Færsluflokkur: Dægurmál
Er að koma alvöru verkalýðsslagur?
30.4.2011 | 10:48
Á síðustu dögum hefur mér fundist stigmagnast og hríslast út samkennd og baráttuhugur til almennra félagsmanna verkalýðsfélaganna, undir ákveðinni röddu Guðmundar, Vilhjálms á Akranesi og Aðalsteins á Húsavík.
Þessir þrír hafa náð að ýta við þeim í forystusveit verkalýðsins sem að hafa hingað til verið "friðarins menn" og á stundum þolað of mikið af hálfu vinnuveitenda. Að mínu áliti allavega.
Framundan er mikið sálfræðistíð sem mun standa fast að 25.maí.
Allir vita að verkfallsvopnið hefur stundum litlu skilað en nú er svo komið að hagsmunir fjöldans eru í þá átt að ganga það langt núna að í raun hóta atvinnurekendum við núverandi aðstæður að fara langt með það að slá sum fyrirtæki og atvinnugreinar alvarlegu höggi. Sumum fyrirtækjum jafnvel náðarhöggið.
Á undanförnum vikum hafa menn rætt um launahækkanir og skrið í landinu undanfarin ár. Satt að segja kemur sú umræða mörgum á óvart! Ansi mörg okkar hafa búið við sömu launatölu í nokkur misserin og því hefur maður tilhneigingu til að draga það í efa að þetta launaskrið eigi við meirihluta þjóðarinnar.
Sem þá þýðir að minnihluti hafi fengið góðar hækkanir.
Svo heyrir maður af góðri afkomu útflutningsfyrirtækja, en þó hefur aðeins Elkem sýnt starfsfólki þá virðingu að gera við það samning. Örugglega hafa einhverjir borgað bónusa og gefið gjafir, en slíkt á að vera lítilvægt aukaatriði.
Það á að vera frumskilyrði að launafólk vinni samkvæmt gildandi samningum og nú held ég að samkennd verkalýðsins hafi verið endurvakin eftir áralanga fjarveru og því má öllum vera ljóst að almenningur ætlar sér að krefjast bættrar stöðu fjöldans í skugga hruns sem framkallað var af fáum.
Þessi samkennd er fyrst og fremst SA að þakka, þeirra hagsmunagæsla gagnvart sínum félagsmönnum sýndi öllum leiðtogum verkalýðsins hvar áherslur atvinnurekenda liggja og minnti alla rækilega á að til að vinna í umboði launafólks verður að vera tilbúinn til að horfa framhjá persónulegri vináttu og stundum taka slaginn.
Fróðlegt verður að fylgjast með næstu skrefum, sem einstaklingur sem hef tekið þátt í ófáum vinnudeilum undanfarin 20 ár veit ég að nú er verið að hita upp og brýna vopnin. Stundum dugar það vel, stundum ekki vel.
En ég endurtek það að á síðustu dögum hefur lið verkaliðshreyfingarinnar styrkst og getur nú gengið óhrætt inn á leikvanginn til að takast á við lið atvinnurekenda.
Og nú er enginn vináttuleikur á ferð, nú er það alvöru!
Hóta allsherjarverkfalli 25. maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Grétar að marka sér nafn
25.4.2011 | 08:56
Á síðustu árum hefur mikil orka farið í það hjá íslenskum fréttamönnum að pikka upp frammistöðu margra annarra íslenskra atvinnumanna en eðal-Siglfirðingsins Grétars Steinssonar.
Hann er nú hjá sínu þriðja liði, í þriðja landinu og alls staðar hefur hann fest sig í sessi í aðalliðum sinna félaga og miðað við það sem ég hef heyrt öðlast virðingu allra sem hann vinnur með.
Í dag eru örugglega allir búnir að gleyma því að meiðsli fóru nálægt með að eyðileggja ferilinn hans Grétars, sem þá hafði hafnað tilboðum um atvinnumennsku til að læra meira heima á Íslandi sem aðalmaður hjá góðu ÍA-liði.
Hann eyddi sjálfur tíma og fjárhæðum erlendis til að ná sér af þeim meiðslum og fyrsti samningur hans í Sviss var ekki tryggður atvinnusamningur, heldur nokkurs konar hálfatvinnumennskusamningur, þar sem hann þurfti að sanna sig fyrir eigendum Young Boys í Bern.
Það tókst, ferðalagið fór til Alkmaar í Hollandi og þar varð hann strax lykilmaður í góðu AZ liði áður en hann flutti sig til Bolton. Þar sýnist mér á Soccernet hann hafa leikið 105 leiki nú þegar og skora 4 mörk.
Strákur er 29 ára gamall (sem er auðvitað fáránlega mikið því ég kenndi honum dönsku í 8.bekk) sem er ekki mikið fyrir fótboltamann og hann á pottþétt eftir að bæta vel við þennan leikjafjölda erlendis, sem í heildina er kominn yfir 200 leiki.
Hver veit nema að hann klári ferilinn á Elland Road, því sennilega er hans eini mínus að hafa allavega um sinn haldið með þeim ágæta klúbbi.
En allavega er gott að við áttum okkur á því að Grétar er í góðu standi að spila með góðu liði í einni sterkustu deild í heimi. Það snúast um hann fáar fyrirsagnir, sem vissulega hæfir honum en það skiptir máli að nafn hans haldist á lofti, kannski frekar en fréttir af leikmönnum sem eru ekki reglulega byrjunarliðsmenn sinna liða...
Grétar Rafn fær góða dóma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þarft innlegg
24.4.2011 | 14:38
Heyrði nýlega af vinnubrögðum Finna í sinni kreppu.
Þar var mynduð samstaða allra hagsmunaaðlia um leiðir út úr kreppunni og menn undirgengust samkomulag um þau atriði sem fólk vildi sameinast um sem nauðsynlegar í þeim aðstæðum sem þar geysuðu.
Um 20% niðurskurður í menntakerfinu og svipað í heilbrigðis- og félagsmálakerfinu voru m.a. unnin af þessum hóp svo að pólitískt hnútukast út af þeim málum var minniháttar.
Hér erum við þremur árum eftir hrun og enn sér maður ekki mikla samstöðu, besta dæmið sennilega þessi svakalega magnaða rannsóknarskýrsla sem allir vilja vera búnir að ýta undir stól.
Þar var kallað á nýja siðfræði og samvinnupólitík í stað eiginhagsmunapots og andstöðupólitíkur.
Við kinkuðum öll kolli en hvað hefur gerst?
Svo er það hárrétt hjá biskupnum að börn og unglingar sjá slæmar fyrirmyndir birtast sér í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, fólk sem hamast á neikvæðan hátt í umræðum um menn og málefni. Slíkt skilar sér of oft inná heimili og vinnustaði og þar heldur slíkt áreiti áfram.
Við erum svo langt frá því að vera komin úr vandanum og ennþá eru sveitarfélögin okkar og ríkið það illa stödd að við þurfum að herða ólarnar.
Við slíkar aðstæður verðum við að standa saman sem samfélag, alveg eins og þegar við verðum fyrir áföllum sem fjölskylda. Annars erum við á ansi rangri leið sem mun ekki skila okkur fram á veginn heldur reka okkur til baka!
Verðum að læra að treysta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jæja
24.4.2011 | 14:31
Kom að lokum.
Mogginn ekki fyrstur með fréttirnar en kom samt.
Annars sjá bara að neðan...
Vilja að Ásmundur Einar segi af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðeins um þingmennsku
24.4.2011 | 09:46
Sé að Morgunblaðið ætlar ekki að birta athugasemdir VG-félaga í Grundarfirði og Stykkishólmi varðandi brotthvarf Ásmundar Einars Daðasonar úr ríkisstjórnarhópnum vegna hans skoðunar á ESB. Sem í raun er svolítið sérstakt hjá manni sem m.a. lifir á innflutningi vara frá Evrópu. En nóg um það...
Ég er kjósandi í þessu kjördæmi og hef aldrei séð Ásmund Einar á nokkrum fundi. Hvorki fyrir eða eftir kosningar.
Ég er kannski að vaða reyk, en mitt mat á starfi þingmannsins er að með því að vera kosinn á þing er maður kosinn til að sinna samfélagsþjónustu, ekki síst fyrir þau samfélög sem kusu mann þangað.
Mér er fyrirmunað að skilja þau vinnubrögð að "giftast" einhverjum málaflokkum og tjá sig um allt án þess að reyna einu sinni að heyra hvað sínu samfélagi finnst. Því það hefur þessi þingmaður klárlega ekki gert.
Enn eru þeir þingmenn til sem nenna að koma og hitta fólk til að hlusta á þess skoðanir, og sumir meira að segja eru til í að tala við fólk með algerlega öndverðar skoðanir og alls ekki í sínum stjórnmálaflokkum. Sem er auðvitað algerlega það sem þeir eiga að gera!
Því miður hefur núverandi hópur þingmanna enn þá skoðun að þegar maður er kominn til starfa við Austurvöll þurfi maður ekki að hafa fyrir miklu næstu fjögur árin þegar kemur að því að leita sér fylgis og hlusta eftir skoðunum almennings.
Það er ver og hvort sem menn hætta sjálfir og kveðja (eins og mér finnst alltof fáir þingmenn sem eru komnir út í horn gera) eða að þeir tapa fylgi og verða ekki kosnir aftur (eins og verður með Lilju, Atla, Ásmund og Þráinn) skiptir miklu að þeir sem eftir koma átti sig á sínu hlutverki.
Sem er að sinna þjónustu við samfélagið allt!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað sagði Christiansen?
20.4.2011 | 12:25
Var það bara enn ein fyrirsláttarfréttamennskan að gera mikið úr orðum "Den Danske Bank-mandens" sem spáði fyrir um hrunið?
Hann sagði það sem helst væri að væri stanslaus rifrildi og endalaus niðurrif, við yrðum að verða jákvæðari og reyna að vinna meira saman.
Ég sé nú ekki þess merki að orð hans, eða sambærileg umræða í rannsóknarskýrslunni góðu (sem allir eru búnir að gleyma held ég) sé nokkru að skila.
Með því er ég ekkert að ræða um þessar tillögur sem borgarstjórn samþykkti í gær, vafalítið var það mál allt erfitt og vont, en það að ákveða þar með að hætta sem forseti borgarstjórnar er bara vísun í gamaldags pólitík sem enginn "fjórflokksins" hefur enn þorað að yfirgefa.
Miðað við það sem ég heyri hjá landsmála- og sveitarstjórnarpólitíkusum eru allir kassar að tæmast og ekkert framundan sem virðist ná að snúa því hratt við.
Það er því ennþá mikilvægara að menn fari vel í gegnum öll mál með það að leiðarljósi að ná um þau vinnusátt hið minnsta, líkt og Finnar gerðu í sínu efnahagshruni. Það er morgunljóst að pólitíkusar Íslands eru fyrst og fremst í því þessa dagana að skera niður og draga úr þjónustu, sá sem lætur eins og það sé óþarft er bara að skrökva að fólki.
Í slíku umhverfi er auðvelt að blekkja fólk með upphrópunum um vanhæfi annarra, en betra þætti mér að andstöðupólitíkusar allra flokka áttuðu sig á þeirri samfélagsþjónustu sem vinna við stjórnmál er og hugsuðu fyrst og síðast um hag allra annarra en sín sjálfs...
Það gerir maður ekki með að segja sig frá ábyrgðarstörfum.
Hættir sem forseti borgarstjórnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í minningu Freys.
16.4.2011 | 11:11
Í dag er borinn til grafar á Siglufirði eðalmaður og KS-ingur í gegnum allt. Freyr Sigurðs var einn af þeim sem leiddi mitt ástkæra félag styrkri hendi, ástríða hans og áhugi fyrir því að gera vel er mér eftirminnileg og ég sendi fjölskyldu hans allar mínar samúðarkveðjur.
Freyr Sig var okkar svar fyrir norðan við Eldræðum þeim sem stundum eru sagðar detta úr mönnum litríkra þjálfara. Hann tók "hárþurrkuna" þegar þurfti og þær ræður man ég vel, en ennþá frekar man ég algerlega gegnheila gleði Freys þegar við náðum árangri og gátum glaðst saman.
Þá var Freyr í essinu sínu og það eru engar ýkjur að þegar við náðum að vinna leiki sem mikið lá undir eða snerum leik við í síðari hlutanum eftir hálfleiksræðu þá var Freyr sá sem maður vildi fyrst fagna. Hann var Hr. KS í mínum augum ef einhver slíkur var til og þegar hann var hættur að þjálfa labbaði ég oft til hans inn í Rafbæ eða á hornið þar sem hann stóð utan við búðina til að ræða liðið okkar allra og mína frammistöðu. Hann sagði manni hlutina þannig að maður skildi þá, bæði hvatningu og leiðréttingu.
Ég kemst því miður ekki norður í Fjörð í dag því miður, svo sannarlega hefði ég viljað fá að kveðja þennan mikla meistara í eigin persónu en í dag kl. 14 verður hugurinn í Siglufjarðarkirkju með Steinunni, Helgu, Sigga, Kötu og fjölskyldum. Þeirra missir er mikill.
Siglufjörður hefur í dag misst einn af sínum bestu sonum langt fyrir aldur fram, en minningin um góðan dreng mun lifa áfram.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Reglur?
22.3.2011 | 09:12
Þráinn Bertelsson reið á vaðið og nú fylgja tveir í viðbót og hætta í þingflokki en sitja áfram á þingi.
Það finnst mér ákaflega sérkennilegt og besta dæmið um það þegar einstaklingar telja sig mikilvægari en þann hóp sem þeir skipa.
Kannski er það bara mitt íþróttauppeldi en eftir að menn hafa skipt úr sínu liði þá spila þeir ekki með því. Ef þetta væri t.d. fótboltalið og tveir skiptu úr því þá myndi liðið ekki bara spila næstu leiki með níu manns inná.
Og þessir tveir myndu ekki einu sinni fá að byrja næsta leik, því það þarf minnst átta manns í liði.
Hef heyrt það af þinginu að Lilja sé búin að "spila sóló" allt frá upphafi kjörtímabilsins, allavega eftir að ljóst var að AGS-áætlunin yrði haldið til streitu, og Atli Gíslason hefur lítið verið við þingstörf og því í afskaplega litlum tengslum við þingflokkinn og stjórnina.
Hann hefur frá upphafi sinnar þingmennsku talað um algerar endurbætur á Alþingi, finnst lagagerðin óvönduð og vill mun meiri umræðu um öll mál. Mun klárlega ekki bjóða sig fram aftur.
Það sem maður heyrir af VG er að þeim hafi strax orðið ljóst að Lilja væri ekki líkleg til að styrkja flokksstarfið og viðbúið að hún sliti sig frá því og síðan snúa sér að sinni eigin sannfæringu umfram liðsins. Hún er ein af nokkrum þingmönnum flokksins í Reykjavík svo að það skaðar ekki flokksstarfið í raun.
En það er auðvitað fáránlegt að þingmaður flokks sem er sá eini í víðfeðmu kjördæmi haldi áhrifum sínum inni á þingi, en flokkurinn í kjördæminu ekki.
Þetta er eitthvað sem þekkist ekki svo glatt í öðrum lýðræðisríkjum þar sem talað er um þingræði. En kannski er bara kominn tími á að skoða það hvort að okkar form á kosningum, með prófkjörum og/eða forvali flokka sem raða svo á lista, er bara röng aðferð til að ná fram hinu rétta lýðræði.
Persónukjör, eða einmenningskjördæmi, myndu að sjálfsögðu breyta því yfir í að við veldum fólk í stað flokka og mér finnst í ljósi viðburða eins og í gær það eitthvað sem á að skoða.
Ég hef reynslu af því að velja mér flokk út frá stefnu og kjósa í kosningum, til þess eins að sá sem fékk þingsætið m.a. af mínum völdum skipti um skoðun og flokk á algerlega galinn hátt. Það sárnaði mér ákaflega og átti ekkert skylt við lýðræði.
Reglur lýðræðisins á Íslandi þarf að skoða og sjá hvaða aðferð er líklegust til að leiða til sáttar í samfélagi sem nú logar af óeiningu...
Harma úrsögn Atla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Atli og Lilja
21.3.2011 | 19:55
Eftir Kastljósþátt kvöldsins kom náttúrulega bara augljóslega í ljós að Lilja Mósesdóttir var aldrei liðsmaður Vinstri Grænna og bara augljóst að hún er inni á þingi í því hlutverki að samþykkja sinn vilja.
Heiðarlegt hjá henni að hætta, hún er einfaldlega ekki tilbúin í að vera í liði og þá er það bara þannig. Skildi í raun aldrei hvernig hún sló Kolbrúnu Halldórsdóttur út úr þingliðinu.
En ég skil aldrei hvernig maður hefur samvisku í það að sitja áfram á þingi ef maður gengur út úr flokki, hvar er réttlæting þess?
Atli Gíslason er einfaldlega meira til í að vera "samviska" þingsins og vill frekar finna að en vera með. Alveg morgunljóst að hann er bara að elta Lilju og situr þá bara uppi með þá ákvörðun.
Vinstri grænir eru að mínu mati einfaldlega að halda áfram að skilgreina sig í átt að því að ákveðinn hópur þar hefur færst nær jafnaðarmennsku og miðjunni á meðan að vinstri armurinn sem alltaf hefur átt erfitt með að þola þetta ríkisstjórnarstarf færist lengra frá því...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að vera sameiningartákn þjóðar
20.2.2011 | 18:27
Ég tek það skýrt fram að ég er fyrir löngu búinn að fá algerlega nóg af ICESAVE og finnst það skammarlegt að tæplega 9 sólarhringar á Alþingi og allar mínúturnar í fjölmiðlum hefðu átt að fara í annað en uppgjör og skuldaskil.
Af nógu er að taka í niðurskurði og kjaraskerðingum samt.
En mig langar aðeins að velta fyrir mér byltingunni sem hefur orðið á embætti Forseta Íslands í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta mál verður klárað í atkvæðagreiðslu eða fyrir dómstólum - báðar leiðir eru ömurlegar og geta haft áhrif á ríkisfjármál.
En það verður að fara rækilega yfir embætti Forseta Íslands og hlutverk þess í lýðveldinu!
Fram að tíð Ólafs Ragnars voru mörg afdrifaríkustu mál þjóðarinnar lögð fram. Innganga í NATO og EES, kvótakerfið, skattkerfisbreytingar, upptaka og niðurfelling Þjóðhagsstofnunar og mörg önnur.
Í öllum þessum tilvikum, þrátt fyrir jafnvel uppþot eins og við inngönguna í NATO var ákveðið að þingræðið væri sterkasta vald samfélagsins sem Ísland er. Forsetar hafa undirritað þau lög sem frá þinginu koma í því ljósi að landsmenn þekktu reglur þess samfélags og kysu sér þing til að taka ákvarðanir.
Staða Forseta Íslands var að vera hinn endanlegi sendiherra ríkisins, sameiningartákn landsins bæði á heimavelli og útivelli.
Í dag er ekkert fjær þeim veruleika en að Forseti Íslands sé sameiningartákn. Ég efast ekki um það að Ólafur Ragnar er að vinna samkvæmt þeim skilningi sem hann leggur í embættið, en alveg eins og í öðrum löndum þar sem stórt er spurt um lýðræðið þessa dagana held ég að tími sé kominn á að við spyrjum hvort það er vilji þjóðarinnar að einn einstaklingur, einungis sjálfum sér háður, geti tekið ákvarðanir gegn lögskipuðu þingi?
Ef það er okkar vilji eigum við að ganga lengra, ákveða það að auka völd forsetans og tryggja það að kosið verði á fjögurra ára fresti um embættið og ekki megi sitja meira en tvö kjörtímabil. Það þarf þá að leggja upp með skýrar vinnureglur milli þings og forseta og það er auðvitað ótækt að ekki sé til rammi um þjóðaratkvæðagreiðslu og það sé vald forsetans eins að henda málum þangað inn.
Ef ég væri stjórnmálamaður núna myndi ég fara að leita mér að annarri vinnu því vinnustaðnum mínum hefur verið snúið á haus og ekki ástæða til að ætla annað en að nú fari þau mál þar í gegn sem þóknast forsetanum eða þeim sem ekki fylgja undirskriftarlistar.
Ég spyr t.d. um mál eins og kvótamálið. Er ástæða til þess að rífast um það áfram nema að þekkja skoðun forsetans, eða sjá hvort koma fram undirskriftarlistar? Hvað segjum við almenningur um skattahækkanirnar t.d. - sem skipta öll heimili landsins meira máli en það sem nú er rifist um.
Getum við komið fram með undirskriftarlista gegn næstu fjárlögum, bara búið til "gjá milli þings og þjóðar" sem forsetinn þá bregst við á hvíta riddaranum?
Ég hef rætt við félaga mína af Norðurlöndum og Evrópu, þeir telja það óhugsandi að ríkjandi þjóðhöfðingjar, áhrifalausir eins og Forseti Íslands hafa verið hingað til, færu svona gegn réttkjörnu þingi og hrista einfaldlega hausinn. Þetta skilja þeir ekki.
Þetta hlýtur að verða umræðan nú, því þarna er að mínu mati skýrasta ástæða þess að það þarf að endurskoða stjórnarskrána.
Og ef að einhver heldur það að ákvörðun forsetans í dag verði til þess að treysta bönd þjóðarinnar þá á að senda þeim án tafar Bjartsýnisverðlaun Brösters. Rifrildið á þingi er bara að færast út á göturnar og það er ekki neinum til góðs held ég.
Áhrifalítið sameiningartákn eða æðsti valdhafi? Hvora forsetatýpuna viljum við....
Forsetinn staðfestir ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)