Færsluflokkur: Dægurmál

Hvaða frétt er þetta?

Finnst svolítið erfitt að átta mig á því hvers vegna farið er að reikna út kostnað á nemanda í krónum.  Skil alveg þegar verið er að velta fyrir sér prósentuhlutfalli skólanna í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, en finnst hæpið að reikna út "meðalkostnað" á nemendum.

Börn eru gríðarmisjöfn í þörfum og skólar leggja mismunandi áherslur.  T.d. myndi ég vilja vita hvað er tekið inn í þennan útreikning.  Laun kennara er einfalt að finna út, en svo margt annað skiptir máli.  Hvað er mikið af öðru starfsfólki, t.d. stuðningsfulltrúm, skólaliðum, þroskaþjálfum og hvers vegna eru þeir í skólanum eða hvers vegna ekki?

Foreldrar mega aldrei velta því fyrir sér hvort þau eru að "fá fyrir peninginn" í skóla barnsins síns!  Þau EIGA að gera háar kröfur á sitt sveitarfélag að það reki góðan skóla, algerlega óháð útsvarinu sínu, fyrir öll börn. 

Hins vegar getur vel verið að fréttin sé áminning til ríkisvaldsins, um það hversu háar fjárhæðir þarf til að reka grunnskóla.  Það er auðvitað hlægilegt að frá því að grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna hefur ríkissjóður skilað afgangi, en hvert sveitarfélagið af öðru stefnir í gjaldþrot.

Auðvitað eiga sveitarfélögin að fá inn meiri hluta skattteknanna, ríkið dregur stöðugt úr þjónustu, á meðan háar kröfur eru gerðar um þjónustu sveitarfélaga.

Þess vegna ætla ég að lesa þessa frétt þannig, en ekki vera velta fyrir mér hvort að verið er að eyða 967.874 krónum, meira eða minna, í Varmárskóla í Mosfellsbæ þar sem dætur mínar eru......


mbl.is Grunnskólanemendur kosta milljón á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á eftir helgi kemur vika!

Vel heppnuð helgi.

Í það fyrsta var hörkustuð í bakstrinum og ca. 200 kíló lágu!  Gott það.

Laugardagurinn breyttist á föstudagskvöld þegar KSÍ vélaði mig til að verða eftirlitsdómara á fótboltaleik Víkinga og ég náði því bara einum réttum.  Á Breiðinni.  Fórum, ég, Hekla og Birta þar sem Thelma fékk að gista hjá vinkonu, veit Vilborg, hefði kannski átt að vera grimmari.  Fullt var af fólki, sennilega meira af kindum en við gátum dregið með bændunum og svoleiðis allt.

Leikurinn kom þá, hressilegur 0-0 leikur sem tryggði áframhaldandi veru Víkinga í 1.deild.  Þá á að komast hærra sjáið til!

Laugardagskvöldið var "reunion" Spánarfara.  Hittumst heima hjá Lilju og Eiríki með spænskt þema í matargerð og vínum.  Virkilega gaman, sátum fram yfir miðnætti en svo vel vill til að konan er í tímabundnu leyfi frá áfengi og við gátum því keyrt heim þegar við vorum orðin þreytt.  Ofsalega gaman að sitja og spjalla og maturinn afbragð.  Sérstaklega vill ég hrósa saltfiskkæfunni hans Mímis.  Nammmmmm.

Á sunnudagsmorgunn héldum við Sigríður Birta í "kastalann okkar" eins og hún kallar Ingjaldshólskirkju.  Hún var ansi lífleg í byrjun, stormaði til altaris að syngja með krökkunum þegar sr. Ragnheiður kallaði og að því loknu fór hún í sunnudagaskólann.  Sat eins og dúkka í 40 mínútur!  Segið svo að kraftaverkin séu ekki til!  Var afar glöð með sig þegar hún fór og söng fyrir Heklu það sem hún lærði, nefnilega lagið "Djúp og breið".  Eitthvað skolaðist aðeins til textinn því Birtan mín söng hástöfum "Súp'og brauð".  Neitaði að breyta.  Sennilega kominn í dæmisögurnar um fiska sem fjölfaldast og bruggun víns úr vatni.  Held það allavega.

Stelpurnar fóru svo aftur suður á mánudagsmorguninn og vinnuvikan hófst.  Nóg að gera, nú ætlum við að fara að detta í gang með söngleikinn og skólastjórinn þarf að fara að demba sér í starfsmannasamtöl og klára tölvumálin.  Vonandi er orðið verulega stutt í að allt verði tilbúið í byrggingarmálum og það detti í rétt far.

Gaman, gaman.


Kleinubakstur, bolti, réttir og sunnudagaskóli

Þetta er það sem er framundan hér!

Í dag og kvöld ætlum við, starfsfólk Grunnskólans að baka kleinur fyrir söfnunina okkar.  Við erum að fara til Belfast í námsferð  í nóvember og því verður þvílíkt bakstursstuð eftir skólann í dag!  Alltaf voðalega gaman að standa í svona streði, en styrkir auðvitað líka vináttuna hér.

Á morgun er réttardagur í Snæfellsbæ.  Ég ætla með Heklu og Birtu allavega í réttir, ætla að gera tilraun til að ná unglingnum með, en er ekki viss um að það gangi.  Því miður hleypti ég henni í það að verða unglingur áður en ég rammaði inn í hana sveitamennskuna.  Eins og henni fannst það nú gaman að þvælast í kringum dýr hér fyrir stuttu. 

Í bænum eru margar réttir.  Á Breiðinni, í Ólafsvík, í Breiðuvíkinni og á Ölkeldu.  Held meira að segja að ég sé að gleyma einni!  Við ætlum á Breiðina fyrst, um hádegið.  Þar eru frístundabændurnir norðan megin að rétta.  Mig langar mikið að verða frístundabóndi, en ætla ekki alveg að leggja í það strax.  Svo reyndar truflar það mig pínulítið að Víkingar eiga síðasta heimaleikinn sinn kl. 13:30.  Mig langar til að sjá hann, en vill alls ekki missa af Ölkelduréttinni í Staðarsveit.  Það er hörkurétt, sem endar á þvílíku hnallþóruboði á bæjunum að annað eins sést varla.  Sannkallað hreppsmót.  Skipulagið verður skoðað á morgun með boltann í aukahlutverki.

Svo er fyrsti sunnudagaskólinn í Ingjaldshólskirkju á sunnudaginn.  Þangað verður stormað með fröken Sigríði Birtu, fannst hún aðeins of ung í fyrra, en nú ætlum við að sækja okkur tilbreytingu á sunnudögum.  Hún að vísu er aðeins að rugla saman orðum og er stöðugt að minna föður sinn á það að í sunnudagaskólum fer maður í sund.  Útskýringar föðurins duga lítið gegn tárvotum barnsaugum sem ætla í sund í "sundagaskóla".....

Fréttir af helginni munu berast á mánudag, sjáum hvernig "sundferðin" í sunnudagaskólann fer!Smile


Hvað á að sjást?

Verð að viðurkenna að ég hef ekki alveg fílað Amsterdam.  Veit ekki út af hverju, finnst borgin lítt aðlaðandi og ekki sérstök á neinn hátt.  Síkin alveg fín og allt það, en einhvern veginn ekki spennandi.

Rauða hverfið finnst mér ekki borginni heldur til framdráttar.  Alveg helsorglegt að horfa á dætur einhvers standa allsberar eða allt að því úti í glugga.  Bara skelfilegt til þess að vita að lifandi fólk selji sig hvar sem er auðvitað, en einhvern veginn vakti það með mér enn meiri sorg að sjá þessa útgáfu á vændi.

Hver veit, kannski verður hægt að gera eitthvað skemmtilegt í rauða hverfinu, sem gerir borgina meira aðlaðandi í mínum augum.  Efast um að það hafi svosem eitthvað að segja í ákvarðanatökunni samt.....


mbl.is Rauða hverfinu í Amsterdam breytt í verslanir og íbúðir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Portúgalinn floginn.

Verður erfitt fyrir Jonna frænda og José vin minn Moreira að sætta sig við þetta.  Mourinho er goðsögn í Portúgal og af einhverjum ástæðum elti Jonni minn skugga hans hjá Chelsea. 

Mamma gamla Portúgali meira að segja hélt með Chelsea.

En nú verður gaman að sjá hvernig þau bregðast við.  Þau hafa öll lofsungið Chelsea og gert lítið úr afrekum annarra liða, því Portúgalinn Jósé Mourinho sé snillingurinn eini.  Nú er hann víst atvinnulaus, klárlega rekinn frá verki sínu.

Vegna þess að lið hans spilaði svo leiðinlegan fótbolta að enginn nennti á völlinn.  Nú er það ekki Portúgal sem ræður ríkjum á Stamford Bridge, heldur óumdeilanlega Rússland, og þá sennilega Ossitíska mafían.  Með strengjabrúðu frá Ísrael í stjórnstöðinni við völlinn.

Mourinho fór oft í taugarnar á mér.  Hélt með Porto í Evrópu á meðan hann stjórnaði þeim og þegar raddir fóru af stað um það að hann tæki hugsanlega við Liverpool var ég bara sáttur.  Svo tók minn uppáhaldsmaður, Rafael Benitez við Liverpool og Mourinho fór til Chelsea.  Hélt áfram að spila varnarbolta með skyndisóknum, hundleiðinlegan kraftabolta.

Hann skilaði honum árangri en kostaði hann svo starfið!  Án vafa enn ein sönnun þess hversu heljarrugglaður starfsvettvangur fótboltinn er!

Verður kannski litminna í kringum boltann í vetur, en vonandi mun nú Chelsea sjá það að liðið þarf að vera í meiri tengingu við sanna aðdáendur þess og byggja upp sóknarlið.  Þá nenna svo miklu fleiri á völlinn.

Ég ætla ekkert að núa Jonna, mömmu og Jósé þessu um nasirnar.  Mourinho mun fá nýtt starf, spái því að Tottenham langi mikið í hann, en auðvitað vill ég að hann stjórni portúgalska landsliðinu.  Þeir þurfa betri varnarþjálfara en þekkja leikkerfið hans og munu án vafa ná árangri þegar hann tekur við því.

Hei annars.  Ég ætla að stríða þeim aðeins!

SAGÐI YKKUR ÞETTA ALLTAF!  MOURINHO FÉKK ENGU AÐ RÁÐA OG ER FARINN. 

Spurning:  Hvað er ólíkt með José Mourinho og Rafael Benitez?

Svar:  Annar er atvinnulaus, en hinn er í vinnunni........ Áfram Liverpool!


mbl.is José Mourinho hættir sem knattspyrnustjóri Chelsea
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustlægðir

Eru mættar.

Hráslagalegt og kalt um að lítast.  Hef ekki oft séð haustið svona einlitt.  Finnst það bara brúnt og dökkt.

Hafa einhverjir fleiri tekið eftir þessu?  Er að velta fyrir mér hvort miklir hitar og miklir þurrkar framkalla þessa útgáfu af haustinu.  Svosem alveg viðbúið að hitar framkalli slíkt, en svei mér þá, ég sakna litadýrðarinnar.

Svo er það náttúrulega staðreyndin að veturinn er að nálgast.  Jökullinn minn hefur staðið vel af sér sumarið og er farinn að bæta á sig aftur.

Virkilega gaman að fylgjast með náttúrunni þessa dagana, verst að ég hef ekki enn komist til að eltast við gæsir, en vonandi kemst ég ofaní skurð í næstu viku.....


Eina lausnin.

Ég held satt að segja að ekki nein önnur lausn hafi verið.  Samningar skulu standa.  Segjum t.d. að staðan sé 1-1 og mínúta nr. 90.  FH fær horn og boltinn fer inní.  Heimir Snær á að dekka senter og stekkur ekki upp, 2-1 mark.  Hvað þá ef hann verður fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Eða Fjölnir fær víti.  Atli fer á punktinn og skýtur yfir.  Eða öfugt.  Heimir bjargar á línu og Fjölnir geysast upp og skora.  Eða Atli skorar úr vítinu.  Svo eftir tímabil mæta þessir menn aftur í FH.

Sama hver staðan verður held ég að þetta hafi verið eina lausnin.  Fjölnismenn hafa í sumar byggt lið sitt upp af lánsmönnum sem eru að skila þeim því að spila í efstu deild næsta sumar.  FH setti þessa klásúlu inn í samningana til að koma í veg fyrir að strákarnir léku gegn FH í bikarnum og Fjölnir skrifaði undir.  Ef liðin hefðu mæst í 16 liða úrslitum hefði engum dottið í hug að þeir væru í liðinu og sama þarf að gilda í úrslitum.  FH verður að njóta þess að hafa byggt upp það gott lið að þessir strákar séu þeirra menn, í láni annars staðar.

En mér finnst tvennt standa uppúr.  Hvaða sanngirni er í því að Fjölnir hafi slegið út lið Fjarðabyggðar, Hauka og Fylkis með leikmönnum í lykilhlutverki sem ekki leika svo úrslitaleikinn??  Hvernig getur það gengið að lið láni 4 leikmenn í kippu til annars liðs og getur svo sett inn klásúlu að leikmennirnir megi mæta öllum liðum nema sínu eigin?

Ég hef heyrt af því að innan KSÍ sé verið að vinna í því að skoða reglugerðir vegna lánssamninga.  Ekki veitir af.  Því miður er það helgötótt kerfi sem hefur leitt til þess að betra er fyrir unga leikmenn að gera samninga og fara svo bara í lán eitthvað ef þeir komast ekki í liðin sín.  Á meðan eru lið með uppundir 40 leikmenn á samningum, en nota svo bara 11 í hvert sinn.  Senda svo mennina í burtu, á þeim ákvæðum að liðin sem taka við þeim verða að taka yfir þeirra samninga.  Eru svo kannski með 10 - 12 leikmenn bara í láni en kippa þeim svo til baka ef þeim sýnist.

Það þarf að breytast.  Setja þarf hámarkstölu lánsmanna út úr og inn í félög.  Að mínu viti þarf að setja aukareglur um hámarkslán milli tveggja félaga.  Annars er viðbúið að miklu meira verði um slík dæmi.  Einnig þarf að skoða reglur um samninga leikmanna sem eru lánaðir.  Hversu óbundnir geta stjórnarmenn verið sem gera samninga.  Á t.d. Völsungur sjálfkrafa að taka á sig bónussamning leikmanns frá FH?  Þeir samningar tala um bónusa fyrir sigra og þátttöku í leikjum.  Þannig er kannski 10 þúsund á leikinn sú upphæð sem FH setti upp (reyndar örugglega hærri) miðuð út frá þeim líkum að leikmaðurinn taki þátt í fáum leikjum.  Svo fer leikmaðurinn norður og þar með líklegt að hann spili og þá ber Völsungi að greiða þessa upphæð pr. leik.

Með því að minnka möguleika á lánssamningum verða vonandi fleiri leikmenn sem stíga skrefin frá þeim félögum sem ekki vilja nota þá.  Magnús Ingi Einarsson og Tómas Leifsson, eðalmenn af FH ættum gerðu það og munu fá að taka þátt í leiknum.  Eins og Sigmundur sem hafði það af að fara "klásúlulaus" í lán.

Heimir og Atli verða bara að bíta í súrt epli og vera öðrum víti til varnaðar.  Því miður, því leikurinn hefði orðið skemmtilegri með þessa tvo góðu leikmenn innanborðs!

En Fjölnir á alveg möguleika samt, flottir leikmenn þar og geysiflottur þjálfari.


mbl.is Atli Viðar og Heimir verða ekki með Fjölni í úrslitaleiknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásgeir Elíasson

Sá mikli knattspyrnuhöfðingi er fallinn í valinn.

Mig setti hljóðan í gær þegar fréttir af andláti Ásgeirs bárust mér í gærmorgun.  Auðvitað er það alltaf þegar andlát ber að jafn brátt og í þessu tilviki.

Ásgeir var í fullu fjöri sem þjálfari ÍR síðast þegar ég hitti hann.  Hann tók að vissu leyti við því kefli sem ég skilaði af mér í Breiðholtinu í fyrrasumar og ég hafði fylgst vel með þeim tökum sem hann tók verkefnið.  Ég varð glaður þegar ég heyrði ákvörðun ÍR í fyrrahaust þegar þeir réðu Geira, því að mörgu leyti höfðum við svipaðar áherslur í fótboltanum og ég var sannfærður um að með réttum stuðningi stjórnar ÍR fengi Ásgeir þá leikmenn sem vantaði til verkefnisins.

Nú þurfa Siggi Þorsteins og strákarnir í liðinu að klára verkefnið án skipstjórans á skútunni.

Mér finnst það líka nokkuð sérstakt að Ásgeir falli frá þessa helgi, eftir frækinn leik landsliðsins gegn Spánverjum.  Ásgeir afrekaði margt í boltanum en hans stærsta stund finnst mér hafa verið í landsleik gegn Spánverjum á Laugardalsvellinum þar sem við unnum 2-0.  Stemmingin og leikurinn líður mér aldrei úr minni og ég minntist oft á þann leik við sessunaut minn í Laugardalnum á laugardaginn.  Var að vona að endurtekning yrði á, en því miður tókst það ekki.

Samkvæmt því sem ég las í blöðum hafði Ásgeir þjálfað lið samfellt frá árinu 1979.  Það er rosalega langur tími í starfi sem ekki er auðvelt að eiga langan feril í.  Íslandsmeistaratitlar, bikarmeistaratitlar, sigrar með landsliði og félagsliðum verða minnisvarðar hans.  En ekki síður sú sérstaða að halda í þann neista sem þarf til að halda þessu starfi áfram.  Þróttarar og Frammarar þekkja hans neista best, þau lið voru ótvírætt liðin hans og stundum er talað um að Fram sé ennþá að spila "Ásgeirsboltann".

En Ásgeir var líka fótboltamaður og ljúflingur í gegn.  Hann gerði engan mannamun og gaf sér alltaf tíma til að spjalla um fótbolta.  Ég bar virðingu fyrir honum áður en ég hitti hann vegna árangurs hans, en eftir að hafa hitt hann sem þjálfari jókst hún.  Hann var fullkomlega jarðbundinn og aldrei nokkurn tíma bar á hroka eða yfirlæti við aðra, þó svo að hann væri að þjálfa "stærri" lið en andstæðingurinn.  Hann hikaði ekki við að hrósa andstæðingunum, liði eða einstaklingum.  Ég man einu sinni eftir því að Ásgeir hafi kvartað opinberlega vegna dómgæslu og þá töluðum við hinir þjálfararnir um að mikið hlyti að hafa gengið á.  Hann var einfaldlega ástfanginn af þessum leik, á réttum forsendum.

En eftir situr syrgjandi fjölskylda.  Ég sendi konu hans og öðrum ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur og vona að þau finni styrk í minningunni um öðlingsdreng.  Fótboltamenn sem syrgja Ásgeir ættu að gera það líka, sér í lagi vinir mínir í ÍR sem hafa nú enn ríkari ástæðu að klára verk það sem Ásgeir hóf!

Hvíl í friði Ásgeir Elíasson.


mbl.is Leikið með sorgarbönd gegn Norður-Írum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Héraðsfréttablöð.

Gott að heyra að verið er að búa til fjölmiðil á Ströndunum.

Eftir veruna hérna á Snæfellsnesinu er ég alveg orðinn háður fréttablaðinu Jökli og reyni að missa ekki af Skessuhorninu.

Það er nefnilega svo gaman að lesa fréttir af fólki og aðstæðum sem maður þekkir frá daglegu lífi, en ekki endilega djúpstæðar fréttir af einhverju öðru en maður þekkir.  Auðvitað þarf maður að lesa slíkt líka, en best er að hafa þetta í bland.

Gaman væri nú að vita ef hægt er að lesa þessar nýju Strandafréttir á netinu, því heimkynni móðurættar minnar í Árneshreppi á Ströndum eru mér afar kær og alltaf gleypir maður í sig þær fáu fréttir sem detta inn á síður Morgunblaðsins þaðan.

En góða skemmtun við lesturinn Strandamenn, megi blaðið vaxa og dafna.


mbl.is Hafin útgáfa héraðsfréttablaðs á Ströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norah Jones og nýr erfingi!

Hæ öll.

Frábær helgi að baki sú síðasta.  Thelma og Hekla komu vestur og var það vel þegið að sjá þær aftur eftir talsvert hlé, Birta ljómaði alla helgina að fá þær og við að sjálfsögðu líka.  Sigga frænka Helgu og Atli komu í heimsókn með Tómasi litla á laugardeginum.  Grilluðum saman og spjölluðum fram á kvöld. Rosa gaman og Birta og Tómas léku sér af krafti, í fyrsta sinn sem ég man eftir því að Birta gafst upp á undan öðru barni á svipuðu reki og sofnaði sveitt á meðan hann sönglaði af gleði.

Sigga komin langt með bumbutímann í óléttunni, Helga rétt að byrja. JÁ TAKK!  Nýr erfingi er áætlaður á heimilið 4.mars 2008, búin að dreifa því nægilega innan fjölskyldunnar til að henda því hér á netið.  Það verður áreiðanlega afskaplega skemmtilegt að verða pabbi enn einn ganginn, það þá í fjórða skiptið.  Hef verið gæddur barnaláni hingað til og er viss um að svo verður áfram, miðað við sónarmyndir af litla barninu er þetta hraust og hresst barn, með huggulegt og sterkt nef, sem er víst mikill kostur.  Helga Lind hefur verið ansi hreint lasin núna í nokkurn tíma og því var hún með alls konar aðferðir við að halda ástandinu leyndu, bæði hér innanlands og utan, en nú bara er að telja niður, fyrst mánuði, svo vikur og loks daga.

Við skutluðum stúlkunum svo heim á sunnudag og fórum á tónleika Noruh Jones.  Las gagnrýni Morgunblaðsins á þriðjudaginn.  Hreint algerlega sammála öllu þar.  Þessi stúlka er snillingur og hljómsveitin hennar var mögnuð.  Kom mér á óvart hversu sterkar útsetningarnar voru á lögunum en var hrikalega flott.  Bullið fyrir tónleika með rauðan dregil og VIP bar fullan af fólki sem sýndi þann dónaskap að vera á þramminu á meðan að upphitunarmúsíkantinn spilaði og þýddi að stór hluti gólfsins var hálftómt á þeim tíma var okkur öllum til skammar!  Ekki skánaði það þegar maður sá fullt af lausum sætum í þessu VIP rými á tónleikum sem sagt var að hefði orðið uppselt á á einungis 15 mínútum.  Skilst að FL Group hafi verið þarna að verki, vegna þess að "það var þeim að þakka" að Norah Jones kom.  Treysti því að tónleikahaldarar framtíðarinnar sæki tónlistarmenn á annan hátt.  Ég allavega er tilbúinn að greiða meira fyrir miðann og þurfa ekki að skammast mín!

En tónleikarnir voru frábærir í alla staði, gleðin skein af hljómsveitinni og salurinn á réttri línu, kurteis og hvetjandi.  Við keyrðum svo heim afslöppuð en eilítið þreytt.  Sérstaklega Helga, enda þreytt fyrir tvo þessa dagana þegar hún er lúin!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband