Hverju er að treysta?

Er rasandi og ætla aðeins að kasta af mér hlutleysisskikkjunni sem ég reyni lengst af að sveipa mig þessa dagana.

Seðlabankinn

Í dag hefur réttilega verið haft hátt um hlægileg laun bankastjóra, sem reyndar er fyrrum aðstoðarmaður forsætisráðherra.  En hver er hæst launaður allra í dag.  Mér skilst að það sé bankastjórinn í Seðlabankanum, Davíð Oddsson. Er til eitthvað ósanngjarnara í okkar mölbrotna samfélagi!!!!! 

Við sem höfum unnið launavinnu alla okkar ævi vitum það að við erum dæmd af verkum okkar.  Íslenski seðlabankinn hefur verið til skammar um skeið, sennilega frá því í febrúar 2006 þegar hann gerði ekki athugasemd við mestu svikamyllu Íslandssögunnar, IceSavereikningana.  Ég hef hingað til borið virðingu fyrir Davíð Oddssyni með sumt og talið hann góðan stjórnanda.  Alls ekki alltaf sammála honum auðvitað.

En núna er staðreyndin að Davíð er einstaklingur sem ENGINN TEKUR MARK Á!  Ekki nokkurs staðar í heiminum, bankinn hans er rúinn trausti allra utan þeirra sem enn elta stjórann í blindri aðdáun og eru að reyna að koma í veg fyrir það að sagan dæmi Davíð illa.  Það mun hún þó gera.  Ekkert héðan af getur bjargað því, en auðmjúk uppsögn mun þó kannski veita eilitla uppreisn æru.  Allir bankastjórarnir eiga svo að fylgja honum og fara.  Strax!  Við græðum ekkert á að hafa þá lengur, en töpum miklu!

Fjármálaeftirlitið

Óhæf stofnun.  Lét bankana verða tíu sinnum stærri en íslenska hagkerfið og lagði blessun sína á skuldsetningu hvers einasta Íslendings upp á milljónir, ef ekki milljónatugi.  Nýja menn þangað á morgun.  Þurfum ekkert að velta því meir fyrir okkur!

Forsetinn

Þarf að svara stórum spurningum, t.d. því hvort neitun hans á að undirrita fjölmiðlalögin gáfu ákveðnum auðmönnum þau skilaboð að þeir kæmust upp með allt!  Svo því ótakmarkaða lofi sem hagfræðingurinn knái hlóð á þessa menn, sem í dag líta út fyrir að vera ótíndir afbrotamenn.

Stjórnmálamenn

Á Alþingi eru margir ágætir einstaklingar.  Ég hef fylgst lengi með störfum þingsins og þingmanna og fullyrði það að við sem þjóð eigum þessa þingmenn skilið.  Við kusum þá - skulum ekki gleyma því!  Ég man fyrst eftir að hafa pælt í þinginu '86 og '87.  Ég leyfi mér að fullyrða að flestir þeirra sem þá voru á þingi voru menn sem komu úr frumgreinum íslensks þjóðlífs, höfðu reynslu af vinnu við framleiðslu fyrir eða þjónustu við samferðamenn sína.

Í dag er á þingi alltof hátt hlutfall fólks sem alið hefur verið upp sem stjórnmálamenn og hafa gleymt því að á bak við hugtök eins og hagvöxt, verðbólgu, stýrivexti, kvóta, fjárlagafrumvarp standa kjósendur, en ekki atkvæði talin.

Þingmennirnir okkar eru margir okkar í tugi daga á fjögurra ára fresti, en þess á milli bara að vasast í sínu, með sínum styrktaraðilum og "baklandi".

Því verðum við öll að breyta!

Ég ætla ekki að tala lengur um stjórnmálaflokka.  Stjórnmálaflokkar í dag eru bara hjóm eitt, því enginn þeirra kann nokkra lausn.  Hugsjónir þeirra og framtíðarsýn er öll byggð á eyðslustefnunni sem við höfum talið vera hið eðlilega líf að undanförnu og þeir þurfa allir að fara í endurvinnslu.  ´

Sérstaklega þarf að skoða hverjir hafa samþykkt þær lagaflækjur sem að hafa verið búnar til svo að hægt sé að flytja flugvélafarma af okkar verðmætum til skattaparadísa og annarra peningavirkja.  Það er kominn tími á að þeir finni sér aðra vinnu en þá að skapa lög okkar og reglur.  Strax!

Í stað þessa fólks þurfum við að finna einstaklinga sem hafa hugsjón til hægri eða vinstri, en bera fyrst og fremst hag landsins fyrir brjósti, óháð því hvaða flokka þegnar þess kjósa.  Það þarf að fylla alla flokka af nýju fólki sem hefur þá einörðu afstöðu að svona megi aldrei gerast aftur.  Fólk sem hefur bruðlað með almannafé, hvað þá sveitarstjórnarmenn sem hafa lagt peninga sveitarfélaga inn á verðbréfareikninga eiga að hverfa af sjónarsviðinu, best væri ef þeir sæju sóma sinn til að hætta sjálf, eins og áðurnefndir embættismenn.

Ég er sko ekki að boða byltingu.  Allar byltingar mannkynsins held ég að hafi leitt til spillingar um langt skeið.  Heldur þarf að reisa nýja framtíð á rústum nútíðar okkar.  Þjóðfélag framtíðarinnar verður að styrkja og styðja einstaklinginn til dáða, en líka sjá til þess að hann geti ekki arðrænt aðra á leið sinni til aukins vegs og virðingar.

Ég veit að í öllum stjórnmálaflokkum er að finna fólk sem veit það að kommúnisminn og kapítalisminn eru ekki svörin í nútímanum, heldur línan þar á milli.  Það þarf að stíga fram sem fyrst og ryðja þeim sem nú eiga brottvísunina skilið í burtu.  Nú er komið að þeim að vinna við frumgreinarnar, því þeir eru óhæfir að stjórna landi.

Fjölmiðlar

Óhæfir.  Bara eitt orð.  Uppteknir af því að slá skjaldborg um eigendur sína eða því að gera lög, reglur og önnur gildi tortryggileg.  RÚV skást og einstaka fréttamenn, helst Kastljósfólkið, þó stundum að reyna.  En stærstu þjófnaðir Íslandssögunnar hafa staðið í rúm tvö ár án þess að þau föttuðu það.  Skammarlegt! 

Samantekt 

Ég hef undanfarna daga prísað mig sælan að hafa ekki átt peninga í hlutabréfasjóðum og því að ég vinn fyrir traustan vinnuveitanda með frábæru fólki, líður vel með konunni minni og dætrum og á stað þar sem kreppan er ekki eins yfirþyrmandi og á mörgum öðrum stöðum.

En auðvitað er ég að tapa eins og allir.  Lánin hækka og ráðstöfunarféð lækkar.  Það að maður hafi það samt af hefur blekkt mann til að sætta sig við ástandið.

Svo heyrir maður endalausar sorgarsögur af hrikalegu hlutskipti ættingja og vina, sem hafa tapað milljónum, vinna hjá fyrirtæki sem ekki getur borgað laun eða hefur verið sagt upp störfum.  Jafnvel dæmi þar sem logið hefur verið að fólki í langan tíma þangað til of seint var að bregðast við!

Þá verð ég reiður.  Ofboðslega, ofboðslega reiður. 

Ég er samt ákveðinn í því að taka þátt í uppbyggingunni eins vel og mér er mögulegt.  Það frábæra fólk sem nú er í framhalds-, grunn- og leikskólum landsins verða að geta treyst því að við öll reynum að taka þátt í að hreinsa upp óráðsíu og blindni spilltra auð-, embættis- og stjórnmálamanna nútímans og reyna að hjálpa þeim að læra af okkar vitleysu.

Við megum ekki gleyma því að við eigum öll okkar þátt í þessu.  Margir hafa dansað í kringum gullkálfinn og gleymt því að sá dans endar að lokum og alvaran tekur við.  Við höfum öll kosið í kosningum og margir lítið pælt í því hvert atkvæðið á að rata.  Innantóm slagorð og hugguleg plaköt búin til á auglýsingastofum verið hismið sem skýldi kjarnanum.

Hverju er að treysta?  Stórt spurt, en ég veit bara eitt.

Ég verð að treysta almenningi og þjóðinni.  Við verðum að sjá til þess að okkar kjörnu fulltrúar endurspegli þá þjóð sem byggir venjulega landið okkar.  Við þurfum þverskurð okkar til að stjórna.  Ég vill treysta því að þetta ástand verði til að við öðlumst aftur trú á raungildi þess að byggja land og þjóð.

Treystum því.......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Arnarson

Magnaður pistill að lesa og mesta furða hvað við erum sammála, bróðir sæll.  Það er kannski að renna upp fyrir þjóðinni að við erum ekkert andskotans óðafrjálshyggjufólk, sem má þó lesa út úr kosningum síðustu 20 ár allavega.  Sú stemning sem er að myndast í þjóðfélaginu byggir á samhygð, samábyrgð og ást á náunganum.  Þessi gildi eiga enga samleið með þeirri frjálshyggju sem hér hefur verið rekin hér undanfarna áratugi.  Það þarf byltingu!!  Byltingu í því hvernig við hugsum, hvernig við lítum á okkur sem þjóð.  Við erum lítil þjóð sem verður að standa saman og passa upp á hvort annað.  Ekki bara suma, heldur alla.  ÞAÐ er sósíalismi!!!

Örn Arnarson, 23.10.2008 kl. 23:00

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Góður pistill og ég er sammála í meginatriðum. Ég vil þó helst af öllu gera uppreisn!

Það er rétt hjá þér að íu svona hruni tapa allir. Bókstafælega allir.

Þeir sem bera ábyrgðina eiga að sjálfsögðu að borga fyrir það.

Sérstaklega þeir sem segja eins og Seðlabankastjóri að hann hafi varað bankana og stjórnvöld við. Þegar ekki var tekið mark á honum átti hann að segja af sér!

Sama með Jón Sigurðsson formann Fjármálaeftirlitsins.

Þeir sem vissu og fengu borgað fyrir að koma í veg fyrir þetta en voru ekki færir um að koma í veg fyrir það bera msta ábyrgð.

Burt með þá.

í gær!

Vilborg Traustadóttir, 24.10.2008 kl. 14:28

3 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Já, bræður - er ekki komin tími til þess að Íslenska þjóðin leggi eitthvað til málanna !

Við höfum verið of værukær - daginn áður en ríkið tók Landsbankann yfir, var okkur vesælum starfsmönnum sagt að bankinn stæði traustum fótum.

Á starfsmannafundi rétt áður en ég fór í frí - var sagt, engar áhyggjur, við erum ekki svo mörg - við höldum öll vinnunni. Sameining banka er seinni tíma vandamál.

O.K. ég er atvinnulaus asamt fleirum og ég sætti mig illa við það hvernig komið hefur verið fram við okkur.

Enda setti ég í starfsmannaumsókn mína til capacent - þar sem spurt var um hvernig störf ég hefði í huga - ekkert útilokað - skrifstofustörf, eða ummönnunarstörf á elliheimili eða á sjúkrahúsum.

Ég væri svo til í að hlúa að gamla fólkinu sem skilaði okkur þjóðarbúinu í þeirri góðu trú að allt væri í lagi.

Þetta fólk á allt gott skilið og ég er til í að hlúa að því, snúa baki við græðginni og umframeyðslunni og láta gott af mér leiða.

Mér þykir Það er leitt að ég skuli hafa verið bankastarsmaður í 27. ár.

Hulda Margrét Traustadóttir, 24.10.2008 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband