Nýir skattar!

Sæl öll.

 

Ekki veit ég hvort þið hafið fengið inn um lúguna til ykkar sl. föstudag upplýsingar um vanrækslugjald vegna skoðunar ökutækja.

 

Ég fékk svoleiðis blað sem reyndar segir mér af því að ég þurfi að greiða 15 þúsund krónur nema að ég komi með litla bílinn minn (Hyundai Getz) í skoðun í dag eða á morgun.

 

Það væri svosem allt í góðu nema að ég bý á Hellissandi og næsti skoðunarstaður ökutækis er í Grundarfirði sem er um 40 km. frá heimili mínu.

 

Sem væri svosem allt í góðu nema að í Grundarfirði er skoðað 2 fimmtudaga í mánuði.  Næst er skoðað á fimmtudaginn, 2.apríl og ég var búinn að panta mér skoðun þá. 

 

Svo að ég ákvað að hringja í Frumherja sem sendi mér miðann.  Þar svaraði mér dónalegur starfsmaður sem að benti mér á það að það væri skoðunarstöð í Búðardal.  Illfært þangað í dag, í 120 km. fjarlægð.  Hún „gæti ekki að því gert að þú búir þarna“, best væri fyrir mig að vera mættur í Borgarnes fyrir kl. 8 í fyrramálið „og reyna að troða mér inn á milli hjá þeim“.  Í Borgarnes frá Hellissandi eru 128 km. og byrjað er að moka fjallvegina uppúr kl. 7.  Svo gæti ég auðvitað bara keyrt alla leið suður og klárað málið.  204 km. aðra leiðina.  Annars yrði ég bara „rukkaður um 15 þúsund kall“, annað væri ekki í stöðunni!

 

Ég ákvað þá að tala við Aðalskoðun, sem er með skoðunina í Grundarfirði.  Allt annað viðmót var í gangi, en í raun sömu svör.  Ekkert hægt að taka tillit til þess að skoðunarstöðin mín hefði verið opin fimm daga frá áramótum, sama regla gildir fyrir þá sem búa við hliðina á skoðunarstöð sem er opin allt árið og svo okkar sem fáum skoðunarmenn tvisvar í mánuði.  Mér skilst að í sumum ennþá minni stöðum sé skoðað einu sinni í mánuði.  Þeir voru þó liðlegir og bentu mér á það að ég gæti skilað inn númerunum mínum fyrir  mánaðamót og þannig losnað við gjaldið, 15 þúsund krónurnar, en þá borgað umsýslugjöld í staðinn.  Um 1200 krónur hjá þeim held ég. 

 

Ég hafði samband við Umferðarstofu og kvartaði.  Var þá bent á að tala við sýslumanninn í Bolungarvík sem gæti hugsanlega samið við mig um aðra lausn.  Ég minni á að ég á tíma í skoðun 2.apríl.   Staðfest hjá Aðalskoðun í Grundarfirði.  Sýslumannsembættið fyrir vestan sagði mér þá að til að fella niður gjaldið yrði ég að búa í 80 km. fjarlægð frá skoðunarstað, óháð því hvenær hann er opinn.  Þannig að ekki gat ég það. 

 

Hringdi aftur í Umferðarstofu því sýslumaðurinn benti mér á að mögulegt væri að fella gjaldið niður að hluta a.m.k. ef ég væri snöggur að stökkva í skoðun.  Þar talaði ég við yfirmann sem skildi málstað minn alveg, staðfesti það að mögulegt væri að fella hálft gjald niður ef hratt yrði brugðist við, en  ekki væri mögulegt að fella gjaldið niður, þó ég væri með staðfestan skoðunartíma.  Og það á sjötta, já sjötta skoðunardegi í nágrenni heimilis míns frá áramótum.

 

Hringdi þá aftur í Aðalskoðun, sem ég vill hrósa fyrir þjónustulund, sem staðfesti það við mig að þeir myndu aðeins rukka hálft gjald, 7500 krónur ef að menn færðu bíla sína til skoðunar innan við mánuð frá sektardegi, og við ákváðum að lokum í sameiningu hvað best væri að gera. 

 

Ég mun því á morgun keyra inn í Grundarfjörð, skilja þar bílinn minn eftir við skoðunarstöð þeirra, skrúfa númerin af og láta geyma í um 30 klukkustundir, þangað til ég fæ skoðun.  Fyrir þetta þarf ég að greiða geymslugjald, vissulega ekki 15 þúsund krónur, en krónur samt. 

 

Svo þarf ég að redda mér fari í Grundarfjörð á fimmtudaginn og fara með bílinn minn í skoðun, láta skrúfa númerin á og vonandi ekki borga meira.  Held að það sé klárt.  Þetta þýðir vissulega það að ég þarf að fá endurreiknun á bifreiðagjöld og tryggingar fyrir þann tíma sem ég skila númerunum inn, lækkar kostnaðinn aðeins, en þetta skapar auðvitað óþægindi á mínu heimili.

 

Ekki það að ég ákvað að fara ekki til Reykjavíkur á morgun því að það er mikil hálka og leiðinleg veðurspá.  Þetta er minna vesen.

 

En ég er alveg sannfærður um það að einhverjir fleiri en ég hef hrokkið við, og örugglega einhverjir sem eru í svipuðum sporum varðandi þjónustu.  Mér finnst alveg fáránlegt að ekkert tillit sé tekið til okkar sem búum við svo lágt þjónustustig, ég er ekki að biðja um að við getum látið bílana okkar drabbast niður, en ég tel alveg einsýnt að svona reglugerð hlýtur að kalla á verulega aukna þjónustu til landsmanna allra!

 

Því að við getum að því gert að búa hérna!

 

Gerði stutta könnun og get t.d. sagt ykkur að allir tímar í Borgarnesi í dag og á morgun eru fullir, og að þið sem búið í nágrenni stöðvanna getið búist við því að langar, langar biðraðir verði við skoðanastöðvar á morgun.  Á meðan að minn bíll sefur einn í Grundarfirði!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Svo er talað um að landsbyggðarpakkið íþyngi höfuðborgarsvæðinu ! Frekar finnst manni þetta nú snúið Maggi minn og hvað græðir svo síminn á öllum þessum hringingum....

Knús vestur.

Hulda Margrét Traustadóttir, 31.3.2009 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband