Færsluflokkur: Dægurmál
Til hamingju með daginn Helga Lind!
29.3.2007 | 10:51
Jæja.
Í dag er merkur dagur á Selhólnum. Húsfreyjan er 35 ára í dag!!!!!
Það er náttúrulega alveg með ólíkindum, stúlkan lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 22ja ára, en um leið og maður fer að tala við hana skynjar maður þroskan og yfirvegunina sem fylgir svo góðum aldri. Þannig að ég er hæstánægður með mína konu!!!!
Því miður þarf ég að fara í Borgarnes í embættiserindum þannig að við náum ekki að halda uppá daginn, en í staðinn ætlum við að reyna að gera okkur dagamun á Akureyri um helgina! Hún er þó ekki að heiman í dag - auk þess sem síminn hennar er virkur, þannig að endilega sem flestir að óska henni til hamingju með áfangann!!!
Gaman líka að vera jafngamall og hún í 16 daga.......
Knús og kossar Helga mín.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Veður, veður og veður!
27.3.2007 | 09:27
Jáhérna!
Hálka og vesen í höfuðborginni! Leitt að heyra. Að mínu viti langhættulegustu aðstæður í íslenskri umferð og því miður mjög vanmetin á köflum.
Ég held að það hljóti að sjást þarna að eilífur söngur um það að henda nagladekkjunum í hafsauga þarf að verða settur í samhengi. Eitthvað annað þarf að koma í stað þeirra, EÐA viðhorfsbreyting og einhvers konar breyting á almenningssamgöngum.
Að sjálfsögðu ætti það að vera þannig að þegar að erfitt færi er, eins og t.d. í daga, sjái sem flestir það eðlilegan kost að fara og nota almenningssamgöngur. Það sem er hættulegast er fjöldi þeirra bíla sem í umferðinni eru við svona aðstæður, og reynsluleysi ökumanna í slíkum aðstæðum. Það er í raun ekkert skrýtið, því vetrarríkið hefur ekki verið mikið undanfarin ár.
Við hér á Selhólnum brugðumst við hálku og snjóþekju morgunsins með því að senda frúna með framhaldsskólarútunni til Grundarfjarðar. Af fyrrgreindum ástæðum. Þó verður að segja söguna eins og er, heimilisfaðirinn tók "Framsóknar"beygju af bílastæðinu og sigldi út af götunni. Þó ekki með alvarlegum afleiðingum, kanturinn ekki of brattur svo að beygjan inn á veginn gekk vel....
En í guðs bænum farið varlega í umferðinni og skoðið hvenær þið getið náð strætó á slíkum dögum.
![]() |
Hálka veldur umferðaröngþveiti í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frábærar fréttir!
26.3.2007 | 13:38
Virkilega gott að sjá að Paisley og Adams hafa náð að setjast niður og útkljá sín deilumál, vonandi verður meiri friður nú á norðausturhorni Írlands en áður.
Síðustu 3 vetur var ég í miklu samstarfi við kollega á Norður-Írlandi. Kom þangað tvisvar, til Belfast, Omagh og (London)Derry.
Þrátt fyrir að hafa lesið mikið um deiluna og reynt að fylgjast með hvað væri í gangi kom það mér algerlega í opna skjöldu hve djúp gjáin er í daglegu lífi fólks á þessu svæði. Vissulega eru ekki allir að berjast með vopnum og meiða og drepa fólk, en að sama skapi er ekki mikið gert til að nálgast einstaklinga úr "hinu" liðinu.
Vinnustaðir, klúbbar, skólar og stofnanir eru í langflestum tilvikum "hreinræktuð", annað hvort kaþólikkar eða mótmælendur, á þeim stöðum þar sem verið er að vinna með blöndun hópanna er langt í land.
Það var allavega skilningur þessa yndislega fólks sem ég vann með. Það voru hópar úr tveimur skólum, mótmælendaskóla og kaþólskum skóla. Þau voru tilbúin að vinna saman að ákveðnum málum, en ákveðin mál voru aldrei hreyfð, eða rædd. Þar á meðal stjórnmál og ástandið "The troubles".
Mér er það mjög minnisstætt þegar við tókum á móti hópnum á Íslandi. Við buðum þeim í partý að loknum síðasta vinnudegi og þegar stuðið var byrjað settum við þennan fína Papadisk á. Ég sá strax að hluti hópsins var ekki glaður með músíkina, labbaði að þeim sem sýnilegast var óánægður og spurði hvað væri að. Þá sagðist hann ekki vera sáttur við það að við værum að spila "kaþólska" músík. Vissulega var hann annar tveggja úr mótmælendahópnum sem var fúll, hinir tveir sungu með eða sögðu þetta vera "allt í lagi". En, fljótlega voru Paparnir teknir af og Bítlarnir fengu að rúlla.
Skólastjóri mótmælendaskólans, David McKee, sagði mér eitt sinn að Írar spyrðu allir að trú fólks. Einungis örfáir væru hafðir yfir það. Hann mundi eftir tveimur aðilum í svipinn, hljómsveitin U2 og George Best. Þá ættu allir!!!!!
En, flott að þessir hörðu jaxlar tveir hafa linast og megi þetta verða til að lina deilurnar, því Belfast er frábær borg og Norður-Írar höfðingjar heim að sækja.
Of langt mál er að fara að rýna í upphaf og orsakir deilnanna, en trúin tengist þar valdi og valdníðslu þeirra sem landinu réðu á síðustu öldum. Þess vegna var enginn að velta því fyrir sér að við Íslendingarnir vorum mótmælendur, en Belgarnir og Portúgalirnir í hópnum kaþólikkar. Við vorum gestir, og fengum alls staðar frábærar móttökur.
![]() |
Blair: Sögulegt samkomulag á Norður-Írlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú blæs hann!
22.3.2007 | 22:50
Sjaldan drunið eins mikið á Selhólnum og vindurinn þessa stundina. Vildi ekki vera á Fróðárheiðinni akkúrat þessa stundina!!!
Er það ekki nýtt á Ísa köldu landi að allt landið sé undirlagt af hvassviðrisskilum????
Allavega glaður með einingahúsið þessa stundina. Þétt og vinalegt, er nú alltaf smá notalegt að sitja inni í hlýju og birtu meðan kolvitlaust óveður drynur fyrir utan....
![]() |
Mjög hvasst víða um land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Veit ekki alveg......
22.3.2007 | 21:28
Verð að viðurkenna að ég féll ekki í stafi yfir því sem ég hef séð og heyrt af framboðstilkynningu dagsins.
Ómar er of ör þessa dagana og sennilega er erfiðasta verk samherja hans að halda honum á jörðinni svo að framboðið verði trúverðugt. Finnlandsleiðir og Hawai-garðar hljóma svolítið súrrealískt á mig......
Hins vegar fannst mér rangt hjá þeim Margréti og Ómari að sitja ekki tvö ein á fundinum. Þetta er þeirra tilraun til samstöðu og óþarfi að safna að sér frekar veikradda einstaklingum á fyrsta fundi.
Svo kom upp umræða um VG og sósíalisma. Enn einu sinni. Skildi ekki tímasetningu þess, koma strax með hræðslurödd á fyrsta fundi.
Ef svona framboð á að virka þarf það að sýna fram á það sjálft hvað það "ætlar að verða". Ekki byrja strax að tala um hvað "það er ekki".
Ég ætla nú samt ekki að útiloka þau strax frá mínu atkvæði. Maður þarf að heyra hvað stendur á bakvið stóru orðin og hvað menn hyggjast gera í öðrum framfaramálum. Umhverfismál eru stóru mál heimsins í framtíðinni og mjög mikilvægt að þau séu ekki bundin á klafa annarar stjórnmálastefnu.
Græningjar um allan heim eru á miðju og ef þeim tekst að gera Íslandshreyfinguna að miðjuflokki held ég að margir gleymi hinum miðjuflokkunum tveimur, Frjálslyndum og Framsókn. Því Margrét og Ómar hafa svona þrettán sinnum meiri persónutöfra og eldmóð en Guðjón Arnar og Jón Sig.
Sjáum til!
![]() |
Ómar vill opna eldfjallagarða líkt og á Hawaii |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Af veðursvæðum.
20.3.2007 | 19:02
Snæfellsnesið er ótrúlegt! Allavega þar sem það er vestast!
Þegar ég vaknaði í morgun heyrði ég vindhvin, en alls ekki stórviðri. Um kl. 7:40 hringdi Kristín "rútufreyja" í mig og tjáði mér það að skólabílstjórarnir væru ekki vissir um að þeir kæmust í Ólafsvík. Þeir lögðu þó af stað.
Helga fór í framhaldsskólarútuna og fór af stað upp úr 7:40. Næst 7:50 hringir Kristín aftur og tilkynnir að rúturnar hafi snúið við og fari ekki á Breiðina eða undir Ennið. Þá er komið að Helgu, um 8-leytið snýr framhaldsskólarútan við í Ólafsvík og keyrir ekki austur eftir nesinu í Grundarfjörð.
Sandarar sáu svo um krakkana á Hellissandi, Ólsarar í Ólafsvík. Vissulega var rok og leiðindaveður, en strax á milli Hellissands og Rifs var SJÓÐbrjálað veður. Það er alveg hreint magnaður munur á veðri hér á litlu svæði undir jöklinum. Smátt og smátt lærir maður um þetta, t.d. er suð-austan áttin eins og var í dag hrikaleg í Ólafsvík, en rólegri hér.
Myndin er af húsinu hennar Lilju vinkonu minnar. Vona innilega að ekki hafi nú fokið mikið hjá henni, þekki af eigin reynslu stór foktjón og veit hve ömurlegt það er. Vona ekki........
![]() |
Björgunarsveit kölluð út í Ólafsvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur er ekki mæðudagur!
19.3.2007 | 20:17
Jæja, fjölskyldan að skríða nær fullri heilsu. Hvorugt heimilishjúanna lagði þó í líkamsrækt í dag en stefnir á slíkt á morgun. Vonandi að það takist.
Helgin annars fín, þrátt fyrir slappleika. Fórum í 210 ára afmæli á laugardaginn fyrir árshátíð Snæfellsbæjar, þ.e. sameiginlegt tugaafmæli fjögurra samstarfskvenna minna. Fékk þar að heyra um tvo kæki sem ég hef ekki fattað um mig áður. ´
Annar er sá að ég nota mikið orðið "klárlega", hinn að ég slái oft með hægri lófa létt á vinstra viðbein á meðan ég er að tala á fundum. Ég vissi fyrst ekki hvað var verið að tala um! En svo heyrði ég á fólki að þetta var málið!
Árshátíðin var fín, fullt af skemmtiatriðum og gleði. Frumtónleikar kennarastofubandsins bara ásættanlegir. Fyrsta lag, Jambuleo, gekk ekki nægilega vel hjá trymblinum (mér) en síðan lagaðist það stöðugt. Wild thing (nr. 4) og I will survive (nr. 5) enduðu tónleikana ágætlega.
Flottur fiðringur að vera uppi á sviði að spila!
Sunnudagurinn var svo hinn fullkomna slökun, náttföt og kósíheit. Ákváðum að enginn úr fjölskyldunni skyldi fara út úr húsi svo öllum tækist að byrja rútínuna, vinnu og leikskóla, á mánudegi.
Það tókst og allir glaðir með það, þannig að mánudagur er ekki mæðudagur!
Á fimmtudag kemur ný skoðanakönnun inn á bloggsíðuna, miðvikudagur því sá síðasti til að skutla atkvæði um skólamál og alþingiskosningar í vor.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vetrarfæri.
17.3.2007 | 11:45
Jæja.
Frábær árshátíð nemenda á Lýsuhólsskóla í gær. Lína Langsokkur tekin með trompi auk frábærs leikrits um sólkerfið og stjörnurnar frumlutt. Þvílíkar hnallþórur í kaffiveitingum á eftir. Takk fyrir frábæra skemmtun.
Ekki síðri skemmtun með skólastjórum í Borgarnesi daginn áður. Frábær hópur fólks þar sem ég fékk heljar útrás fyrir skólamanninn í mér. Við Elfa náttúrulega með besta skemmtiatriðið. Reyndar það eina, en samt!!!
En bloggfærslan heitir vetrarfæri út af því að það er í takti við færið hér þessa dagana. Reyndar alveg stórkostlegur dagur núna - sólin skín á jökulinn og alhvíta jörðina hér í Snæfellsbæ. Fögur sjón svo sannarlega.
Heimferðin frá Lýsuhólsskóla var eftirminnileg og enn ein minningin frá gömlum tíma. Snjóskaflar og skafrenningur á hárri heiði. Sem betur fer fékk ég félagsskap yfir heiðina til baka, hefði verið hundfúlt að þvælast einn í þeim þæfingi sem var. Festi mig nú aldrei á jeppajaxlinum mínum, sem er ein besta fjárfesting þessarar fjölskyldu á síðari tímum, en nokkrum sinnum lá við því. Var bara nokkuð ánægður með mig, það rifjaðist ýmislegt upp í keyrslumálunum frá því á Sigló og fyrir austan. Vissulega létti mér þegar brekkurnar snérust niður í móti aftur, en þetta verður örugglega mér til framdráttar hér, nú hefur maður farið heiðina í vetrarfæri og haft það bara vel af! Fínn áfangi.
Vonandi fínn dagur framundan, Helga fékk pensilín í gær og því er verið að vona að hún geti komist á árshátíðina með mér í dag og afmælin. Því miður komst mamma ekki vestur og því er verið að reyna að ná pössun, sem örugglega tekst. Kennarabandið treður upp í kvöld í fyrsta sinn og ekki er tilhlökkunin minni yfir því.
Áfram veginn!
![]() |
Snjóþekja á vegum á vesturhluta landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brjálað að gera!
14.3.2007 | 23:19
Hæhó!
Úff, tek skýrt fram að lítil bloggvinna kemur eingöngu til útaf því að ég er hreinlega á fullu í vinnu og heimilisstörfum.
Loksins þegar ég stóð upp úr veikindunum datt Birtan mín í veikindi. Búin að vera lasin frá því á mánudag þar til í dag. Ætlum að senda stúlkuna á leikskólann á morgun, vonum að henni slái ekki niður...... Ekki tók betra við! Helga Lind fárveik í dag, með mikinn hita og allt í volli!!!
Og ég á leið á skólastjórafund! Síðustu daga hef ég verið að undirbúa skólakynningu, dreifibréf og skemmtiatriði á fund skólastjónenda á Vesturlandi í Borgarnesi, þar sem skólastjórnendur af Suðurlandi koma í heimsókn. Vænti mikils af þeirri samkomu!
Þemadagar í gangi í skólanum mínum. Frábær vinna í gangi. Ótrúlega flott sem börnin eru að gera, hreint ótrúlega flott. Þemað umhverfið, nokkuð sem við í Grunnskóla Snæfellsbæjar erum að hella okkur í að passa betur uppá.
Allavega, á leið í háttinn, þarf að hvílast fyrir átökin framundan. Blogga meira á föstudaginn......
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til hamingju ÍR og Breiðholt!
11.3.2007 | 17:31
Óska öllum félögum mínum í ÍR til hamingju með 100 ára afmælið. Skilst að gleðin hafi ráðið öllu í Austurbergi í gær.
Hefði verið gaman að taka þátt í þeirri gleði. Vonandi verður þessi gervigrasvöllur til þess að vekja risann, ekki nokkur ástæða til annars en að ÍR geti orðið efstu deildar lið í íslenskum fótbolta. Ekki eins sterkt og KR, Fram, Valur og FH verða alltaf, en önnur lið tel ég ekki vera stærri, þ.e. ef rétt verður haldið á spöðunum í Breiðholtinu.
Áfram ÍR! - Kveðja að vestan.
![]() |
Nýr gervigrasvöllur formlega afhentur ÍR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)