Færsluflokkur: Dægurmál

Var klukkaður!!!

Skemmtilegur leikur, pabbi klukkaði mig og þá verður maður jú víst að skrifa 8 sanna hluti um sjálfan sig.  Reyni að tína eitthvað slíkt til.....

1.  Ég er samviskusamur og metnaðargjarn fram í fingurgóma, lendi stundum í því að vinna of mikið í því að ná árangri.  Er að vinna í því samt.

2.  Líður best heima hjá mér með fjölskyldunni minni og næstbest með fjölskyldunni minni í góðra vina hópi. 

3.  Er hrifinn af íslenskri náttúru og nýt þess að vera úti í henni.  Á jafnsléttu, fjöllum, jöklum, sjó og bara hvar sem er.  Sérstaklega í mikilli kyrrð.

4.  Get verið hvatvís og rýk þá af stað.  Stundum á það við með skapið á mér, en gelti bara, bít ekki.

5.  Nýt þess að fylgjast með íþróttum.  Sér í lagi fótbolta.  Er þó á því að ferli mínum sem fótboltaþjálfara sé u.þ.b. lokið.  Of mikið skítkast fyrir of lítinn pening og geðsjúkt mikla vinna.  Best að fylgjast með úr fjarlægð.

6.  Ætlaði að verða flugmaður, lögfræðingur og kokkur.  Daðraði við að verða bóndi og langaði að prófa að fara á sjó!!!  Er á réttri hillu í lífinu núna held ég.  Fer stundum á sjó (hvalaskoðun), sníki sveitaheimsóknir, er alltaf að röfla um lagaflækjur og elska að elda góðan mat.  Valdi samt vinnu með börnum og unglingum í grunnskóla.  Þar nýt ég mín til fullnustu og tel mig góðan starfskraft.  Á kannski enn eftir að prófa flugið....

7.  Er hamingjusamur með konunni (kærustunni) minni og á þrjár gullfallegar dætur.  Þær eru ólíkar, en stórkostlegar hver fyrir sig, og saman.  Konan þekkir mig svo vel að hún veit stundum betur en ég hvað ég hugsa.  Er hægt að biðja um betra.

8.  Horfi bjartsýnn fram á veginn, fullviss um það að lífið mitt verður stöðugt betra.

Takk fyrir klukkið pabbi, ég klukka líka þrjá bloggvini sem verða að bregðast líkt við.  Ég klukka Gunnlaug Erlendsson, mág minn, þegar hann kemur frá Færeyjum.  Svo klukka ég Möllu Ægis, skólafélaga minn frá Eiðum, nú myndarlega húsmóður á Fáskrúðsfirði og Vilborgu frænku mína!

Annars vona ég að bloggvinir mínir, sem og aðrir séu að njóta sumarsins líkt og ég.  Var í skírn/óvæntri giftingu á Akureyri í gær, róleg helgi og svo Torrevieja á föstudaginn, hele familien skal til skoven!!!!

Góða nótt.


Unglingahátíðir á Íslandi!

Skelfileg staðreynd!!!

Ólsarar ákváðu í framhaldi af hörmungum síðasta árs að stoppa "Færeyska daga" í bili allavega.

Vorkenni íbúum Akraness ef þessi frétt er rétt.  Þessar útihátíðir á Íslandi þar sem foreldrar hleypa börnum sínum óáreittum allt of ungum með "vinunum að tjalda" eru ljóður á íslensku samfélagi og þarf að fara í alvöru umræðu!

Það á að bregðast hart við ólátum á almannafæri, leysa hana upp með þeim hætti að fólk hugsi sig um.  Tala nú ekki um þegar börn og unglingar eiga í hlut.  Það verður að draga fram ábyrgð foreldra þeirra sem undir lögaldri eru sér til skammar á slíkum stöðum og þá sem lögráða eru þarf hiklaust að sækja til saka, því ef manni líðst alvarleg ölvun á almannafæri 15 - 17 ára er maður ekki líklegur til að snúa sér að drykkju Svala á götunum þaðan frá.

En eins og í mörgu öðru eru það fordæmin sem skipta mestu máli.  Veit dæmi þess að þegar lögreglan hringdi í foreldra 14 ára unglings úr Reykjavík sem var í bíl hjá 17 ára ökumanni og tveim 15 ára vinum sínum, með fullt af bjór og sterku víni, til að tilkynna foreldrunum að þeir hefðu hellt áfenginu niður og barnið yrði sent til baka, varð allt vitlaust.  Svívirðingaruna um nasísk vinnubrögð og krafa um endurgreiðslu beint til barnsins, "sem hefði unnið sér inn fyrir þessum hlutum á heiðarlegan hátt" glumdu í símann.

Mörg önnur svipuð voru uppi á teningnum og viðbúið að verði á Akranesi um helgina.

Allar helgar á Íslandi eru að verða Verslunarmannahelgar, bara spurning hvar útihátíðin er.

Er þessi þróun af hinu góða?????


mbl.is Fjöldi unglinga stefnir á Írska daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Sandinum er þetta helst!

Costa del Hellissandur.  Þvílíkur hiti hér sunnan við húsið, skaðbrunninn á enninu og perustefnið (maginn) að verða bleikur.  Ekki ský á himni og náttúran í fegursta gírnum.

Hekla átti afmæli 28.júní, orðin 10 ára.  "Tíminn flýgur áfram og teygir mig á eftir sér"  Tilvitnun í Magnús Þór Jónsson (Megas) lýkur.....  Bauð bara tveim vinkonum hér í gellu-, nammi-, video- og gistiveislu.  Gekk bara vel.

Ég dæmdi svo hörkuskemmtilegan 3.deildarleik í Borgarnesi á föstudagskvöldið, Skallagrímur - Hvöt.  Bara hörkuleikur sem endaði með 2-1 sigri aðkomumannanna frá Blönduósi.  Mikið að gera, en held mér hafi gengið ágætlega.

Helga Lind ákvað að skreppa til móður sinnar og Ölla í bústaðinn þeirra í Tungunum á laugardagsmorgninum.  Við Hekla fórum og hjálpuðum Fúsa og Sigrúnu með pallinn þeirra ásamt Gunnari Erni Evertonmanni og kennara fram til kl. 17.  Þá komu Fúsi og Sigrún á Selhólinn og grilluðu með okkur.  Indælis kvöldstund með góðum mat og drykk.

Í morgun vöknuðum við Hekla um hálf tíu, rifum í okkur morgunmat og stormuðum í hvalaskoðun frá Ólafsvík.  Stórkostlegar þrjár klukkustundir þar, fyrstu hvalirnir sáust eftir fimm mínútur og við vorum í þvílíkum hvalavöðum allan tímann.  Höfrungar, sem m.a. hoppuðu um hafið fyrir okkur.  Hrefnur sem sáust þvílíkt vel, enda að borða og voru ekkert að kippa sér upp við forvitna túrista.  Hefðu verið auðveld bráð.....  Miklu stærri dýr en ég hélt!  Svo fengum við Háhyrninga í lok ferðar, í þvílíkri nálægð.  Köfuðu í kringum bátinn og komu upp á yfirborðið svo nálægt að manni fannst maður geta klappað þeim.  Stafalogn, spegilsléttur sjór og fjöllin eins og á striga.

Frábært.  Skora á alla að prófa svona túr!  Reyndar fannst mér ansi hreint magnað að skipstjórinn kom til mín í upphafi ferðar og spurði hvort ég treysti mér til að skilja sig á ensku.  Það kæmu aldrei Íslendingar í þessar ferðir og hann ætti erfitt með að þýða ræðuna sína á íslensku!!!!  Spáið í það.  Í ferðinni voru nær eingöngu Danir sem hafa borgað tugi þúsunda fyrir skemmtunina með öllu, en við Íslendingarnir förum ekki í slíkar dásemdarferðir. Skamm!!!  Við borguðum 5000 fyrir ferðina og það var sko þess virði!!!

Svo komum við heim, ég sofnaði í sólinni í garðinum og fór svo í það að grilla fyrir okkur Heklu.  Kjúklingaleggir, kartöflur og maís á grillinu.  Og svo aðalrétturinn sem rann alveg hrikalega ljúft niður hjá okkur feðginunum.  Hrefnukjöt.  Ákaflega gott á bragðið og við fengum ekkert samviskubit yfir að borða af eins dýri og við höfðum dáðst að fyrr um daginn.

Nú erum við bara að fara að sofa..... Góða nótt í bili.


Handleggsbrot í hjólaferð!

Jahérna!

Fyrirsögn í saræmi við heimilislífið.....

Loksins í gær lagaði ég kvenhjólið sem Hekla getur verið á.  Um níuleytið í gærkvöldi ákváðum við að skella okkur á smá hjólarúnt og byrjuðum á að fara í Hraðbúð N1 og pumpuðum í dekkið á hjóli Heklu.

Lögðum af stað og ætluðum hestaveginn ofan við þorpið.  Þegar ég beygði tók Hekla ekki eftir beygjunni minni, beygði inn í afturdekkið mitt og datt á hendina.

Við tók ferð á heilsugæslustöðina með röntgen, brotdóms frá lækninum og síðan gifsgerð.  Brot á framhandlegg rétt ofan við úlnlið.

Nú er bara endurhæfing, brottför til Spánar 20.júli, ætlum okkur að vera orðin gifslaus þá!

Heyrði í mömmu í Portúgal í dag.  Bara nokkuð kát, bara verið að berjast í gegnum íbúðamálin öll....


Frábær helgi og hvalaskoðun á Selhólnum!

Frábærlega vel heppnað ættarmót að baki á Sauðanesi um helgina.  Eftir miklar pælingar ákváðum við að keyra norður á föstudeginum, alla leið á nesið góða, og þarmeð fórna knattspyrnumótinu á Blönduósi.  Það var afar leitt, Hekla var spennt, en við urðum að velja á milli.  Ætlum á ÍR-völlinn í júlí í staðinn í boltann með Snæfellsnesi!

Vorum komin um níuleytið á Sauðanes, eftir flotta pizzu í Ólafshúsi á Sauðárkróki og þægilega ferð í frábæru veðri.  Ferðin hófst með heimsókn á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem Sigríður Birta var skoðuð og ákveðið að hún fari í kyrtlatöku í haust. Helv****!

En, aftur í gleðina.  Föstudagurinn var bara svona bara að brosa framan í fólkið, spjalla um gamla tíma, hjálpa til við netalögn og kíkja á málverkasýninguna í vitanum.  Ég var bara eins og kóngur, var settur í gamla herbergið mitt ásamt Helgu og Birtu, enda útilegugleðin mín einskorðuð við þægilega gistingu án raka og hitasveiflna.  Hekla var í krakkaherberginu og mikið stuð.

Laugardagurinn var tekinn snemma, byrjuðum að fara í fjósið ásamt Herdísi og snæddum svo staðgóðan morgunverð áður en farið var í prógramm ættarmótsins.  Myndlistarsýningin í vitanum hófst kl. 13:00 - þar stoppuðum við stutt því ákveðið hafði verið að fara í fjallgöngu.  Því miður var þoka niður í miðjar hlíðar þannig að úr varð að við fórum upp að vatnsbóli staðarins, Lúðuvatni og síðan gengið inn í Engidalinn að austanverðu og síðan til baka að vestanverðu, semsagt dalurinn genginn.  Um 20 manna hópur stormaði, mest börn, en Jonni og Herdís svindluðu og komu á hestum! Skamm.....  Jonni reyndi að eggja okkur Tomma yfir Gjárnar, en ég harðneitaði enda leiðin ekki falleg eða skemmtileg, hvað þá í svarta þoku.  Svona er maður þroskaður, í gamla daga hefði ég látið eggja mig áfram.

Að göngu lokinni var stormað í sund á Sólgörðum í Fljótunum.  Indæl laug, vel við haldið með potti og fínerí.  Alls konar stuð, ég varð í þriðja sæti í kafsundskeppninni á eftir frændum mínum og bræðrunum Manga og Jonna.  Ég tel mig þó hafa unnið, því innöndunartæki þeirra (nefin) og hárvöxtur (afar lítill) gera þá ólöglega í almennum flokki kafsunds!!!!!

Svo var heim á Sauðanes þar sem hátíðardagskráin hófst.  Vilborg, Magga, Jonni og mamma tóku til máls, Jón Bjarki las upp lestur og ég grillaði.  Fékk að vera aðalkokkur, sem ég hef afar gaman af.  Stóð við grillið í um 2 tíma og grillaði ofan í 48 manneskjur, hina ýmsu rétti.  Svo var farið í fótboltaleik eins og vani var á Sauðanesi.  Ég var kosinn fyrstur, en því miður stóð ég ekki undir því, er enn helaumur í lærinu og fór lítið.  Kristján Þór frændi minn var kosinn maður leiksins, sem var sannarlega uppreisn æru, þar sem hann var kosinn síðastur.  Til hamingju Kristján.

Svo var það partýið.  Það skiptist í eldhús- og garðpartý.  Ég valdi garðpartýið sem var mjög skemmtilegt.  Eurovision- og Eightieslög sungin af miklu krafti, í bland við skemmtilegt spjall.  Ég fór að sofa um tvö en húsfrúin mín ákvað að sitja áfram, enda í mínum verkahring að keyra heim.

Sem við svo gerðum á sunnudaginn.  Lögðum í hann um hádegið, konan var nú reyndar hálflasin fram að sjoppustoppi í Varmahlíð, en lagaðist mjög er á heimferð leið.

Þegar við komum heim vorum við snögg að hafa okkur til í næsta vers.  Heimboð til Guggu þjóðgarðsvarðar og Péturs manns hennar, sem jafnframt er aðstoðarskólastjóri FSN.  Frábær var þar maturinn og félagsskapurinn sem auk þeirra og okkar var góðvinur minn Björn Árnason og Guðrún kona hans.

Bjössi vinur minn og fyrrum samstarfsmaður í Breiðholtsskóla leit vel út, reffilegur og hress eins og von hans er og vísa.  Hreint dáist að hugrekki hans og vonast til að sjá hann í svo fínu formi sem lengst.  Indæl kvöldstund og góður endir á frábærri helgi.

En áður en helgin kom og þegar henni lauk var indæll veruleikinn hér svo augljós.  Á miðnætti á fimmtudag bað ég konuna (kærustuna) mína um að drekka með mér hvítvínsglas í kvöldsólinni.  Við settumst niður fyrir framan húsið okkar á Selhólnum.  Þá heyrði ég lágværa smelli og fór að spá í hvaðan þeir kæmu.  Þegar við fórum að skoða málið var höfrungavaða rétt utan við Hellissand, og þar virtist fara fram inntökupróf í skemmtigarða og bíómyndir.  Einn höfrungurinn sást minnst 10 sinnum stökkva allur upp af hafsfletinum og smellirnir voru þegar hann lenti.  Auk þess sáust fleiri greinilega, sem og stærri dýr.  Guðdómleg sjón, við vorum hreint ráðvillt - með frosið bros.

Í morgun fórum við Sigríður Birta svo fyrst í gang.  Fórum keyrandi í leikskólann.  Þegar við vorum að beygja niður hólinn sást greinilegur hvalsblástur rétt utan við Keflavíkina okkar og stuttu seinna hvalsbak og svo loks allur sporðurinn.

Ég dreif mig til baka eftir að hafa skutlað SBM og dró Heklu með mér að gömlu Svörtuloftum þar sem við fylgdumst með blæstri og svamli stórra hvala.

Það er alveg ótrúleg nálægð við náttúruna hér.  Það er erfitt að verða ekki ástfanginn af henni, enda ekki nokkur ástæða til að berjast á móti því.

Takk fyrir sýninguna hvalir og takk fyrir frábæra helgi kæru ættingjar!!!!  Næsta ættarmót eftir 2 ár í Trékyllisvík??????


Göngum yfir brúna!

Sungu Mannakorn á sínum tíma þegar álverið í Straumsvík var reist.

Hlægilegt ef ætlunin er að hlaða enn einu stórfyrirtækinu á Suðurland.  Hreint og klárt bull.  Þar er næg atvinna og framkvæmdir sem eru að viðhalda og auka þensluna á okkur öllum.

Ef menn vilja halda áfram að framleiða áldósir undir niðursoðna ávexti og drykkjarílát í Bandaríkjunum er lágmarkið að reyna að auka atvinnu á þeim svæðum sem þarfnast hennar.

Stjórnvöld hljóta að sjá það að það verður að dreifa atvinnutækifærunum um landið okkar, mið-Austurland lifir góðu lífi út af álverinu í Reyðarfirði og ef á að reisa stóriðju hlýtur Norðurland að verða staðurinn, því Vestfirðir eiga litla möguleika þar.  Vogar á Vatnsleysuströnd eru ekki á fallandi fæti og þurfa ekki aukin atvinnutækifæri, alla vega ekki í bili.

Svo hef ég áður lýst áhyggjum af nýja refabúskapnum, álverum sem allir vilja reisa.  Ef hrun verður á þeim markaði, erum við með of stór fótboltahús víða um land!

Skil ekki hræðslu Hafnfirðinga, þó ég viti að álverið hafi verið að standa sig afar vel í langan tíma á hafnfirskum vinnumarkaði.  Hafnarfjörður þarf ekkert að örvænta þó álverið hverfi.  Bara að heimta að Alcan rífi allt það sem þeir eiga þarna, reisa bryggju, skipuleggja lítið iðnaðarhverfi og selja svo grilljón lóðir á besta stað.

EN, þensluna á höfuðborgarsvæðinu verður að slá á!!!!!


mbl.is Borgarafundur í Vogum veitir bæjarstjórn umboð til viðræðna við Alcan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggpása í sumaryl og nýr bloggvinur

Halló!

Veit að langt er frá síðustu færslu, vona að einhver sé enn að tékka á mér annað slagið.  Það er bara búið að vera svo frábært sumar á Sandinum að varla hefur verið kveikt á tölvunni á Selhólnum.  Er núna að stelast til að blogga í vinnunni.

Hún er ekki enn alveg búin, er að vesenast í skýrslugerðum og skipulagi næsta skólaárs.  Vona að ég komist langleiðina með það í þessari viku, en reikna líka með einhverjum dögum í þeirri næstu.

Sauðanesættarmót um helgina, hlakka mikið til.  Alveg gargandi þátttaka og fín veðurspá.  Verður örugglega skemmtileg helgi, ætla að labba á fjöll og njóta sveitaloftsins á Nesinu.

Langar að bjóða nýjan bloggvin, Gunnlaug Ella P, einstaklega velkominn í bloggheima.  Kafaramenntaði sjóarinn og mágur minn er ekki skoðanalítill maður og gaman verður að kíkka á hans hugðarefni annað slagið.  Strákur orðinn rammruggandi sjóari og aflakló mikil sýnist manni á fyrstu bloggunum.

Velkominn í Bloggliðið Gunni minn.


Austurland á uppleið.

Sama hvað öllum fannst um Kárahnjúkavirkjun og álver, er ekki spurning að allir eiga að gleðjast af heilum hug þegar slíkar fréttir berast utan af landsbyggðinni.

Ég hef svosem talað um þetta mál áður, skrifaði grein í Morgunblaðið í fyrra um þetta málefni og sú grein sagði minn hug.  Lífið snýst alltaf um að velja skásta eða besta kostinn og ég tel að þrátt fyrir ákveðinn fórnarkostnað hafi sú ákvörðun að ráðast í gerð stóriðju í Fjarðabyggð hafi það nú sannast að góður kostur var þar valinn.

Ég þekki enn sem betur fer nokkuð af fólki fyrir austan og hreint allt annað að heyra í því nú en fyrir nokkrum árum, svartsýnin orðin að bjartsýni og flóttinn að austan stöðvaður, margir jafnvel að snúa til baka!

Ég er líka sammála ummælum um að varast beri að hefja álversvæðingu landsins, eins og þegar togaravæðingin hófst.  Ekki skynsamlegt að velja eina leið til að taka á atvinnuvanda, sem gæti þá lagt allt í rúst ef sú leið ræki í ógöngur.

Til hamingju Austurland, jafnvel þó stórt lón liggi yfir nýtt landsvæði og gígantískar byggingar standi í sveitahverfinu á Reyðarfirði.  Mannlífið er að byrja að springa út, manni sýnist jafnvel vera að koma möguleiki á fótboltaliði í efstu deild!!!  Það yrði flott.

En vonandi tekst að finna leið út úr atvinnuvanda landsbyggðarinnar annar en að setja upp þungaiðnað.  Mér finnst reyndar kominn tími á að þeir sem tala mest um varnir í umhverfinu ættu að fara að vinna af krafti að því að hjálpa landsbyggðarfólki við að finna aðrar leiðir en þungaiðnað.  Sumum byggðum þessa lands er að blæða út og fullkomlega eðlilegt að þær bíði eftir tækifæri á nýrri atvinnu. 

Tel fullvíst að Húsvíkingar t.d. myndu vilja annað en stóriðju til sín, en hvað?????


mbl.is Kaflaskil á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál!

Ragnar Þorsteinsson kominn af stað.

Minn góði vinur og fyrrum yfirmaður í Breiðholtsskóla greinilega farinn að setja mark sitt á Menntasvið.  Vann ákaflega gott brautryðjendastarf í málefnum nýbúa í Breiðholtinu og ég er handviss um að hann fer fram af heilindum með hag nýrra Íslendinga, og þarmeð okkar allra í brjósti.

Hann getur alveg fengið okkar feril hér lánaðan.  Í skólanum okkar eru 11% nemenda með annað eða bæði foreldri sem hefur ekki íslensku sem móðurmál.

Frábært vinnuteymi starfsfólks skólans hefur unnið upp flottan feril sem ég er handviss um að Reykvíkingar geta nýtt sér.  Ég held að málið sé að brjóta báknið niður.  Í minni samfélögum skiptir einn maur máli, sama hver uppruni hans er.  Reykjavík á ekki að einblína á teymi og ferla heldur fjölga fagfólki inn í skólana og auka fjármagn til mannauðs.

Ef ég ber saman fjármagn sem lagt er í mannauð í mínum skóla nú við það sem skólar í Reykjavík búa við er samanburðurinn ósanngjarn, algerlega okkur í vil, þar sem allir maurarnir eru mikilvægir og við erum ákveðin í að öll dýrin í skógarlundinum verði vinir.

Go Ragnar!


mbl.is Stefnumótum í málefnum barna af erlendum uppruna samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að vanda sig!

Ekki laust við að maður hafi hrokkið við þessar fréttir í gær.  Það munar um 20 - 25 milljarða í þjóðarbúið, það er á hreinu!

Skil ekki alveg hvað er í gangi, það virðist alveg sama hversu mikið aflamagn er lækkað, ekkert lagar ástandið!  Er þetta brottkast, eða er það hitastig, veiðarfæri sem rústa botninum eða breytingar í vistkerfi sjávar????

Það er allavega ljóst að það þarf að vanda til verka, reyna að koma af stað sátt um sjávarútveginn og reyna að færa sjávarútvegsplássunum möguleika til að lina höggið sem óhjákvæmilega mun koma þegar brestir eru að koma fram.

Í augnablikinu finnst mér ekki öllu máli skipta hvað verður um kvótakerfið, það þarf að passa þorskinn í sjónum.  Þó allir átti sig nú ekki á því er von á kreppu hér á landi ef sú auðlind brestur!

Vona að pólitískur hráskinnaleikur verði ekki aðalatriðið, almennileg lending í atvinnumálum verður að koma til.....


mbl.is Sjávarútvegsráðherra: Stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband