Færsluflokkur: Dægurmál
Jæja?
21.1.2009 | 12:47
Hvað er nú?
Bíð spenntur að heyra hvað verður nú uppi á teningnum.
![]() |
Þingfundur fellur niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skúli á réttri nótu þarna.
21.1.2009 | 10:05
Endurnýjun kjarasamninga verður auðvitað hjóm eitt í þeim raunveruleika sem uppi er á Íslandi í dag. Held í raun að allir samningar sem gerðir verða í þessu ástandi falli undir það að verða teknir upp eftir að rykið sest og því er veruleg spurning hvaða púður á að leggja í þessar viðræður.
Og það er rétt hjá Skúla að stjórnvöld landsins eru í þannig ástandi þessa dagana að hægri og vinstri hönd hanga ekki einu sinni á sama líkama, hvað þá að sveiflast í takt og það er erfitt að taka mark á aðkomu þeirra að málinu. Því miður!
![]() |
Aðkoma ríkisins vart marktæk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Utan hringiðunnar eftir vandlega umhugsun.
20.1.2009 | 23:24
Verð að viðurkenna það að nú um sinn hef ég átt frekar erfitt með að tjá mig um ástand mála í samfélaginu okkar.
Þegar ég vaknaði 1.janúar fannst mér svo margt í samfélaginu bera annan tón. Fólk var búið að lifa dökkan október og svartan nóvember. Ákvað svo að halda jól og treysti því að eftir jólin væri ástandið betra held ég. En eftir því sem leið á desember var ljóst að ekkert, ekkert var að breytast.
Svo kom janúar, fólk orðið atvinnulaust eftir uppsagnarfrestina og jólatörnina. VISA reikningarnir bættust á síhækkandi höfuðstóla lána og afborganirnar á þeim tíma hafa alveg örugglega skvett köldu vatni framan í fólk sem trúði því að Ísland væri bezt í heimi og treysti framtíð þess.
Í dag keppast margir við að segja "fólk gat sagt sér þetta sjálft". Ég held að það sé smáatriði í málinu öllu. Öll stoðkerfi samfélagsins brugðust í kór. Venjulegt fólk treysti bara þeim sem það hafði treyst fram að þessu.
Smátt og smátt hefur öllum orðið ljóst það óendanlega siðleysi sem ríkt hefur innan fjármálastofnana samfélagsins, auk þess sem að tengingar við ráðamenn verða sífellt ljósari, hvað þá yfirlýst og augljós lögbrot þeirra í starfi.
Ég ætla ekki að láta eins og ég sé einhver spámaður eða spekingur. Ég tel mig bara hafa heyrt ofan í svo mörgum undanfarna daga vanlíðan og yfirþyrmandi vonleysi. Satt að segja hefur síðustu daga stundum bara þyrmt yfir mann. Fólk á mjög erfitt með að sætta sig við að þjóðin okkar sé eins og stjórnlaust skip í ólgusjó, þar sem tilviljun og geðþótti eru ríkjandi í ákvarðanatöku. Fólk bíður eftir leiðsögn. En fær hana ekki í dag, heldur sundrung og seyru.
En ekkert. Ekkert, ekkert gat þó búið mig undir atburði dagsins. Frá því ég kom heim úr vinnunni minni í dag hef ég bara fundið fyrir mikilli hryggð. Að þurfa að horfa á venjulegt fólk berjast við illa launaða lögreglustétt til að krefjast breytinga og svara er eitthvað sem ég reiknaði ekki með að þurfa að sjá á Íslandi. Í hópi mótmælenda sá ég marga sem ég þekki. Fólk á öllum aldri, úr ólíkum bakgrunni, í mismunandi stjórmálaflokkum. Mörgum hefur verið tíðrætt um Nýja Ísland. Hryggilegt er það ef að það vaknar með baráttu milli almúgans og lögreglu, sem hefur ekkert sér til saka unnið nema að verja máttlítil stjórnvöld.
En hvað finnst manni um atburði dagsins? Þeir eiga sér sögu. Langa. Ég held að í raun sé hægt að fara aftur til Viðeyjarstjórnarinnar og inngöngunni í EES, sem Jón Baldvin náði fram án þess að Davíð "fattaði" almennilega hvað var þar í gangi. Eftir það fannst mér Davíð verða einarður í því að ná fram hagsmunamálum síns Sjálfstæðisflokks, langt til hægri. Losaði sig við Jón Baldvin og sótti sér hægrimanninn sem hafði náð völdum í Framsókn og sótti til hægri. Í sjálfu sér í sögulegu samhengi og ekkert athugavert við það.
En þarna byrjaði ný pólitík. Fyrst meirihlutapólitík. Svo ráðherrapólitík. Þingmenn voru bundnir á bak foringja sinna og sviptir málfrelsinu. Ekkert mátti rugga bátnum. En aðallega, ENGIN af málum minnihlutans skyldu ná fram að ganga. En hverjir voru minnihlutinn? Jú, 40% landsmanna hið minnsta, hugsanlega meira ef við tínum til hægri jafnaðarmennina í Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Fylgjendur og stuðningsmenn fengu lykilstöður í samfélaginu. Og bankana gefins.
Ég var vongóður, og er í raun enn, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði beygður inn í átt að miðju undir stjórn núverandi forystu og margra nýrra ferskra andlita í síðustu alþingiskosningum. En því miður er ekki búið að taka til og hrista fram breytingar í flokknum sem hefðu að mínu mati breytt miklu á síðasta ári.
R-listinn fylgdi í kjölfarið sömu pólitík í Reykjavík. Veit ekki hvort það var til að hefna sín fyrir ríkisstjórnina en nákvæmlega sömu vinnubrögð urðu ríkjandi í borginni. R-listafólk tók ekki mark á stefnumálum minnihlutans og þeirra fólk fékk valdastöður. Farsinn í fyrra sýndi þessa potpólitík best.
Fyrir mig er þetta óskiljanlegt. Ég er í opinberu starfi og starfa fyrir allt samfélagið sem ég bý í. Óháð stjórnmálaskoðunum, litarhafti, kyni, trúarbrögðum eða hvaða liði menn styðja í enska boltanum! Annað væri að mínu mati veruleg afglöp í starfi og forkastanleg framkoma.
Ég lít sömu augum þá þingmenn og ráðamenn sem telja sig ekki vinna fyrir alla í landinu. En ég held að margir atvinnupólitíkusarnir hafi misskilið stöðu sína. Litið á sig sem starfsmenn flokksins síns, eða fjársterkra bakhjarla sinna. Þá þarf að kveðja. Þjóðin á ekki slíka vinnumenn skilið.
En hvað á að gera? Stórt spurt, en eftir síðustu daga held ég að okkur sé öllum morgunljóst að ríkisstjórnin á ekki séns. Ekki nema að hrista verulega, verulega upp í vinnubrögðum sínum, verkaskiptingu og mannafla. Og það þarf að verða á næstu dögum. Er ekkert viss um að það sé nóg, en það er eini sénsinn. Það er ljóst að á meðan Ingibjargar nýtur ekki við er Samfylkingin í tætlum og þingmenn þess flokks nú meira að segja að fara að leggja fram frumvarp án þátttöku ráðherra þeirra!!!
Ríkisstjórn og þing sækir sinn stuðning til þjóðarinnar. Á undanförnum vikum og sérstaklega dögum er að verða ljóst að stríðandi fylkingar eru í landinu og stöðugt er verið að bæta olíu á eld þess sem stíar fólk í sundur. Nú síðast er rætt um ESB og hatrammar samræður splundrast um samfélagið. Ég held að það eina sem lægi þá öldu sem reis í dag verði yfirlýsing um kosningar á árinu, um leið og hreinsað verður til á meðal ráðherra, ég vill að þeim verði fækkað niður í átta og á sama tíma verði vinnubrögð Alþingis endurskoðuð með það að leiðarljósi að það á að vera vettvangur allra skoðana þjóðarinnar.
Ekki bara ráðherra!
Í dag fannst mér ég stundum vera í sögutíma. Ný Sturlungaöld. Þá voru það ættir landsins sem tróðu á almenningnum í valdabaráttu sinni og murkuðu smám saman allt þor úr hinum almenna Íslendingi. Siðleysið réð ríkjum og glæpaalda einkenndi 13.öldina.
Endirinn varð að við sóttum okkur aðstoð að utan, því ljóst var orðið að þjóðin réði ekki fram úr vandanum. Mikið óskaplega vona ég nú að við berum gæfu til þess Íslendingar að sameiningaröfl í samfélaginu nái undirtökum og við verðum aftur ein þjóð. Í dag erum við það ekki alls staðar, og það er alvarlegasta staðreyndin í málinu.
Við verðum að draga úr áhersluna á sundrung, hvort sem við erum að tala um ríkir gegn fátækum, höfuðborgarsvæðið gegn landsbyggðinni, ESB eða ekki eða hvað annað sem skiptir þessari örþjóð okkar í flokka.
Því við skulum ekki halda það að atburðir Sturlungaaldar eða sorgleg endalok þeirrar deilu geti ekki endurtekið sig...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mesta ekki fréttin lengi
16.1.2009 | 20:24
Þetta var vitað, alveg auðvitað.
Svo er að sjá hverjir eiga að leiða flokkinn í þessum viðræðum sem þeir vilja að fari fram. En það er ljóst að margir Framsóknarmenn þurfa að ákveða hvort þeir halda í þann sið að setja X við B.
Sjáum svo til....
![]() |
Framsókn vill sækja um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ja hérna.
10.1.2009 | 22:19
Segir þetta ekki allt um "mesta lýðræðisríki heimsins"?
Ekki það að Obama verður sá forseti þessa ríkis sem hefur störf undir mestri pressu. Litarhaft hans, aldur og bakgrunnur þýðir það að allmargir reikna með viðsnúningi alls sem ríkið tekur sér fyrir hendur. Heima og heiman.
Einhvern veginn er ég hræddur um að það sé of mikil einföldun að halda að hann nái að breyta miklu, alla vega fyrst í stað.
En auðvitað eigum við að vona, manni sýnist maður fyrst eiga að vonast til þess að hann og fjölskyldan komist ósködduð með lest frá heimaborginni sinni til nýja íverustaðarins í Hvíta húsinu...
![]() |
Hættur steðja víða að Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mergurinn málsins.
5.1.2009 | 21:25
Bjarni Benediktsson er þarna held ég að fara að kjarna málsins.
Ég hef ekkert verið upprifinn yfir ESB í gegnum tíðina, fyrst og fremst vegna þess að sambandið hefur enn ekki náð almennilegri fótfestu sem ríki. Því ESB er hugsað sem ríki að mínu mati, byggt á Bandaríkjunum og jafnvel líka í upphafi á hugmyndinni um Sovétríkin, þ.e. mátt samstöðunnar.
Hins vegar er alveg ljóst að á undanförnum árum hefur alltaf orðið ljósara að mannfæð okkar býður upp á gríðarlegan vanda. Þ.e. ef við viljum halda uppi þeim lifnaðarháttum sem hafa ríkt hér upp á síðkastið. Krónan virkar augljóslega ekki. Íslenska samfélagið er örsamfélag á alþjóðavísu og ljóst að þjóðin þarf sterka bandamenn.
Á 13.öld gengu Íslendingar í samband við Noregskonung. Voru búnir að fá sig fullsadda á framkomu hinnar ríku yfirstéttar sem misnotaði almúgann í innbyrðis deilum sínum.
En það var ekki eina ástæðan. Konungsvaldið var samþykkt þegar fréttist að konungur ábyrgðist skipaferðir til Íslands, svo að landið okkar yrði ekki einangrað úti í ballarhafi. Við þurftum þá vin til að aðstoða okkur við að viðhalda lífsháttum á eyjunni okkar.
Í stöðu dagsins í dag væri það algerlega óábyrgasta í stöðunni að spyrja ekki spurninga um aðild að ESB, eða skoða ekki þær leiðir sem okkur gætu staðið þar til boða. Í dag gilda 22 af 35 tilskipunum ESB á Íslandi skilst mér og við þurfum að skoða hinar 13.
Annað væri kotungsháttur að mínu viti, misskilið stolt þess sem segist vera tilbúinn að standa einn gegn ofureflinu. Án þess að átta sig fullkomlega á hvert ofureflið væri. Hvað gerist t.d. ef EES samningurinn yrði ekki endurnýjaður??? Eða að ESB legði innflutningstolla á afurðir okkar til að verja sín lönd í kreppunni sem nú er að dynja á heiminn af fullum þunga???
Það er engin að segja að sjálfgefið sé að samþykkja aðild, en það verður að skoða skilmálana fyrir aðildinni. Ég hef trú á að Bjarni Benediktsson, Geir Haarde og Þorbjörg Katrín vinni þennan slag innan flokksins og að fundinum í janúar loknum verði farið í aðildarviðræður.
Svo kemur að þjóðinni að velja sér leiðina sem hún vill fara...
![]() |
Flokksforystan fái opið umboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gleðilegt ár!
3.1.2009 | 22:22
Gleðilegt ár kæru vinir.
Hlakka til að fá að spjalla um mín hjartans mál á þessari síðu á árinu 2009.
Það ár verður vafalítið eitt það erfiðasta í sögu landsins okkar, en vonandi hefur botninum verið náð og við getum farið að sparka okkur aftur upp, í áttina að yfirborðinu á ný!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Afrakstur endalausrar umræðu um vandamál án tillagna um lausnir?
30.12.2008 | 20:54
Kom mér alls ekki á óvart, var búinn að telja líklegt að þetta yrði niðurstaðan.
Umræðan á Íslandi síðustu mánuði hefur auðvitað verið gríðarlega óvægin, en mér hefur fundist á undanförnum vikum mest standa eftir raddir fólks sem ekki er alveg að átta sig á þeirri stöðu sem ráðamenn okkar eru komnir í, þó vissulega séu þeir nú ekki allir búnir að standa sig vel?
Hvert okkar væri til í að verða þessi saksóknari? Undir endalausu stækkunargleri og algerlega óháð árangri sínu í starfi ætti sér nær eingöngu óvildarmenn!!! Þarf að gefa upp eiginlega allt annað en hvað hann borðar í morgunmat og vera tilbúinn að segja hvern hann þekkir!
Ég allavega myndi ekki sækja svo glatt um! Sérstaklega ekki þegar maður sér myndina sem dregin var upp af saksóknurunum í Baugsmálinu, eða stöðugu níði um Ríkislögreglustjóra.
Ég hef undanfarin kvöld verið að fylgjast með sambloggurum mínum hér og satt að segja horft á þetta land mitt í eilítið öðru ljósi.
Umræðan þarf að fara snúast um lausnir í stað endalausra yfirlýsinga um hvað illa fór. Auðvitað á slík umræða rétt á sér en ég held að við eigum öll að velta fyrir okkur hvort við viljum skipta við þá sem stjórna núna, setja þá í sæti bloggaranna og við förum í þeirra störf.
Laun þingmanns á Íslandi munu ekki valda því að staðið verði í röð svo glatt til að ná því starfi, þannig að hugsjónir þurfa að koma til. Ég held því að það sé ágætt tækifæri fyrir hugsjónafólk að fara nú að velta fyrir sér hvað það hefur fram að færa til að rétta þjóðarskútuna við. Opinber þjónustustörf eru nefnilega oft því marki brennd að allir telja sig geta leyst þau betur en þeir sem þeim sinna. Það viðhorf þurfum við öll að skoða og haga umræðu okkar í samræmi við það!
Annars er algerlega ljóst að þessi vandræðalega staða, það að enginn sæki um starf manns sem átti að gera upp bankahrunið, komi upp aftur og aftur.
Erum við búin að öskra svo hátt að finna þurfi sökudólga að ENGINN telur það eftirsóknarvert að þjóna landinu sínu á svo göfugan hátt? Í stærsta vandamáli í sögu þess!!! Eru dómstólarnir ekki lengur eftirsóknarverðir starfsvettvangar, þar sem að dómstóll götunnar heimtar blóð!?
Þá er illa fyrir okkur komið og ljóst að við erum farin að rotna innan frá.
![]() |
Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gleðileg jól!
25.12.2008 | 21:16
Gleðileg jól öll og gæfuríka framtíð!!!
Aðfangadagur á Selhól var ákaflega vel heppnaður. Stakk af með Helgu Lind í messu klukkan fimm og Thelma og Hekla sáu um klæðnað yngri systra sinna og að halda matseldinni í horfinu. Stundin í kjaftfullri Ingjaldshólskirkju var ákaflega falleg, og hátíðleikinn finnst mér meiri í lítilli kirkju en stórri.
Myrkvuð kirkja og kórinn syngjandi "Heims um ból" með kerti í hendi toppaði messuna og olli hræringi í huga manns, þegar maður hugsaði til vina og vandamanna í fjarlægðinni.
Svo komum við heim og borðuðum humar og hamborgarahrygg áður en pakkaflóðið mikla hófst. Tók alls rúma tvo tíma og við fengum öll mikið fallegt og nytsamlegt!
Svo smám saman færðist ró yfir en við hjúin sátum loks með Thelmu og Heklu og spjölluðum um lífið og tilveruna vel fram á nóttina, ákaflega glöð og sæl með daginn.
Vonandi var svo hjá ykkur öllum líka!
Jólakveðja frá Selhólnum á Hellissandi...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jólasnjór
22.12.2008 | 00:24
Og nóg af honum. Allt hvítt eins og á góðu siglfirsku desemberkveldi.
En svo á víst að breyta um brag og allt verður víst autt á jólunum. Vona ekki!
Skólajólaglaðningurinn gekk vel, held að við Siggi höfum bara verið fínir sósugerðarmenn og skipuleggjarar og karlaherinn staðið vel fyrir sínu!
Svo koma stóru stúlkurnar mínar hingað vestur á morgun og það verður óskaplega gott að fá þær í hópinn, hlakka mikið til Aðfangadagsins með drottningunum mínum öllum á Selhólnum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)