Að vera sameiningartákn þjóðar
20.2.2011 | 18:27
Ég tek það skýrt fram að ég er fyrir löngu búinn að fá algerlega nóg af ICESAVE og finnst það skammarlegt að tæplega 9 sólarhringar á Alþingi og allar mínúturnar í fjölmiðlum hefðu átt að fara í annað en uppgjör og skuldaskil.
Af nógu er að taka í niðurskurði og kjaraskerðingum samt.
En mig langar aðeins að velta fyrir mér byltingunni sem hefur orðið á embætti Forseta Íslands í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta mál verður klárað í atkvæðagreiðslu eða fyrir dómstólum - báðar leiðir eru ömurlegar og geta haft áhrif á ríkisfjármál.
En það verður að fara rækilega yfir embætti Forseta Íslands og hlutverk þess í lýðveldinu!
Fram að tíð Ólafs Ragnars voru mörg afdrifaríkustu mál þjóðarinnar lögð fram. Innganga í NATO og EES, kvótakerfið, skattkerfisbreytingar, upptaka og niðurfelling Þjóðhagsstofnunar og mörg önnur.
Í öllum þessum tilvikum, þrátt fyrir jafnvel uppþot eins og við inngönguna í NATO var ákveðið að þingræðið væri sterkasta vald samfélagsins sem Ísland er. Forsetar hafa undirritað þau lög sem frá þinginu koma í því ljósi að landsmenn þekktu reglur þess samfélags og kysu sér þing til að taka ákvarðanir.
Staða Forseta Íslands var að vera hinn endanlegi sendiherra ríkisins, sameiningartákn landsins bæði á heimavelli og útivelli.
Í dag er ekkert fjær þeim veruleika en að Forseti Íslands sé sameiningartákn. Ég efast ekki um það að Ólafur Ragnar er að vinna samkvæmt þeim skilningi sem hann leggur í embættið, en alveg eins og í öðrum löndum þar sem stórt er spurt um lýðræðið þessa dagana held ég að tími sé kominn á að við spyrjum hvort það er vilji þjóðarinnar að einn einstaklingur, einungis sjálfum sér háður, geti tekið ákvarðanir gegn lögskipuðu þingi?
Ef það er okkar vilji eigum við að ganga lengra, ákveða það að auka völd forsetans og tryggja það að kosið verði á fjögurra ára fresti um embættið og ekki megi sitja meira en tvö kjörtímabil. Það þarf þá að leggja upp með skýrar vinnureglur milli þings og forseta og það er auðvitað ótækt að ekki sé til rammi um þjóðaratkvæðagreiðslu og það sé vald forsetans eins að henda málum þangað inn.
Ef ég væri stjórnmálamaður núna myndi ég fara að leita mér að annarri vinnu því vinnustaðnum mínum hefur verið snúið á haus og ekki ástæða til að ætla annað en að nú fari þau mál þar í gegn sem þóknast forsetanum eða þeim sem ekki fylgja undirskriftarlistar.
Ég spyr t.d. um mál eins og kvótamálið. Er ástæða til þess að rífast um það áfram nema að þekkja skoðun forsetans, eða sjá hvort koma fram undirskriftarlistar? Hvað segjum við almenningur um skattahækkanirnar t.d. - sem skipta öll heimili landsins meira máli en það sem nú er rifist um.
Getum við komið fram með undirskriftarlista gegn næstu fjárlögum, bara búið til "gjá milli þings og þjóðar" sem forsetinn þá bregst við á hvíta riddaranum?
Ég hef rætt við félaga mína af Norðurlöndum og Evrópu, þeir telja það óhugsandi að ríkjandi þjóðhöfðingjar, áhrifalausir eins og Forseti Íslands hafa verið hingað til, færu svona gegn réttkjörnu þingi og hrista einfaldlega hausinn. Þetta skilja þeir ekki.
Þetta hlýtur að verða umræðan nú, því þarna er að mínu mati skýrasta ástæða þess að það þarf að endurskoða stjórnarskrána.
Og ef að einhver heldur það að ákvörðun forsetans í dag verði til þess að treysta bönd þjóðarinnar þá á að senda þeim án tafar Bjartsýnisverðlaun Brösters. Rifrildið á þingi er bara að færast út á göturnar og það er ekki neinum til góðs held ég.
Áhrifalítið sameiningartákn eða æðsti valdhafi? Hvora forsetatýpuna viljum við....
Forsetinn staðfestir ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugrökk afstaða!
6.2.2011 | 11:13
Bjarni Benediktsson er klárlega sigurvegari helgarinnar.
Eftir fáránlega árás ritstjóra Morgunblaðsins á hann síðastliðinn föstudag beið maður spenntur eftir að sjá hver lendingin yrði á fundinum í Valhöll. Ystu hægrivængmennirnir höfðu sýnt það í atkvæðagreiðslu í þinginu að þessi ákvörðun Bjarna er umdeild og veldur skjálfta svo það var alveg möguleiki á gengisfalli formannsins.
En það sem maður hefur heyrt og lesið af þessum fundi er að Bjarni hefur gengist við ábyrgð þeirri sem flokkurinn hefur á þeim viðræðum sem leiddu af sér þann samning sem nú liggur fyrir og inniheldur kostnað fyrir þjóðina sem er einungis brotabrot af afglöpum fyrrum Seðlabankastjóra og nú umræddum ritstjóra.
Bjarni er að taka skref sem forráðamaður Sjálfstæðisflokksins og hefur nú að mínu mati stigið inn á þá braut sem ég taldi flokkinn vera á leið inná þegar Geir H. Haarde tók við formennsku hans, en tókst aldrei að leggja almennilega af stað á.
Á næstu dögum sjáum við hvernig armur þeirra sem standa lengst til hægri í flokknum mun bregðast við. Er Sjálfstæðisflokkurinn að stíga með formanninum nær miðjunni og um leið hugsanlega að ná vopnum sínum sem mögulegur samstarfsflokkur við einhverja aðra í ríkisstjórn, eða ætlar flokkurinn að elta fyrrum leiðtoga og þá sem í kringum hann raða sér í hægri stefnu sem daðrar við þjóðerniskennd?
Fróðlegt verður að fylgjast með, en klárt er að Bjarni Benediktsson stimplaði sig inn sem hugrakkan formann í Valhöll í gær!
Sætti mig við þessi málalok | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eru skapadægur að renna upp?
29.12.2010 | 01:52
Síðustu tvo daga hef ég velt þessari spurningu fyrir mér.
Er Samfylkingin að átta sig á því að stjórn þeirra og VG er "hækjustjórn" á meðan innan raða samstarfsflokksins er fólk sem er bara tilbúið að vera með ef þeirra viðhorf ræður?
Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera, eru Sigmundur og Gunnar Bragi að bíða eftir að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og ef svo er hvað segja þá Siv, Höskuldur, Birkir og og Guðmundur við því? Alveg ljóst að Framsókn er ekki einhuga.
Svo Sjálfstæðisflokkurinn. Ætlar Bjarni að grípa tækifærið og koma stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks til valda á ný? Þarf þá ekki Jóhanna að hætta og vinstri armur Samfylkingar ekki að anda djúpt að sér?
Það er að mínu mati þó núna alveg fullkomlega ljóst að gjörningur hins róttæka vinstri arms í VG hefur orðið til þess að nú þarf ríkisstjórnin að skýra fullkomlega frá hvaða skref á að taka. Ögmundur, Jón frændi og Guðfríður Lilja þurfa að gera upp við sig hvort þau ætla að taka þátt í "vinstri stjórninni" eða hvort sú tilraun mistókst.
Samfylkingarfólk er að sýna með ákveðni sinni í fjárlagafrumvarpinu að þeim finnst nóg hafa verið gert til að koma til móts við deiluflokkinn VG og lengra verður ekki farið.
Því verða næstu dagar og vikur fróðlegar, svei mér ef ekki eru bara að verða vatnaskil í öllum þeim flokkum sem inni á þingi eru.
Og þá kemur stóra spurningin, hver þorir að stjórna í því neikvæðnibáli sem geysar á Íslandi í dag....
Missa sig í spunanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að treysta skólafólki...
25.10.2010 | 09:18
Reykjavíkurborg er stór vinnustaður, held að hann sé sá stærsti á landinu.
Vandi hans sem vinnustaðar er það að miðstýringin þar eykst stanslaust og stöðugt, borgin er fyrir löngu orðin ríki í ríkinu og vinnubrögð stjórnsýslunnar þar miðast við þá stöðu.
Stjórnendur vinnu í borginni eru hin ýmsu fagráð, í þessu tilviki mannréttindaráð. Þar situr án vafa mikið af góðu fólki sem vill láta gott af sér leiða.
En ég fullyrði að þetta fólk er minni fagmenn í skólamálum en skólastjórnendur og starfsfólk grunn- og leikskóla borgarinnar. Reglur frá miðstýrðu apparati einhvers staðar við Tjörnina mega ekki verða það þröngar að þær skaði starf í t.d. Grafarvogi eða Breiðholti.
Starf sem almenn sátt hefur verið um í samfélaginu og vekur upp jákvæðni í lífi þeirra sem að koma.
Skólafólki verður að treysta fyrir því að reka sitt starf skjólstæðingum sínum til heilla, ég efast ekki um að hægt er að finna dæmi um að einhvers staðar hafi orðið árekstrar vegna slíkrar fræðslu, en ég efast heldur ekki um að þeir árekstrar hafi leyst farsællega og í flestum tilvikum án inngrips ráðanna neðan úr miðbæ.
Því þau vilja ekki skipta sér af "einstökum málum" heldur sitja þá stikkfrí, þegar kemur að vinnunni við að fara eftir tilmælum þeirra.
Reykjavík hefur lengi talað um "Sjálfstæði skóla" sem lykilhugtak.
Ég held þeir ættu að taka sér rúnt út fyrir höfuðborgina og kynna sér hvernig unnið er að sjálfstæði skóla í kringum þá.
Þar held ég að í flestum tilvikum séu það skólafólkið, skólaráðin og foreldrafélögin sem standa að stefnu sem sátt er um í samfélögunum.
Það myndi bara gera skólana í Reykjavík betri ef skólafólki væri treyst fullkomlega fyrir starfinu og ráðin fengju aðstoð við stefnumótun frá þeim!
Jón Gnarr fylgjandi kristinfræðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Enn gengur yfir bátinn!
20.10.2010 | 13:19
Þegar maður einhvern veginn hélt að kurl lægju nú kyrr í gröfinni og þau mál sem þörfnuðust rannsóknar væru komin fram þá enn dembist enn einn grunurinn um stórfelldan glæp gegn þjóðinni.
Ég ítreka enn og aftur tilmæli mín til fólks að skoða gaumgæfilega sína bankaþjónustu og hvernig rústir gömlu ræningjafyrirtækjanna haga sér. Bankar eiga ekki viðskipti þín og það skiptir öllu máli fyrir þig að vera sáttur þar sem þú ert!
Mýtan um að það sé ekki hægt að flytja sig um banka út af skuldum er bull sem enginn á að hlusta á. Skilja skuldirnar eftir og borga af þeim áfram en flytja launin sín og framtíðarviðskipti til stofnana sem maður getur treyst!
Það er farið að skipta verulegu máli að hægt verði að fara að koma málum í gang í dómskerfinu og við förum að sjá almennilega hvað verið er að tala um þegar kemur að refsiábyrgð.
Það að taka stöðu gegn íslenskri krónu og í raun íslensku samfélagi í 5 ár til að græða persónulega eru það stórar ásakanir að það hlýtur að vera tilefni til að hraða meðferð málsins!
Mann setur einfaldlega hljóðan þegar maður veltir fyrir sér eftirlitsskortinum og vangánni sem virðist hafa farið hér í gang þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður og bankarnir sáu um eftirlitið hver fyrir annan, þar hefur snemma orðið til samvinna þeirra um að ná sem mestu út óhreint á stuttum tíma og við bara flutum brosandi að feigðarósi í þeirra boði!
Svakalegt...
Hefja rannsókn strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað dugar?
14.10.2010 | 14:46
Gaman að fundirnir virðast einhverju skila áfram.
Hins vegar er alveg ljóst að ef ekki verður nein niðurfærsla lána heldur bara verið að tala um skuldbreytingar og lengingar lánasamninga er bara verið að fresta vandanum um 10 - 15 ár.
Það væri þó smá möguleiki að færa málin til rétts vegar að færa lánin niður að litlu leyti og þá einungis lán með ákveðnu hámarki (t.d. 20 milljónir hæst) en gera svo eitt í framhaldinu.
Kasta verðtryggingunni!!!
Aðeins þannig er lenging lána einhver lausn fyrir þann stóra hóp sem er að sökkva þessa mánuðina...
Fólk á aldrinum 25-40 ára skuldar mest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dýrðlegur dagur!
13.10.2010 | 16:14
Mikið er þungu fargi af mér létt!
Ætla að leyfa mér að fagna lítillega yfir súpunni í kvöld!
Dómstóll heimilar sölu á Liverpool | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jón Ásgeir og eignirnar
11.10.2010 | 14:40
Verð að viðurkenna að ég læt það pirra mig að sjá Jón Ásgeir enn í fararbroddi fjölmiðils á Íslandi.
Pirra mig enn meira á því að ég greiði af þeim fjölmiðli á mínu heimili og vona svo innilega að þjónustan á mínu sjónvarpssvæði aukist svo ég geti réttlætt það fyrir mínu fólki að hætta að borga af Stöð 2.
Þar er margt um ágætt fólk og góða þætti, en ég hef áður heyrt svipaðar sögur af stjórnunarháttum Jóns Ásgeirs, sem eru auðvitað bara til marks um þá sannfæringu hans að hann hafi óumdeilanlegan rétt til að drottna.
Þegar maður horfir á umfang sjónvarpsstöðva 365 miðla er ljóst að gríðarlegar fjárhæðir eru þar á ferð og ég hef oft grunað það að þeir fjármunir sem hafa farið í fjármögnun íþróttadagskrár og annarra sjónvarpsþátta séu m.a. komnir úr annarri starfsemi kappans.
Þessi frétt er bara enn einn steinninn í þá vörðu að ég hafi mig í að hætta að borga af 365 miðlum. Hlýtur að fara að takast...
Jón Ásgeir vildi láta reka blaðamann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dreifa ábyrgð
7.10.2010 | 23:42
Skil afskaplega vel mótmæli víða um land vegna niðurskurðar í kerfunum okkar, sem svo sannarlega bitna mest á landsbyggðinni.
Hins vegar pirra ég mig mest á aðferðarfræði þar sem 10 nefndarmenn staðsettir í höfuðborginni bara taka ákvarðanir án samráðs við nokkurn á heimasvæðunum.
Væri ekki nær að t.d. tala við samtök sveitarfélaga á Reykjanesi, láta þau vita hver niðurskurðarkrafan er og reyna að fá þau til að koma sér saman um áherslurnar?
Við vitum öll að það kreppir að og við þurfum að herða sultarólina.
En dreifð ábyrgð og dreifstýring er líklegri til sátta en boðin að sunnan...
Líknardeildinni lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gott mál!
6.10.2010 | 12:55
Glaður að sjá að einhverjir fundir virðast hafa það að markmiði að leysa vandann en ekki auka hann!
Vonandi verður þessi nýjasta mótmælabylgja fólks til þess að menn fari í samstarfsgallann á sem flestum sviðum, því maður er alveg búinn að fá nóg af frekjuháttum og sundurlyndi sem virðist ríkja á meðal stjórnmálamanna þessa dagana.
Og auðvitað þarf að fá bankana að borðinu og taka á því að þeir halda áfram okurstefnu sem leiðir til stanslaus hagnaðar þeirra á meðan að fólki blæðir út og heldur betur þarf að kreista lífeyrissjóðina!
Þeir eru eina stofnunin á Íslandi sem á laust fé, en þar ráða ríkjum öfl sem segja óhikað að besta ávöxtun sjóðanna liggi ekki í verklegum framkvæmdum heldur í vöxtum.
En þeir segja ekki eins oft að með því að geyma milljarðana bara inni á bankabók setja þeir bankana fljótlega aftur á hausinn!
En vonandi er einhver að beygja í rétta átt. Það er kominn tími til!!!
Þetta var gott samtal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)