Kosningafundir á Snæfellsnesi.
8.5.2007 | 11:32
Tveir í gær.
Fyrst fór ég í Klifið í Ólafsvík, þar sem Geir H. Haarde, Örvar Marteinsson og Einar Oddur Kristjánsson mössuðu yfir Sjálfstæðismönnum. Geir sýndi fádæma öryggi og yfirvegun, þéttur og ákveðinn. Verður bara að segjast eins og er að hann er afar, afar landsföðurslegur. Mér hugnast það vel að hann yrði forsætisráðherra áfram, en mitt mat í dag er að annan flokk þurfi með í stjórn hans en Framsóknarflokkinn í litlum molum.
Örvar Marteinsson, formaður skólanefndar hér, var að standa sig fínt. Fékk þarna smá reynslu innan um gömlu jaxlana og hélt ágætis stuðningsmannsræðu. Einar Oddur sló um sig af krafti eins og reikna mátti með.
Ég ber mikla virðingu fyrir því liði sem Sjálfstæðisflokkurinn er. Hef fylgst með pólitík lengi og verið sammála þeim í sumum þeim kosningum sem ég hef tekið þátt í. Fundurinn í gær var greinilega fundur stærsta stjórnmálaflokks landsins sem gengur samhentur til kosninga. Ætlaði að vera kominn heim um hálftíu og þegar ég fór af fundinum var ég sannfærður um það að kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins hljóma upp á 36 - 38 %. Vélin mallar þar áreynslulaust.
Þegar ég var kominn á Hellissand datt mér í hug að detta inn á Hótel Hellissand. Þar var Jón Baldvin að eldmessa, og ég vissi af manni þar sem ég hafði ætlað að hitta. Reiknaði með að þegar ég kæmi, uppúr hálftíu, væri þó lítið eftir af fundinum.
Öðru nær. Gamli Ísafjarðarkratinn skaut gneistum úr augum sínum - lét heyra duglega í sér, um spillingu og samsæri og mikilvægi þess að velja skandinavísku leiðina á Íslandi, en ekki þá amerísku. Fór á kostum eins og hans er von og vísa. Ber mikla virðingu fyrir karli, þó hann geti vissulega nú talað ábyrgðarlítið og sagt það sem honum sýnist. Hann er meirihlutakrati, "my way or no way" pólitíkus sem rekst kannski ekki alltaf vel.
Svo töluðu nokkrir í viðbót. En vandinn var. Á eftir Jóni Baldvin er erfitt að halda athygli. Það tókst ekki.
Draumurinn um að sterkur jafnaðarmannaflokkur og sterkur hægri flokkur geti komið saman og keyrt áfram grimmt samfélag velferðar og hagsældar er ekki líklegur á meðan að of margir í Samfylkingunni þora ekki að heilla með þeim krafti sem Jón sýndi.
Eftir gærkvöldið fannst mér augljóst að sjá hvort liðið fer sterkara inn á völlinn. Vissulega geta óvænt úrslit orðið, en ekki er neitt í spilunum sem getur leitt til bjartsýni Samfylkingarfólks.
Ég er enn ekki búinn að ákveða hvað ég kýs.
Athugasemdir
Bara að kjósa rétt.....
Vilborg Traustadóttir, 8.5.2007 kl. 23:06
Heyrðu kall minn kær... ertu ekkert búinn að skoða nýjustu tölur úr skoðanakönnunum!? Ekki neitt í spilunum sem getur leitt til bjartsýni Samfófólks.. mér bara svelgist á mínu eigin munnvatnir... oseisei...
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 9.5.2007 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.