Færsluflokkur: Dægurmál
Sorpblaðamennska nútímans!
18.12.2007 | 12:40
Birtist mest í íþróttafréttum hvers konar.
Endalaus leit að stórfrétt gerir mýfluguna að 13 úlfalda hóp sem vill eyða öllum mýflugum. Einn miðill býr til sögu sem allir aðrir éta upp, jafnvel svo að smáfrétt er blásin út og orðin fyrsta frétt.
Var alltaf sannfærður um að mistök Rafael á þessum eina blaðamannafundi væru oftúlkuð, ofmetin og gjörnýtt til að búa til fréttir úr ímynduðum heimi alls kyns blaðamanna sem vilja verða fyrstir með fréttir. Reyna að búa til sannleika úr broti sannleikans sem einhver heyrði einhvern segja einhvers staðar einhvern tíma......
En gott að menn virðast hafa klárað málið, eins og alltaf var viðbúið, þegar menn bara fá að hittast. Vonandi lærðu allir aðilar á þessu og vanda samskipti sín við fjölmiðlamenn.......
![]() |
Fregnir um kaupbann hjá Liverpool bornar til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leikskóli, barnaveikindi, trúmál í skólum og PISA.
17.12.2007 | 17:50
Jæja, smám saman að renna eðlileg gríma á lífið hjá fjölskyldunni.
Sigríður Birta fór á leikskólann í dag í fyrsta sinn eftir kirtlatökuna frægu. Var mjög spennt og glöð að fara þangað, eilítið óörugg í fyrstu en fékk góðar móttökur frá krökkunum og leikskólakennurunum. Mjög kát við heimkomuna - var "bara að leika sér" í allan dag og spurði hvort hún færi ekki aftur á morgun.
Sýnist hún ekkert vera spennt fyrir jólafríinu!
Stella og Raggi.
Sýnist á blogginu Möggu frænku, sem þó hleypir mér aldrei inn á aðalsíðuna, að allt sé í jákvæða átt hjá þeim. Glaður að heyra það, efast ekki um að erfiðir tímir hafa verið þar á ferðinni. Ekkert auðvelt að eiga við veikinda þessara litlu einstaklinga sem eru svo hræðilega varnarlausir. En auðvitað er það jú eitt hlutverk okkar foreldranna, að taka erfiðar ákvarðanir þegar við stöndum frammi fyrir þeim. En vonandi gengur vel áfram!
Trúarbrögð, prestar og skólinn.
Alveg finnst mér það með ólíkindum hvað mikil umræða er í gangi varðandi þá staðreynd að prestar komi í heimsókn í skóla. Öfgarnar í báðar áttir eru ferlegar og mörgum þeim sem tjá sig til vansa. Mér finnst það svo hræðilega einfalt. Skólastjórnendur bera ábyrgð á skólum sínum.
Ef skólastjórnendur telja presta geta aðstoðað við skólastarfið á einhvern hátt eiga þeir að vera velkomnir. Eins og ýmsir aðrir sem í skólana koma. Ég hef tekið á móti mörgum einstaklingum til að hitta nemendur á mínu forræði. Hverja einustu heimsókn met ég í hvert sinn út frá því hvað viðkomandi er að fara að gera og hvort það samræmist því starfi sem byggir upp börn.
Ég skil því ekki út af hverju á að taka þennan þátt út og heimta aðgerðir gegn þessum stjórnvaldsákvörðunum skólastjóra.
Trúi ekki alveg að ekki fari fram önnur umræða en þessi um mjög merkilegt grunnskólafrumvarp menntamálaráðherra. Það er eitthvað sem þarf að ræða á öðrum forsendum en bara því hvort orðið "kristilegt" stendur þar í texta eða ekki.
PISA-könnun
Aftur er ég fúll á umræðunni. Menn leggjast strax í skotgrafir og heimta uppskurði og leita sökudólga. Ég er einfaldur maður og hef trú á einföldum svörum. Við pabbi þýddum þetta próf og ég sagði við hann allan tímann að þessi gerð prófa yrði Íslendingum erfið. Textinn sem lá til grundvallar flestum svörunum var þannig gerður að mikið þurfti að "lesa gegnum línurnar" til að finna réttasta svarið af mörgum réttum.
Því miður höfum við verið of upptekin af heimildaleitarlestri með einu réttu svari t.d. í 13.línu á bls. 27 í einhverri ákveðinni bók. Algengasta spurning þjóðfélagsins og þar með líka barna þess er: "Hvar finn ég rétta svarið sem fyrst og án mikils röfls".
Lengi hef ég heyrt gagnrýni frá framhaldsskólakennurum varðandi nemendur sem þangað koma án þess að hafa frumkvæði að námi sínu, eða tilbúnir að rökstyðja skoðanir sínar. Vilja fá heimildir og rétta útkomu frá kennaranum. Í háskólanáminu mínu var algengasta spurning fullorðna fólksins sem var með mér; "Áttu gamalt próf". Þ.e. þegar það var próf í áfanganum. Til að fatta hvernig kennarinn myndi spyrja. Ef það var ekki próf í áfanganum var gert mikið af því að leita að verkefni sem áður hafði verið leyst í áfanganum "og fékk góða einkunn".
Þess vegna kemur það mér ekki á óvart að nemendur á Íslandi lendi í vandræðum með slík próf, sér í lagi þegar þau skila ekki af sér einkunnum. Því miður erum við nefnilega búin að koma þeim skilaboðum áleiðis að námsgreinar og prófgerðir séu mismikilvæg. Verk- og listgreinar skipta litlu, samræmdar greinar miklu.
Þess vegna held ég að breytingin í grunnskólalögunum sem flytja samræmd próf fram í desember og síðan í framhaldinu samræmingarvinnu grunn- og framhaldsskóla sé stærsti möguleiki íslenska skólakerfisins til framþróunar frá því grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna.
Og ég held að það hjálpi okkur í PISA.
Kveðjur af Hólnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þetta á að vera einfalt!
14.12.2007 | 16:36
Kom mér mjög á óvart að sjá hálfgert ráðleysi á höfuðborgarsvæðinu í dag og hreint skil ekki út af hverju börn voru send heim í anddyri skólans síns, án þess að haft væri samband við forráðamenn.
Það allra versta sem maður veit á slíkum degi er af börnum sínum á flakkinu í rokinu milli björgunarsveitarmanna og fjúkandi smáhluta.
Á meðan ég vann í Reykjavík voru skilaboðin einföld. Skólunum er aldrei lokað og þeir taka við þeim börnum sem mæta í skólann. Ef veðrið er enn brjálað í lok skóladags er haft samband við forráðamann og tekin ákvörðun í samráði við þá með heimferð.
Held að sá góði maður Stefán Eiríksson hafi gert ákveðin mistök með yfirlýsingu sinni og ljóst að Ragnar minn Þorsteinsson þarf eitthvað að skýra málin, því það er óásættanlegt að línur séu ekki skýrar.
Í Snæfellsbæ eru reglurnar skýrar. Starfsfólk mætir í skólana og vinnur með þeim börnum sem mæta. Svo er samráð við forráðamenn um heimferð. Eins og var skýrt einu sinni fyrir sunnan.
Enda við öll kýrskýr hér!!!!
![]() |
Vilja skýr fyrirmæli til foreldra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skapstór stúlka í færanlegu logni!
13.12.2007 | 20:58
Fjölskyldan komin heim!
Ákváðum að Sigríður Birta væri orðin ferðafær og drifum okkur vestur á Hellissand á miðvikudagskvöldið, komum upp úr kvöldmat, klyfjuð úr síðasta verslunartúr fyrir jól. Flestar gjafir komnar, smáviðvik eftir á Blómsturvöllum kannski!
Birta alls ekki nógu góð enn. Hefur ekki rólyndið mitt heldur er líkari móður sinni....... Eða kannski mér. Erfiðast á nóttunni þegar hún hálfvaknar fyrir verkjum og er alveg hyrnd með hala við foreldra sína sem eiga bágt með að horfa á sársaukann og ergelsið. Er eiginlega bara búið að versna frá aðgerð, virðist bara ætla að vera svipað og hjá Thelmu sem byrjaði að skána á sjöunda degi!!!
En með hverjum degi styttist auðvitað í fullan bata. Hún hefur ekki fengið neitt bakslag, nema auðvitað það að vera orðin dáldill kjölturakki, en hálsinn virðist gróa eðlilega.
En svo er það auðvitað veðrið. Alsnarbrjálað síðustu nótt og stefnir í það sama í nótt. Kannski er bara lægðargangurinn að pirra ljúflinginn Birtu og veita henni svona "Varúlfs"skapgerð!
Hver veit. Það eina sem maður veit að 15 m/s er nú skilgreint sem logn í Snæfellsbæ og miðað við fréttirnar sennilega víðar....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kirtlataka gekk vel!
7.12.2007 | 17:14
Stutt blogg bara.
Allt gekk vel í dag, svæfingin og vöknun reyndar mjög erfið hjá okkur feðginunum en Birta er ótrúlega hress núna kl. 18.
Reyndar var það nú þannig hjá Thelmu Rut á sínum tíma að fyrsti dagurinn var betri en þeir nr. 2, 3 og 4.
En aðgerðin gekk vel og hún er laus við hrikalega stóra kirtla......
Meira síðar, nú er komið að 5 daga stoppi í Reykjavík útaf sjúklingnum áður en við förum heim í sæluna!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vikupistillinn
5.12.2007 | 10:31
Sælt veri fólkið.
Ákvað að draga hér stuttlega saman blogg fyrir síðustu 7 daga.
Við Helga börðumst suður á föstudaginn í leiðindaveðri, reyndar sitt í hvoru lagi þar sem ég þurfti á skólamálaþing Sambands Íslenskra Sveitarfélaga um morguninn en hún kom svo seinnipartinn. Þvílíkur nagli að verða hún Helga í keyrslunni. Hífandi rok og hálka með smá skafrenningi á leiðinni - alls ekki auðvelt.
Þegar hún kom suður tékkuðum við okkur inn á Hilton - Nordica og skiluðum Birtu til fjölskyldunnar. Fórum fyrst í smá jólainnkaup á föstudagskvöld, en svo bara snemma í háttinn.
Reyndar byrjaði ég að lesa bókina hans Hrafns Jökulssonar, "Þar sem vegurinn endar" sem fjallar að mestu um ættarhreppinn minn, Árneshrepp á Ströndum, og nokkur ættmenna minna. Í stuttu máli sagt finnst mér bókin frábær og skora sérstaklega á ættingja mína að lesa hana. Hrafn nálgast þetta efni af yfirlætislausri virðingu og dregur fram þætti úr sögu hreppsins, í bland við einlægar lýsingar á raunveruleika lífsins. Hef ekkert alltaf haft mikið álit á Hrafni, en mér finnst þessi bók hans alveg frábær!
Á laugardag byrjaði ég daginn uppi í ÍR-heimilinu, með tippurunum þar. Að koma í ÍR-heimilið er að koma heim fyrir mig. Alveg yndislegt fólk sem tengist þessu góðu félagi og það er alltaf jafn gaman að kíkja þangað og hitta það! Góð byrjun á góðum degi semsagt.
Svo fórum við í Mecca Spa í dekur. Þar hittum við Stjána og Rósu og Lauga og Helgu. Nudd, ölsopi og pottur til ca. kl. 16. Þá löbbuðum við Helga niður Laugaveginn og versluðum smá, svo upp á hótel til að taka okkur til fyrir kvöldið, sem leið á Lækjarbrekku, ásamt fyrrnefndum hjúum. Frábær dagur í alla staði.
Sunnudaginn sváfum við út, fórum í ótrúlegt morgunverðarhlaðborð áður en við sóttum Birtu til mömmu, svo kíktum við á afa og ömmu í Austurbrún, í tvær búðir og svo heim í sæluna á Sandinum, í gegnum rok og leiðindaveður.
Það sem af er liðið vikunni er bara verið að vinna, jólaskreyta aðeins og undirbúa sig fyrir næstu helgi, þar sem við erum að fara með Sigríði Birtu í kirtlatöku á föstudagsmorgun hjá Einari Thoroddsen. Verður örugglega ekki einfalt að ganga í gegnum það, enda erum við beðin um að vera í Reykjavík allavega til þriðjudags.
En oft er það að maður hættir að kvíða þegar maður heyrir vandamál annarra. Hugur okkar er auðvitað líka hjá Stellu frænku og því sem hún og Raggi eru að vinna í þessa dagana. Vona innilega að þeirra læknisheimsókn þýði það að litli prinsinn fái einhverja bót augnmeins síns. Þau eru í bænum mínum þessa dagana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þú ert aldrei einn á ferð!
28.11.2007 | 17:19
Íslensk útgáfa textans You'll never walk alone.
Liverpool FC er svo miklu meira en knattspyrnulið. Hafði illan bifur á þessum "díl" við ameríska viðskiptajöfra sem telja sig kunna að reka íþróttalið. Íþróttaheimurinn í N.Ameríku byggir upp á liðum sem eigendur stjórna.
Evrópskur gerir það ekki, nema hjá Chelsea og nú sýnist manni Liverpool.
Það finnst mér vont.
Að öðru leyti bendi ég bara á umræðurnar á http://www.kop.is/ - enda besta Liverpoolsíðan á landinu, þótt víða væri leitað.....
![]() |
Hópganga til stuðnings Benítez |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veikindi og Útsvar
24.11.2007 | 09:58
Úff, steinlá með pest á fimmtudaginn, hiti beinverkir og viðbjóður!
Þýddi þó ekkert að gefast upp í gær, fyrst á dagskrá var færeysk heimsókn frá vinabæ okkar SnæfellsBÆINGA, Vestmanna. Það var mjög gaman, sex fulltrúar bæjarins börðust í gegnum bölvað leiðindaveður til að skoða skólann og krakkana.
Ég gat verið með þeim til hálf þrjú, þá þurfti ég að þvælast gegnum veðrið og til Reykjavíkur að keppa í Útsvar. Ég, Toggi og Guðrún Fríða ákváðum að hittast á Kaffi Amokka til að stilla saman strengi sem tókst bara nokkuð vel held ég.
Kíkti aðeins á mömmu, kippti Thelmu og Lucy með mér upp í sjónvarp og hitti nokkuð af vestanfólki. Sminkið gekk auðvitað vel, Toggi þurfti náttúrulega meira smink en við Guðrún Fríða, enda vel huggulegur kallinn!
Ég hafði mjög gaman af þessu, varð aldrei stressaður. Það var auðvitað fyrst og fremst út af því að við vorum ákveðin í okkar liði að njóta þess að fá að vera valin til að taka þátt í svona þætti. Það er alveg þrælskemmtilegt. Verst að Vilhjálmur Garðbæingur var þarna, hann reyndi ansi oft að fá svolítil leiðindi í gang, ekki síst í auglýsingahléunum, hvað þá eftir keppni!
En allavega, mér fannst okkur ganga vel í alveg þrælerfiðri keppni miðað við þær sem ég hef séð í vetur, í síðasta auglýsingahléi var stefnan sett á að ná í 15 stig eða 20 stig til að verða þá stigahæsta taplið í gegn.
Þá klikkaði ég big-time! Nokkur SMS biðu eftir þátt til að gera grín að "Tyrkja-Guddu" og ég verð í dag og næstu daga að taka það á bakið mitt breiða að þarna klúðraði ég! Því miður gerðum við líka ákveðin mistök í spurningu 2, ætluðum þá að hringja í vininn okkar, en stukkum þá á svar sem því miður var ekki rétt. Þá varð að reyna við 15 sem við ekki vissum, bið Tryggva Gunnarsson, bróður Bjössa vinar míns, innilega afsökunar. Auðvitað kom svo Garðabæjarmegin 15 stiga spurning sem við Guðrún vissum, það að Kópernikus var Pólverji.
Tap og ljóst við förum ekki aftur. Hefði verið gaman en gekk ekki. Eftir stendur skemmtileg keppni með skemmtilegu fólki, nákvæmlega það sem við ætluðum að ná útúr þessu. Vona að SnæfellsBÆINGAR (pirraði okkur að Þóra kallaði okkur Snæfellinga, en ekki Snæfellsbæinga) og vinir og ættingjar taki úrslitin ekki of nærri sér. Auðvitað má stríða mér verulega á Tyrkjunum - það ÁTTI ég að vita!
Svo einfalt var það, þetta að baki en sem betur fer mörg skemmtileg verkefni framundan, fyrst samninganefndarfundur á fimmtudag, skólamálaþing sveitarfélaga á föstudag og svo langþráð "parahelgi" okkar Helgu á hóteli, nuddi, einhverjum glaðningi og svo jólahlaðborði á Lækjarbrekku með vinunum okkar góðu, Stjána - Rósu - Lauga og Helgu Stínu.
Nóg í gangi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Loksins hætt að leka!
21.11.2007 | 15:21
Jæja, gott að heyra að brautin er beinari í Ólafsfjarðarenda gangnaframkvæmdanna í Fjallabyggð.
Skilst að það hafi bara verið orðið stress með það að þurfa að breyta legu gangnanna sem hefði seinkað þeim verulega.
Vonandi gengur nú allt hratt og vel, held að því fyrr sem göngin opnast, því meiri verði möguleikinn á að nýta þessa framkvæmd öllum Eyfirðingum til heilla.
![]() |
Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng komnar á gott skrið eftir tafir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tvær ferðir en engin rjúpa!
18.11.2007 | 17:54
Hæ.
Fór á rjúpu á föstudag og í dag, sunnudag. Á föstudaginn var ég hrikalegur klaufi að ná ekki neinni en í dag gerðist það í fyrsta skipti á ævinni að ég sá bara ekki fugl. Labbaði í nærri 5 klukkutíma um Fróðárheiðina, en ekkert gekk.
Það þýðir bara að maður þarf að halda áfram að fara. Verður þó vesen um næstu helgi, föstudagurinn fer í að keppa í Útsvar fyrir Snæfellsbæ gegn Garðbæingum, og svo er Thelma að koma til að vera með okkur öllum, Hekla kom í dag. Ef gott er veður langar mig nú samt að labba aðeins, þó ekki væri nema smá.
Er nefnilega svo hrikalega gaman að vera á fjöllum, veiðin er bara bónus. Það var stafalogn og sól í dag, hrikalega flott. Maður er líka svo þægilega þreyttur, búinn að labba, en þrælerfitt. Eftir SJÓÐANDI heitt bað er maður eins og nýr, nema bumban aðeins að minnka.
Verð kannski HELköttaður fyrir páska. Eigum við eitthvað að ræða það, eða? Nei, hélt ekki........
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)