Færsluflokkur: Dægurmál

Verður ógeðslega gaman á laugardagskvöldið!!!

Fyrsta alvöru Eurovisionpartýið síðan Birgitta brá sér erlendis fyrir ALLNOKKRUM árum!

Framlag Íslands kröftugt og flott á sviðinu, og mikið svakalega var gaman að heyra Iceland og sjá nafnið okkar koma upp úr þessum hræðilegu umslögum!!!

Úrslitin í kvöld voru mér mjög að skapi.  Portúgal, Danmörk og Tyrkland, flott lög, áfram og bara eitt sem mér leiddist, það að þetta hallærislega sjóræningjaatriði kæmist áfram og technoreggýið frá Búlgaríu sat eftir.

En þetta fyrirkomulag var að virka vel.  Flott lög í úrslitum og ruslið sat eftir.  Að mestu leyti allavega......

En á Selhól 5 verður grillað snemma laugardagskvöldið 24.maí, snakkið tilbúið rétt fyrir sjö og atkvæðaseðlar heimilisins liggja á borðum ekki seinna en 18:47.

Áfram Ísland!


mbl.is Ísland áfram í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Barnaverndarmálum.

Hlustaði á Kastljósið í kvöld og heyrði sorglega sögu ættingja fíkils sem í raun tók sitt eigið líf frá sonum sínum.

Í frásögninni kom sterkt viðhorf fram frá ættingjanum að þagmælska fagaðila og alltof sterkur foreldraréttur hafi verið stóri harmleikurinn í þessu máli.

Þekki til svona mála í gegnum starf mitt og oft og mörgum sinnum horft upp á vanmátt þeirra sem fylgjast með börnum sem búa við erfiðar aðstæður.  Okkar litla íslenska samfélag á mjög erfitt með að valda því erfiða hlutverki sem barnaverndarnefndir eiga að sinna.  Úrræðin eru sárafá.  Og fækkar.

Ekki er langt síðan aðalfréttin var að loka ætti þremur áfangaheimilum fyrir börn og unglinga.  Hryllilegar sögur frá Breiðuvík og öðrum áfangaheimilum á vafalítið þátt í því að fáir bera hönd fyrir höfuð slíkra úrræða.  En vandinn hverfur ekki með lokunum slíkra stofnana.  Drengir þessarar þá fárveiku, og nú látnu stúlku, eru bara tveir margra barna sem búa við afar erfiðar aðstæður í landinu okkar.

Barnaverndarnefndir eru ekki í dag eftirlitsnefndir sem svipta forræði og senda börn frá foreldrum heldur fyrst og fremst aðilar sem ætlað er að styðja fjölskyldur í vanda að vinna á honum sjálfar.  Af því að samfélag okkar vildi það og breytti þessum áherslum.

Að sama skapi hafa fagaðilar fengið þær skipanir að sýna skjólstæðingum sínum trúnað, fullan, í raun án tillits til stöðu þeirra eða veikinda.

Ég held að það sé varhugaverð stefna að loka stofnunum í samfélaginu sem aðstoða þau okkar sem í mestum vanda eiga.  Sorglegar sögur skjólstæðinga Byrgisins sem margir hverjir eru nú hústökufólk í Reykjavík mega ekki verða sögur barna og unglinga sem eiga ekki hentugan samastað þegar áfangaheimilum er lokað.

Krafa um fagleg vinnubrögð þegar okkar veikustu meðborgarar eiga í hlut er það sem á að heyrast og fjármagn til slíkra úrræða þarf að verða þannig að hæfileikafólk taki að sér störf í þeirra þágu.

Við eigum ekki að gagnrýna einstaklingana sem vinna að slíkum málum, heldur rýna í heildarmyndina og skoða hvaða úrræði nýtast best.

Annars mun að mínu mati sorgarsögum eins og við heyrðum í Kastljósi í kvöld fjölga........


Munur að vakna á morgnana!

Vá hvað það er nú miklu skemmtilegra að koma fram á svona morgni eins og í morgun!

Hægur andvari að austan, sólarglæta annað slagið og smám saman verður græni liturinn meira ríkjandi.  Hugmyndin að fara að ræsa sláttuvélina fljótlega til snyrtingar Selhólsblettarins.

Gatan iðar af lífi flesta daga.  Töldum börnin í götunni hér við kaffiborðið nýlega.  Þegar Jói og Júna flytja inn nú seinni part sumars verða í götunni 16 börn á aldrinum 0 - 12 ára.  Spáið nú aðeins í það!  Hjólreiðar, krítarmálverk, teboð í garðhúsum og klassískir mömmuleikir fjörið hér!

Gaman að vera barn á Selhólnum.  Það fer ekki á milli mála, og þá er líka svo gaman að vera pabbi í götunni.


Ný músík

Þeir sem mig þekkja vita það að ég er tónlistarfíkill.  Vinn best með eyrnatól í góðu dúndri, slaka best á með góða músík, syng í baði og get ekki verið án tónlistar í bílnum.

Datt í músíkkaup núna nýlega.  Keypti Josh Groban, Eurovision 2008 og Natöshu Bedingfield.  Segir kannski allt um mig og hversu ólík músíkin má vera.  Glaður með alla þessa diska, verulega ólíkir, Josh í bílnum og þegar maður vill slaka á í angurværðinni.  Bedingfield stuðari með verulega ryþmíska músík og skemmtilega rödd. 

Eurovision er náttúrulega möst fyrir mig! Nóg sagt.  Fíla í dag nokkur lög bara vel og einhver verða með í Eurovision úrvalinu mínu.  Meira að segja Portúgal þetta árið.  Loksins!!!  Gleymi seint þegar Hekla mín var lítil og kom til mín til að spyrja hvort hún þyrfti að halda með Portúgal fyrir ömmu og Lucy, hreinlega átti erfitt með það sökum þess að lagið var ekki sigurstranglegt frá ömmulandinu.  Ég veitti leyfið þá góðfúslega, en nú fíla ég sjávarkonuna! (Senhora do Mar).

Held samt að Svíþjóð, Úkraína og Írland um titilinn......

En svo fékk ég smjörþefinn af nýja Coldplaydisknum frá félaga mínum.  Viva la Vida.  Ég hlakka verulega til, Coldplay er að verða mín uppáhaldshljómsveit.  Músíkin þeirra gengur alls staðar og er á köflum óraunverulega flott.

Ekki skemmir fyrir ánægjuleg upplifun með henni Helgu minni á tónleikunum þeirra í Laugardalshöll forðum.  Að sjá Chris Martin syngja jólalögin einn við píanóið var ógleymanlegt.

En semsagt, mikið til af skemmtilegri músík nú sem endranær!!!

 


Var þetta ástæða þess að við vildum lýðræði?

Til að lasinn maður með 1,8% fylgi (nær örugglega enn minna í dag eftir vandræðalega slaka framgöngu hans í Jakobsmálinu) stjórni einu borginni okkar Íslendinga, og stærsta fyrirtæki landsins?

Það er örugglega einsdæmi í alheiminum!

Ef Gísli og Hanna snúa þessu dæmi ekki við mun þeirra pólitíska framtíð verða ENGIN!!!!  Sitja þögul og til baka, leyfa bullinu að ráða í borginni, bara til að vera í meirihluta!  Sitja í skjóli pólitískt dáinna manna og munu bráðlega smitast af þeirri veiki!

Hef haft mikla, mjög mikla, trú á þeim báðum en nú er stór efi í mínum kolli.

Svei mér þá, þeim er að takast að fylkja borginni um Dag B. Eggertsson! Það hefði nú fáum tekist miðað við framgöngu hans í síðustu kosningum............


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fréttum er þetta helst.....

Ruglið í Reykjavík part 17.  Nenni ekki að eyða orðum á það.

Hræðilegt slys í Mianmar.  Virðist mikill harmleikur, sem við ekki áttum okkur almennilega á enn.

Sorgleg örlög drengs að ráðast inn í banka í Hafnarfirðinum.

En aðalfréttin er auðvitað að næsti danski ríkisarfinn kom á Snæfellsnes í dag.  Fór í Hólminn og svo í Eyjasiglingu, nokkuð sem ég á enn eftir, en styttist í að ég fari í.

Stöð 2 kom með hræðilega fréttaskýringu af strákanga sem kom með ósmekklegan brandara/spurningu til Friðriks um draumfarir.  Mikið ofboðslega fannst mér fréttamat Stöðvar 2 koma þarna fram.  Þegar maður sá Gísla kallinn á RÚV sýna myndir af brosandi fullorðnum, hreinum og fallegum börnum, hraustum sjóurum og háhyrningavöðu til heiðurs hjónunum var ég svo feginn að RÚV er enn til.  Er það frétt að strákangi tapi húmornum og reyni að ná athygli með smá fordómum?  Greinilega hjá Stöð 2!

SKAMM.

En gott að sjá að komandi kóngur og forsetinn okkar nutu heimsóknarinnar á Nesið fagra!


Alls konar blogg!

Ferðum mínum á samninganefndarfundi lauk í bili á miðvikudaginn.  Þá var skrifað undir samning fyrir Skólastjórafélag Íslands í herbúðum Ríkissáttasemjara.  Samningurinn held ég að sé viðunandi, þó ég sé í þeim hópi skólastjóra sem minnst fá út úr honum þá eru þar atriði sem munu nýtast mér í ekki svo fjarlægri framtíð.  Að auki fengum við ágætan samning síðast og nú var lykillinn að hækka lægstu stjórnendalaunin, sem tókst vel.

Var skemmtileg reynsla, vonandi fæ ég að taka aftur þátt í svona vinnu, kannski enn meira "hands on" heldur en hingað til!

En á miðvikudagskvöldið var ég nú samt ansi lúinn á ferðalögunum á milli, enda við Helga líka búin að vera dugleg að heimsækja Reykjavík að undanförnu.  Nú er komið að því að slaka aðeins á í því flakkinu, enda styttist óðum í sumarið og maður þarf vissulega að fara að undirbúa sig undir sumarflakkið og því þarf maður ferðahvíld.  Við Helga ætlum að vera á Akureyri 4. - 10.júlí, vera á Sandaragleðinni helgina 11. - 13. júlí og svo á að reyna að fara austur og stoppa þar í góðan tíma.  Rúlla aðeins um firðina og Héraðið góða.  Útlönd hvíld, allavega fram á haustið.

Svo vona ég reyndar að ég fái svolítið af dómarastörfum hjá KSÍ, finnst það þrælgaman og heldur mér í tengslum við boltann góða. 

En auðvitað ætlum við mest að njóta sumarsins á Sandinum góða!


Skref í rétta átt!

Fyrst og fremst það að menn hafi náð að landa samningi vandræðalaust og án stórátaka.  Það geta allir aðilar verið stoltir af.

Í dag var hins vegar fyrst og fremst staðfest launaleiðrétting til handa grunnskólakennurum sem vissulega höfðu dregist afturúr samanburðarhópum og varð að laga strax.

Nú er bara að vona að næstu 12 mánuði nái menn að stíga enn stærri skref í átt til þess að meta kennarastarfið að verðleikum!


mbl.is Laun grunnskólakennara hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ganga mótmæli of langt?

Búinn að hafa beina útsendingu frá Reykjavík á bakvið mig í vinnunni í dag.

Súrrealískar myndir hópmótmæla sem byrjuðu sem rifrildi, urðu svo af slagsmálum milli lögreglu og mótmælenda.  Svo hefur múgæsingin stigmagnast og sífellt færri vörubílstjórar eftir í hópnum en ungt fólk, allt að því börn stöðugt orðið stærra hlutfall "mótmælenda".

Mér finnst margt sorglegt.  Sorglegt að sjá að allt er komið úr böndum.  Lögreglan bregst harkalega við og þá líta þeir illa út, kannski auðvitað.  Vörubílstjórarnir eru allavega komnir að mörkum þess að viðhafa eðlileg mótmæli.  Skil ekki hvers vegna þeir eru að loka stofnbrautum inn og út úr Reykjavík, sem er fyrst og fremst árás á hinn almenna borgara á leið í og úr vinnu eða skóla.

Sérlega finnst mér þó leiðinlegt ef að þessar aðgerðir breytast nú í ofbeldisfull slagsmál og erfitt verði að verja þær.  Ég allavega vildi ekki sjá hana dóttur mína á 16.aldursári með félögunum að henda eggjum í lögguna eða í bíl sem sturtar mold eða mykju á götur.  Ekki það að hún sé í hættu en þessir unglingar í dag eiga foreldra líka.

Það er alveg ljóst að hart mun mæta hörðu og því miður er ég sannfærður um að fleiri saklitlir eða saklausir lendi þá í skotlínu deilenda við lögreglu. 

Næstu daga mun eitthvað gerast, vonandi í rétta átt.


Sáttur!

Yndislega hallærislegt, stuð og stemming, glimmer og gleði.

Burtséð frá öllu öðru lít ég á Eurovision sem svona útgáfu.  Hressilegt danspopp sem mun ekki valda byltingu í tónlistarsögunni en verða gaman að hlusta á og ekki væri nú leiðinlegra að fá einhver stig og eiga nú aftur möguleika á "alvöru" Eurovisionkvöldi, ekki bara undankeppni.

En mér fannst þetta skemmtilegt og sniðug hugmynd að nota nova.is!


mbl.is Tugir þúsunda skoða Eurovisionmyndband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband