Frábærar fréttir!

Virkilega gott að sjá að Paisley og Adams hafa náð að setjast niður og útkljá sín deilumál, vonandi verður meiri friður nú á norðausturhorni Írlands en áður.

Síðustu 3 vetur var ég í miklu samstarfi við kollega á Norður-Írlandi.  Kom þangað tvisvar, til Belfast, Omagh og (London)Derry.

Þrátt fyrir að hafa lesið mikið um deiluna og reynt að fylgjast með hvað væri í gangi kom það mér algerlega í opna skjöldu hve djúp gjáin er í daglegu lífi fólks á þessu svæði.  Vissulega eru ekki allir að berjast með vopnum og meiða og drepa fólk, en að sama skapi er ekki mikið gert til að nálgast einstaklinga úr "hinu" liðinu.

Vinnustaðir, klúbbar, skólar og stofnanir eru í langflestum tilvikum "hreinræktuð", annað hvort kaþólikkar eða mótmælendur, á þeim stöðum þar sem verið er að vinna með blöndun hópanna er langt í land.

Það var allavega skilningur þessa yndislega fólks sem ég vann með.  Það voru hópar úr tveimur skólum, mótmælendaskóla og kaþólskum skóla.  Þau voru tilbúin að vinna saman að ákveðnum málum, en ákveðin mál voru aldrei hreyfð, eða rædd.  Þar á meðal stjórnmál og ástandið "The troubles".

Mér er það mjög minnisstætt þegar við tókum á móti hópnum á Íslandi.  Við buðum þeim í partý að loknum síðasta vinnudegi og þegar stuðið var byrjað settum við þennan fína Papadisk á.  Ég sá strax að hluti hópsins var ekki glaður með músíkina, labbaði að þeim sem sýnilegast var óánægður og spurði hvað væri að.  Þá sagðist hann ekki vera sáttur við það að við værum að spila "kaþólska" músík.  Vissulega var hann annar tveggja úr mótmælendahópnum sem var fúll, hinir tveir sungu með eða sögðu þetta vera "allt í lagi".  En, fljótlega voru Paparnir teknir af og Bítlarnir fengu að rúlla.

Skólastjóri mótmælendaskólans, David McKee, sagði mér eitt sinn að Írar spyrðu allir að trú fólks.  Einungis örfáir væru hafðir yfir það.  Hann mundi eftir tveimur aðilum í svipinn, hljómsveitin U2 og George Best.  Þá ættu allir!!!!! 

En, flott að þessir hörðu jaxlar tveir hafa linast og megi þetta verða til að lina deilurnar, því Belfast er frábær borg og Norður-Írar höfðingjar heim að sækja. 

Of langt mál er að fara að rýna í upphaf og orsakir deilnanna, en trúin tengist þar valdi og valdníðslu þeirra sem landinu réðu á síðustu öldum.  Þess vegna var enginn að velta því fyrir sér að við Íslendingarnir vorum mótmælendur, en Belgarnir og Portúgalirnir í hópnum kaþólikkar.  Við vorum gestir, og fengum alls staðar frábærar móttökur.


mbl.is Blair: Sögulegt samkomulag á Norður-Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skelfilegt að trúarbrögð geti skilið þjóð svona í sundur. Þakka þér fróðlegan pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.3.2007 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband