fjöldamóðg, en frá kl. 20:00 hrúguðust bara allir helstu ættingjar til að óska til hamingju með áfangann, þannig að þegar þetta er skrifað, kl. 22:07 er bara spurning um eitt móðg til ættingja, læt liggja á milli hluta hver lendir í því!!!!
Ekki fannst mér nú síst gaman að Garðar Þrándur vinur minn frá Þrándarstöðum í Eiðaþinghá hringdi alla leiðina frá Danmörku til að kasta á mig kveðju. Auðvitað töluðum við heillengi saman enda er vinátta okkar alltaf feykitraust og eins og við höfum talað saman síðast í gær, mesta lagi í fyrradag. Garðar er þar duglegri en á hreinu er að ég ætla að ná honum næst!!!
Svo auðvitað langar mig að óska nágrönnum mínum í Hólminum með magnaðan sigur í körfunni í kvöld. Þó auðvitað sé taug til Grindavíkur væri svo gott ef að Snæfell tækist að verða Íslandsmeistarar þetta árið, myndi án vafa lyfta Hólmurum fjær og nær í háar hæðir. Vona hreint innilega að ÍR fylgi fordæmi þeirra og slái út Keflavík á miðvikudaginn.
En nóg í afmælisdag!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þvílíkur draumadagur!
9.4.2008 | 17:47
Í boði Liverpool. Fór brosandi í vinnuna og hlæjandi heim. Alger snilld þessi fótbolti stundum.
Fór heim í hádeginu og kyssti Helgu og Sólveigu Hörpu bless, þær skutust suður í dag og ég, Hekla og Birta fylgjum þeim á laugardaginn.
Svo heilmikil vinna, auk undirbúnings fyrir fund Skólastjórafélags Vesturlands á Hótel Hellissandi næstu tvo dagana.
En vonandi nær maður að horfa á ÍR vinna Keflavík í sjónvarpinu í kvöld. Væri afar skemmtilegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hún á afmæli í dag!
6.4.2008 | 09:35
Mamman nýbúin og Birtan er næst.
Í dag er hún Sigríður Birta, sú þriðja í röð hinna fjögurra fræknu systra, fjögra ára gömul. Í dag er heilladagurinn hennar. Af tillitssemi við ömmur og afa að sunnan og vegna þess að margir afmælisgestanna voru uppteknir í dag héldum við mikla veislu í gær.
Í hana komu 7 jafnaldrar Birtu auk þess sem afarnir Ölli og Öddi og ömmurnar Sigga og Gulla komu að sunnan. Hér var MIKIÐ stuð. Pizzubakstur, kökugerð og svo kjúklingasalat a la Helga Lind veitingarnar og eftir mikið frjálsræði í leikjum og dótastuði fékk Hekla það hlutverk að stjórna leikjum. Það gekk auðvitað vel!
Birta átti auðvitað erfitt með að höndla athyglina og það að sinna öllum. Einstaka grátköst eyðilögðu þó ekki daginn sem var mjög skemmtilegur. Þegar börnin voru farin heim var nýja hjólið prófað og síðan skrúfaði Ölli afi saman útihúsið og þar var Heklu stóru systur boðið í te og slíkan snæðing.
Semsagt bara frosið bros. Áðan vöknuðum við og fórum fram við Birta. Þá sagði hún mér strax, pabbi ég á líka afmæli í dag. Já sagði ég auðvitað og kyssti hana til hamingju. "Hvenær koma krakkarnir".
Ég er enn að reyna að útskýra það hvers vegna það er bara ein afmælisveisla á ári. Hefur enn ekki verið samþykkt fullkomlega!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Og enn eru berin súr!
4.4.2008 | 09:18
Alveg með ólíkindum hvað fólk getur lagst lágt í svona aðstæðum.
Lítil virðing borin fyrir því að þarna er maðurinn einfaldlega að vinna sitt starf, sem hann gerði vel að mínu mati. Vissulega hefði verið fullkomlega réttlætanlegt að dæma vítaspyrnu, en það sáum við í sjónvarpinu sem hann ekki hafði.
Hver dómari metur hvert atvik og tekur á því. Mér fannst þessi dómari til fyrirmyndar og stóð sig frábærlega í að stjórna leiknum.
Arsenal verða bara að einbeita sér að því að vinna leikinn á Anfield. Glætan!
![]() |
Neitar því að hafa gert Kuyt greiða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dómgæsla spómgæsla!
31.3.2008 | 14:05
Hæ.
Helginni eytt á höfuðborgarsvæðinu. Tengdó á Sikiley svo við nýttum gistingarmöguleika á Strandveginum með fjölskylduna. Þvílíkur munur að hafa svona íbúð út af fyrir sig í borginni, munar bara hrikalega miklu!
Ég tók þátt í dómgæslu í 2 leikjum, fyrst sem dómari í leik Afríku og Árborgar. Skilst að ég sé fyrsti dómarinn sem næ heilum leik með Afríku United og gef þeim ekki spjald. Leikurinn var prúður í skítakulda, en auðvitað gaman! Á sunnudaginn var ég svo aðstoðardómari í leik Hvatar og KFS í Kórnum. Aðeins orðinn ryðgaður í því að hlaupa línuna, en fínt að rifja það upp aftur.
Ég vona að ég fái fleiri verkefni hjá KSÍ, þetta er bara þrælskemmtilegt og þetta þýðir líka að maður er í smá snertingu við boltann, án hausverkja um leikskipulag og meiðsli!
Fórum svo og keyptum vagn og afmælisdót fyrir drolluna á heimilinu, fröken Birtu. Ekki skulum við þó gleyma að óska ástinni minni, frú (fröken) Helgu Lind sem náði mér í aldri á laugardaginn var, þann 29.mars. Hún er jafngömul mér í 13 daga enn, þá verð ég aftur staðfest eldri og þrokaðri!
Til hamingju aftur Helga mín!!!
Heyrumst......
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þengill farinn í frí!
26.3.2008 | 09:28
Klifið enn á ný leikhús fyrir unglinga í gær.
Þriðja, og væntanlega, síðasta sýning á "Þengill lærir á lífið" í gær. Myndi halda að um 150 manns hafi komið á sýninguna og sýningargestir því farið yfir 600 í það heila. U.þ.b. þriðjungur íbúa Snæfellsbæjar semsagt mætt! Það finnst mér frábært.
Krakkarnir stóðu sig auðvitað vel, orðin þrælsjóuð í "showinu" og örugg í texta og flutningi.
Sérstaklega var ánægjulegt að fá stóran hóp krakka frá Stykkishólmi á sýninguna í gærkvöldi. Öll svona vinna með krakka gengur út á það að auka félagsþroska þeirra og samkennd. Við fórum á sýninguna í Hólminum nýlega og því var sérstaklega gaman að sjá krakkana þaðan hjá okkur.
Í hléinu kviknuðu meira að segja hugmyndir um samstarf milli skólanna í framtíðinni á þessu sviði. Alveg væri það stórkostlega skemmtilegt að nýta það hæfileikafólk sem til er í kippum í þessum bæjum báðum og sameina krakkana á jákvæðum grundvelli, án keppni.
Það er vissulega komið fordæmið í knattspyrnunni þar sem öll sveitarfélög á norðanverðu Snæfellsnesi sameinast í einu liði, og vissulega er "okkar" lið á nesinu bikar- og Lengjubikarmeistarar í körfu á þessu ári, með ágætan möguleika á Íslandsmeistaratitli. Gaman saman!
En fyrst og fremst óska ég Þengli velfarnaðar í fríinu, gaman væri nú ef hann vaknaði "einhvers staðar einhvern tíma aftur" eins og Ellen söng forðum!
En krökkunum eru auðvitað færðar mestar þakkirnar fyrir að gæða leiksýninguna lífi og leikgleði!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sólveig Harpa Magnúsdóttir.
22.3.2008 | 21:45
Var nafnið sem við Helga Lind töldum best hæfa litlu stúlkunni okkar.
Hún fékk nafnið formlega í indælli og látlausri, en hátíðlegri, skírnarathöfn í Ingjaldshólskirkju í dag. Við erum mjög glöð með daginn, þeir ættingjar sem voru á svæðinu stóðu sig vel, mamma og Thelma Rut lásu ritningargreinar, Sigríður Birta og Helga María dreifðu sálmabókum og pössuðu kerti litlu dömunnar og Hekla Rut hélt á yngstu systur sinni og opinberaði nafnið.
Skírnarvottar og guðforeldrar voru þrír, Thelma Rut Magnúsdóttir, Guðlaug Kristmundsdóttir og Símon Hermannsson.
Fyrir þá sem ekki þekkja til er þetta nafn í höfuð tveggja indælla kvenna sem standa okkur nær. Önnur, Sólveig, er móðir mín og Harpa er systir Helgu Lindar.
Okkur finnst nafnið ríma vel við litla ljósið okkar og erum viss um að hún eigi eftir að verða mikil gæfumanneskja! Því miður er það nú svo að myndirnar á okkar vél tókust ekki nægilega vel en við vonumst til að fá frá Ödda litla eða pabba fljótlega.
Í myndum af nýja englinum er þó ein ný, frá deginum. Þar er Sólveig Harpa Magnúsdóttir í bleikum kjól sem vígður var á skírnardegi Sigríðar Birtu og hún er á henni með krossinn sem amman frú Sigríður gaf Sólveigu í síðustu viku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Frábær dagur
21.3.2008 | 23:32
á Hellissandi í dag!
Harpa, Viddi og börn komu á miðvikudag og Símon um hádegið. Verið að gera sig klár fyrir skírn og smá veislu á morgun, laugardag. Þá verður það ekki "lillan" lengur, nafnið kemur á síðuna á morgun fyrir forvitna.
En í dag náði ég að véla Óla Jökul til að taka mig, Símon, Vidda, Thelmu, Bjarka og Heklu á snjósleðarúnt. Við karlarnir keyrðum, þetta var fyrsta ferð allra utan okkar Jökuls og var stórskemmtileg!
Flott ferð í alla staði, frábært færi, enn betra veður og sleðarnir í stuði. Við keyrðum upp úr Eysteinsdalnum í norðurrönd Snæfellsjökuls, austur fyrir hann, fram hjá Geldingafelli og fljótlega eftir það upp í átt að toppnum sunnanmegin.
Smám saman urðu Viddi og Símon öruggari og ferðin sóttist vel. Þegar um fimm mínútur voru ófarnar alveg upp á topp urðum við, eða Jökull sem var með Thelmu á sínum sleða, fyrir óhappi þegar unglingur í gáleysisflippi keyrði á þau á fullri ferð. Sleðinn Jökuls skemmdist það illa að við komumst ekki alveg á toppinn, eigum það bara eftir næst.
Þess vegna urðum við að snúa frá toppnum, skilja sleðann skaddaða eftir og ferja hópinn hægar niður en við fórum upp, en það var auðvitað smá ævintýri sem kryddaði bara, fyrst engin urðu slysin á fólki.
Eftir þriggja tíma stuð komum við aftur á Selhólinn og rifum út grillið í fyrsta sinn á árinu 2008. Velheppnuð máltíð í lok velheppnaðs dags.
Eftir daginn erum við Viddi erum ákveðnir. Við erum að fara að kaupa okkur snjósleða. Það er skyldueign hér, í nágrenni skemmtilegasta snjóskafls landsins!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aðeins af örorku kennara.
18.3.2008 | 10:16
Get eiginlega ekki orða bundist vegna umræðu um dóm sem féll nú nýlega vegna 25% varanlegrar örorku sem kennari varð fyrir við störf sín.
Á síðustu dögum hafa margir fræðimenn á sviði Asperger heilkennisins komið fram og lýst furðu sinni á dómnum. Auðvitað er það þannig með okkur sem vinnum í skólunum að við vitum það að margs konar greiningar eru á börnum sem í skólunum eru þessa dagana og það er hreinn harmleikur að þetta hafi hent viðkomandi barn.
En mér finnst þurfa svör við því hvernig á að bregðast við slíku atviki. Það hlýtur að vera óumdeilt að viðkomandi kennari var að sinna sínu starfi, kom heilbrigð til vinnu, varð fyrir slysi sem skilar nú mikilli örorku sem þarf að verða bætt.
Eins og ég skil mínar tryggingar er það þannig að trygging gagnvart mínum starfsmönnum er bara í gangi þegar vinnuumhverfið veldur slysi (t.d. brotin rúða, raflögn ófrágengin) eða þegar aðrir starfsmenn valda slysinu.
Þess vegna held ég að málið snúi að því að skaðabæturnar falli á viðkomandi stúlku, hún olli slysinu með sinni hegðun, sjálfráðri eða ósjálfráðri og bótarétturinn sem hlýtur að vera óumdeilt réttur er felldur á gerandann.
Mér finnst umræðan stundum snúast um það að dómurinn sé ósanngjarn. Mér finnst gott að sjá að óumdeildur skaðinn er bættur, umræðan þarf að sjá um það hver á að standa að skaðabótum vegna slíkra atvika.
Það er þörf umræða og þarf að vera algerlega skýrt hvernig bregðast á við því þegar kennarar eða annað starfsfólk er slasað við störf sín. Það gerist sem betur fer sjaldan, en gerist.
Skilaboðin þurfa að vera skýr! Óháð óumdeildum greiningum og öðrum aðstæðum, hver á að standa vörð um starfsfólk grunnskólans. Hvernig er það á öðrum svipuðum vinnustöðum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)