Færsluflokkur: Dægurmál
Búinn í prófinu og barnið "öfga" huggulegt!
17.10.2007 | 13:42
Jæja.
Fékk leyfi til að bregða mér í borgina með konunni í sónar. Komst að því fyrir stuttu að háskólaprófið mitt var heimapróf og því góð ráð dýr, því það var jú planið að fara og taka það að loknum sónarnum.
Fékk inni hjá Jenný vinkonu minni í Breiðholtsskóla og einokaði skrifstofuna hennar um stund.
Fyrst sónarinn. Barnið leit vel út, dafnar og dafnar, orðið um 25 cm. að lengd með hendur, fætur, nef og munn, auk allra innri líffæra í virkni. Vorum svo heppin að það var ljósmóðir í starfsþjálfun og við fengum að fylgjast með extra lengi þess vegna. Ofsalega huggulegt barn sýndist mér, enda á það ekki ættir í annað. Kíktum ekki í pakkann! Verður í fyrsta skipti sem að læknirinn tilkynnir mér kyn barnsins án þess að ég viti það áður. Helga segir að það sé svo við getum líka leikið okkur að því að leita að strákanöfnum! Bara spennó held ég, við vorum ekkert að velta því fyrir okkur, því auðvitað verður barnið jafn velkomið, hvort sem það mun pissa standandi eða sitjandi!
Ætla ekki að tuða núna yfir sumu í þjónustu Landspítalans, geri það kannski á morgun. Segi samt að það var ekki mikil virðing borin fyrir okkar tíma, eða því að við værum ekki í kallfæri við þjónustu sjúkraþjálfaranna!
Svo var það prófið. Sanngjarnt held ég og ég er bara nokk bjartsýnn að vel hafi gengið. Hafði 3 klukkustundir til að leysa það og vantaði 1 mínútu og 46 sekúndur uppá að ég félli á tíma. Nú er bara að klára verkefnið næstu dagana og þá vonandi eru 3 einingar í "Stefnumiðaðri stjórnun" legnar.
Gaman alltaf að koma í Breiðholtsskóla. Fullt af nýju fólki auðvitað en að sjálfsögðu er það pínu að koma heim þegar maður labbar þar inn. Átti þar 8 ánægjuleg starfsár með haug af frábæru fólki og gott að sjá brosin aftur og drekka vonda Merrild kaffið úr kössunum!
Semsagt, bara góður dagur 16. október.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hættu Villi, gerðu það!
16.10.2007 | 09:05
Ég tók út fyrir viðtölin við Vilhjálm Vilhjálmsson í gær. Vorkenndi honum hreinlega. Bjarna Ármannssyni var augljóslega brugðið verulega í Kastljósi RÚV í gær, enda virðist algerlega ljóst að Vilhjálmur Þór er að troða marvaða til að fá að halda áfram í pólitík.
Sá marvaði er troðinn í mýri.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að halda trúverðugleika sínum, ekki bara í borginni, heldur líka á landsvísu verður formaður flokksins að grípa inní. Strax.
Vilhjálmur er smátt og smátt búinn að búa til sprungur í umhverfi flokksins, hann "minnist ekki" þessa og hins og reynir að láta eins og það sem hann gerði hafi verið með velþóknun flokksins! Myndi vilja hitta Davíð Oddsson þessa dagana, sá er ekki kátur held ég!
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson er örugglega ágætur maður. Vill vel og reynir að standa sig. En hann er ekki á vetur setjandi í nútímapólitík. Hann er einn í hverju viðtalinu eftir annað og virðist telja það að þar sem enginn annar tjái sig megi hann bara halda áfram að neita.
Enginn trúði honum í gær, allavega enginn sem ég hef talað við. Maður er að fylgjast með manni sem hefur týnt sínu pólitíska lífi, en er að reyna að öðlast annað líf.
En kettir einir eiga mörg líf, og ég er alveg viss um að þeir ættu ekki mörg líf í pólitík.
Gamli góði Villi. Hættu núna, viðurkenndu óafsakanleg mistök þín í því að vera ekki nægilega vel upplýstur í þessu máli og þá staðreynd að þú hefur ekki verið að fylgja flokkslínum sem þér ber að fylgja. Þú átt engan möguleika á að vinna þig út úr þessu lengur og öll viðtöl þín og viðbrögð verða bara til þess eins að þú sekkur neðar í mýrina.
Hanna Birna, þú næst takk.
![]() |
Vilhjálmur Þ: Nei, 20 ára ákvæðið var ekki kynnt fyrir mér " |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á leið í próf og sónar.....
15.10.2007 | 16:48
Mikill dagur á morgun.
Þá ætlar Sandarafjölskyldan að storma suður. Byrjum að skutla SBM í pössun, áður en foreldrarnir storma niður á kvennadeild Landspítalans. Fyrst er farið í skoðun og svo í 19 vikna sónar.
Þá er mamman laus úr stressinu og pabbinn stormar í próf í Stefnumiðaðri stjórnun í Endurmenntun HÍ. Tók mér frí frá því námi í fyrra og ætla að klára Diplomanámið núna í vetur. Skal bara takast. Finnst í raun gott á mig að ég þurfi að fara í próf. Finnst það bara fáránlegt að eitt slíkt verkefni ráði því hvort maður er búinn að fá gráðu eða ekki.
Hollt fyrir skólamann að rifja svoleiðis upp. Vonandi verður þetta síðasta prófið í náminu og ég storma vestur aftur undirbúinn að klára verkefnið mitt í næsta mánuði og fá stimpilinn......
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þarf að skoða gæsluna á Laugardalsvelli.
14.10.2007 | 14:22
Var á vellinum í gær, í hólfi B.
Þar var auðvitað meirihlutinn íslenskir áhorfendur. Eins og á vellinum. Þar voru hins vegar á víð og dreif Lettar. Eingöngu fullorðnir karlmenn og margir hverjir AKÖLVAÐIR. Stutt frá mér voru 5 náungar sem voru sér ekki til sóma. Stóðu nær allan tímann, sönglandi, með fána á stöng. Fólkið sem sat aftan við þá fékk varla að sjá leikinn. Neituðu að setjast og voru með tóma stæla.
Ég lenti ekki sjálfur í þessu, en lét þetta pirra mig verulega. Naut þess ekki nægilega vel að horfa á leikinn. Burtséð frá slökum leik okkar manna.
Svo hlaut að koma að því að gæslumenn birtust. Þá brá mér.
Þetta voru 17 - 19 ára stráklingar sem augljóslega lögðu ekki í að fjarlægja mennina. Enda alveg viðbúið að það hefði reynst þeim ansi erfitt. Ég beið alltaf eftir því að löggan kæmi, en varð aldrei.
Þegar á leikinn leið fóru að tínast fleiri Lettar að þessum hóp, því nokkuð var af auðum sætum ekki langt frá. Ég ætla að votta þeim virðingu mína sem sýndu þá sjálfstjórn að bregðast ekki við með látum þessari hegðun síðustu 30 mínútur leiksins. Höfðu greitt fyrir miðann sinn, en sáu mest í bakið á lettneskum áhorfendum sem voru skammarlega drukknir margir hverjir.
Á meðan á þessu stóð var "aðkomuhólf" vallarins nær tómt, þ.e. hólfið sem ætlað er stuðningsmönnum aðkomuliðsins. Á erlendum völlum hefði klárlega verið unnið heilmikið verk við það að safna þeim áhorfendum sem studdu Lettana þangað. T.d. sáu menn hvað gerðist á leik Wigan og Liverpool nú nýlega þegar svipaðar aðstæður sköpuðust.
Ég er viss um að KSÍ munu fara yfir þetta mál, Ísland er ekkert öðruvísi en önnur lönd. Maður er að fara á völlinn til að fá ákveðna útrás og aðstæðurnar víðs vegar á Laugardalsvelli buðu upp á átök.
Sem og það séríslenska dæmi að hliðin á völlinn séu opin eftir að leikur hefst. Fyrstu 10 mínútur leiksins í gær var maður í því að standa upp fyrir fólki sem var að mæta og beygja sig til og frá til að sjá leikinn fyrir fólki sem var á leið til sæta sinna.
En í gær missti maður nú reyndar ekki af miklu. Ætla ekki að pirra mig á að skrifa um arfaslakan leik íslenska liðsins, sem virðist hugmyndasnautt, utan Eiðs Smára, sem sýndi í gær enn hvers vegna hann er ómissandi í íslenska liðinu.
![]() |
Átök fótboltaáhugamanna stöðvuð í fæðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aðeins um íslenska umferðarmenningu.
10.10.2007 | 14:00
Verð að viðurkenna það að mér blöskrar orðið yfirleitt í hvert sinn sem ég keyri í og svo um borgina. Langar aðeins að heyra hvort ég er sá eini sem hef þessa sögu.
Fyrir það fyrsta er ég sko alls ekki bara að tala um stressið í Reykjavík. Það hefur örugglega alltaf verið og fylgir stórborgum, eins og Reykjavík er að mínu mati orðin. Svíningar á ljósum og svigakstur er orðið alvanalegt og virðist ekkert vera ráðið við, og bílaraðir á löngu sprungnum gatnamótum er reykvískur og "borgneskur" raunveruleiki.
En séríslensku eiginleikarnir finnst mér tengjast annars vegar vinnutækjum og hins vegar þeim misskilningi að öruggast sé að aka hægt.
Fyrst vinnutækin. Er handviss að það er ekki í mörgum borgum þar sem 18 hjóla vörubílar, með hlassi, séu að taka pláss á umferðaræðum á háannatíma. Hvað þá kranar, eða vörubílar með tengivagni með annan vörubíl uppá tengivagninum! Þetta allt upplifði ég í Reykjavík í umferðinni milli kl. 17 og 19 sl. föstudag. Einhvern tímann voru skilti sem bönnuðu umferð vinnuvéla á ákveðnum tíma, eða við Íslendingarnir tökum ekki mark á þeim reglum og komumst upp með það. Hvort sem það er finnst mér tímabært að bragarbót verði gerð. Það er að mínu viti kominn tími á að banna akstur vinnuvéla á ákveðnum svæðum á t.d. Kringlumýrar- og Miklubraut, alfarið. Svo finnst mér kominn tími á að settar verði reglur og þeim framfylgt á t.d. Sæbraut, Breiðholtsbraut, Reykjavíkurvegi og Bústaðaveginum, auk þeirra annara stofnbrauta í íbúðahverfin sem ég ekki þekki. Það að vera að þvælast með stórvirkar vinnuvélar á þessum brautum á háannatíma finnst mér eins vitlaust og ákveða að reka bara fílinn með lömbunum af fjalli. Þegar hann misstígur sig verður stórt slys. Betra er að láta fílinn koma af fjallinu þegar fá fara með honum lömbin. Eins finnst mér með bílana.
Úti á þjóðvegi er sama vitleysan í gangi. Við Helga mættum 43 stórum flutningabílum á leið okkar frá Borgarnesi að Akranesafleggjaranum, ca. 30 kílómetra leið um fimmleytið á fimmtudaginn. Hver og einn þeirra var auðvitað Jónas lestarstjóri, því slíkir bílar fara hægar yfir en erfitt er að fara fram úr þeim út af lengd. Ég hef lengi röflað um það að mér finnst að setja eigi upp reglur um það hvenær slíkir bílar keyra þjóðveg nr. 1, þ.e. á hvaða tíma. Mér finnst að það ætti að vera eftir kl. 19:00 þegar reikna má með að almenn umferð detti niður. Ef menn þurfa að fara fyrr af stað þá þarf að flakka leiðar utan þjóðvegs nr. 1. Ég er viss um að flutningafyrirtækin eru ósátt, en bullið sem fylgir framúrakstri og hægri umferð þessara bíla er algert. Það eru orðin ótal skipti, skipta tugum, sem ég hef neglt niður á leið minni suður, þegar einhver kemur á móti við að fara framúr. Auðvitað er hægt að tala um að menn "eigi bara ekki að aka framúr", en t.d. í bleytu er nú ekki sérlega skemmtilegt að keyra á eftir slíku ökutæki.
Svo er það ökuhraðinn. Tek það skýrt fram að ég á eina hraðasekt úti á þjóðvegi, 113 km. á Mýrunum fyrir nokkrum árum þegar ég var orðinn seinn í þjálfun. Svo ein í Arnarbakkanum þegar ég var stöðvaður á 44 km. hraða á 30 km. hámarkshraða. Tel mig því ekki hraðasjúkling.
Úti á þjóðvegi 1 hef ég lent á eftir bílum sem verið er að aka á 70 - 80 km. hraða við bestu aðstæður. Ég hef komið inn í röðina sem bíll nr. 2, 6, 17, 29 eða eitthvað þaðan af aftar því allir eru þessir bílstjórar Jónasar (Jónas og fjölskylda sko). Þetta kallar á gríðarlegan framúrakstur og mikinn pirring. Ég held því að þegar verið er að tala um að hámarkshraði við bestu aðstæður sé 90 km. hraða þurfi að ræða líka um umferðarhraða. Þegar menn aka á 70 úti á þjóðvegi við slíkar aðstæður eru þeir að skapa hættu. Auðvitað ekki eins mikla og með glannaakstrinum, en engu að síður hættu.
Segið mér nú, er ég að bulla reyk, eða eru einhverjir sammála?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stöðugt vandræðalegra!
8.10.2007 | 22:32
Þvílíkt bull er komið þarna í gang!
Ef einhver manndómur hefði verið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hefði verið skipt um í brúnni NÚNA og Framsóknarflokknum síðan gert ljóst að þeir geta snúið sér annað ef þeir ætla að byrja á því aftur að misnota aðstöðu sína og komast í álnir með því að velta sér upp úr almannafé.
Því miður gáfu grjótharðir einstaklingar eins og Júlíus Vífill og Hanna eftir, sennilega út af kjánalegri tilraun sætabrauðsdrengjanna Gísla og "gamla góða Villa" til að "verða vinir á ný"!
Þvílíkt bull sem þetta er að verða. Villi í dag skammar Dag fyrir það að vera sammála viðhorfi sínu frá í fyrri viku um framtíðarhagnað Reykjavíkur. Talar um að hann hafi gert allt "í góðri trú" og tekur sinn helsta ráðgjafa, Hauk nokkurn opinberlega af lífi!
En Villi og Gísli Marteinn verða að skilja það að það er grafalvarlegt mál að gera slík mistök og á að þýða rautt spjald í pólitík. Ef þetta eiga að verða málalokin hefur ekkert gerst nema það að í bulli og vitleysu ákvörðunar sem byggð var á fégræðgi "lykilstarfsmanna Orkuveitunnar", sem í sumum tilvikum eru menn nátengdir Birni Inga og "gamla, góða Villa" var Hitaveita Suðurnesja færð til einkaaðila sem eru í einokunarstöðu á sínum heimamarkaði.
"Ekki kemur til greina að selja Orkuveituna" sagði Villi, í góðri trú auðvitað!
Hann kannski fattar ekki enn að með því sem hann gerði í síðustu viku seldi hann Hitaveitu Suðurnesja og verður kannski helst minnst fyrir það.
"Gömlu góðu pólitíkusarnir" voru fyrirgreiðslupólitíkusar margir hverjir. Það gekk ýmislegt á og kaupum og sölum þá. Það er ÓTÆKT ef að nú á að láta menn komast upp með slíkt bruðl með almannaeigur og ég er handviss að ef að Sjálfstæðisflokkurinn bregst ekki við munu málin bara versna! Enda heyrist manni ekki annað á þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að þeir geri sér grein fyrir málinu.
En ekki gamli góði Villi og Björn Ingi. Þeir róa nú lífróðurinn sinn á pólitískum vettvangi og það verður nú ekki auðvelt í þetta sinn.
![]() |
Sátt meðal sjálfstæðismanna þrátt fyrir trúnaðarbrest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Menn bögg' ekki Breiðhylting!
5.10.2007 | 21:17
Ian Ashbee er öðlingsdrengur.
Fékk að kynnast því þegar við spiluðum saman með ÍR. Hann var alvöru breskur nagli sem fannst ekki leiðinlegt að takla. Þvílíkur neglari og ég var alveg viss um að hann myndi meika einhvers konar frama í Englandi.
Eins mikið og ég var viss um að félagi hans það sumar, Will Davies, myndi ekki meika það. Ash hefur átt farsælan feril í neðri deildum og er nú fyrirliði ágætis liðs í næst efstu deild.
Alveg ljóst að strákurinn hefur það á hreinu að í boltanum er það auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, eins og í árdaga! Vona nú að hann lendi ekki í miklum leiðindum hjá sambandinu út af þessu, því þrátt fyrir að vera nagli var hann sko alls enginn ruddi.
Eins og ansi margir ÍR-ingar sem ég þekki!
![]() |
Ákært vegna Íslandstengdra leikmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrælsniðugt!
4.10.2007 | 12:55
Sko Seltirninga.
Hef alltaf mesta trú á því að rétta fólki möguleika á að velja af alvöru sjálft. Með allri virðingu fyrir styrkjum víðs vegar er þarna verið að rétta fólki möguleika á þeim valkosti að eyða meiru í það sem það vill sjálft.
Man eftir dagmömmuslagnum úr Garðabæ. Vorum heppin með dagmömmu, að lokum, en þurftum að greiða óhemju fyrir. Ef mitt sveitarfélag tekur upp slíkt kerfi er alveg á hreinu að heimilið á Selhól 5 mun skoða það að eyða þeim peningum í daggæslu á vegum foreldranna.
![]() |
Foreldrar á Seltjarnarnesi fá styrki og greiðslur til dagforeldra afnumdar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í stuði!
3.10.2007 | 11:28
Eins og sem oftast.
Stuð var á lokahófi Víkings á laugardaginn þar sem ég fékk að láta gamminn geysa sem veislustjóri.
Stuð í skólamessu í Ólafsvík á sunnudaginn þar sem ég fékk að leika ref í brúðuleikhúsi.
Stuð í vinnunni á mánudaginn þar sem allt er á fullu að klára nýja anddyrið og nýju húsgögnin á leiðinni.
Stuð í gær í Grunarfirði þar sem Rósa Eggertsdóttir var að kynna okkur samvinnunám.
Stuð í dag í rigningunni, verið að vinna í gegnum bunkann á borðinu.
Stuð verður á morgun þegar við skreppum á Akranes, lúllum hjá Ödda og Hörpu.
Stuð á föstudaginn á kjaramálaráðstefnu KÍ.
Stanslaust stuð að eilífu!!!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Valsmenn léttir í lund!
29.9.2007 | 16:16
Eldgamalt Valshjarta sló hratt í dag. Man svo vel árið 1985 þegar mínir menn Valsmenn loksins urðu meistarar! Í dag skildi ég tímabundið við lýsingu á Liverpoolleiknum til að horfa á leik þar sem aumingja Valsararnir skoruðu of snemma og skulfu í endamarkið.
En svo kláraðist leikurinn og Valsarar gátu fagnað. Ég þekkti mörg andlit á vellinum og í stúkunni og það var alveg hræðilega gott að sjá gleði þeirra. Árin sem ég fékk að kynnast Völsurum af eigin raun var ekki svona auðvelt, þá féllum við úr efstu deild að lokum.
En ég kynntist af eigin raun mörgu af því frábæra fólki sem uppskar laun erfiðisins í dag. Ég táraðist fyrir hönd Bjössa Hreiðars, sem gæti verið búinn að vinna þennan titil fyrir löngu. Ég sá Gumma skilti og Óla Má á hlaupabrautinni með mörgum eldri hetjum liðsins og í stúkunni sá ég mikið af foreldrum og drengjum sem ég kom að á þessum tíma.
Valsarar til hamingju! Frábært að liðið sé á leið í Meistaradeildina, ég held að þetta lið verði liðið til að sigra á næsta ári. Njóta sigursins í botn takk! Willum bara jaxl sem greinilega nær árangri. Auðvitað samhryggist ég FH og mörgum vinum mínum þar, en nú finnst mér að FH ætti að hugsa sig upp á nýtt, fara í það að treysta ungum leikmönnum sem eru feykileg efni! Það skilar sér í firðinum, frekar en að safna dýrum eldri leikmönnum í liðið.
Auðvitað þurftu einhverjir að falla og því miður lenti Maggi Gylfa í því með nafna okkar Ólsara, Víkinga. Þeir verða boðnir velkomnir vestur og þrátt fyrir að ég hefði ekki grátið fall KR-inga í dag hefði það verið erfiður kostur fyrir önnur lið í 1.deild. Víkingar verða þó auðvitað með hörkulið, en við ætlum að hamast í þeim og öðrum næsta sumar.
Baráttan í pásu í bili, kannski ég taki meiri þátt í þeirri næstu.......
![]() |
Valur Íslandsmeistari í fyrsta skipti í 20 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)