Færsluflokkur: Dægurmál

Er þessari vitleysu kannski að ljúka?

Mikið óskaplega var ég glaður að sjá ræfilstuskuna hann Tony Blair í gær tilkynna það að Bretarnir ætli sér heim frá Írak.  Þetta Íraksstríð er ein mesta heimska mannkynssögunnar og öfugt því bulli sem fram fór í Víetnam hópuðust þjóðir að Ameríkönum til að hjálpa þeim að berjast við "öxuldindla hins illa", sem nú voru arabar en ekki "Víetkongar".

Ég ætla ekki að gera lítið úr illmennsku Saddam Hussein - hann níddist á smáborgurum síns lands og á alla mína andúð í því.  Stórveldisstefnan sem ríkt hefur í Bandaríkjunum á tíma George Bush á hins vegar bara heima í Bandaríkjunum.  Ekki í Mið-austurlöndum, í Írak eða Afganistan.

Veit ekki hvað margir hafa lesið "Flugdrekahlauparann", sem er án ef með þeim bestu, ef ekki sú besta sem ég hef lesið.  Þegar maður les þá bók, sem fjallar um Afganistan og deilur íbúa þess lands innbyrðis finnst mér svo augljóst að fólk úr okkar heimshluta á ekki að skipta sér mikið af málum þar.

Við einfaldlega skiljum ekki hugsanagang þessa fólks og verðum að nota aðrar aðferðir en þær að berja inn okkar viðhorf með hríðskotabyssum, flugskeytum og niðurlægjandi ofbeldi.

Þess vegna gladdist ég yfir því að Bretar virðast ætla að skríða frá "sínum" svæðum í Írak, enda ljóst að þeir ráða engu þar og einungis er verið að sóa breskum og íröskum mannslífum til einskis.

Það eina sem er að gerast í þessu landi þarna suðurfrá er að þessar aðgerðir eru að kljúfa það, minnst í tvennt, og ótrúlegar hörmungarsögur af lífi í þessum átökum munu fara að berast.  Ætli við fáum nýja "Deer hunter", eða "Platoon" fljótlega?

Verst að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson horfðu ekki á þessar myndir.  Hjálmar Árnason þó sá ljósið en Jón formaður (sko alls ekki forseti) sló á slíkt hjal.  Það á að halda áfram að halda í þá vitleysu að við höfum verið á réttum stað í Íraksdeilunni, sama hvaða viðbjóður er að hljótast af þessu tilgangslausa stríði.

Á meðan svoleiðis er finnst mér erfitt að horfa til þessara stjórnmálaflokka sem valkost í næstu kosningum.  Ísland á ALDREI að vera þátttakandi í stríði. Aldrei!


mbl.is Talabani fagnar brotthvarfi Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimur knattspyrnunnar.

Í raun alltaf gaman að sjá allar þær hliðar sem upp geta komið á lífi knattspyrnumannsins.  Að undanförnu hafa það verið uppblásnar blaðafregnir af misnotkun golfkylfu í strákaferð í Portúgal.

Þarna er það stúlkuskinn, um tvítugt, sem er að gefa út ævisögu úr Draumalandinu.  Viðurkenni alveg að ég hefði svo glaður viljað ná þeim hæfileikum að prófa að vera atvinnumaður.   Hins vegar er mér ljóst af samtölum við marga af íslenskum atvinnumönnum að sá dans er ekki baðaður rósum.

Í raun skrýtið að verða að búpeningi eigenda, og fjölskylda manns um leið orðin á köflum almannaeign.

Mér finnst allavega þessir menn ekki alltaf öfundsverðir.  T.d. Rooney sem var gerður að alheimsstjörnu 16 ára.  Mun aldrei fara í lundaveiði, koma á Strandirnar eða smakka hákarl í Bjarnarhöfn nema að grilljón blaðasnápar skemmi fyrir honum reynsluna.

Aumingja Wayne, og vesalings Colleen.......

Eða?


mbl.is Unnusta Rooney tjáir sig um vændiskonumálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af kennurum og sveitarfélögum........

Horfði á Ólaf Loftsson í kvöld á Stöð 2.  Sá ágæti drengur þarf örugglega að vinna fyrir kaupinu sínu af krafti næstu vikurnar.  Ekki það að ég sé að draga nokkuð í efa að hann þurfi þess ekki alltaf.

Ég nefnilega treysti því að yfirmenn hans sjái til þess.  Eins og hjá okkur öllum.  Eins og svo oft vildi þáttastjórnandinn fá umræðu um vinnutíma.  Hundþreytt, alltaf  sama tuggan.  Hugsaði ég.

EN, svo hugsaði ég...... Hei, hvernig væri að Óli prófaði bara að segja.  "Veistu, gott innlegg Þóra.  Við erum alveg klárlega til í að skoða vinnutímann okkar uppá nýtt.  Það er bara komið að sveitarfélögunum að benda á hvað mikinn pening þeir vilja leggja í dæmið.  Svo erum við svo glöð með það að menn í sveitarstjórnunum séu til í að setja inn vegleg sólarlagsákvæði í næsta samning.  Svona fyrir þá sem verið er að svifta uppsöfnuðum réttindum.  Frábær hugmynd Þóra.  Fáðu Kalla hjá LN og Halldór hjá Sambandinu til að koma á morgun og segja hvaða tölur er verið að tala um.  Þeir vita það eins og ég að þessar skilgreiningar komu inn í samningana þegar ekki var hægt að tala um launahækkanir, betra var þá fyrir okkar vinnuveitendur að semja um réttindi.  Nú er komið að því að kaupa réttindin!  Bíð spenntur eftir viðtalinu við Kalla og Dóra á morgun Þóra!"

Því miður gerðist það ekki.  Ég held, reyndar eins og síðustu 15 árin, að við þurfum að heyra hvað verið er að tala um í þeirri gullsögu sveitarfélaganna hvað þeir eru tilbúnir að borga fyrir aðra útgáfu af vinnutíma en nú.  Mér finnst launabarátta dagsins í dag snúast um peninga.

Ekki það að stjórnendur í grunnskóla, sem hafa vinnutímaskilgreiningu vinnumarkaðarins, og jafn löng frí og aðrir í þjóðfélaginu geti grobbað sig af mun hærri launum en kennarar.

Þetta snýst um að setja peninga í pottinn.

Var svo glaður að Óli vildi ekki ræða um það að tekjulítil sveitarfélög drægju samning við KÍ niður.  Það er klárlega ekki okkar mál, að hlusta á slíkt nöldur á ekki við lengur.  Þar erum við Ólafur sammála um að sveitarfélögin eiga að snúa sér til ríkis og heimta meiri tekjur til að sinna þessu hlutverki sínu almennilega!

Svo er bara Liverpool og Barcelona á miðvikudaginn.  Eftir helgina er ég að hugsa um að kaupa mér golfsett.  Manni sýnist það vera aðalvopnið á Norðmenn, svona ef við förum í þorskastríð um Smuguna!


Gleðibankagaurinn 22 árum seinna!

Já sko!

Í kjölfar tilbúinnar dramadrottningar sem dreifði ókurteisi og frekju til fólks siglir rólegaheitajaxlinn Eiríkur Hauksson.  Með gítarskotið rólyndisþungarokk!

Bara flott.  Ég sjálfur var hrifnastur af lagi dr. Gunna (reyndar kannski hlutdrægur, er mikill aðdáandi doktorsins) en lag Eiríks kom þar mjög stutt á eftir.  Tala nú ekki um þegar eðalFlensborgarinn Gunnar Þór er framarlega með gítarinn sinn.

Þetta kom þægilega á óvart.  Eftir hlægilegt bull í X-factornum á föstudaginn og nokkur önnur dæmi um óskynsamar símakosningar hélt ég hreinlega að rokkari á fimmtugsaldri (eða eldri!) ætti ekki séns í slíkri kosningu.  En gott að sjá að þjóðin getur valið flott lög og fína söngvara.  Eins gott að Ellý og Páll Óskar völdu ekki Eurovisionlagið!

EN, að lokum býð ég mig fram!  Þeim sem ekki vita það er nú bent á það góðfúslega að hér skrifar einbeittur Eurovisionaðdáandi.  Reyni að missa ekki af viðburðinum og leita uppi lög og keppnir, á sjónvarpsstöðvum og á netinu.  Elska góð partý!  Þess vegna finnst mér ég hinn fullkomni arftaki Eiríks í Skandinavísku undirbúningsþáttunum.  Áralöng dönskukennslureynsla í ofanálag Eurovisionæðisins gerir mig að hæfum frambjóðanda. Please Palli - pick me!!!!

En, nú er bara að vona að Eiki syngi sig í úrslitin svo að kosningakvöldinu á Íslandi verði hægt að eyða í alvöru íslenskum Eurovisionfíling fram að fyrstu tölum!!!!


mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn af ökuníðingum!

Er ekki kominn tími á að fangelsa almennilega menn sem haga sér svona.  Örugglega sjúkur einstaklingur undir áhrifum efna eða áfengis.  Því miður er það engin afsökun.  Maður er hættur að kippa sér upp við slíkar fregnir, koma orðið á viku til tveggja vikna fresti.

Maður óttast það að einungis tímaspursmál sé þangað til að stórslys verður við slíkan akstur.  Kannski þarf lögreglan að fá rýmri heimildir til að stöðva slíka ökumenn.  Miðað við þessa lýsingu í fréttinni fékk hann að fara allt of langt þar til hann var stöðvaður.

Mér finnst umhugsunarverð þróun í gangi hér á landi.  Manni finnst stöðugt meiri hætta vera búin hinum almenna borgara, rán að hábjörtum degi, stórhættulegur glannaakstur.  Klámhringur með ársþing!

Þurfum við ekki að fara að skoða málin aðeins????


mbl.is Ökumaður í annarlegu ástandi skapaði stórhættu á götum Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott KSÍ!

Langar að hrósa knattspyrnuforystunni!

Er orðinn tiltölulega hlutlaus knattspyrnuaðdáandi vestur á Snæfellsnesi.  Lýsti þó klárlega þeirri skoðun minni í vetur að KSÍ ætti að endurskoða starfsemi sína og stefnu í ljósi breytinga á formennsku.

Mín ósk var vissulega sú að formaður KSÍ kæmi úr grasrótinni, en Geir Þorsteinsson er að mínu viti öðlingsmaður, og klárlega besti kostur þeirra þriggja sem í framboði voru.  Ég hef þó haft þá skoðun að KSÍ þyrfti að kafa meira í grasrótina.

Þessi frétt sýnir það að KSÍ vill tengjast grasrótinni.  Þórir Hákonarson, Siglfirðingur með meiru, kemur úr grasrót lítils liðs.  Vissulega míns liðs, KS, en hefur yfirgripsmikla þekkingu á knattspyrnumálum úti á landi, hvort sem átt er við yngri flokka eða meistaraflokka, hjá körlum eða konum.  Vel má vera að margir í stærri liðunum spyrji sig hver sé þarna á ferð, en ráðning hans færir KSÍ klárlega nær aðildarfélögum, sem er þess mikilvægasta hlutverk.

Guðrún Sívertsen er klárlega flott ráðning.  Það ser stór plús að hún er kona, en líka úr grasrót Þróttar og KR.  Jón Gunnlaugsson, Skagamaður með meiru líka í aðalstjórn.  FLOTT!

Þekki ekki almennilega hversu mikið formaður hefur að segja í þessum efnum, en ef einhver þessara mætu knattspyrnuáhugamanna koma þarna inn fyrir hans tilstuðlan óska ég Geir Þorsteinssyni innilega til hamingju.  KSÍ hefur nú ferskt yfirbragð, fólks sem hefur unnið ötullega að uppbyggingu knattspyrnunnar á Íslandi.  Á vettvangi aðildarfélaganna!  Gott KSÍ.


mbl.is Þórir ráðinn framkvæmdastjóri KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími og tímaleysi. Hraði og spenna.

Hæ hó.

Fyrst, takk fyrir hressilegar athugasemdir og bréf á e-mailnum varðandi færslu mína tengd mótmælastöðu kennara.  Hef trú á því að grasrót kennara sé að taka meira til sín.  Það vona ég, þá tel ég meiri líkur á því að eitthvað færist til betri vegar hjá þeim.

Blogg dagsins snýst eilítið um upplifun gærdagsins.  Ég var í "bænum" í gær.  Fór að erindast, aðallega reyna að dreifa nafni skólans míns, eða vinna í búnaðarmálum hans.

Í leiðinni þurfti ég aðeins að láta fikta í bílnum mínum.  Þetta kallaði á keyrslu um höfuðborgarsvæðið.  Ég veit að hjá mörgum hljóma ég skringilega, eftir 10 ára búsetu "á mölinni", en mikið óskaplega er mikill erill í borginni okkar.  Ég þurfti að rúlla frá Garðabænum og upp á höfða í tékk.  Fór af stað 07:45.  Stöðugt jókst umferðin og þegar ég rúllaði á móti umferðinni upp Ártúnshöfðann um áttaleytið var nýgerður sveitamaðurinn undrandi á bílahaugnum.  Dagurinn leið svo eilítið þannig.  Rúntur milli staða, umferð alls staðar.  Biðraðir á ljósum.  Svínað á gatnamótum.

Er ekki málið að fara að skoða þetta eitthvað.  Er ekki allt sprungið?  Strætó leysir ekki allan vandann, en verður að fá hærra undir höfuðið.  Sennilega voru það mistök að taka ekki upp lestarkerfi á sínum tíma.  Sem við bítum úr nálinni núna.

Á heimleiðinni í gær duttum við í sveitagírinn þegar við yfirgáfum Borgarnes, sem mér finnst vera síðustu leifar höfuðborgarumferðarinnar.  Eftir það dró verulega úr stressinu, sem var alveg horfið við heimkomu á Sandinn.  Sakna ýmis að sunnan, umferðin er þó ekki eitt af því!!!

Að lokum mæli ég með Bílalandi B&L.  Erum í eilitlum vandræðum með bílinn sem við keyptum þar í haust, en þjónustan og móttökurnar þar gleðja mig.  Mikið.


Hvað er þarna að gerast?

Eru það orðin eðlileg vinnubrögð að vikulega séu fluttar fréttir af klúðri varðandi dómsmál í viðskiptalífinu.

Lifum við orðið í ríki Stóra Bróður, eða er löggjöf Íslands ekki í stakk búin til að bregðast við svo stórum viðskiptaeiningum og vinnubrögðum þar?

Fyrst olíufélögin og frávísun, núna virðist fullkomin della í gangi í Baugsmálum.  Landslið lögfræðinga situr glottandi að ríkissaksóknara sem virðist engin tök hafa á málflutningi sínum.  Erum við sem þjóð hæf til að standa í slíkum réttarhöldum? 

Mér finnst þetta alveg stórfurðulegt, og nokkuð sem þarf að sjá til að verði aldrei aftur!


mbl.is Verjendur mótmæla löngum yfirheyrslum í Baugsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælastaða kennara - árið 2007.

Blogg dagsins snýst að sjálfsögðu um mótmælastöðu kennara í Reykjavík í dag.  Ætla strax að taka fram að ég er örugglega talinn hlutdrægur.  Er nú starfandi sem skólastjóri í Snæfellsbæ.  Á meðan á kennslu minni á Siglufirði, Kjalarnesi og Reykjavík stóð gegndi ég starfi trúnaðarmanns á vinnustaðnum, fimm ár samfellt.    

Á þessum tíma mínum sem trúnaðarmaður var ég kjörinn í ráð trúnaðarmanna í Reykjavík sem stóð þá í kjaradeilu við borgarstjórn Reykjavíkur.  Það var vorið 1999.  Með mér í þeim hópi var bardagahetjan Valgerður Eiríksdóttir sem kom í viðtal í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, enn í fararbroddi í réttindabaráttu.  Eftir 30 ára baráttu! Þvílík kjarnakona!!!!

Að sjá mótmælastöðu dagsins hryggði mig.  Mikið.  Nú, átta árum eftir þessa beinu þátttöku mínu í kjaradeilu við sveitarfélög er enn það sama uppi á teningnum.  Reiðir grunnskólakennarar heimta mannsæmandi laun fyrir gríðarmikilvægt starf.  Ég aftur á móti verð að viðurkenna það að ég hef áhyggjur af lítilli athygli sem þessi mótmælastaða fékk.  Mínútu innskot á Stöð 2 og 20 sekúndna spjall Boga á RÚV.  Enginn var látinn svara frá viðsemjandanum, Sveitarfélögunum.

Er málum svo komið að barátta grunnskólakennara er nú háð fyrir daufum eyrum?  Það finnst mér alvarlegt.  Því miður hefur starfið ekki alltaf notið sannmælis.  Því miður hefur ekki hjálpað kennurum að mínu viti að flókið vinnutímaskipulag ruglar hinn almenna launamann.  Fordómar gagnvart því vinnutímaskipulagi jafnvel birst.  Sér í lagi í kringum launadeilur grunnskólakennara.  Að sama skapi hefur barátta fyrir kennsluskyldulækkun vegna aldurs og annað tengt lífeyrisréttindum stéttarinnar kostað ákveðnar fórnir í launatöxtum.

En hvað er hægt að gera?  Enginn hefur trú á meiri verkföllum.  Enn blæða þau sár sem endi þess verkfalls olli.  Annað þarf að koma til.  Ég hef engar töfralausnir en þó langar mig að prófa að sjá hvort eitthvað af því sem mér hefur fundist þurfa að breyta gæti vakið smá umhugsun.  Umræðan verður að fara af stað!

1.  Í fyrsta lagi tel ég að grunnskólakennarar þurfi að naflaskoða sínar baráttuaðferðir.  Virkilega láta grasrótina bera ábyrgð.  Mótmæli dagsins eru dæmi um grasrótarbaráttu sem vonandi nær eyrum hins almenna borgara.  Því miður var athyglin ekki mikil í dag.  Eitt af því sem hefur einkennt útkomu þeirra kjarasamninga sem ég hef lesið er óánægja hjá stórum hluta kennarastéttarinnar.  Ýmist er þar ungt fólk, reynslumiklir kennarar eða aðrir hópar óánægðir.  Það er vanþakklátt starf að vera í samninganefnd og það fólk situr undir mikilli gagnrýni.  Það þarf að láta fleiri í grasrótinni koma að launabaráttunni og það þarf að vera gagnrýnin umræða í þeirri baráttu um hvað hefur brugðist undanfarin ár.  Ekki bara skoðanakannanir.  Virka þátttöku eins mikið og hægt er!!!

2.  Menntamálaráðherra og Ríkisstjórn þarf að fá að borðinu.  Það hlýtur að vera kappsmál Menntamálaráðuneytisins að stærsta skólastigið, grunnskólastigið, búi nú við frið.  Ég ætla ekki að vanþakka alla milljarðana í jarðgöngin um allt land, en mér hefði nú ekki fundist óviðeigandi að ríkið kæmi að grunnskólanum með fjármagn til sveitarfélaganna, sem ÆTTU að skila sér í launaumslög.  Mér finnst skeytingarleysi Menntamálaráðuneytisins með ólíkindum og til vansa!

3.  Ég held að þessi vinnudeila hafi leitt í ljós að samninganefndir FG og Launanefnd nái ekki saman.  Það þarf að skoða hvort óuppgerðar fyrri deilur komi þar inní.  Það kom mér á óvart að sjá að Launanefnd Sveitarfélaganna er nær óbreytt frá síðustu samningum.  Það hlýtur að þýða að á þeim bæ ríki ánægja. Ekki er sama hægt að segja um kennarana.  Það kom mér líka á óvart þegar ég komst að því að Launanefnd heyrir undir þing Sambands Íslenskra Sveitarfélaga.  Er semsagt sjálfstæð eining í því apparati.  Ekki er því hægt að hlaupa til sveitarstjórna sinna, nema að viðkomandi sveitarfélag segi sig úr Launanefnd.  Það gerist seint held ég.  Það er hins vegar frumskilyrðið að samninganefndirnar séu að sinna sínu hlutverki án þess að rifja upp fyrri sárindi.  Ef um slíkt er að ræða þarf að fá nýtt fólk í nefndirnar.

4.  Mér finnst að lokum að skoða eigi það að gera núverandi samning að lágmarkssamningi.  Þar verði öll réttindi og skyldur frágengin.  Öll lífeyrismál, vinnutími og vinnuskylda verði þar frágengin.  Svo verði samið um lágmarkslaun.  Gefinn verði möguleiki á viðaukasamningum svæðafélaga eða jafnvel vinnustaðasamninga hvers skóla.  Miðstýringarleiðin sem notuð hefur verið á báða bóga, allt frá því að kennarar yfirgáfu BSRB hefur engu skilað og ég tel að draga þurfi sveitarstjórnir og ríkið að borðinu.  Losa vald fámennra hópa sem ráða miklu.  Færa valdið út í sveitarfélögin.  Til grasrótarinnar.

Allavega, mér finnst þurfa að hugsa nýjar leiðir.  Hef svosem staðið í þessari umræðu í 13 ár og verð virkur í henni áfram.  Hugsa fleira en læt duga í bili.

Það er hryggilegt að árið 2007 sjáist merki ófriðar enn á ný í grunnskólanum.  Kennarar eru frábært fólk.  Sem vinnur frábæra vinnu með börnum þessa lands.  Það er ábyrgðarhluti ef að slök laun hrekja hæfileikafólk frá störfum í sumar og haust eins og maður hefur áhyggjur af í dag.  Ég hef undanfarna daga verið að tala um mikilvægi fagmennsku og framtíðarsýn í velferðarmálum barna.

Það að finna frið um grunnskóla landsins er þar í skýrum forgangi.  Svo einfalt!!!

Endilega athugasemdir!


mbl.is Kennarar mótmæla launum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavík, barnavernd, Baugur og boltinn.

Jæja.

Eins og við var að búast var vinnustaðurinn minn undirlagður af umræðum um viðfangsefni pistils míns í gær.  Við vorum öll sammála um það að umræðan yrði að leiða af sér framför í málefnum barna.

Barnavernd er stórt orð.  Á tíðum er það neikvætt.  Barnaverndarnefndum og starfsfólki er slegið upp sem þeim sem að koma og brjóta upp heimili.  Skilja þá grátandi börn og forráðamenn að.  Ekki ætla ég að útiloka að starfsfólk nefndanna þurfi stundum að koma að erfiðum aðstæðum.  Ég ætla samt að útiloka það að slíkt gerist að ástæðulausu, eða ástæðulitlu.

Mín reynsla er nefnilega sú að barnaverndarnefndir okkar samfélags þurfa miklu meiri aðstoð við að sinna hlutverki sínu en þær fá í dag.  Ég hef t.d. aldrei skilið að ein skrifstofa, Barnavernd Reykjavíkur, eigi að ná að sinna eftirlitshlutverki sínu í 100 þúsund manna borg.  Starfsfólk Barnaverndar er fyrirmyndarfólk.  Það þekki ég af reynslu minni af samstarfi við þau.  Hins vegar er fjöldi málanna slíkur að margar vikur líða frá því tilkynning berst þar til möguleiki er á að funda um viðkomandi mál.  Á fundinum eru strengir stilltir saman og reynt að benda á úrræði.  Þau úrræði eru oft á tíðum erfið í framkvæmd og námskeið og vistunarmöguleikar yfirfullir.

Ég kynntist svo starfi barnaverndarnefndar á mínu svæði í haust.  Vissulega eru íbúar hér á Snæfellsnesi aðeins um 5 þúsund, en ég var gríðarlega glaður með þá fagmennsku og skilvirkni sem ég varð vitni að í starfi þeirra.  Ég gat ekki látið hjá líða að bera saman möguleika þeirrar nefndar gagnvart möguleikaskorti starfssystkina þeirra í Reykjavík.  Þvílíkur munur.  Ég tel að barnaverndarnefndir séu ein af grundvallarstoðum íslensks samfélags.  Það ber að tryggja þeim viðunandi starfsgrundvöll og að möguleikar á viðunandi lausn á vanda þeirra barna og fjölskyldna sem til þeirra leita séu miklir.  Annars hefur samfélagið ekki lært mikið á sorgarsögum fyrri ára.

En er ríkið og skattborgararnir þeir einu sem eiga að bera ábyrgð?  Vissulega berum við öll samábyrgð og ríkið er framkvæmdaraðili okkar.  Þeir sem eiga að sjá til þess að samfélagið gangi eðlilega fyrir sig og jöfnuður ríki að einhverju leyti.

Þess vegna furða ég mig á því hvað gengur á í máli ríkisvaldsins og Baugs.  Ég veit hreinlega ekkert hvar ég vill staðsetja mig í þeirri deilu.  Ég vill að það sé algerlega á hreinu að okkar fjársterkustu fyrirtæki og eigendur þeirra þurfa að greiða algerlega skv. ítrustu reglum til samfélagsins.  Því miður hefur maður það stundum á tilfinningunni að það sé ekki alltaf raunin.  Ég verð hálf ruglaður þegar menn fara að ræða þetta mál á þann hátt að allir virtustu lögfræðingar landsins séu komnir saman sem herdeild Baugs, og ætli sér að berja allar kröfur af þeim með lagaflækjum.  Það hef ég ekki hugmynd um!  Mér finnst einfaldlega hrikalegt ef upp er komin sú staða að greiða þurfi milljarða úr sameiginlegum sjóðum samfélagsins í skaðabætur vegna vanhugsaðra og illa framkvæmda aðgerða ríkisvaldsins.  Það er bara óásættanlegt og þá þurfa menn að sæta ábyrgð.  Hjá lögreglustjóra, OG ríki.  Ef hins vegar Baugsmenn eru að brjóta skattalög þá svei þeim.

Það þarf að vera á hreinu að réttlætið nái fram í þessu máli.  Eins og öðrum í siðuðu samfélagi.

Að lokum aðeins úr íþróttunum.   Vona innilega að Jón Arnór Stefánsson nái fótfestu á Ítalíu.  Sem mikill körfuboltaáhugamaður finnst mér hálf leitt að strákurinn sé búinn að vera á þessu liðaflakki.  Fannst hæpið hjá honum að æða til Dallas, og var glaður með að hann væri kominn í topplið í Evrópu hjá Rússunum.  Eftir ágæta Ítalíudvöl kom mér á óvart að hann færi til Spánar.  Nú er hann kominn aftur til Ítalíu.  Ég vona innilega að hann nái árangri þar og negli leðrinu í gegnum hringinn, sem þýðir þá vonandi að hann fær mikið að spila.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband