Hvers vegna Björt Framtíð?

Bloggsíðan hans Magga mark hefur þá verið endurvakin.

Vonandi eru ennþá einhverjir að nenna ennþá að lesa hugrenningarnar mínar, en sú fyrsta eftir hlé snýst um þá ákvörðun mína að stíga það skref í mínu lífi að tengjast framboði til kosninga.

Nóta bene, ég er ekki að fara í pólitík, því á þeirri tík hef ég ekki trú. Mig langar að koma að skipulagi á þjónustu þeirri sem Alþingi Íslendinga á að veita borgurum sínum.

Fyrir rúmu ári sat ég á sunnudagsmorgni með góðvinum mínum í Veiðifélagin "Ég verð að fá'ann" í sumarbústað í Húsafelli. Helgin hafði verið ákaflega notaleg og við vorum að drekka kaffi og dorma í morgunsárið. Þá heyrði ég viðtal við Guðmund Steingrímsson sem var þar að ræða sína sýn á stjórnmál og þá fyrirætlan sína að stofna stjórnmálasamtök sem byggðu á sameiningarstjórnmálum og í raun samfélagsþjónustu. Viðtalið hreif mig og næstu vikur las ég og hlustaði eftir skoðunum Guðmundar.

Að því öllu loknu ákvað ég að óska eftir að hitta hann eina helgina sem ég dvaldist í Reykjavík, hann var svo vinsamlegur að samþykkja það og við kláruðum tvær (litlar) kaffikönnur inni á Hótel Borg á meðan við spjölluðum um lífssýn og landið okkar.

Að þeim fundi okkar loknum var ég ákveðinn í því að þarna væri eitthvað að hefjast sem ég vildi fá að taka þátt í. Á næstu mánuðum þróuðust mál með þeim hætti að ég samþykkti að taka sæti í stjórn flokksins sem svo var skírður "Björt Framtíð" og fór á minn fyrsta almenna fund.

Það var frábær upplifun. Þarna var ólíkt en frábært fólk með ólíkar skoðanir og fullt af umburðarlyndi fyrir því. Í framhaldinu var unnið á nútímalegan hátt að myndun stefnuskrár og stjórnmálayfirlýsingar þar sem vandlega var gætt að vinna alltaf á þeim nótum að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og að nálgast hlutverkið á þann hátt að vera að bjóða fram þjónustu.

Og nú hef ég þegið gott boð um að stilla nafni mínu upp fyrir hönd flokksins í kosningunum sem eru framundan í apríl.

Það geri ég því ég er sannfærður um það að sá hópur sem ég tilheyri er ákveðinn í því að lyfta stjórnmálunum upp úr fari pólitíkur og hagsmunapots yfir í það að leitast við að verða verkfæri lýðræðisins og vettvangur venjulegs fólks til að skapa sitt samfélag.

Ég er með þessu alls ekki að tala niður til nokkurs stjórnmálaafls sem inni á leiksviðinu er. Þar er feykimikið af góðu fólki og mér dettur ekki í hug að draga úr vilja þeirra sem vilja kjósa aðra stjórnmálaflokka. Það er mikilvægur þáttur lýðræðisins að fólk kýs þá sem það vill!

En ég vona að það verði töluverður hópur íslenskrar þjóðar sem tekur þátt í vegferðinni okkar hjá Bjartri Framtíð - því það er vel hægt að gera stjórnmálin að samstöðuvettvangi í stað átakavallar.

Það er stóra ástæða fyrir þeirri ákvörðun minni sem varð opinber í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband