Árið 2012 farið og 2013 framundan

Við áramót sest maður oft niður og reynir að gera upp það ár sem hefur nú kvatt, hvernig það lék mann og hvað það skildi eftir sig. Í lífinu eru öll ár merkileg og að mörgu að huga, ég ætla aðeins að skipta þessari upptalningu minni í flokka...

Fjölskyldan

Við fluttum árið 2011 inn í nýja húsið okkar á Helluhól 3 og því er liðið ár að fyrsta heila sem við dvöldum þar.  Húsið varð "okkar" um leið og við fluttum inn, andinn í því er einstaklega góður og í okkar anda LoL.  Sumarið var enda notað í garðinum, sólin og blíðan lék við okkur nærri upp á hvern dag.

Auk þess að liggja í sólbaði bjuggum við okkur til matjurtagarð og fengum fína uppskeru í haust, lærðum ýmislegt sem við ætlum að nýta okkur til stærri verka næsta sumar.

Við ákváðum að fara saman í fjölskyldufrí, fengum íbúðaskipti á Jótland og dvöldumst þar í 10 daga í góðu yfirlæti í kringum verslunarmannahelgina.  Slöppun og slökun í bland við verslanir og skemmtigarða eins og fjölskyldufrí eiga að standa fyrir.

Fórum þó líka þar og hittum "nýju" fjölskyldu elstu systurinnar af Helluhól, en Thelma flutti út til Charlottenlund í nágrenni Köben í júlí eftir að hafa massað stúdentsprófið sitt.  Það var mjög góður dagur og einn sá besti á árinu, enda stelpan heppin með dönsku fjölskylduna sína.

Hennar hefur verið sárt saknað auðvitað, það var sérstök reynsla að upplifa það þegar barn flytur að heiman, þroskandi auðvitað og gott að mörgu leyti, en líka sárt.  Maður fattar hvað maður á lítið í fullorðnum börnum!

En heilsufar almennt gott og fjölskyldulíf í fínum gír.

Skólastjórinn.

Hef sem betur fer verið lánsamur í atvinnulífinu á þann hátt að fá að vinna með frábæru fólki.  Í Grunnskóla Snæfellsbæjar var mikill metnaður allt árið líkt og áður.  

Náðum flestum lykilmarkmiðum í sjálfsmatinu okkar, útskrifuðum skemmtilegan árgang, kvöddum nokkuð marga góða samstarfsmenn í haust en fengum aðra góða í staðinn.  Skólastarfið er stöðugt að öðlast fastari skorður, rekið áfram af metnaði þeirra sem að standa.

Veiðifélag karlpeningsins fékk nafn og er nú orðið formlegra.  Veiðifélagið VAFÁH (Verð að fá hann) hefur enn ekki veitt nokkurn skapaðan hlut og það er vert að hlakka til fagnaðarlátanna sem munu fylgja þeim áfanga.  En nú var þó bleytt í færi!

Formennskan í Skólastjórafélagi Vesturlands var ánægjuleg að vanda, sem og þátttaka í öflugum vinnuhópi SÍ um framtíðaráherslur skólastjórnenda á Íslandi.  Verulega víðfeðm og vönduð vinna sem þroskaði mig talsvert í starfi.  Sem og líka þátttaka í fundi skandinavískra skólastjórnenda í Reykjanesbæ.  Þar var ég einn fimm fulltrúa SÍ og lærði margt.

Fótboltadómarinn

Fékk fleiri störf en venjulega.  Var í góðu formi í vor en lenti í vandræðum undir lok sumars, sem pirruðu mig töluvert.  Hef verulega gaman af þessu starfi, sem heldur mér í nálægð við fótboltavöllinn en sennilega verður nú erfitt að helga sig því á þann hátt að maður fari lengra upp í metorðastiganum.

En þá er bara að halda áfram að vera sá besti sem maður á völ á. Fagna því að nú sé komið lið á ný í Borgarnesi og vonandi gengur vel að stofna kvennalið á Snæfellsnesi, það eykur fjölbreytnina hjá vestlenskum fótboltadómara.

Stjórnmálin

Já svei mér þá.

Ný beygja birtist í formi þátttöku í yfirlýstu stjórnmálastarfi. Hefði ekki trúað því fyrir nokkrum árum að þessi leið yrði farin en smátt og smátt hef ég öðlast trú á því að möguleiki sé á nýrri sýn í pólitíkinni, ábyrgri samstöðupólitík.

Í henni getur maður unnið á uppbyggilegan hátt til þess að auka veg síns eigin samfélags, forðast hagsmunapot, yfirlýsingar og átroðslur.

Sagði semsagt já við Bjartri Framtíð, bara nokkrum sinnum á árinu.

Annað

Stórfjölskyldan hefur haft það gott, Öddi bróðir bætti við stúlku í hópinn sinn og magnað  brúðkaup Drífu og Gunna í Eyjum var klárlega hápunktur í veisluhaldinu, rétt á eftir útskrift Thelmu og 40 ára afmæli Helgu Lindar.  Þær veislur héldum við báðar á Helluhól 3. Ég fékk að útbúa flest veisluföngin, en það áhugamál mitt, eldamennskan, er stöðugt að auka þátt sinn í mínu lífi.

Liverpool og Lakers, mín lið í útlandaíþróttum hafa ekki átt gott ár, en árið 2012 tryggðu Snæfellingadraumarnir í Víkingi Ólafsvík sér sæti í efstu deild sem þýðir að við fáum að sjá leiki gegn öllum stóru liðunum næsta sumar, sem verður geggjað.

Árið 2013

Vonandi jafn farsælt og það sem var að klárast.

Væntanlega munu alþingiskosningarnar í apríl hafa aðra merkingu en þær fyrri í mínu lífi og sá stóri atburður sem maður horfir til nú.

Útskrift Heklu úr grunnskólanum kemur þar fast á eftir og svo er stefnt í afmælisferð með tengdó næsta sumar.

Semsagt, lífið gott og Björt Framtíð framundan!!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt nýtt ár Maggi !

Guðmundur Gauti Sveinsson (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband