Pólitík sem stjórnvald.

Undanfarna mánuði og ár hefur töluvert orðið til þess að maður hefur velt fyrir sér stjórnmálum og því birtingarformi lýðræðis sem uppi er á Íslandi nútímans.

Fyrst var það hringekjan magnaða í Reykjavík.  Þá búsáhaldabyltingin með hruni og nýju Alþingi.

Síðustu mánuði hefur maður svo horft á "vinstri beygjuna" og skýrslan stóra sýnir manni heim embættismannanna og vinnubrögðin sem þar hafa viðgengist.

Skemmst er frá því að þetta allt skilur eftir óbragð.  Allavega í mínum munni!

Mín pólitíska hugsjón liggur hægra megin við miðju.  Ég trúi því að einstaklingsfrelsi leiði af sér mestan vöxt samfélagsins, en því samfélagi verður að vera hægt að treysta fyrir félagslegu jafnræði borgaranna. 

Þar liggur hlutverk stjórnmálanna.  Að búa til leikreglur samfélagsins þannig að sem mestur jöfnuður sé mögulegur, stjórnmálamenn vinna því að mínu mati þjónustustörf í þágu samfélagsins.  Um leið og þeir hafa verið valdir til starfans verða þeir fulltrúar allra borgaranna.  Allra, ekki bara sem kusu þann flokk sem þeir buðu sig fram fyrir.

Í þeirri vinnu sinni eiga þeir að leita þeirra vankanta samfélagsins sem sníða ætti af.  Þeir eiga að vera jarðtengdir skjólstæðingum sínum og eiga stöðugt að reyna að leita fleiri leiða til að auka ánægju borgaranna og teygja sig nálægt sem flestum sviðum mannlífsins.

Birtingarmynd stjórnmálanna í fréttum að undanförnu sýnir manni trúnað fólks við flokkslínur og stöðuga valdabaráttu sem er fáum einstaklingum til heilla og á kostnað samfélagsins.  Ég hef litla auðmýkt fundið í ummælum flestra stjórnmálamanna eftir skýrslu, þó vissulega séu á því undantekningar, og mér finnst flokkakerfið ætla að berjast hatrammlega fyrir því að þetta flokksræði sé framtíð íslenskra stjórnmála.

Auðvitað þarf stjórnmálaflokka!  En þeir flokkar sem ætla að berjast um mína hylli skulu nú taka upp lýðræðið sjálft og skoðun sína á því.  Mér finnst augljóst að í kjölfar bankahruns hefur orðið stjórnkerfishrun. 

Það hrun tel ég hafa orðið því að stjórnvaldið var komið víðáttulangt frá grunnrótum síns samfélags og alltof margir í stjórnkerfinu hafa skarað eld að eigin köku, eða sinna vina, ættingja eða flokksmanna.  Það heitir í mínum huga misbeiting valds!

Ef við horfum yfir sviðið finnst mér við geta flokkað samfélögin eftir stöðu þeirra, ég tel einsýnt að þeim samfélögum sem verst hafa orðið úti hefur verið stjórnað á þann hátt sem ég lýsi, á meðan að þau sem betur standa hafa borið gæfu til að beita öðrum stjórnunarháttum.

Nútíminn hefur lengi kallað á dreifstjórnun og virkjun fjöldans.  Stjórnmálin verða nú að taka þátt í samfélagi nútímans og flytja valdið út úr flokksstofnunum með eina skoðun í öllum málum og draga til sín víðtækar hugmyndir, skoðanir og vinnubrögð.  Aðeins með því er möguleiki á að almennir borgarar öðlist trú á stjórnmálunum, eða í raun á lýðræðinu! 

Sjáum það t.d. að í síðustu skoðanakönnun voru 40% kjósenda óákveðnir í skoðunum sínum og útlit er fyrir að grínframboð Jóns Gnarr muni höfða til 10 - 15 þúsund kjósenda!  Frekari vísbendinga er ekki þörf.

Krafan verður að vera nýtt lýðræði, þeir flokkar sem átta sig á því að þeir þurfa að breyta leikreglunum innan sinna stofnana í átt til dreifðari ábyrgðar og stjórnunarhátta verða þeir sem ná hylli.

Allavega á mínum bæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband