Færsluflokkur: Dægurmál

Argandi gæði!

Maður bara getur ekki annað en hrifist með þessu rússneska liði.

Litu ekki illa út í fyrsta leiknum og fóru svo hægt og rólega í gegnum Grikkina.  Þegar snillingurinn Arshavin var svo mættur úr banni afþýddu þeir kalda Svía og í kvöld voru hollenskir tréklossar tálgaðir í hatta til að skreyta babúskur!

Agi, skipulag og leiftrandi sóknarleikur, leikmenn sem vinna sem heild og kyssa og knúsa, búninginn sinn og hver annan.  Svo miðað við aldur er þetta lið sem á enn nokkur ár eftir í að toppa sig!

Að baki er galdramaðurinn Guus Hiddink sem kannski nær með þessu liði í titil og tekur þá kórónuna sem besti landsliðsþjálfari sögunnar - allavega að mínu mati.

Á morgun vona ég að skemmtunin haldi áfram á þessu ótrúlega knattspyrnumóti!


mbl.is Rússar í undanúrslit eftir sigur á Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins gott að eiga góðan göngustaf!

Allavega ef maður ætlar að labba Strandirnar!

Alveg með ólíkindum að svona heimsóknir beri upp með svona stuttu millibili.  Bjössar og bangsar dúkkandi upp eru ekki hugguleg tilhugsun og ljóst að margir á norðurhluta landsins munu líta vel í kringum sig.

Spurning hverjir leggja á göngu- og veiðiferðir fjarri mannabyggðum og utan GSM sambands?

Ég allavega færi með almennilegan staf í slíka ferð, með hvössum oddi!!!

 


mbl.is Ísbjarna leitað úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með daginn mamma!

Ójá.   Lítið grín í þessu, í gær varð pabbi 55 ára og í dag verður mamma 57 ára.

Þessa dagana er hún mamma mín að gera sig tilbúna í að halda út til Portúgal, a.m.k. fram í september og jafnvel lengur.

Ég veit að ég er eigingjarn þegar ég segi það að veikindi hennar og meðferð við þeim síðustu 2 ár hafa gert samskiptum okkar mömmu svo gott.  Búseta hennar í Portúgal lengst af frá '94 - 2006 drógu auðvitað úr þeim, þó gagnkvæm ást, virðing og vinátta okkar hafi alltaf verið til staðar.

Í dag þegar mamma fer út erum við enn meiri vinir, við höfum fengið tækifæri til að kynnast aftur í návígi og stelpurnar mínar þekkja nú allar hliðar á ömmu Sollu.  Hvað sem verður í framtíðinni er ég viss um að þessi tími að undanförnu skilur mikið eftir sig og byggir upp framtíðina.

Í gamla daga var auðvelt að vera strákurinn hennar mömmu, hún stundum ofdekraði mann, en það átti örugglega við líka, en hún var líka ákveðin þegar þess þurfti og ég vona að hún hafi verið ánægð með mig í gegnum tíðina!

Til hamingju með lukkudaginn þinn mamma, þrátt fyrir allar áhyggjurnar að undanförnu þakka ég guði fyrir þær samverustundir sem hafa verið svo góðar hér á Íslandi, og er viss um að þær verða ótalmargar í framtíðinni.

Hvar í heimi sem við verðum!


Til hamingju með daginn pabbi!

Í dag, 15.júní verður hann pabbi minn 55 ára!

Öðlingurinn Örn Ragnarsson telur þetta bara "semí" hátíðlegt og ætlar mér vitanlega ekki að vera með stórpartý í Hafnarfirðinum.

En ég vill óska honum til hamingju með lukkudaginn sinn og um leið þakka honum.  Hann pabbi minn hefur kennt mér svo mikið af því mikilvæga í lífinu og hefur verið mín stóra fyrirmynd í leik og starfi.

Að ekki sé á það minnst að á mínum erfiðustu stundum í lífinu hef ég alltaf átt stuðning hans vísan.  Skilyrðislausan.

Til hamingju aftur pabbi minn, spes fyrir þig, þakka ég guði fyrir að eiga þig að!


Reykjavíkurflakk að róast.

Reykjavík hefur verið vinsæll áfangastaður fjölskyldunnar að undanförnu.  Thelma Rut nú útskrifuð úr "Gaggó Mos", það var fyrsta tiltölulega langa ferðin, sem var auðvitað mjög skemmtileg.  Hún bíður nú spennt eftir því að sjá hvort Kvennaskólinn í Reykjavík samþykkir umsókn hennar.  Við bíðum auðvitað öll spennt!

Svo hef ég verið að dæma fyrir sunnan og við notuðum tækifærið og tókum hele familien með, svona til að vísitera fjölskyldu, vini og verslanir.

Við komum heim í gærkvöldi og nú ætlum við að fara að einbeita okkur að Snæfellsnesinu.  Fyrst á að fara í endurskipulagningu húsnæðis og skemmtilegar tiltektir, svona til að allt verði í standi þegar Thelma og Hekla bætast í hópinn í lok næstu viku.

Svo ætlum við að njóta þess sem býðst hér hjá okkur, en auðvitað líka að undirbúa Akureyrarferðina á Old boys mótið og svo nokkra daga til að fíla norðurland.  Erum þó ákveðin að koma heim fimmtudaginn 10.júlí svo að Sandaragleðin sem hefst þann 11. verði samfelld skemmtun, frá upphafi til enda.

Get ekki varist því að ræða aðeins ástandið á götum Reykjavíkur eftir kl. 16 í gær.  Það var hreint skelfilegt, það tók okkur 45 mínútur að komast frá Sundlaugarveginum og upp á Höfða.  Ljóst að Sæbrautin/Reykjanesbrautin er algerlega sprungin og ætti að verða forgangsverkefni að reyna að búa til öflugri leiðir út úr borginni.  Eftir að við komumst inn á Miklubrautina rann þetta ágætlega.

Ég reyndar endurtek að mér finnst mikið bull að akstur risastórra vinnutækja sé leyft á slíkum álagstíma.  Á leið okkar vestur var ökuhraðinn ekki meiri en 70 km. á löngum köflum, að mestu leyti vegna tengivagnabíla og annarra álíka sem voru á leið úr bænum á þessum álagstímum.  Í Þýskalandi mátti einungis keyra slíka bíla á einbreiðum vegum eftir kl. 21 á kvöldin og til 9 á morgnana.

Ég bið enn um að slík löggjöf verði skoðuð hér.  Ég held að það myndi auka umferðaröryggi.....

En það þarf að auðvelda stofnleiðir í gegnum Reykjavík.  Slík biðraðastemming sem við upplifðum í gær er algerlega óásættanleg og íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga alla mína samúð að ganga í gegnum þetta reglulega.  Mér er engin vorkunn að lenda í þessu einu sinni á ári!


Green Globe og bensínverðið!

Sussuss.

Bensínlíterinn kominn upp í 170 krónur!  Þetta sennilega er ekki neitt að lækka og það eina sem maður getur gert er að spara bílinn.  Sem er auðvitað ágætis mál, ef það væri ekki stundum erfitt.  Ég labba t.d. ekki í vinnuna og viðurkenni alveg að mér finnst óþægilegt að hjóla eftir þjóðveginum milli Hellissands og Ólafsvíkur.

Því vona ég að brátt taki Vegagerðin sig til og setji í gang samstarf um hjólreiðaveg hringinn um Snæfellsnes.  Auðvitað með beygju í Hólminn líka!

Það gæti t.d. verið gjöf til Snæfellsness í tilefni af GreenGlobe vottuninni sem staðfest var í gær við hátíðlega athöfn í Grundarfirði. 

Það var virkilega skemmtilegt og frábært að samfélagið á Snæfellsnesi sé fyrsta svæðið í Evrópu sem fær þessa alheimsvottun á öflugri stefnu um umhverfismál og sjálfbært samfélag í reynd.

Til hamingju með það Snæfellingar, Grænir í gegn!!!


Verður sumarið svona gott?

Hvað haldið þið um það?

Maímánuður og það sem gengið er af júní líta virkilega huggulega út.  Logn og blíða út í eitt og kvöldin hvert öðru flottara.  Vonandi toppar þetta sumar bara það síðasta.

Þið sjáið að ég hef skellt inn nýrri könnun, Eurovision í pásu til næsta árs og nú snýr það að sumarleyfinu.

Ég fer í frí upp úr 20.júní.  Það eina sem hefur verið fastsett er vikudvöl á Akureyri með konunni og stelpunum mínum, frá 3. - 10.júlí.  Ég ætla þar m.a. að spila Eldri Drengja (Old Boys) leiki með Knattspyrnufélagi Siglufjarðar á Pollamóti Þórs.  Gerði það fyrir tveimur árum og naut þess í botn, var ansi glaður að heyra að enn fleiri sem ég þekki verða með þetta árið.  Bara gaman!

Vonandi nær maður að heimsækja ættinga og sem flesta vini á þessum tíma, en að öðru leyti höfum við ekki ákveðið neitt.  Erfitt að plana mikið með lítið barn, við erum þó ákveðin að fara út í Flatey í sumar og hugsanlega renna sunnanverðan Vestfjarðakjálkann.

En þið hin, hvert skal haldið????


Ofboðslega skemmtilegt!

Maður fær kjánahroll þegar maður hugsar til þess að 21 ár eru síðan að þessi lið léku til úrslita í NBA síðast, vá hvað tíminn líður hratt!

Ættu að geta orðið mjög skemmtilegir leikir, í báðum liðum hörkuleikmenn sem geta gert eintóma snilldarhluti.  Garnett, Allen, Rondo og Pierce eru leikmenn Bostonmegin sem ég fíla og held að verði erfiðir fyrir mína menn í Lakers.

En eftir flugeldasýningu besta körfuboltamanns í heimi, Kobe Bryant, í fimmta leiknum gegn SA Spurs er ljóst að Bostonmenn þurfa að finna svör gegn honum.  Ég reyndar held að Gasol og Odom skipti feykilegu máli í þessum leikjum og er líka á því að öðlingurinn Derek Fisher geti ráðið miklu um úrslitin.

Ég spái því fyrirfram að Boston vinni, 4-2 eða 4-3 en vonast auðvitað til að mínir menn afsanni þessa spá.  Ef Bynum og Ariza hefðu verið heilir er ég sannfærður um að við hefðum sigrað, en án þeirra ættu Boston að vinna.

En Kobe er í gula búningnum!


mbl.is Boston og Lakers mætast í NBA-úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samhryggist innilega.

Langar að senda fjölskyldu Alexanders hugheilar samúðarkveðjur vegna andláts hans í dag. 

Auðvitað fá Atli, Elfa og börn sérstakar kveðjur frá okkur Helgu á þessari sorgarstund.

Það var eiginlega tilkomumikið að sjá fánaborgina í Ólafsvík og á Hellissandi í dag þar sem ég held að nær allar fánastengur bæjanna hafi vottað hinum látna virðingu sína. 

Hvíl í friði.


mbl.is Alexanders Stefánssonar minnst á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo var það þetta með sjóferðina....

Hún fór víst þannig!

Svo sem ekkert versta lag sem unnið hefur Eurovision en líka langt frá því að vera það besta og lifir líklega ekki áfram í minningunni.

Held að úrslitin hefðu kannski orðið meira spennandi fyrir fleiri ef bara þau lönd sem áttu fulltrúa í gær hefðu fengið að greiða atkvæði, en það er ekkert endilega víst.

Með allri virðingu fyrir útkomu okkar Íslendinga, sem fyrst og fremst var vegna atkvæða frá Skandinavíu auðvitað, er ljóst að fyrir keppnina sjálfa er viðbúið að Frakkland, Bretland, Þýskaland og Spánn fari nú eitthvað að hugsa ganginn upp á nýtt.

Virðist engu máli skipta hvað þeir gera, þeir fá aldrei nein stig.

Sigurvegarar keppninnar, auk Dima Bilan, fannst mér vera Grikkland og Noregur sem fóru miklu lengra en búist var við.  Gríska lagið reyndar leiddist mér en það norska var flott.

En okkar fólk var flott á sviðinu í Belgrad og verður örugglega það sama upp á teningnum í Moskvu, þó sennilega sé lítill sigurmöguleiki þar eins og í ár.......


mbl.is Rússar unnu Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband