Færsluflokkur: Dægurmál

Fjallabyggð og fingur.

Jæja.

Horfði á X-Factor í kvöld.  Eins og venjulega hlægileg símakosning og svo hlægileg ákvörðun dómarans hvern átti að senda heim og hver átti að vera áfram.  Þessi þáttur er að verða stærsta flopp í sögu 365-ljósvakamiðla.  Þvílíkt hallæri.  Ásgeir skjólstæðingur minn og þjálfari spurningaliðs Breiðholtsskóla sem vann sinn gáfumannabikar á sínum tíma bjargaði kvöldinu með því að vinna MA í gini ljónsins á Akureyri.  Flottur Ásgeir!  Gaman að sjá efnilegt fólk á ferð.

Þá erum við komin að efnilegu fólki.  Er enn að venjast því að vera frá Fjallabyggð að hluta.  Fer reglulega á http://212.30.223.18/news.php og gríp það sem er að gerast á Sigló, sem nú er víst að verða "Vesturbær" Fjallabyggðar!!!!!  Frábær síða Steingrímur, á að verða til þess að svona snillingar eins og Jón Ársæll eða Gísli Einarsson stökkvi til og bendi landanum á stórvirkið sem unnið er á hverjum degi í fréttaflutningi frá Siglufirði, sorry, Fjallabyggð.

En.  Efnilega fólkið!  Inga Sæland er líka frá Fjallabyggð!!!! Eystri.  Einu sinni hét það Ólafsfjörður.  Hún var að keppa í X-Factor í kvöld og söng Abbalag ágætlega.  Ekki eins vel og þau tvö sem sátu í neðstu sætunum í kvöld en var indæl. 

Mig langar samt að lýsa aðdáun minni á þessari konu og því sem hún er að ganga í gegnum núna.  Við Fjallbyggðingarnir (er þetta rétt?) eigum það sameiginlegt að hafa misst smápart af fingri.  Þessi kona á fimmtugsaldri mætir þrátt fyrir það á hverju föstudagskvöldi og syngur fyrir alþjóð.  Ég man vel þegar þurfti að klippa 16 mm. af mínum fingri.  Það var hreinn ömurleiki og sársaukinn alveg ferlegur.  Algerlega uppdópaður og allar venjulegar lífsvenjur voru skrýtnar í svona 4 - 6 vikur.  Svo vandist það.

Á þeim vikum var ég bara að lesa blöðin og glápa á video með puttann minn innpakkaðann.  Þurfti að passa hendina á meðan ég labbaði, sat og svaf.  Þess vegna langar mig að hrósa Ingu, sem er klárlega "Shaken but not stirred".  Reiknaði greinilega með að falla út í kvöld.  Þú ert að sýna alveg heljar grimmd Inga.  Ætla bara að halda með þér.  Sosum alveg klárt að Jógvan kallinn vinnur, en þú ert hetja í mínum huga!  Fyrsti Ólafsfirðingurinn held ég sem færð þann stimpil í mínum haus, eins gott að þetta er orðið Fjallabyggð!  Sennilega löngu kominn tími á sameiningu.......... Áfram KS/Leiftur!!!!!

Að lokum finnst mér ofboðslega gaman að sjá að Ingunn vinkona mín hafi lesið síðuna mína.  Skila kveðjunni til Thelmu og langar að benda á nokkuð skemmtilegar auglýsingar um lausar kennarastöður í Snæfellsbæ sem munu birtast á næstu vikum.........  Vantar alltaf hressan Jökuldæling, hvar sem er!!!!!


Snillingur stóryrtur!

Ekki oft sem ég viðurkenni aðdáun á einhverju tengdu Manchester United.

Ætla þó hér með að viðurkenna virðingu fyrir Sir Alex Ferguson.  65 ára gömlum Skota sem hefur unnið allt sitt líf í sérkennilegum glamúrheimi knattspyrnunnar.  Núna les hann sérkennilegum Portúgala - einhverjum 20 árum yngri - pistil um framkomu.

Fótbolti er ekki kurteis vinna.  Oftar eru menn étnir en þeir fá að éta sjálfir.  Ferguson er fyrir löngu búinn að vinna allt sem hægt er að vinna, en heldur samt áfram.  Virðist enn einu sinni vera að búa til meistaralið.

Við sem munum eftir fyrstu árum hans og þeim brunarústum sem hann tók við á Old Trafford gleðjumst fyrir hans hönd.  Hann er enn einu sinni að stinga upp í úrtöluraddir og lýsingar á ótímabærri öldrun hans.

Hann mætti samt alveg fara að hætta, Liverpool þarf að fá að taka við !!!!!


mbl.is Ferguson: Mourinho ætti að halda sér saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir í vanda.

Allir sem mig þekkja vita hversu skotinn ég er í danskri menningu, tungu og þjóð.  Kaupmannahöfn yfirburðauppáhaldsslökunarborgin mín, nærri því jafn elskuð og Liverpool.  Veit lítið skemmtilegra í útlöndum en labba á Strikinu, sitja á Nýhöfn, þvælast í Tívolí, vera á Bakkanum borða á skemmtilegum dönskum veitingastað eða sötra Carlsberg á öldurhúsi.  Jafnvel þótt það sé yfirleitt fullt af reyk.

Verð samt að viðurkenna að ég fíla ekki Kristjaníu og þetta misskilda frelsi sem þar ríkir.  Reyndar ekki komið þangað nema einu sinni, en fannst þar bara birtast mannleg eymd.  Óþrifnaður var gríðarlegur og ég sá ekkert spennandi við hasspípur og köggla, eða uppþornaða hippana sem voru á Pusher street þann daginn.

Sama finnst mér þarna á ferð.  Ungdómshúsið á Nørrebrogade er að verða nýtt "hústökuhús" og þar virðist róttækur hópur fólks ætla að berjast fyrir "frelsi" til að búa í því í óþökk eigenda og nágranna.  Slíkt frelsi hugnast mér ekki.  Frelsi hinna freku. 

En þarna kannski kemur í ljós það að manns stærsti kostur er oft manns stærsti galli.  Umburðarlyndið sem Danir telja vera sinn stóra kost, "afslöppunargenin" sem svo gott er að upplifa verða oft til marks um skeytingarleysi, þangað til eldurinn er það logandi að erfitt er að slökkva hann.

Nú virðist stefna í heljarslag, með þátttöku róttæklinga utan Danmerkur.  Ég hef trú á því að þessar deilur á Norðurbrú muni kalla á þjóðfélagsrýni hjá Dönum.  Síðast þegar ég var úti var mikil umræða um Kristjaníu og hústökufólk sem mikið virtist af þá.   Blómatíminn er liðinn, laufin visnuð og í stað elskandi hippa virðast vera í fararbroddi þarna anarkistar sem ætla að nota ofbeldi og skemmdarverk til að berjast fyrir sínum málstað.  Unga fólkið sem byrjaði mótmælin er að víkja fyrir "hardcore" jöxlum sem fundu sér þarna stað til að hafa hátt og mikil læti.

Slíkt finnst mér ekki mega verða.  Það að skemma fyrir öðrum er ekki nokkrum sæmandi.  Unga fólkið sem þarna er að berjast verður að sætta sig við það að eigendur hússins ráða örlögum þess.  Barátt þeirra ætti að snúast um að finna annan stað fyrir starfsemina, og þá sjá til þess að neikvæðar hliðar þeirrar starfsemi sem í húsinu fór fram verði ekki það sem starfsemin verður þekkt fyrir.

Make love - not war virðist vera útdauð hugmynd.  Það var grundvöllur hippanna og hugmynd Kristjaníu.  Mér finnst glæpaaldan í Kristjaníu og saga óeirðanna vegna Ungdomshuset ekki eiga neitt skylt við það og því viðbúið að dönsk stjórnvöld bregðist við á annan hátt!


mbl.is Götubardagar á Norðurbrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ringlandi.......

Aðalmálið sem bætist í umræðuna þarna var mæling Hagstofu á brottfalli réttindakennara.  Það er áhyggjuefni fyrir íslenskt þjóðfélag, án vafa.  Einnig því að núverandi samningakerfi sé fullreynt.

Las grein eftir skólasystur mína, ljóðskáldið Ingunni Snædal í blaðútgáfu Moggans á sunnudaginn.  Þar var hún að heimfæra útkomur okkar úr alþjóðlegum könnunum í tengslum við ummæli ríkisstjórnarmeirihlutans og ráðherra menntamála um hversu stolt við megum vera af okkar menntakerfi.

Vel pennafær, ljóðskáldið Ingunn.  Og mjög margt til í flottri grein hennar.  Var alvarlega farinn að vera sammála henni í því að vera algerlega andvígur ríkisstjórninni.

Þá horfði ég á föður hennar, Vilhjálm Snædal frá Skjöldólfsstöðum og aðra mektarbændur af Jökuldal lýsa ánægju sinni með Kárahnjúkavirkjun og lýsa frati á umhverfissinna sem berjast gegn hreinni orku.  Villi fór á kostum í viðtalinu, svo ég var allt í einu orðinn svo glaður með þá ákvörðun að virkja þannig að rafmagn verði notað til að knýja álver.  Í stað kola eða olíu út í heimi.  Þetta er jú einn heimur, mikilvægari en rennsli Jökulsár um Jökuldal og Hlíðina í Héraðsflóann.

Nema það að Ingunn skrifaði flott ljóð um Jöklu sína......

Hvað er rétt og hvað er rangt!!!!!


mbl.is Heimili og skóli lýsa yfir áhyggjum af viðræðuslitum kennara og launanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir af veikum - og náttúran á Nesinu!

Var að skutla dætrum mínum í bæinn í kvöld.

Heyrði þá fréttir Stöðvar tvö af þeirri ólánsömu stúlku sem lenti í klóm Guðmundar í Byrginu og kom fram opinberlega, fyrst nokkurra.  Sú er lent á kafi í neyslu, móðir hennar var til svara og taldi ráðamenn hafa brugðist, auk þess sem hún var ekki viss um hvort rétt var hjá dóttur sinni að koma fram í sviðsljós fjölmiðlanna.

Hin ólánsama stúlka hefur hingað til ekki viljað leita sér aðstoðar í neyslunni, virðist vera búin að gefast upp.  Fréttamaðurinn spurði hina vansælu móður hvort hún vissi hvað hægt væri að gera.  Aumingjans konan varð að viðurkenna það að í raun væri enginn staður fyrir dóttur sína eins og nú væri komið.  Ekki var sagt út af hverju, en að sjálfsögðu er það af því að Byrgið var eina athvarf langt leiddra fíkla á Íslandi.  Hófst þá umræða um það að stúlkan "hafi fengist" í viðtal á Geðdeild Landspítalans, en þar hafi menn ekki talið ástæðu til innlagnar.

Það fannst mér leitt að heyra að reynt var að láta eins og sú ráðstöfun væri vefengjanleg.  Góður vinur minn átti mjög erfitt í geðinu fyrir nokkrum árum og ég fór og heimsótti hann á umrædda deild.  Þar talaði hann um ófrið sem hlytist af slíkum innlögnum fíkla og alkóhólista sem væru í raun á deildinni til afvötnunar.  Síðan þá hef ég oft hugsað um það hvort þar inn eigi að fara aðrir en þeir fjölmörgu Íslendingar sem eiga við tímabundin geðræn vandamál að stríða.  Ég held ekki.

Málið er það að við verðum, þessi ríka þjóð, að finna svipaða lausn og Byrgið var fyrir þessa okkar veiku meðborgara.  Nú verðum við bara að sjá til þess að fagfólk komi að því starfi, ekki einhverjir sem sæta lagi að misnota veikindin.

En þetta var annan daginn í röð sem svipuð umræða kom upp.  Í gær var talað um "kennslu í glæpum og neyslu" á Stuðlum.  Þar var líka móðir, nú ógæfusams drengs sem framdi ítrekaða glæpi á landinu sl. ár.  Bragi yfirmaður neytendastofu kom svo í kvöld og sagði að við værum meira meðvituð um það en áður hvernig við ættum að "raða saman" veikum einstaklingum.

Ég hef kynnst starfi á Stuðlum.  Mér finnst það yfirleitt frábært!  Ég hef séð mörg börn ná góðum árangri eftir veru þar.  Vissulega hef ég líka séð dæmi um það sem móðirin lýsti.  Barn með geðröskun sem kynnist fíkli og lendir á kafi í slíku rugli sem dæmið í fréttunum sagði frá.  Sjaldnar samt.

En ég vona að Bragi haldi áfram að þróa sig, OG, það sem mikilvægast er.  Að samfélagið fari að gera sér grein fyrir því að það er "þjóðhagslega hagkvæmt" að eyða peningum skattborgarana í það að lina þjáningar fólks í veikindum, eða finna því úrræði sem geta leitt af sér betra líf fyrir viðkomandi.  Við erum of fá, einn maur skiptir máli!

Svona í lokin.  Þvílík fegurð hér undanfarna daga!  Vetrarstillur með sól á daginn og heiðbjartri nóttinni.  Í kvöld ákvað ég að stöðva bílinn á malbikaða kaflanum á Fróðárheiðinni.  Fór aðeins út til að skoða birtuna og himininn.  Fór svo inn í bílinn, slökkti ljósin og keyrði áfram.  Ótrúlega flott!  Sá veginn mjög greinilega en gat notið kyrrðarinnar laus við ljósmengun.  Fór að sjálfsögðu hægt og kveikti ljós um leið og ég sá bílljós aftan við mig.  Frábær stund!  Skil vel þær sagnir að orka búi í Snæfellsjökli.  Hann glóir!!!!!


Aumingja Eggert!

Ætla að byrja á því að lofa því að þessi fyrirsögn er ekki kaldhæðni!

Ég hef ekki alltaf verið sáttur við störf Eggerts Magnússonar, eða við þá "Evrópustefnu" sem mér fannst hann reka hjá KSÍ, á kostnað grasrótarinnar hér í íslenskum fótbolta.

Ég var meira að segja pirraður þegar hann stökk fram í þennan tilboðsslag um West Ham og fannst pínu bragð að því að íslenskur fótbolti væri þarna búinn að hlaða undir Eggert á þann hátt að hann gæti farið og keypt sér knattspyrnulið úti, í stað þess að eyða þessum milljörðum í þágu íslenskra íþrótta, eins og t.d. Guðjohnsenfeðgar ætla að gera í Kópavogi.

Strax í fyrsta viðtali hnyklaði ég brýrnar.  Eggert fór að tala um Meistaradeildarsæti.  Hjá liði sem spilaði yfir getu í fyrra en lenti þá í 8.sæti en tapaði vissulega bikarúrslitum á hræðilegan hátt, gegn mínum mönnum.  Í stað þess að gefa sér tíma til að kynnast enskum fótbolta og stöðu liðsins kom hann strax með yfirlýsingu sem vakti falsvon í brjóstum áhangenda að allt væri á réttri leið.

Svo kom yfirlýsing um Ólympíuleikvanginn í London sem nýjan völl.  Skrýtið líka fannst mér.

Eftir sjö leiki rak hann framkvæmdastjórann sem hann hafði lýst "100 % stuðningi við" þegar hann keypti liðið.  Réð Alan Curbishley, vonarprins án innistæðu, í staðinn.  Feykidýr aðgerð að losa sig við Pardew, sem ég tel að hafi verið gert alltof fljótt.

Eggert hefur lýst mikilli ánægju með samstarf sitt og Curbishley, sér í lagi í "félagaskiptaglugganum" þar sem þeir hefðu unnið eins og  einn maður.  Keyptu hvern?  Nigel Quashie sem hefur fallið oftar en flestir, Matthew Upson sem féll í fyrra með sínu liði, Callum Davenport, slakan hafsent, Luis Boa Morte, hæfileikaríkan leikmann sem ræður illa við mótlæti og svo Lucas Neill, sem kom bara fyrir peninginn. 

Þá talaði Eggert við blaðamann fyrir bikarleik West Ham við Watford.  Talaði um "mikilvægi þess að ná langt í bikarkeppninni, gott gengi í henni myndi skila sér í góðum úrslitum í deildinni".  West Ham tapaði þeim leik 0-1 og út úr bikarnum.

Í vikunni á eftir kom í ljós að útilokað var fyrir West Ham að fá ólympíuleikvanginn.  Kom aldrei til greina að hálfu nefndarinnar.  Þá kom mjóróma rödd um að "skoðað yrði að byggja nýjan leikvang".

Ekkert gekk í deildinni en fyrir nærri þremur vikum kom Eggert enn í viðtal.  Ljótt þótti mér að sjá hann uppnefndan "Egg" í því viðtali.  Þar talaði hann um það að enn væri góður möguleiki á að halda sætinu, fram undan væru tveir úrslitaleikir, gegn Watford og Charlton sem Alan Pardew stjórnar nú.

0-1 deildartap fyrir Watford og alveg ljóst að "last chance Saloon" væri nú um helgina.  Í blaðinu og Mogganum fyrir leik lýsti Hemmi Hreiðars undrun sinni á því að Eggert hefði látið Pardew fara fyrir Curbishley.  Ekki í langan tíma hefði verið jafn gaman að æfa eins og eftir að Pardew kom.

Leikurinn hófst.  Bara hjá leikmönnum Charlton.  West Ham sá ekki til sólar.  Gleðin og baráttan skein úr öllu sem Charlton gerði, meðan vonbrigðin og leiðindin sáust augljóslega í svip allra sem að West Ham stóðu.

Og því vorkenni ég Eggert.  Það er ekkert gaman að eiga West Ham núna.  Þar sýnist manni öllum leiðast.  Alveg sama hvort um er að ræða atvinnumennsku eða ekki snýst fótbolti um gleði.  Eggert var glaður þegar hann keypti liðið, glaður þegar hann tók á móti Íslendingum á Upton Park og glaður þegar hann mætti í vinnuna.

Nú sýnist manni örlög hans og liðsins ráðin, hann virkar 15 árum eldri en þegar hann keypti liðið, varla sést mynd af honum í sjónvarpi nema þegar hann er að hrista höfuðið og sorgarsvipur í blaðaviðtölum.  Óháðar spjallsíður stuðningsmanna West Ham baula á hann og Curbishley og eftir niðurlægingu helgarinnar er spurt stórum spurningum um ákvörðunina að reka Pardew.  Nýjar fréttir um að liðið missi stig út af leikmannakaupum áður en Eggert kom til hjálpa ekki.

Eggert á klárlega ekki skilið að sitja uppi með þetta allt.  Er hræddur um að hann hafi alls ekki gert sér grein fyrir stöðu West Ham og hugsanlega ofmetið eigin reynslu.  Hef talað við menn sem komu að Stoke City - þeir sögðu að fótbolti væri "bananabíssniss" sem enginn ætti að koma nálægt. Manni sýnist ýmislegt til í því.

Á Sky News í gær kom þjálfari skosks liðs, Inverness í viðtal eftir að lið hans féll út fyrir Celtic sem hafði skorað 2 mörk í uppbótartímanum og breytt stöðunni í 1-2 úr 1-0.  Hann lýsti grátandi karlmönnum í klefanum en sagðist hafa sagt við þá setningu sem mér fannst margt til í :

"Football does a lot of things for you, but the only thing guaranteed in football is that it will dissapoint you"

Því miður sýnist manni slíkt muni eiga við um West Ham.  Vona ekki, sér í lagi fyrir ágætismanna sem halda með því liði, Gylfa Orra, Gústa pípara og Friðþjófi hennar Siggu.


mbl.is Curbishley óttast að vera rekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunnudagur undir jökli.

Jæja.

Lítið lagst í heims- eða landsmálin í dag og gær.  Gærdagurinn undirlagður af firmakeppni í fótbolta þar sem við í Hobbitalögnum töpuðum undanúrslitaleik í framlengingu.  Félagsmálaráðherrann þurfti að skora á mig sigurmarkið þegar 20 sek. voru eftir!

Oh, svekkelsið rifjaðist upp.  Ótrúlegt hvað enn er sárt að tapa, kominn fast að fertugu! En mótið var hryllilega skemmtilegt og gamall fótboltafiðringur hentist af stað.  Nú er bara að stunda SólarSport og koma sér í lið í sumar! Eða??????

Herrakvöld Víkings um kvöldið, virkilega skemmtilegt fram á nótt.  Húkkaði mér far heim um tvöleytið um nóttina og var því vel úthvíldur um hádegi þegar Öddi bróðir og Harpa komu í heimsókn á Sandinn.  Virkilega gaman að því, þau voru að koma í fyrsta skipti svo við tókum "gestatúrinn" með þeim.  Styttri útgáfuna.  Það er Írskrabrunnur, Skarðsvík og Ingjaldshóll auk þéttbýlisstaðanna þriggja, Rifs, Hellissands og Ólafsvíkur.

Svo sveik ekki íslenska lambið að ferð lokinni og ánægjulegri helgi nú að ljúka, erill hversdagsins tekur aftur við á morgun.  Sem betur fer því maður metur svona skemmtanir svo miklu meir út af hinu daglega amstri sem maður tekur sér stundum frí frá.

Á morgun koma því örugglega á ný heitar fréttir sem kalla á volgar umræður hið minnsta.

Í dag er það bara helgarsæla og afslöppun!!!


Grasrótin að vakna?

Sýnist svo vera.

Enda finnst mér gott að umræðan sé farin í gang núna, helst koma henni inn í alþingiskosningarnar í vor.  Viljum ekki sigla inn í sumarið með súran svip á andlitum.  Það gæti þýtt erfiðleika í mönnun skólanna næsta haust

Vonandi að þessi mikla blogg-umræða sem hér hefur farið fram vítt um bloggheima sé að skila sér líka til annarra en okkar sem höfum hátt hér.

Ég vona t.d. að við förum að heyra viðhorf samtaka eins og "Heimilis og skóla" og annarra hagsmunasamtaka barna á landinu.

Ég held nefnilega að flestir foreldrar séu ánægðir með kennara barna sinna og skólann sem þau ganga í.  Ég held líka að flestir þeir sem eru óánægðir hafi leitað með þá óánægju til skóla barna sinna, ég tel líka líklegt að þar hafi þeir fundið ótvíræðan samstarfsvilja þeirra sem í skólunum starfa.  Ég tel það líklegt sem foreldri sjálfur auk þess að hafa starfað í skólum.

Þess vegna skora ég á fólk sem er að blogga um þessa kennaradeilu!  Þeir sem ekki eru kennarar, talið um ykkar reynslu af skóla, sem nemendur eða foreldrar.  Finnst ykkur þeir sem kenndu ykkur eða kenna börnum ykkar vera rétti beittir í launamálum?????

Gaman væri að heyra viðhorf foreldra.......... Jákvæð og neikvæð!


mbl.is Kennarar í Víkurskóla skora á Launanefnd sveitarfélaga að leiðrétta kjör kennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

http://pallvil.blog.is

Hæhó.

Hefur blöskrað svolítið að undanförnu málflutningur umrædds Páls sem að virðist skynsamur maður algerlega í stríði við starfandi grunnskólakennara.

Skora á fólk að líta á síðuna hans og kommenta, en læt hér fylgja með svar við hugleiðingum hans um niðurbrotna og metnaðarlausa stétt sem er á villigötum.  Semsagt, kennara.

 

Sæll Páll.

Fyrir það fyrsta er það einfaldlega alrangt að ekki sé leyfilegt að víkja nemendum sem stofna sinni heilsu og annarra í hættu tímabundið úr skóla.  Sem deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri hef ég orðið að bregðast á þann hátt við svipuðum atvikum og þú ert að lýsa.

Það þarf hins vegar að gera á löglegan hátt og af virðingu við nemandann og forráðamenn hans/hennar því Ísland hefur lög um "fræðsluskyldu" en ekki skólaskyldu.

Ég veit ekkert í hvaða skóla þú varst en ég man vel eftir alvarlegum atvikum í mínum skóla sem barn og unglingur.  Þá, eins og nú, var farið misvel eða illa með kennara og/eða skólastjóra.  Tel kennara í dag mun hæfari í starfi sínu en þegar ég hóf kennslu fyrir 13 árum.

Við einsetningu grunnskólans gerðist það nefnilega helst að áhugasömu eldhugarnir héldu áfram að kenna á meðan að þeir sem voru í starfinu fyrir pening flosnuðu margir frá.  Ég kenndi í tvísetnum skóla og lofa því að munur á gæðum kennslu og skólastarfs eftir einsetningu er gríðarlegur, í hag einsetningar.

Enda myndi þjóðfélag samtímans aldrei sætta sig við það að börn væru í skóla frá 8 - 12 eða 13 - 17 eins og var þá.  Dagvistarstofnanir myndu þá spretta upp eins og gorkúlur.

Það er náttúrulega ábyrgðarhluti hjá þér, sem virðist vera heilsteyptur maður sem mark er tekið á, að tala um kennarana sem örvæntingarfulla og niðurbrotna stétt fólks sem hefur ekki menntun barna sem baráttumál sitt!!!!!

Framsæknara skólastarf held ég að finnist vart annars staðar en hér.  Hef komið í grunnskóla í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Englandi, Írlandi, Þýskalandi, Belgíu, Portúgal, Spáni og Kanada.  Íslenskir skólar eru í hæsta gæðaflokki þar, ásamt skólum frá Kanada og Svíþjóð, tel þá standa okkur örlítið framar á þessari stundu en við sækjum að.

Maður sem talar svo um að aðskilja félagslega þjónustu og skóla veit nú ekki margt um samfélagið sem hann byggir.  Hvar á að geyma þau börn sem búa við erfiða félagslega stöðu, eða eiga við sértæka námsörðugleika að stríða, jafnvel fötlun?

Heldurðu kannski að staðir eins og Breiðavík séu betri lausnir en t.d. Hagaskóli, Austurbæjarskóli, Glerárskóli eða Grunnskóli Borgarfjarðar.

Samfélagið á að setja líðan barna og menntun í fyrsta sæti.  Í dag er verið að tala um hryllingssögur úr fortíðinni, sem fyrst og fremst ráðast af því gríðarlega fjársvelti sem þessi málaflokkur hefur verið í undanfarin 40 - 50 ár.  Ekki er langt síðan samgönguráðherrann tilkynnti um átta jarðgöng víðsvegar um land, en nú á dögunum var verið að hefja byggingu á húsnæði fyrir BUGL, SEX ÁRUM SÍÐAR EN REIKNAÐ VAR MEÐ.  Um 100 börn eru á biðlista þangað inn.  Hvar heldur þú Páll að þau börn séu á virkum degi í nóvember.  Á skólinn að loka þau úti???  Eigum við að bjóða í Breiðuvík??? Í raun væri það góð lausn ef hægt væri að borga sérfræðifólki það góð laun að þau fengjust til uppbyggingarstarfs með börnum sem við höfum séð að undanförnu sem niðurbrotna einstaklinga sem kerfið eyðilagði!!!!  Það er mikill barnaskapur og einföldun að telja að skólar Íslands í dag eigi bara að "losa sig við félagslegu vandamálin og fara að kenna".  Slíkar fullyrðingar eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum, hvað þá Reykvískum raunveruleika.

Svo bullið um leiðbeinendurna í lok aldarinnar!  Það hefur aldrei verið eins lágt hlutfall leiðbeinenda og nú er í skólum landsins.  Bylting orðið þar á síðustu 10 árin.

Svo er það þér og öðrum til skammar að láta eins og allir helstu kennarar landsins séu flúnir úr skólunum!!!  Þú gafst upp eftir eina önn, en það gerir þig að mínu viti að minni kennara en þeim sem héldu áfram.

Kennsla er stórkostlegt starf sem gefur af sér mikla gleði.  Í dag er ekki hægt að nota kennara sem ekki koma undirbúnir og fullir eldmóðs til starfa með börnum.  Foreldrasamfélagið og sveitarstjórnir hafa sem betur fer heimtað meiri árangur en fyrir 15 - 25 árum þar sem ekki var óalgengt að í skólunum ynnu menn með kennslu sem aukavinnu, undirbjuggu sig aldrei og virtu ekki nema suma nemendur viðlits.  Þeir sem minna máttu sín sátu undir endalausu ámæli, hver sem ástæða þess var.

Ég held Páll að þú sért að grafa þér stöðugt dýpri gröf.  Þú talar fallegt mál og vel skiljanlegt en það sem hér kemur fram er alveg kolrangt og til þess fallið að gera lítið úr þúsundum fólks sem vinnur að námi barna þessa lands.  Ef við myndum gera almennilega við nemendur á grunnskólaaldri og það frábæra fólk sem þeim leiðbeina eru mestar líkur á því að Kastljós árið 2037 verði frelsað frá hryllingssögum úr íslenskum raunveruleika.

Nóg í bili.

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Snæfellsbæ.


Þú ert aldrei einn á ferð!

Snilldarlið og snilldarúrslit.  Konan hélt ég væri bilaður í marki tvö, hef róast mikið undanfarin ár í ofsaást minni á Liverpool en í gær reif sig upp gamall villingur.

Á þennan fína "headphone" sem þýddi það að konan vann í sjónvarpsrýminu án þess að vita hvað var í gangi í leiknum.  Eftir 74ra mínútna leik á Camp Nou brá henni víst aðeins þegar ég stóð upp úr sófanum, hoppaði yfir hann (hélt ég gæti það ekki ennþá) - fagnaði eins og villimaður, og tók golfdræf inní eldhúskrókinn og stofuna vælandi YES!

Eftir skammarlestur konunnar settist ég niður, skalf í 20 mínútur og táraðist svo af gleði.  Það er svo hrikalega mikil snilld að halda uppá Liverpoolliðið, svo hrikalegur unaður!  Tala nú ekki um þegar Barca lét vesalings Eið horfa upp á þennan leik í 82 mínútur.

Nú er bara að klára á Anfield!


mbl.is Frækinn sigur Liverpool á Camp Nou
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband