Meltingarhugsanir

Eftir að vinnu lauk kl. 16 í dag hef ég reynt af fremsta megni að innbyrða skýrsluna frá Rannsóknarnefndinni og það er auðvitað ljóst að það mun taka marga daga að klára að melta þær upplýsingar sem er að finna á 2600 blaðsíðum.

Mestan áhuga hef ég á að lesa siðfræðikaflann og síðan yfirheyrslurnar.

Ég var ákaflega sammála því sem dregið var saman af nefndinni í þætti sjónvarpsins í kvöld.  Íslenskt samfélag hefur alltof oft og alltof lengi verið gegnsýrt af valdafíkn og hagsmunapoti stjórnmála þar sem skarað er að eigin köku, eða hver klórar öðrum á bakinu.  

Við verðum sem þjóð og samfélag að segja skilið við þennan hugsunarhátt, taka mark á orðum Styrmis Gunnarssonar m.a. sem talaði um "ógeðslegt samfélag" og taka höndum saman gegn græðginni og valdníðslu fárra á fjöldanum.  Það þarf að fara í gang naflaskoðun hjá stjórnmálaöflum og almenningi.  Við þurfum að hugsa hvað réð atkvæðum okkar áður og spá í hvort þeim var rétt varið.

En eftir meltingu dagsins segi ég þrennt.

1.  Fyrrum eigendur bankanna og helstu stjórnendur þarf að kalla til yfirheyrslu án tafar!

2.  Landsdóm þarf að kalla saman fyrir helgi, ekki síst fyrir þá sem undir ámæli liggja nú.

3.  Forseti Íslands þarf að velta því verulega fyrir sér hvort hann ætlar sér að sitja áfram eftir útgáfu skýrslunnar.  Það er allavega ljóst að hann sagði margt sem ekki á vísan stuðning þjóðarinnar lengur.

Meira án vafa síðar, en þessar hugsanir gátu ekki beðið morgundagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband