Færsluflokkur: Dægurmál

Takk fyrir áhugann!!

Varð óskaplega glaður í morgun þegar ég tók eftir að ég hef nú komist yfir 5 þúsund heimsóknir á þessa síðu.

Heldur manni klárlega gangandi í spjallinu að fá slíkan áhuga.  Vona að fólk haldi áfram að koma hingað til að lesa og spjalla.  Ætla að fara að fjölga myndum á síðunni og vonandi kæfir ekki kosningaáhuginn annað hér.

Semsagt, léttara hjal, fleiri myndir og gleðin í fyrirrúmi á maggimark.blog.is.

Sjáumst!!!


Kemur ekki á óvart!

Enda vitum við það öll nú þegar að fótbolti er hinn sanni leikur lífsins og ekki neitt sem vekur upp eins magnaða ástar- og unaðstilfinningu og vel leikinn knattspyrnuleikur.

Þýskararnir eru skynsamt fólk og hafa greinilega skynjað leikinn rétt!!!!!


mbl.is Fótbolti eykur frjósemi í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risinn lagður af stað.

Þá lagði Geir af stað á stærstu pólitíkusarsamkundu landsins.  Sjálfstæðisflokkurinn er náttúrulega einstakur risi í íslenskri pólitík.  Frá upphafi verið stór og mikill, sá stærsti á meðan að aðrir flokkar hafa farið í allar áttir, klofnað og náðst saman.   Í engum öðrum flokki halda menn eins saman, bræðralag er algert og fáir ná að koma þannig höggi á þá að þeir klofni.  Albert Guðmunds sennilega sá eini bara!

Mér finnst línan mýkri en oft áður.  Umræða um eldri borgara og umhverfið var fyrirferðarmeiri en reikna mátti með af hægri armi íslenskra stjórnmála.

Íhaldið er klárlega á þeim stað sem þeir vilja vera.  Þeir elska að stjórna, eru algerlega óhræddir að koma fram sínum stefnumálum og ráða oftast algerlega stöðunni í stjórnmálunum á landinu. 

Þess vegna held ég að líklegt megi telja að afrakstur þessa landsfundar muni læðast inn í landstjórnina, hvort sem það verður með Framsókn sem hækju eða annan hvorn vinstri flokkanna í meirihlutastjórn.

Vonandi að landsfundurinn skili þá almennilegum tillögum fyrir alla í landinu, ekki bara suma.


mbl.is Geir: Eðlilegt að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel unnið plagg hjá VG.

Flakkaði lauslega, las fyrirsagnir og markmið í þessu riti VG.

Verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart hversu náið og vel þeir fara þarna ofan í sjálfbæra þróun.  Ég er talsverður áhugamaður um sjálfbæra þróun, tel uppeldi mitt í litlu samfélagi og sveitabæ ráða miklu þar um.  Virðing fyrir landinu og gjöfum þess er meiri í þeirri nálægð við náttúruna.  Án þess að kasta rýrð á borgarsamfélög sem eru betri í öðrum þáttum.

Mér sýnist VG ætla að fara þá leið að stefna í átt að sjálfbærara samfélagi, sem er nokkuð sem ég tel að Ísland eigi að stefna að, án vafa.  Þau markmið sem stefnt er að til 5 ára eru flestöll góð og klárlega framkvæmanleg.

Ég er svo barnalegur að telja það að allir Íslendingar ættu að vera umhverfissinnar.  Þetta litla sker þarf þess að við hugsum vel um það.

Ef öfgastefna "á móti" VG dettur niður og önnur mál verða unnin af þeirri yfirvegun sem mér sýnist það sem ég hef lesið í þessu riti hafi verið gert eru VG að færast nær því að hægt sé að treysta þeim til að koma að landstjórninni.  Það er stór áfangi hjá þeim flokki finnst mér.

 


mbl.is Vinstri grænir kynna Græna framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan hafin!

Jæja.

Farinn að fylgjast af krafti með pólitíkusunum slást.  Fyrst voru það fomennirnir í gær og svo kosningafundur á Selfossi um landbúnaðar- og utanríkismál.

Fyrst formennirnir.  Mér fannst þrír bera þar af. 

Geir Haarde er trúverðugur leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, hann er yfirvegaður en hvass, laus við grimmdina og hrokann sem mér fannst stundum há Davíð, sér í lagi í svona þáttum.  Klárlega leiðtogi Sjálfstæðisflokksins óumdeildur.  Ekki viss um að hann nái að halda valdasjúkum ungliðum lengi niðri, en stóð sig vel.

Steingrímur J. Sigfússon er náttúrulega afburða málafylgjumaður.  Ég er alls ekki sammála mörgu af hans stefnumálum, en svona "Fúll á móti" týpa eins og hann sem sjaldnast rekur í vörðurnar, uppfullur af rökum fyrir sinni skoðun er að mínu viti aðdáunarverður stjórnmálamaður.  Lukka VG er mikil að slysið í Langadalnum háir honum ekki neitt.  Mun vinna kosningasigur, bara spurning hversu stóran.

Svo er Ingibjörg Sólrún að komast í form.  Hef alls ekki alltaf verið sammála frúnni.  Lenti í miklu rifrildi við hana fyrir 9 árum þegar hún var borgarstjóri og ég trúnaðarmaður kennara.  Tókumst verulega á, ég var alveg hrikalega ósammála henni.  Fannst hún grimm og var grimmur á móti.  Kynntist af eigin raun grímunni sem hún sýndi í gær.  Geislaði af henni sjálfsöryggið og hrokinn.  Eins og hún er.  Hvað sem öllum kann að þykja það er hún mikill skörungur sem stendur af sér rokur hákarlanna í kringum hana.  Ef hún tapar, hefur hún þá allavega tapað út á sinn karakter.  Ekki hinn hljóðláta skugga sem hún sýndi síðustu 2 ár.

Í kvöld breyttist ekkert.  Sjálfstæðisfólk, Samfylking og VG stóðu sig, reyndar fílaði ég ekki Árna Þór Sigfússon í kvöld frekar en áður.  Árni Matt er nú ekki mikill pappír, en þessir þrír flokkar eru þeir sem lengst eru komnir í því að marka sér sérstöðu. 

Því miður eru fylgismenn Ómars ekki einu sinni skuggar hans.  Skelfilegir í kvöld.  Framboðið er eingöngu um hann og Margréti.

Frjálslyndir eru hörmungin ein.  Nafni minn Hafsteinsson er alveg út úr skjöldóttri kú, vill bara tala um eitt.  Ætla ekki einu sinni að nenna að tala um það.  Firringin er alger.

Í Framsókn er mikið af góðu fólki.  Magnús Stefáns, Siv og Birkir sem dæmi.  Því miður er Jón Sigurðsson algerlega úti á mýri, er að ríghalda í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og flokkurinn hingað til koðnar inn í daufari útgáfu Sjálfstæðisflokksins.  Kórónaði það í dag með að gefa ekki út "kosningaloforð" heldur stefnu sem inniheldur orðið Stopp.......Nýja auglýsingastofu í verkið Framsókn.  Þetta mun engu skila.  Burt með Jón, inn með Siv og Magnús, tengja flokkinn miðjunni og fólkinu.

Rúmlega mánuður eftir, verður skemmtilegt í framhaldinu.  Mikið mun ráðast af stærð kosningasigurs VG, reddingum Samfylkingar og því hvort litlu flokkarnir hinir þrír ná einhverju inn á kortið.  Vona allavega að ekki komi upp sú staða að flokkur með minna en 10% kjörfylgi fái lykilinn að stjórn Íslands.  Sama hvað hann heitir.


Lítil stemming, öruggur sigur.

Því miður sýnist manni KR-ingarnir vera númeri of litlir til að búa til stemmingu í þessa úrslitarimmu. 

Til að þarna verði fjör þarf varnarleikur þeirra að batna verulega og skotfærin nýtt mun betur.  Manni sýnist grænu ljónin úr Njarðvík hirði dolluna sem nágrannar okkar í Hólminum ætluðu sér í vetur og ætla sér enn frekar næsta vetur.

Viðurkenni alveg að ég sakna þess heilmikið að spila ekki körfubolta.  Ofboðslega skemmtileg íþrótt, kannski maður ætti að reyna að búa til "Old-boys" - körfu á Sandinum bara???

EN, vona að KR slái til baka á fimmtudaginn og við fáum úrvals sjónvarpsefni líkt og sást í rimmum KR og Snæfells.


mbl.is Njarðvík lagði KR 99:78
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða rugl er á ferðinni hér???

Er þetta land okkar virkilega að breytast í einhvern leiksopp stórfyrirtækja sem vaða áfram studd af stjórnvöldum sem eru uppteknari af framkvæmdum til að viðhalda þenslunni en þeirri hugsjón Íslendinga að nú sé að verða komið nóg af framkvæmdum!

Mér finnst það hlálegt og skammarlegt ef að Alcan, stutt af stjórnvöldum, setur upp stórt álver sem sést klárlega úr Hafnarfirði.  Er verið að gera grín að vilja meirihluta þess bæjarfélags???

Ég viðurkenni alveg að ég sveiflast um í umhverfisverndinni.  Mér fannst t.d. ásættanlegt að reisa álver fyrir austan til að koma þar inn með ný atvinnutækifæri og auka fjölbreytni í atvinnuflórunni.  Ég sé enga ástæðu til að hlaða upp álverum á höfuðborgarsvæðinu.

Er á því að það þurfi að fara að gefa út framtíðina í þessum málum öllum.  Ef á að setja upp nýtt álver á að finna því stað þar sem fólki vantar fjölbreyttari atvinnutækifæri.

Alcan hefur á sér fínan stimpil.  Ég hef náttúrulega heilmikið verið í Hafnarfirði, unnið þar og á fullt af ættingjum og vinum.  Álverið og fyrirtækið hefur verið fólki gott.

Það fólk á ekki skilið að Alcan skutli upp álveri utan við girðingu Hafnarfjarðar og veifi glottandi til þeirra.

Og íslenskir pólitíkusar eiga að fara að segja hvað þeir ætla sér í stóriðjumálum.


mbl.is Alcan íhugar að reisa álver á Keilisnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný skoðanakönnun

Jæja.

Þá ætla ég að henda inn nýrri skoðanakönnun sem tengist eilítið þeirri staðreynd að fjölskyldan á Selhólnum tók ákvörðun um flutning út á land sl. vor og vonar innilega að fá möguleika á að framlengja þá veru.

Síðasta skoðanakönnun tengdist kosningum vorsins.  Eins og menn sem lesa þessa síðu hafa séð er ég aðeins ráðvilltur varðandi hvað ég á að kjósa.  Komandi úr starfi mínu með fólki er ég klárlega að horfa til fjölskyldumála sem ráðandi þáttar í minni ákvörðun.  Sem náttúruunnandi tel ég umhverfismálin skipta máli, en vill þó fara af yfirvegun og án upphrópana.

Í skoðanakönnuninni á síðunni bera tveir flokkar af, Samfylkingin með 35,2% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 28,0%.  Þá vinstri grænir með 19%.  Framsókn og Frjálslyndir á eftir, Íslandshreyfingin var ekki komin í gang þegar ég setti þetta af stað.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur komið fram með áherslu í skólamálum, "Unga Ísland".  Það sem ég hef lesið í því lýst mér vel á.  Hef aldrei stutt tekjutengingar bóta, öll börn eiga jafnmikið framlag skilið frá ríkinu.  Óháð foreldrum því slíkar bætur hljóta að eiga að koma að þeirra framfærslu.  Svo þegar talað er um að fella niður samræmd próf hringja nú bjöllur hjá mér, nenni nú ekki að rjúka af stað með pistil um það núna.  Nú er að sjá hvað hinir flokkarnir gera, grunnskólastigið hlýtur að skipta okkur öll miklu máli og óháð álverum og grængresi þarf að hlúa betur að fólki.

Annars, til hamingju Jógvan með X-Factor sigurinn.  Flottur strákur þar á ferð, hef trú á að hann nái vinsældum en flestallir aðrir keppendurnir týnist, eins og nær allt Idolfólkið.  Ísland er bara of lítið land til að svona fólk verði "hits", í svona litlu landi fær hæfileikafólk tækifæri, þarf ekki sjónvarpsþætti í það.


Þögnin rofin á öðrum afmælisdegi.

Hæhæ.

Jæja, komin heim í sæluna á Selhólnum á ný.  Styttum reyndar norðurferðalagið um einn dag.  Leiðindaveðurspá þýddi það að fjölskyldan stormaði heim til sín á miðvikudagskvöld í stað fimmtudags.  Notuðum gærdaginn í það að sækja frú Sólveigu Traustadóttur, móður mína í sveitasæluna okkar hér í örfáa daga.´

Hún greinilega hefur velþóknun jökulsins sem sýndi henni sig allan á fyrsta degi, nokkuð sem ansi hreint margir gestir okkar fá ekki að sjá.  Veður gærdagsins var svaka fallegt, heiðskírt og sól með hægum andvara.

Eftir mikla útiveru fyrir norðan var þó gærdagurinn frekar mikill innidagur.  Hlíðarfjall var fínt, færið reyndar frekar þungt, en ekki margir í fjallinu þá daga sem við fórum þangað.  Þrælskemmtilegt.  Fórum svo í matarboð hjá Hörpu og átum saltfisk á Neðri-Dálkstöðum auk þess sem ég var búinn að ramma inn afmæliskvöldverð úti að borða fyrir Helgu Lind.  Einu leiðindin voru þau að búið var að plana heimsókn til Möggu og Jósé á miðvikudagskvöld eða fimmtudagsmorgunn, en þegar norðanáttin hræddi bílstjórann datt það upp fyrir.  Stoppa þar á fyrsta degi næst, það er loforð!

EN, í dag er 6.apríl og það þýðir að yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Sigríður Birta Magnúsdóttir hefur náð 3ja ára aldri.  Ótrúlegt en satt.  Fæðing hennar rennur seint úr minninu, enda lét daman hafa svona þokkalega fyrir sér áður en hún lá og brosti fallega til okkar beggja.  Dagurinn er því hennar, bakkelsi sett af stað í gær og einhverju á að bæta við.  Afmælisveislan er nú helst fyrir okkur sem að dveljumst hér í dag, en þó eru óstaðfestar fregnir um það að Kristján og Rósa vinir okkar séu að hugsa um að renna í kaffið.  Það væri gaman!

En allavega, þögnin rofin og því væntanlegt a.m.k. eitt blogg á dag héðan frá....


Skíðapása!

Bloggpása í bili.

Fjölskyldan á leið til Akureyrar, þar sem njóta á samvista við vini og ættingja, auk þess sem við ætlum að reyna að komast eitthvað á skíði!!!  Vonum að norðlenska vorið klári ekki skíðasnjóinn í Hlíðarfjalli áður!!!!!

Allavega, reikna með næstu bloggfærslu nk. fimmtudag, ef ég kemst í tölvu af viti fyrir norðan kannski maður hendi einhverju inn.

Annars, heyrumst kát bráðum aftur...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband