Færsluflokkur: Dægurmál
Kosningafundir á Snæfellsnesi.
8.5.2007 | 11:32
Tveir í gær.
Fyrst fór ég í Klifið í Ólafsvík, þar sem Geir H. Haarde, Örvar Marteinsson og Einar Oddur Kristjánsson mössuðu yfir Sjálfstæðismönnum. Geir sýndi fádæma öryggi og yfirvegun, þéttur og ákveðinn. Verður bara að segjast eins og er að hann er afar, afar landsföðurslegur. Mér hugnast það vel að hann yrði forsætisráðherra áfram, en mitt mat í dag er að annan flokk þurfi með í stjórn hans en Framsóknarflokkinn í litlum molum.
Örvar Marteinsson, formaður skólanefndar hér, var að standa sig fínt. Fékk þarna smá reynslu innan um gömlu jaxlana og hélt ágætis stuðningsmannsræðu. Einar Oddur sló um sig af krafti eins og reikna mátti með.
Ég ber mikla virðingu fyrir því liði sem Sjálfstæðisflokkurinn er. Hef fylgst með pólitík lengi og verið sammála þeim í sumum þeim kosningum sem ég hef tekið þátt í. Fundurinn í gær var greinilega fundur stærsta stjórnmálaflokks landsins sem gengur samhentur til kosninga. Ætlaði að vera kominn heim um hálftíu og þegar ég fór af fundinum var ég sannfærður um það að kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins hljóma upp á 36 - 38 %. Vélin mallar þar áreynslulaust.
Þegar ég var kominn á Hellissand datt mér í hug að detta inn á Hótel Hellissand. Þar var Jón Baldvin að eldmessa, og ég vissi af manni þar sem ég hafði ætlað að hitta. Reiknaði með að þegar ég kæmi, uppúr hálftíu, væri þó lítið eftir af fundinum.
Öðru nær. Gamli Ísafjarðarkratinn skaut gneistum úr augum sínum - lét heyra duglega í sér, um spillingu og samsæri og mikilvægi þess að velja skandinavísku leiðina á Íslandi, en ekki þá amerísku. Fór á kostum eins og hans er von og vísa. Ber mikla virðingu fyrir karli, þó hann geti vissulega nú talað ábyrgðarlítið og sagt það sem honum sýnist. Hann er meirihlutakrati, "my way or no way" pólitíkus sem rekst kannski ekki alltaf vel.
Svo töluðu nokkrir í viðbót. En vandinn var. Á eftir Jóni Baldvin er erfitt að halda athygli. Það tókst ekki.
Draumurinn um að sterkur jafnaðarmannaflokkur og sterkur hægri flokkur geti komið saman og keyrt áfram grimmt samfélag velferðar og hagsældar er ekki líklegur á meðan að of margir í Samfylkingunni þora ekki að heilla með þeim krafti sem Jón sýndi.
Eftir gærkvöldið fannst mér augljóst að sjá hvort liðið fer sterkara inn á völlinn. Vissulega geta óvænt úrslit orðið, en ekki er neitt í spilunum sem getur leitt til bjartsýni Samfylkingarfólks.
Ég er enn ekki búinn að ákveða hvað ég kýs.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gamli Rauður á fullri ferð.
7.5.2007 | 09:25
Flott tilbreyting að sjá að Eiríkur sé bara vinsæll í Finnlandi. Ekki fréttir af dónalegum orðum og handabendingum íslensku fulltrúanna.
Ég var glaður með Sylvíu þangað til að sú vitleysa öll byrjaði. Dónaskapur og ókurteisi er ekki eitthvað sem við eigum að láta um okkur spyrjast. Að sjálfsögðu mátti reikna með því að harður rokkari, Norðurlandabúi, yrði vinsæll í Finnlandi. Rokkarar þess lands ótalmargir. Gott samt að sjá að drengurinn virðist strax ætla að heilla Finnana.
Glaður að heyra það að verið er að spyrja út í textann, viðurkenni það alveg að sumt í honum finnst mér nú ekki gott, en fínt að mr. Hauksson hafi náð að búa til merkingu á honum fyrir okkur öll. Nú er "killed by acid rain" ögn hljómfegurra!!!
En eins og kennurum er líkt er Eiríkur landi sínu strax á fyrsta degi til sóma, efast ekki um það að ef að fréttaflutningurinn heim til landa Evrópu skilar einhverjum stigum munu fréttir af geðugum rauðhærðum rokksöngvara skila Íslandi hærra.
Koma svo, Eiki, ná í tvö alvöru Eurovisionpartý fyrir okkur!!!!
![]() |
Miklar vinsældir Eiríks í Finnlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kemur mér ekki á óvart.
6.5.2007 | 16:31
Hef áður ritað um það hér að mér finnst Framsóknarflokkurinn vera í miklum vandræðum og alls ekki fær að stjórna sjálfum sér, hvað þá að fara í stjórnarsamstarf áfram eftir kosningar.
Ég tel þá hafa gert ákveðin mistök þegar þeir ætluðu að láta brotthvarf Halldórs úr stólnum verða áreynslulítið fyrir flokkinn. Jón er örugglega gæðamaður, ákaflega fróður, hefur verið farsæll skólamaður og átt mikinn þátt í innra starfi flokksins í gegnum tíðina. Hann hins vegar blæs engum baráttuanda í brjóst, því miður virðist hann ætla að taka þann kostinn að vera spilandi þjálfari þeirra Framsóknarmanna, sem jafningi hinna.
Það kann ekki góðri lukku að stýra.
Hef áður sagt og segi ákveðið enn að Framsóknarflokkurinn á að stíga út úr Stjórnarráðinu, hlaða batteríin upp á nýtt og velja sér nýtt fólk til forystu. Það er lýsandi fyrir ástandið að formaður flokksins hafi einungis 7% kjörfylgi í sínu kjördæmi.
Það er einstaklega vandræðalegt!
![]() |
Gallupkönnun: Formaður Framsóknar nær ekki kjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Koma svo Eiki - í úrslit takk!
4.5.2007 | 10:51
Í fyrsta skiptið í sögunni næ ég að sjá forkeppnina! Spáið í það.
Undanfarin ár hef ég verið með leik eða æfingu og þurft að heyra frá öðrum hver niðurstaðan er. Sannarlega ömurlegt!
Þetta árið verða því tveir Eurovision-dagar. Vonandi verður Ísland með á þeim báðum. Grillið tekið úr bílskúrnum í gær, komið á sinn stað. Tengdó mæta og sennilega einhverjir með þeim. Alltaf boðið upp á Eurovision-stemmingu þar sem ég er nálægt!!!
Áfram Ísland.
Annars er Læmingjaleit framundan hjá mér á morgun. 15 kallar koma að sunnan til að hjálpa mér að leita að Læmingjum í Snæfellsbæ. Verður mergjað!
![]() |
Evrovision-hópurinn lagður af stað til Finnlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jahérna!
3.5.2007 | 19:30
Maður minn lifandi.
Hélt að bara Íslendingar ættu það til að reyna að ganga á vatni eftir ákveðið magn alkóhóls í blóði. Karlræfillinn hefur örugglega ætlað sér að svamla heim til Japans eftir erfiða nótt á eyjunni köldu.
Ekki hefði ég nú viljað þvo fötin hans eftir uppátækið. Seint verður hægt að telja Tjörnina heilnæma hreinsilind, fulla af afgangsbrauði og öðru enn verra!
![]() |
Ölvaður ferðamaður fannst í Tjörninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hverjar voru líkurnar á þessu?
2.5.2007 | 23:34
Jásko!!!!
Ekki nema 2 ár frá stærsta knattspyrnuleik sögunnar og þá mætast þessi stórkostlegu lið aftur. Verst að Shevchenko sé ekki með AC Mílanó aftur til að brenna af dauðafærunum!!!!
Verður örugglega snilldarkvöld í Aþenu, af óskiljanlegum ástæðum er ég á leið til Ítalíu umrætt kvöld og þarf að stóla á SMS sendingar vina minna af leiknum.
Breytir því ekki að mikill er nú möguleikinn á sjötta sigri Liverpool í keppni Evrópsku meistaraliðanna. "In ancient Greece, we'll win it six times" var sungið á Anfield í gær. Væri ekki slæmt!!!
![]() |
AC Milan í úrslitaleikinn gegn Liverpool |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað er í austrinu á ferðinni?
1.5.2007 | 13:08
Verð að viðurkenna að þetta mál angrar mig aðeins, veit ekki alveg hverju á að trúa.
Eins og velflestir fylgdist maður með hruni kommúnismans og gladdist með hverju ríkinu á fætur öðru sem fékk sjálfstæði og gat því byrjað uppbygginguna á ný.
Fréttaflutningurinn sem kemur frá Eystrasaltsríkjunum er þó sérkennilegur í meira lagi. Mafía virðist vera algeng í öllum löndunum og löndin virðast flytja út gríðarlegt magn eiturlyfja og mannsal landlægur viðbjóður.
Svo í gær var viðtal við Íslending búsettan í Eistlandi sem gekk svo langt að lýsa þessu máli sem "viðurstyggilegum tilburðum þjóðernissinnaðra Nasista í Eistlandi að styrkja tök sín á þjóðfélaginu". Í fréttum hefur komið fram að Rússar búsettir í Eistlandi, um 33% þjóðarinnar, eru beittir félagslegum órétti og hafa ekki sömu réttindi og hreinræktaðir Eistar.
Í hnotskurn veit maður ekki alveg hvað er þarna í gangi. Ekki dytti nokkrum manni í hug að betra sé fyrir Eistlendinga að vera partur af Sovétríkjunum, en ef að málið er að níðast á minnihlutahópum, þarf alþjóðasamfélagið að grípa þar inní. Tala nú ekki um ef viðtalið við Íslendinginn var raunsönn lýsing á stöðunni í Eistlandi. Ekki finnst mér huggulegt ef Nasistar eru að verða ríkjandi hópur í nokkru samfélagi.
En vonandi leysa menn málið án vandræða og yfirgangs. Rússar virðast vera að rétta úr kútnum og því miður sýnist manni gamlir stórveldisdraumar vera að ná sér á strik.
Ekki sakna ég spennunnar sem ríkti í heiminum á meðan að Sovétríkin og Bandaríkin voru turnarnir tveir.
Vonandi tekst þeim að klára málið farsællega, Eistunum!
![]() |
Borgarstjóri Moskvu vill sniðganga Eistland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Skrýtið!!!
1.5.2007 | 10:07
Hvernig getur það verið brot á jafnræðisreglu að íbúabyggð þroskaskertra fái aukna þjónustu???
Rolling Stones hetjan Ólafur Kjartansson virðist vera einn þeirra sem lætur reglurnar ráða sér, en ekki þannig að reglurnar séu viðmiðanir sem ber að skoða í hvert sinn.
Sé ekki alveg skaðann við það að heimilismenn Sólheima fái að greiða atkvæði heima hjá sér. Ekki eru þeir nú margir sem eiga möguleika að keyra sjálfir, og félagsleg röskun þeirra sumra þýðir að þeir eiga ekki auðvelt með að storma inn í stórt skólahúsnæði, kynna sig fyrir ókunnu fólki í nefndarstörfum og einfaldlega kjósa á lítið áberandi hátt.
Þetta finnst mér ekki rétt framkvæmd. Skamm, skamm!
![]() |
Ekki kosið á Sólheimum í Grímsnesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tvímenningarnir á Selhólnum
29.4.2007 | 23:07
Erum við Sigríður Birta. Helga Lind, húsmóðirin sjálf, fer í fyrramálið til Stokkhólms með nemendahóp og verður út vikuna.
Við Birta ætlum að hafa gaman saman. Vorum að koma að sunnan um helgina þar sem ég hitti marga góða vini á blakmóti öldunga, þar sem Helga var að keppa. Er ákveðinn að vera í standi næsta vetur og vera með á mótinu þá.
Skiptum svo um bíl. Jeppinn var búinn að vera að stríða okkur eilítið svo við fórum og skiptum honum fyrir annan nýrri og eilítið flottari.
Mun þægilegri heimferð en áður, sjálfskiptingin það eina rétta!!!
Meira af okkur Birtu síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Klaufalegt í meira lagi!
27.4.2007 | 12:06
Hef aldrei skilið reglugerðir um ríkisborgararétt, eða frekar hvað ræður.
Indælis drengur sem ég þekki vel og heitir Miralem Hazeta þurfti að bíða í fjölda ára eftir þeim rétti, þó alger fyrirmyndarmaður, duglegur og frábær viðbót við íslenskt samfélag. Frábær íþróttamaður sem er nú knattspyrnuþjálfari, dómari og fyrirmyndarstarfsmaður í framhaldsskóla austur á landi.
Hann mátti á meðan þola það að kúbverskur handboltamaður og rússneskur fimleikamaður fengu hraðstimipil. Þeir búa hvorugir hér lengur, lærðu aldrei málið og hafa litlu skilað til þjóðfélagsins. Einhverja mánuði þurftu þeir til að fá stimpil.
Á umræddum fundi þessarar nefndar fengu 20 manneskjur nei. Fram þarf að koma hvers vegna þau fengu nei, en unglingsstúlka, tengdadóttir Jónínu Bjartmarz fékk já. Bull um að enginn hafi vitað hver þetta var er algerlega út í Hróa hött. Tala menn ekki saman á Alþingi, eða í Framsóknarflokknum. Auðvitað er þetta ekki saknæmt, en klaufalegt í meira lagi.
Ég er viss um að Framsókn tapar á þessu og þarna framdi Jónína pólitískt sjálfsmorð. Nógu tæpt stendur hún nú þegar í sínu kjördæmi, þetta verður dropinn sem fyllir mælinn. Ef Jón væri stjórnandi léti hann konuna segja af sér hið snarasta og skella öðrum í efsta sætið. Fórna einstaklingi fyrir hópinn, eins og lið gera. Allir sjá að þetta verður neikvæð umfjöllun um flokkinn sem Jón gæti snúið við með að taka á þessum klaufagangi ráðherra í stjórnarráði Íslands.
Held nú samt að Jón hafi ekki það bein í nefinu. Framsóknarflokkurinn svífur um í óræðu rúmi þessa dagana, bíður þess að yngra fólkið taki við.
Sjáum hvað verður.
![]() |
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)