Færsluflokkur: Dægurmál
Af leyndardómum fámennisins....
2.9.2008 | 17:10
Eins og ég hef áður nefnt varð afi minn níræður þann 13.ágúst.
Karlinn er þrælhress og ákveðið var að fara með honum í siglingu um uppeldisstöðvar hans og fyrri siglingaleiðir frá Árneshrepp og norður undir Hornbjarg.
Þegar dagurinn heilsaði okkur var veðrið svo argandi glæsilegt að hægt var að sigla enn lengra, alla leið inn í Hornvík þar sem ég náði að grenja það út að fá að stíga á land. Stóð í mannhæðarháu hvannarbeði á þessum glæsilega stað.
Siglingin frá Norðurfirði og í Hornvík var það stórkostleg upplifun að henni verður vart lýst, og alls ekki bara með orðum. Ég treysti því að Öddi bróðir nái að taka saman myndapakka núna eftir að hann lýkur giftingunni sinni (á laugardaginn) þannig að ég geti aðeins spjallað um siglinguna.
En það sem mig langar aðeins að velta fyrir mér tengist fyrirsögninni. Leyndardómar fámennisins. Hvers virði er það okkur sem þjóð að eiga einstaklinga sem þrífast í fámenninu eins og á Ströndum. Ég ætla ekki að draga okkur upp hér á Snæfellsnesinu sem fámenninga, en hef velt því fyrir mér hvað margt færi ef að í hugum nokkurra tuga, í mesta lagi hundruða, landa okkar sem dytta að heilu svæðunum. Ekki bara með því að gera upp hús heldur líka búa til atvinnutækifæri og þjónustu á stöðum svo langt úr alfaraleið.
Að sitja í salnum á Hótel Djúpuvík, eða hjá húsbændunum í Reykjarfirði nyrðri er ákveðin gjöf. Óli Stefáns talaði um hversu mikil gjöf það væri að vera Íslendingur, það styð ég og er sammála.
Ég held að við Íslendingar verðum alltaf ein stærsta fámennisþjóð heimsins. Vissulega höfum við í gegnum aldirnar farið utan og barið okkur á brjóst en okkar helsti styrkur, og kannski líka um leið veikleiki, er að við erum leyndardómsfull þjóð. Það sprettur ekki í viðskiptunum, eða landvinningum íþróttafólks eða annarra menningartákna.
Það er fámennið á þessari eyju við ysta haf sem vekur leyndardóminn. Við skulum því virkja hann, alveg niður í hvern einstakling!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Við skemmtum okkur enn! En þau??????
1.9.2008 | 00:09
Er búinn að fara á þessa ágætu mynd. Vissulega dróg Helga Lind mig á hana, en ég hef reyndar alltaf haft gaman af svona áhyggjulausum vellumyndum, sérstaklega ef það er nú smá stuð í þeim!
Samdi auðvitað söngleik byggðan á nostalgíumúsík og því fannst mér bara skemmtilegt. Myndatakan gríðarlega falleg og maður brosti allavega út í annað alla myndina. Hló inn á milli, ekki síður af t.d. innilegum, en laglitlum eða lausum, söng aðalleikaranna. Sér í lagi Brosnan!
En tvennt hefur vakið mig til umhugsunar. Fyrst heyrði ég gagnrýni um myndina á Rás 2. Gagnrýnandinn lýsti henni mjög jákvætt, fann bara ekkert að henni, en gaf svo þrjár stjörnur. Allt ókei. Eða ??? Gestur Einar Jónasson var með þáttinn og spurði strax, "ekki meira?" Bætti svo við; "En þér fannst allt gott við myndina og ekkert að, út af hverju ekki fjórar eða fimm"?
Gagnrýnandinn hikstaði verulega og sagði að þarna væri ekki stórvirki á ferð. Gestur skaut þá meinfýsið; "Voru kannski ekki nógu margir drepnir, eða þá ekki drepnir á nógu hrottalegan átt, eða kannski ekki borðaðir"...... Auðvitað fattaði þá gagnrýnandinn skotið og þeir voru svona aðeins að bítast um þetta.
Ég var eiginlega í liði með Gesti. Mynd sem fyllir Háskólabíó af syngjandi fólki oftar en einu sinni og nú um 90 þúsund manns eru búnir að sjá hlýtur að vera toppdæmi. Ég hef enn ekki séð "Með allt á hreinu" toppað á íslenskum markaði, þrátt fyrir "Börn náttúrunnar", eða aðrar myndir.
Bíó finnst mér eiga að vera skemmtun. Og miðað við þessa frétt skemmtum við okkur enn í ABBA nostalgíunni. Þó hún sé orðin margtugginn klisja......
Og miðað við nýlegar fréttir er ekki mikil hamingja eftir hjá ABBA flokknum. Þau helst hittast ekki og það virðist líklegra að Bítlarnir troði "orginal" upp á Wembley heldur en að þessir sænsku fjórmenningar stigi aftur saman á svið. Miðað við lýsingarnar var vináttan löngu dauð í lok hljómsveitarinnar og fádæmi frægðarinnar búin að leika allavega söngkonurnar það illa að þær urðu að leita sér aðstoðar.
Þannig að kannski hefðu þær bara ekki fílað að vera í salnum í Háskólabíói í kvöld að syngja um Peninga, Peninga, Peninga eða Dansdrottninguna.........
![]() |
Mamma Mía! þvílíkur fjöldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að löngu hléi loknu!
30.8.2008 | 15:05
Fyrst.
Lofa að styttra verður í næstu færslu.
Ferðalaginu norður á Strandir er vart lýst í orðum, vonast eftir myndum fljótlega til að sýna ykkur dýrðina, allavega hluta, þá sem ég upplifði með ættingjum og vinum í Árneshrepp og á siglingu norður fyrir Horn. Frábært!
Til hamingju ÍR og Laugi. Frábært að liðið er úr kjallaranum og eftir úrslit okkar Víkinga í gær er ljóst að Víkingur - ÍR er stóri leikurinn minn á næsta tímabili. Auðvitað er líklegt að það verði líka flott að sjá Víking - Akranes en við skulum bíða eftir því að það verði staðfest.
Annars er bara búið að vera mjög mikið að gera, en þeirri törn er að ljúka, þannig að ég er staðráðinn að verða duglegri í blogginu. Margt liggur á hjartanu, sem að eitthvað af dettur hér inn á næstu dögum.
Heyrumst!!!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komið fram í ágúst
9.8.2008 | 09:10
Og orðið ljóst að þetta sumar er orðið það besta í mínu minni. Þvílík dýrð!
Búin ein vinnuvika þar sem stjórnendur og almennt starfsfólk hefur verið við störf. Skipulagning og útgáfustörf það sem er í gangi þessa dagana. Svo í næstu vika eru það námskeið og fundir. Alltaf gaman að byrja aftur í vinnunni auðvitað.
En í næstu viku ætla ég að leggja í smá ferð. Afi minn verður níræður 13.ágúst og frændur mínir Mángi og Jonni hafa í samfloti við hann skipulagt siglingu norður á Ströndum honum til heiðurs. Sigla á frá Norðurfirði og á Hornstrandir. Ef veður er gott og við í stuði á að keyra allt að Horni. Með viðkomu í Reykjarfirði nyrðri.
Við litli bróðir keyrum norður á þriðjudagskvöld eftir vinnu og svo heim aftur á fimmtudag. Verður fínn endir á frábæru sumarfríi! Hlakka mikið til að koma aftur í Árneshrepp, ætla að fara á kaffihúsið í Norðurfirði og í sund í Krossneslaug. Alveg á hreinu!
Stúlkurnar mínar lentar aftur á Íslandi eftir vel heppnaða heimsókn til Portúgal. Sýnist allir aðilar vera mjög ánægðir, mamma, ég og þær. Ljóst að vináttuböndin hafa styrkst verulega, auk þess auðvitað sem hollur brúnn litur liggur nú á húð þeirra. Ekki það að svoleiðis er nú örugglega um okkur öll á blíðulandinu....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Maður reynir að lifa af blíðuna!
31.7.2008 | 09:11
Þvílíkt sumar.
Maður bara nærri því gleymir ofsarokunum og skafrenningi vetrarins. En ekki alveg.......
EN nú er komið að því að ég þarf að reyna að lifa af blíðuna. Hef verið í vinnu hluta úr degi alla síðustu viku og í næstu viku er komið að 8 - 16 dögum á skrifstofunni minni góðu í Ólafsvík. Ekki það að maður hefur verið duglegur að sækja sér sól á Sandinum og víðar, og því kannski bara allt í lagi að vera í svalanum á Ennisbraut 11 um sinn.
En fyrst er þó Verslunarmannahelgin. Eftir flandur sumarsins verður kjarnafjölskyldan á Hellissandi og tekur á móti góðum vinum. Miðað við veðurspá verður mikið um margs konar útiveru og væntanlega mikið af góðum grillmat með meðlæti.
Thelma og Hekla eyða svo helginni í Portúgal hjá ömmu Sollu. Þær fóru út 24.júlí og hafa nú verið þar í rétta viku, koma heim eftir aðra. Af fréttum af þeim að dæma gengur allt glimrandi vell þarna úti og afslöppuð gleði við völd.
Eins og á Ísa-Heitu-Landi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Blogg í lok júlí
24.7.2008 | 10:55
Hæ.
Mikið stuð og ég of latur að blogga.
Fyrst að nefna er Sandaragleðin 2008. Við hér breyttum nafni götunnar okkar í Anfield Road og skreytingar og stemming götunnar stillt í samræmi við það, rautt gegnumgangandi og leikmenn götunnar kynntir til sögunnar. Ekki má svo gleyma stóru ákvörðununum, við keyptum partýtjöld sem reyndar fuku og skemmdust fyrir hátíð, en líka barmmerki sem náðu mikilli athygli. Á þeim stóð einfaldlega "Ég bý á Anfield Road" og við transportuðum um hátíðina merkt með barmmerkinu!
Hátíðin var eins og allt á Hellissandi, afslappað, þægilegt og skemmtilegt. Engin óþarfa læti eða vesen, jafnvel þó fyrsta alvöru rok sumarsins hafi dunið á okkur á laugardeginum! Í stað partýtjaldanna lagði gatan undir sig bílskúr Jóa og Júnu og þar var stuð, mikið borðað og dúettinn Maggi og Diddi duttu í stuðið, Diddi á gítarnum og ég á bongóinu! Ég labbaði svo aðeins á aðalballið á skemmtuninni, í TROÐfulla Röstina, en labbaði nú reyndar líka fljótlega heim. Maður svo settlegur....
Eftir fína rólegheitaviku þar sem Öddi og Harpa komu til okkar á miðvikudeginum til að rúnta um þjóðgarðinn stormuðum við svo suður í bústaðinn til tengdó, á Drumboddsstöðum í Biskupstungum. Þar hefur Ölli verið að stækka bústaðinn verulega og við áttum þar mjög þægilega helgi, þar til að við fórum í borgina á sunnudeginum.
Þar fórum við Stjáni á jarðarför Skagadraums Gauja Þórðar, áður en við fengum Lauga til okkar og við tókum góðan þjálfarafund í Hrísmóum 7 fram eftir aðfaranótt mánudags. Við versluðum svo aðeins á mánu- og þriðjudag, kíktum á afa og ömmu áður en við svo fórum aftur heim á Hellissand á þriðjudeginum.
Sæla að vera kominn heim auðvitað, en núna þarf ég líka að fara að standa aðeins í vinnustuði, enda stutt fram að fyrsta opinbera vinnudegi okkar stjórnendanna.
En fyrst á auðvitað að njóta heimilisins og þess sem það gefur. Í bunkum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Komin heim á Sandaragleði!
12.7.2008 | 09:06
Komum heim seint á fimmtudagskvöld eftir flotta heimsókn á Norðurlandið. Akureyri jafn fín og alltaf, reyndar frekar sólarlaus, en hlý.
Fórum í sund hvern dag og ferðuðumst lítillega um svæðið. Misstum af Sauðanesi, því fjölskyldan þar dreif sig í sumarfrí, en svo hittum við þau fyrir tilviljun í jarðböðunum við Mývatn. Þvílíkur dýrðarstaður sem þau böð eru! Fengum reyndar glæsilegt veður, 23ja stiga hita og sól en aðstaðan og lónið. Vá!!!
Húðin mín elskaði lónið og ég er því ekki rauður og flaksandi í andlitinu af exemi, konan með ungbarnahúð, enda ung, og almenn glimjandi hamingja.
Dýragarður við Dalvík, matarboð hjá Möggu og fjósaheimsókn á Neðri-Dálkstaði, grillað á pallinum og Greifapizza.
Hvað þá Pollamót Þórs. Við KS-ingar vorum klárlega eitt af spútnikliðum keppninnar! Enduðum í 8 liða úrslitum og vorum virkilegir klaufar að klára ekki þann leik. Ekki það að við gætum mikið meir, vorum þá bara sjö leikmenn eftir, án skiptimanna! En mig langar að þakka Bjarka, Stjána, Örvari, Víði, Jón Heimi, Magga Erlings, Eika og Steingrími fyrir frábæra helgi. Verðum bara betri á næsta ári!
En nú er það Sandaragleði, fréttir af henni á morgun!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áfram KS!
3.7.2008 | 12:07
Þá er komið að því.
Fjölskyldan að pakka í bílinn. Ekki seinna en kl. 16:00 mun Hyundai rútan leggja í hann og storma til Akureyrar!!!! Pabbi, mamma, börn og bíll.
Pollamót Þórs fyrsta verkefnið, þá dómgæsla á Grenivík, þá Sauðanesrúntur, þá grill hjá Möggu.
Inn í þetta á að flétta heimsóknir að Neðri-Dálkstöðum og í Lundinn hjá Hörpu og Vidda, ótal sundferðir og nokkrir Brynjuísar!!!!
Þvílík uppskrift að hamingju!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Flottu evrópumóti lokið!
30.6.2008 | 09:27
Góður endir á glæsilegu móti. Spánn sigrar og besti framherji heims sýnir það enn og aftur að hann er engum, alls engum, líkur.
Hélt auðvitað með Portúgal líka, en Spánn á Liverpooltaugina og því var stórt bros á Selhólnum í gær að leik loknum, þó auðvitað vorum við lágstemmd því húsmóðirin á jú sterka taug til Þýskalands og er að verða of vön því að sjá þá ekki vinna titil. Kannski þeir geri það bara á næsta HM, ekki kæmi það mér á óvart!
En mér finnst þetta mót það besta í sögu Evrópumótanna, slá út EM '92 þar sem Danir unnu. Þarna var ekkert sem skyggði á og bara nærri því allir leikirnir skemmtilegir, vellirnir flottir og stemmingin góð. Dómararnir áttu gott mót og umfjöllun RÚV var frábær lengstum, einungis einn og einn þulur sem pirraði mann, en í heildina gott.
Vona að þeir sem pirruðu sig á öllum boltanum eigi nú góða daga og kvöld, því við hin munum sakna boltans á skjánum. Íþróttakeppnir sem ná slíkum hæðum eins og þessi valda auðvitað líka smá titringi hjá þeim sem sakna Leiðarljóss og vilja fá fréttirnar á réttum tíma, kannski er bara kominn tími á nýja íþróttarás sem myndi taka á svona mótum. Hver veit.
En vonandi á maður eftir að upplifa svona mót í eigin persónu. Barneignir 2004 kom í veg fyrir EM á heimavelli mömmu og þjálfun stoppaði okkur að heimsækja Þýskaland undir öflugri fararstjórn Helgu 2006. Ég ætla ekki til Suður-Afríku, en hver veit hvað verður eftir það......
![]() |
Spánn Evrópumeistari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sumarið í algleymi!
23.6.2008 | 13:02
Var dásamleg helgi á Hellissandi. Meira að segja logn!!!
Ekki annað hægt en að grilla og nú þegar fjölskyldan telur sex í stað fjögurra gengur hratt á forðabúr fjölskyldunnar. Vígðum nýju garðhúsgögnin og borðuðum úti föstu-, laugar- og sunnudag. Í sól og blíðu, verulega indælt.
Thelma byrjaði að vinna á Hótel Hellissandi á laugardaginn, sér þar um þrif á herbergjum aðallega, svo væntanlega lærir hún þar að hugsa vel um sitt herbergi!!! Sýnist hún bara nokkuð dugleg og samviskusöm varðandi vinnuna sína. Það er ég ánægður með.
En framundan er bara slökun, vonandi lýk ég nú "daglegu amstri" á skrifstofunni í þessari viku, þó ég þurfi eitthvað að fylgjast með framkvæmdum eftir það. Svo er bara að anda rólega út júní og rífa sig svo til Akureyrar í upphafi júlí. Pabbi ætlar að lána okkur "rútuna" sína, svo maður er að upplifa það að fara með stórfjölskylduna á rúntinn.
Væntanlega stuð!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)