Beygjurnar í lífinu.

Undanfarin ár hef ég stundum dottið hér inn á þessa bloggsíðu og tjáð mig um þjóðfélagsmál sem og önnur.  Hef staðið sem áhorfandi hjá og fylgst með - stundum skotið inn pælingum og reynt að átta mig á því hvað gengi vel og hvað illa.

Ég hef ekki verið virkur í stjórnmálasamtökum eða flokkum.  Verið flokksbundinn vissulega, staðsett mig hægra megin við miðju í "skilgreiningum" stjórnmálanna.

Hins vegar held ég að ég sé í gegnum lífið búinn að koma mér upp ágætri þekkingu á samfélagi fólks, hvað gengur þar vel og hvað illa.  Fékk gott uppeldi á heimilum sem gerðu kröfur til þess að sýna umburðarlyndi og auðmýkt fyrir fólki og skoðunum þess.  Starfsferillinn hefur verið á vettvangi þar sem allir eru jafnir, en einstakir á sínu sviði og allt þetta býr til sjálfið manns.

Í haust var ég með góðum vinnufélögum mínum í sumarbústað í Húsafelli, sat við kaffiborðið á sunnudegi og hlustaði á Sprengisand á Bylgjunni.  Þar datt inn maður sem lýsti lífssýn sinni í framhaldi af því að hann hafði yfirgefið gamla flokkinn sinn og hefði áhuga á að taka þátt í að búa til annars konar pólitik.  Þetta var Guðmundur Steingrímsson sem var að tjá sig og ég hreifst af því sem hann talaði um.

Ég las það sem hann var að skrifa og ég ákvað að setja mig í samband við hann og lýsa yfir ánægju minni með málflutning hans.  Eftir spjall okkar í milli ákváðum við að hittast sem við gerðum, Helga Lind hundskammaði mig fyrir að mæta á þann fund með mikið hár og óhrjálegur, en sem betur fer kom hann órakaður!  Fyrirhugaður 15 mínútna kaffibolli varð miklu lengra stopp, á milli okkar flugu hugrenningar og endalaus skynsemi, á jákvæðum nótum.  Ég fór heim á nesið mitt og einhver neisti var þarna kveiktur, ég fann mig langaði virkilega að fylgjast með.

Ég heyrði í fólki sem ég þekkti í borgarkerfinu og hleraði hvernig fólk upplifir Besta flokkinn, því þar var jú hópur sem ætlaði sér að mynda hreifinguna með Guðmundi.  Ég var forvitinn að sjá hvernig þeim myndi, "venjulegu ópólitísku fólki", takast að stjórna borgarbákninu sem ég kannast vel við sem starfsmaður þess í 8 ár.  Svörin sem ég fékk voru öll á þann veg að þar færi fólk sem vildi vel og væri að færa pólitíkina úr viðjum venja, sem sumir reyndar kölluðu einfaldlega spillingu og sérhagsmuni.

Svör þessa fólks urðu bara til þess að gera mig forvitnari og áhugasamir, frekari samskipti sömuleiðis urðu svo til þess að ég var allt í einu bara kominn í það verk að koma að formlegri stofnun stjórnmálaafls, á virkan hátt.  Þáði boð um að taka þátt í stjórn flokksins, og fór enn á ný forvitinn á fund.

Sem var bara ferlega skemmtilegur, fólkið sem ég hafði fæst hitt áður var hvert öðru áhugaverðara og allir með þá hugsjón að vinna að því að pólitík verði leyst sem þjónustuhlutverk í þágu samfélagsins alls og staðráðin í að færa sérhagsmuni og spillingu úr framsæti og afur í skott "þjóðarbílsins".

Næstu skref eru bara í mótun, við ætlum að njóta verksins að mynda stjórnmálaafl sem byggir á þessum kjarnagildum og ég hlakka til að fá að kynnast verkefninu og fólkinu enn betur. Það eru örugglega brekkur framundan og maður þarf að læra margt.  Ég t.d. er alveg í skýjunum að heyra það að á bilinu 5 - 6% þjóðarinnar er nú þegar tilbúinn að líta á okkur sem valkost, það áður en við erum í raun farin almennilega af stað - skil ekki alveg þá sem telja það slakan árangur.  Svona er maður kannski bláeygur í þessu bara.

Ég hef enga hugsjón fyrir persónulegum frama í stjórnmálum, heldur lít á þetta sem leið til að reyna að hafa áhrif á umræðuna og þar með samfélagið, vonandi jákvæð. 

Mér var ungum kennt að lykilatriðin í lífinu væru þau að bera virðingu fyrir öllum verkefnum og gera sitt besta í þeim.  Vonandi næ ég að takast á við þetta verkefni út frá þessum meginþáttum.

Pabbi kvaddi mann oft með setningunni - "vertu okkur til sóma" í gamla daga - það ætla ég mér að gera og er ákveðinn í að halda mig við þá grundvallarhugmynd mína að pólitík sé einungis venjulegt verkefni sem þurfi að nálgast á sama hátt og að grafa skurð, kenna dönsku eða stjórna veislu.

Ég ætla alls ekki að falla oní þá gröf að telja það sjálfsagðan hlut fyrir aðra að elta þessar skoðanir minar eða þennan flokk.  Það er ekkert nema gott fólk í öllum flokkum og það er hvers og eins að finna út hvaða flokk hann langar til að kjósa.

Ég er bara glaður að hafa hitt minn flokk.  Hann heitir Björt Framtíð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband