Færsluflokkur: Dægurmál
Smjörklípa sem var fyrirsjáanleg.
2.11.2008 | 10:23
Held að Samfylkingin sé að undirbúa kosningar í vor. Þetta eru í sjálfu sér litlar fréttir, Davíð á stuðning ca. helmings Sjálfstæðismanna og ekki nokkurs annars manns í samfélaginu.
Það að svona bókun komi fram held ég að ruggi lítið bátnum í raun. Geir og Ingibjörg munu starfa saman um sinn með sínum flokkum í ríkisstjórninni en svo verður uppgjör. Meirihlutinn er það stór að ekki þarf að hafa áhyggjur af einstaklingum sem vilja nýta sér ástandið.
Davíð Oddsson er því bara smjörklípa núna sem á að skerpa enn línurnar varðandi hver ber mesta ábyrgð á fjármálahruninu. Það virðist því eiga að vera þannig að Sjálfstæðismenn eigi einir að bera ábyrgð.
En ég held að þjóðin sé skynsamari en svo að láta Davíð sitja uppi með allt. Samfylking og Framsókn verða líka að fara yfir sinn þátt í þessu máli öllu. Og auðvitað VG og Frjálslyndir líka, þó þeir hafi ekki ráðið hafa þeir látið áherslur sínar liggja á öðrum stöðum að stórum hluta.
En alltaf held ég áfram að rispa plötuna og heimta uppgjör innan flokkanna sjálfra. Fara þarf yfir hver stefna flokkanna er nú þegar fjármálahyggjan er dáin og ljóst að talsverð ríkisumsvif verða næstu 5 - 10 árin hið minnsta. Skera frá þá einstaklinga sem ekki kunna að vinna í slíku umhverfi og finna aðra í þeirra stað sem bera hag þjóðarinnar allrar fyrir brjósti.
Ríkisstjórnarslit nú eru varla lausn, kosningar núna fullkomlega ómarktækar. Það þurfa að liggja fyrir mun meiri upplýsingar og miklu meiri stefnumótunarvinna þarf að fara fram áður en maður tekur afstöðu til stjórnmálaflokkana í landinu!
![]() |
Samfylking afneitar Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Pæling í vetrarfríi
30.10.2008 | 11:52
Kominn í langþráð vetrarfrí eftir mikinn eril síðustu daga. Frábær þemavika að baki, þar sem krakkar og starfsfólk fór á kostum í vinnu um heimabyggðina okkar í Snæfellsbæ. Flott sýning á verkunum í gær og ljóst að mikið nám fór fram þessa daga!
Auðvitað fer einhver hluti vetrarfrísins nú í að skoða almennilega sína stöðu í ljósi atburða undanfarinna vikna. Skoða erlendu lánin á bílunum og verðtryggingar og vaxtaþátt heimilisins. Ekki það að við hér þurfum að óttast ennþá að afrif okkar verði "afgerandi slæm", en á síðustu dögum hefur umburðarlyndi mitt fyrir því að lánin mín hækka farið þverrandi!
Fyrstu viðbrögðin voru "sjúkk ég á ekki hlutabréf", "sjúkk að sparnaðurinn er inni á bók" og "sjúkk að viðbótarlífeyrissparnaðurinn er ekki alveg farinn". Þegar maður heyrði hræðilegar sögur af afdrifum vina og ættingja fannst manni maður ekki geta verið vanþakklátur fyrir sína stöðu.
En staðreyndin er sú að maður er að tapa tugum þúsunda á mánuði. Þó maður hafi efni á því þýðir það auðvitað að minni möguleikar verða á svo mörgu sem mann langaði að gera. Fyrir sig, en auðvitað meira og mest fyrir börnin sín og fjölskyldulífið. Ég verð reiður þegar ég heyri börn tala um "kreppujól". Er til óhuggulegra orð en það!? Getum við í alvöru lagt það á börn að þau eigi fyrir höndum vond jól???? EKKI SÉNS! Ég trúi ekki öðru en að við verðum öll hrein og fín, borðum góðan met, gefum jólagjafir og njótum þess að vera saman þessa jólahátíð!
Það hefur aldrei þurft að gefa jólagjafir uppá tugi og hundruðir þúsunda til að láta hátíðina heppnast. Það að við förum í "afsakana" og "verða bara betri jól seinna" gír skulum við ekki láta henda. Brosum út í bæði, segjum einfaldlega satt, jólin verða frábær. Svo skulum við fara yfir það hvernig þau verða frábær. Bætum upp ef við þurfum minna verðgildi jólagjafa með því að fara betur yfir samveru fjölskyldunnar og látum alla njóta sín!
Kreppujól er orð sem á að banna!!!
En í dag er ég reiður útrásarræningjunum, dettur ekki í hug að sverta nafn víkinga með því að tengja þá þessum jólasveinum sem reyna að hlaupast undan ábyrgð. Miðað við viðtöl eigenda og bankastjóra Gamla Landsbankans er ljóst að bankinn hefur verið stjórnlaus lengstum. Langar því að beina þessari spurningu áfram, kannski berst það þeim, eða einhverjum sem að getur svarað.
Hver ber ábyrgð í þessum dæmum.
Par á þrítugsaldri fór í útibú Landsbankans fimmtudaginn fyrir hrun hans. Talaði við þjónustufulltrúa um að fá að taka 5 milljónir út af peningaverðbréfum og leggja inn á reikning. Eftir mikið þrátafl ákváðu þau að gera það ekki, því fulltrúinn lofaði þeim að peningarnir voru 100% varðir. Daginn eftir var þó annað þeirra ekki sannfært og ákvað að fara aftur og fá þetta skriflegt frá þjónustufulltrúanum. Hann var nú tregur til, en þegar sparifjáreigandinn tjáði honum að þá tæki hann peningana út, skrifaði sá út Wordskjal, ekki með blaðhaus bankans þar sem hann setti inn setninguna "í eðlilegu árferði". Næsta mánudag, eftir hrun fór parið til að fullvissa sig um að þau væru í góðum málum. Þá sat þjónustufulltrúinn, náhvítur, og sagði þeim að algerlega óvíst væri hvort þau nokkurn tíma fengju eina krónu! Bréfið væri bara "viljayfirlýsing", enda "óeðlilegt árferði".
Eigandi fyrirtækis hafði verið með stórar upphæðir inni á peningamarkaðsreikningum í um ár. Í lok ágúst hófst umræða milli hans og Landsbankans þar sem hann óskaði eftir að peningarnir yrðu fluttir. Þar sem upphæðin var stór þurfti að eiga við stóru stjórana. Þeir voru í fríum til skiptis fram í miðjan september. Þá var hann kallaður ítrekað á fundi þar sem fyrst var verið að reyna að tala um fyrir honum, þá að flytja hluta upphæðarinnar, en svo var farið að tala um að "nokkra daga þyrfti til að klára málið". Fimmtudaginn fyrir hrun var þessi maður að fara erlendis. Eftir rosalega reiði hans í símann frá Leifsstöð kl. 10 var honum lofað að upphæðin yrði millifærð "á næstu 5 mínútum". Eftir það svaraði honum enginn af þeim stóru, því þeir voru "uppteknir á fundi". Við lokun á föstudegi var upphæðin enn á reikningnum. Á mánudaginn var allt fé fyrirtækisins lokað inni og hefur verið til dagsins í dag.
Félagi minn sem vinnur í fjármálafyrirtæki fékk símtal í mars frá félaga sínum sem er útibússtjóri í Landsbankaútibúi. Var að bjóða honum vinnu. Hluti af starfskjörum hans sem "yfirþjónustufulltrúa" fólst í þóknun fyrir hvern kúnna hans deild fengi til að færa sparnað sinn inn á peningamarkaðsreikninga. Hann fór ekki í launaviðtal en í samtalinu var talað um hlutfall af millifærðri upphæð sem bónus, en þó aldrei undir "sex stafa tölu". Félagi minn afþakkaði sem betur fer, því umrædd deild hefur verið lögð niður í þeirri mynd sem hún var, en hann er í góðri vinnu hjá litlu, öflugu fjármálafyrirtæki.
Ég ætla ekki að mæra Davíð Oddsson, en það þarf að svara því til hver ber ábyrgð á dæmum eins og þessum þremur. Hann ber ekki ábyrgð á framkomu starfsfólks bankans, þrátt fyrir allt. Þessi dæmi eru klárlega ekki einsdæmi og örugglega miklu verri til, en það er SMÁNARLEG UMRÆÐA fyrrum eigenda og stjórnenda þessara ræningjafyrirtækja að benda á einhverja aðra sem sökudólga í þessum málum öllum.
Íslensk bankastarfsemi var sennilega svakalegasta svikamylla heimsfjármálasögunnar og stóru sökudólgana þar þarf að finna og útiloka frá venjulegu fólki. Auðvitað þarf að fara yfir stjórnvöldin og eftirlitskerfið en ég er búinn að fá ógeð á drottningarviðtölum við þessa menn þar sem þeir eru bara með hroka í garð þeirra sem stoppuðu vitleysuna!!! Það að fólk eins og Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson taki slík viðtöl í rólegheitum og kyngi útúrsnúningi þeirra allra er þeim til MIKILLAR MINNKUNAR.
En annars er ég glaður með að vera í vetrarfríi, sem að stærstum hluta mun felast í slökun að Selhól 5. Alltaf gott kaffi í boði fyrir gesti, gangandi eða á öðrum farartækjum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ber er hver að baki nema bróður sér eigi!
29.10.2008 | 08:30
Stundum hef ég sagt brandarann um víkingabófana sem flúðu frá Noregi, hirtu sæta fólkið á Bretlandi og skildu þá sjóveiku eftir í Færeyjum áður en þeir urðu besta þjóð í heimi á Íslandi.
Þann brandara hef ég auðvitað alltaf sagt með virðingu fyrir Færeyingum. Í dag hafa þeir enn sýnt okkur það hversu miklir vinir þeir eru okkur. Ég man óljóst eftir færeysku sjórunum sem komu í heimsókn til afa og ömmu á Sauðanes og rámar í ferðir oní bátana þeirra á Sigló. Alltaf komu þeir með beinakexið, hvers bragð ég geymi enn í minningunni og gaman væri að prufa hvort sú minning er ekki enn rétt.
Hvergi í heiminum hef ég komið þar sem betur var tekið á móti mér en í Færeyjum. Hef tvisvar farið þangað í hóp og þær heimsóknir voru frábærar. Það er engin klisja að þeir líta á okkur Íslendinga sem stóra bróður sinn og er mikið í mun að okkur líði vel í þeirra hópi. Sem við heldur betur gerðum í þessum heimsóknum, frosið bros í allar áttir!!!!
Í mínu starfsliði í Snæfellsbæ er mikil, færeysk hetja. Hann Toggi umsjónarmaður. Hann bjó til færeyska daga hér í Ólafsvík sem því miður voru skemmdir með drykkjulátum íslenskra ungmenna. Hann flutti til Íslands ungur en hefur enn brennandi hjarta fyrir landinu sínu. Hann hefur mikið reynt að efla tengslin milli landanna, en ég hef metið það þannig að stundum höfum við ekki haft tíma til að gera það því okkur lá á að verða stór og höfðum lítinn tíma fyrir litla bróður! Okkur til vansa.
En ef við rifjum upp viðbrögð þeirra við Vestmannaeyjagosinu, Súðavíkur- og Flateyrarsnjóflóðunum og svo þetta nú hljótum við í framtíðinni að átta okkur á því að þær risaþjóðir sem við höfum boðið í partýið komu bara til að borða snakkið og skemma dótið. Vinirnir sem sátu kurteisir út í horni og fengu lítið snakk, eða bræðurnir sem fengu ekki að leika sér með, eru þeir sem svo hjálpa okkur nú, buguðum á hnjánum úti í garði, á leiðinni að taka til í húsinu sem er handónýtt eftir veisluna.
Ég faðmaði Togga í vinnunni í morgun og er ákveðinn að fara til Færeyja fljótlega og taka fjölskylduna mína með mér.
Takk Færeyingar, þið eruð allra bræðra bestir!!!
![]() |
Mikill drengskapur Færeyinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um gildi þess að þegja!
28.10.2008 | 09:44
Svei mér þá alla mína lífs- og sólardaga!
Fyrir ca. 3 vikum komu upplýsingar frá stjórnmálamönnum að farið yrði að skoða stöðu heimilanna með sérstöku átaki, og svo fyrirtækin líka svo hjól efnahagslífsins gætu haldið áfram að snúast. Stýrivextirnir skyldu lækkaðir, gengið skoðað sérstaklega og talað um að aftengja vísitöluna!
Sumir hefðu átt að þegja. Geir verið rólegur en sullubullkollurinn Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú dregið fólk á asnakjálkaeyrunum í nokkurn tíma, mér vitanlega hefur EKKERT verið gert fyrir venjulegt fólk, nema að stofna nefnd! Ábyrgur stjórnmálamaður á ekki að lofa upp í ermina á sér Jóhanna! Um allt land var fólk í vanda sem treysti á þig, en situr nú og horfir upp á hæstu vexti í alheimssögunni, gengið í fullkomnu bulli og verðbólgan er búin að éta upp eignir meirihluta landsmanna. Til agna.
Björgvin G. hefði átt að geyma sjónvarpsþáttinn þar sem hann var mærður upp í það að standa sig vel í "stórsjónum sem á honum gengi". Sérkennileg yfirlýsing hans í Englandi í september og sönglið um að "verið að sé að skoða það sérstaklega" veldur því að ég allavega er farinn að hrista hausinn duglega þegar hann opnar munninn.
Ýmislegt er sagt af misvitru fólki, en engar eru framkvæmdirnar, ekki nokkrar.
Misskiljið mig ekki, þessi stýrivaxtahækkun á ekki að koma neinum á óvart, hún er örugglega krafa IMF og á að verða til þess að sparifjáreigendur leggi inn í banka hér en flytji ekki peningana sína út. Væntanlega tala menn um "tímabundnar aðgerðir" og að "skoðuð verði sérstaklega afkoma heimilanna og þeirra fyrirtækja sem eru í vanda, því hjól atvinnulífsins þurfa að snúast"!
Trúir því einhver orðið? Gaman væri að spila það sem viðskipta- og félagsmálaráðherrar okkar hafa talað um frá 1.október og spyrja þá, oft, OG HVAÐ!?!?!?!?!?!?!?!?!?!?!?!
Þessi stýrivaxtahækkun mun ekkert gera nema auka vanda heimilanna og sjá til þess að erfið staða fyrirtækja mun leiða til fjöldagjaldþrota. Enda er að verða ljóst að við eigum engar bjargir í landinu til að redda nokkru. Ríkisstjórnin er ráðalaus með öllu og eiga sem fyrst að viðurkenna staðreyndina....
Þeir hjálpa þeim sem geta hjálpað sér sjálfir.
Ítreka kröfu mína um tiltekt í stjórnmálaöflum þjóðarinnar, ef það ekki gerist núna er þjóðin komin aftur til tíma Móðuharðindanna þegar þorri hennar sat til baka og beið þess sem verða vildi. Flestir okkar stjórnmálamenn eru háðir peningum og kunna engin ráð sem duga venjulegu fólki.
Jafnvel ekki þeir sem hafa haft hæst um mikilvægi þess að standa vörð um fólk. Er ekki bara málið að þeirra tími sé liðinn???????
![]() |
Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Landslagið er splunkunýtt
26.10.2008 | 13:06
Glætan að ég hefði valið mér flokk ef ég hefði verið spurður!!!!
Í þessari ólgu hafa ALLIR flokkar gert mistök, vissulega mismörg, en allir samt! Ný-Frjálshyggjan er dauð og það er það sem verið er að sýna Sjálfstæðisflokknum. Ítreka enn það sem ég sagði nú nýlega að Geir og Þorgerður verða nú að stýra því skipi inn á miðjuna og KASTA FRÁ BORÐI þeim sem hafa talað hæst fyrir þeirri ónýtu stefnu. Ef þeim tekst það mun þjóðin sjá aftur að þeim er treystandi.
Samfylkingin getur ekki litið framhjá því að þeir hafa nú verið í ríkisstjórn í 18 mánuði og hafa EKKERT gert á þeim tíma til að laga ástandið. Þó voru þeir að stjórna Viðskiptaráðuneytinu! Skil því ekki alveg þeirra góðu útkomu, nema fyrir það að nú sjá allir að vinstri sveifla þarf að koma til, án þeirra tilhneigingar að fara í öfga-vinstri hreyfingu og Samfylkingin er sá flokkur sem næst er miðjunni til hægri. En guð almáttugur, þar þarf líka að taka til og átta sig á því að flokkurinn er í stjórn í þessu ofviðri öllu og verður að dæmast út frá því að lokum!
Vinstri grænir hafa hæst í hálfdauðri stjórnarandstöðu. Steingrímur J. er án vafa einn okkar bestu stjórnmálamanna og maður hlustar á hann í þessari umræðu, ekki spurning. Hins vegar þurfa þeir að segja okkur heldur betur hvernig þeir ætla að ná í pening í alla þá samhjálp sem þeir ætla að standa fyrir, og þeir þurfa líka að sýna fram á það að það verði ekki eingöngu þeir smæstu í samfélaginu sem eiga að græða á þeirra aðgerðum. Ef t.d. stóriðja kallar á auknar tekjur sem svo leiða af sér betri lifnaðarhætti, á þá að segja nei? Fyrir hverja er þá sagt nei? Íslenska ríkið er nú komið í stöðu lítilla sveitarfélaga úti á landi sem þurfa að fá inn "nýtt" fjármagn til að lifa af. Svoleiðis þarf að hugsa.
Framsókn, ó Framsókn. Hækja Ný-Frjálshyggjunnar og einstaklingar þar hafa hlutfallslega flestir sest að kjötkötlunum. Á þeirri leið hefur þessi flokkur týnt uppruna sínum. Skulum ekki gleyma því að farsælasti stjórnandi þessa flokks, Steingrímur Hermannsson, hefur verið í andstöðu við stefnu flokksins í fjölda ára. Segja má að Halldór Ásgrímsson hafi hent Denna og gömlu Framsóknarmönnunum fyrir róða til að koma græðgishyggju sinni, Finns, Árna Magg og þeirra kóna allra að. Hins vegar hafði þessi flokkur stórt hlutverk fyrir 20 árum sem hægriflokkur rétt við miðjuna og þangað þurfa þeir að leita. Held að Guðni sé slíkur Framsóknarmaður, en hann þarf að virkja nýtt fólk. Auðvitað nefni ég Magga Stef og Siv, Birkir karlinn þarf að svara, ég veit að pabbi hans er slíkur maður. Valgerði þarf að kveðja. Annars held ég að Framsókn þurrkist út eða hverfi inn í Frjálslynda.
Frjálslyndir eru nú í dauðafæri, háværir karlar, stundum dónalegir gagnvart yfirvöldum. Ég ætla samt ekki að eyða á þá mörgum orðum. Hef kosið þennan flokk einu sinni og það eru mín stærstu mistök pólitískt til þessa. Því miður.
En nýtt landslag kallar á viðhorfsbreytingar allra flokka áður en hægt er að taka til þeirra afstöðu, enda 45% óákveðnir.
![]() |
Minnihluti styður stjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vonandi er þetta fyrsta skrefið.....
24.10.2008 | 15:26
En margt á enn eftir að koma í ljós.
Fannst þetta hljóma betur með þau bæði, held reyndar að þau Geir og Ingibjörg Sólrún séu ágætis fólk og eigi möguleika á að koma að hreinsuninni í flokkum sínum, en þau þurfa að verða "ruthless" í aðgerðum sínum í flokkunum sem virðast ætla að standa að endurreisninni.
En mikið óskaplega vona ég að þetta þýði að efnahagslífið eigi nú einhvern smá séns.....
![]() |
Óska formlega eftir aðstoð IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hverju er að treysta?
23.10.2008 | 22:39
Er rasandi og ætla aðeins að kasta af mér hlutleysisskikkjunni sem ég reyni lengst af að sveipa mig þessa dagana.
Seðlabankinn
Í dag hefur réttilega verið haft hátt um hlægileg laun bankastjóra, sem reyndar er fyrrum aðstoðarmaður forsætisráðherra. En hver er hæst launaður allra í dag. Mér skilst að það sé bankastjórinn í Seðlabankanum, Davíð Oddsson. Er til eitthvað ósanngjarnara í okkar mölbrotna samfélagi!!!!!
Við sem höfum unnið launavinnu alla okkar ævi vitum það að við erum dæmd af verkum okkar. Íslenski seðlabankinn hefur verið til skammar um skeið, sennilega frá því í febrúar 2006 þegar hann gerði ekki athugasemd við mestu svikamyllu Íslandssögunnar, IceSavereikningana. Ég hef hingað til borið virðingu fyrir Davíð Oddssyni með sumt og talið hann góðan stjórnanda. Alls ekki alltaf sammála honum auðvitað.
En núna er staðreyndin að Davíð er einstaklingur sem ENGINN TEKUR MARK Á! Ekki nokkurs staðar í heiminum, bankinn hans er rúinn trausti allra utan þeirra sem enn elta stjórann í blindri aðdáun og eru að reyna að koma í veg fyrir það að sagan dæmi Davíð illa. Það mun hún þó gera. Ekkert héðan af getur bjargað því, en auðmjúk uppsögn mun þó kannski veita eilitla uppreisn æru. Allir bankastjórarnir eiga svo að fylgja honum og fara. Strax! Við græðum ekkert á að hafa þá lengur, en töpum miklu!
Fjármálaeftirlitið
Óhæf stofnun. Lét bankana verða tíu sinnum stærri en íslenska hagkerfið og lagði blessun sína á skuldsetningu hvers einasta Íslendings upp á milljónir, ef ekki milljónatugi. Nýja menn þangað á morgun. Þurfum ekkert að velta því meir fyrir okkur!
Forsetinn
Þarf að svara stórum spurningum, t.d. því hvort neitun hans á að undirrita fjölmiðlalögin gáfu ákveðnum auðmönnum þau skilaboð að þeir kæmust upp með allt! Svo því ótakmarkaða lofi sem hagfræðingurinn knái hlóð á þessa menn, sem í dag líta út fyrir að vera ótíndir afbrotamenn.
Stjórnmálamenn
Á Alþingi eru margir ágætir einstaklingar. Ég hef fylgst lengi með störfum þingsins og þingmanna og fullyrði það að við sem þjóð eigum þessa þingmenn skilið. Við kusum þá - skulum ekki gleyma því! Ég man fyrst eftir að hafa pælt í þinginu '86 og '87. Ég leyfi mér að fullyrða að flestir þeirra sem þá voru á þingi voru menn sem komu úr frumgreinum íslensks þjóðlífs, höfðu reynslu af vinnu við framleiðslu fyrir eða þjónustu við samferðamenn sína.
Í dag er á þingi alltof hátt hlutfall fólks sem alið hefur verið upp sem stjórnmálamenn og hafa gleymt því að á bak við hugtök eins og hagvöxt, verðbólgu, stýrivexti, kvóta, fjárlagafrumvarp standa kjósendur, en ekki atkvæði talin.
Þingmennirnir okkar eru margir okkar í tugi daga á fjögurra ára fresti, en þess á milli bara að vasast í sínu, með sínum styrktaraðilum og "baklandi".
Því verðum við öll að breyta!
Ég ætla ekki að tala lengur um stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokkar í dag eru bara hjóm eitt, því enginn þeirra kann nokkra lausn. Hugsjónir þeirra og framtíðarsýn er öll byggð á eyðslustefnunni sem við höfum talið vera hið eðlilega líf að undanförnu og þeir þurfa allir að fara í endurvinnslu. ´
Sérstaklega þarf að skoða hverjir hafa samþykkt þær lagaflækjur sem að hafa verið búnar til svo að hægt sé að flytja flugvélafarma af okkar verðmætum til skattaparadísa og annarra peningavirkja. Það er kominn tími á að þeir finni sér aðra vinnu en þá að skapa lög okkar og reglur. Strax!
Í stað þessa fólks þurfum við að finna einstaklinga sem hafa hugsjón til hægri eða vinstri, en bera fyrst og fremst hag landsins fyrir brjósti, óháð því hvaða flokka þegnar þess kjósa. Það þarf að fylla alla flokka af nýju fólki sem hefur þá einörðu afstöðu að svona megi aldrei gerast aftur. Fólk sem hefur bruðlað með almannafé, hvað þá sveitarstjórnarmenn sem hafa lagt peninga sveitarfélaga inn á verðbréfareikninga eiga að hverfa af sjónarsviðinu, best væri ef þeir sæju sóma sinn til að hætta sjálf, eins og áðurnefndir embættismenn.
Ég er sko ekki að boða byltingu. Allar byltingar mannkynsins held ég að hafi leitt til spillingar um langt skeið. Heldur þarf að reisa nýja framtíð á rústum nútíðar okkar. Þjóðfélag framtíðarinnar verður að styrkja og styðja einstaklinginn til dáða, en líka sjá til þess að hann geti ekki arðrænt aðra á leið sinni til aukins vegs og virðingar.
Ég veit að í öllum stjórnmálaflokkum er að finna fólk sem veit það að kommúnisminn og kapítalisminn eru ekki svörin í nútímanum, heldur línan þar á milli. Það þarf að stíga fram sem fyrst og ryðja þeim sem nú eiga brottvísunina skilið í burtu. Nú er komið að þeim að vinna við frumgreinarnar, því þeir eru óhæfir að stjórna landi.
Fjölmiðlar
Óhæfir. Bara eitt orð. Uppteknir af því að slá skjaldborg um eigendur sína eða því að gera lög, reglur og önnur gildi tortryggileg. RÚV skást og einstaka fréttamenn, helst Kastljósfólkið, þó stundum að reyna. En stærstu þjófnaðir Íslandssögunnar hafa staðið í rúm tvö ár án þess að þau föttuðu það. Skammarlegt!
Samantekt
Ég hef undanfarna daga prísað mig sælan að hafa ekki átt peninga í hlutabréfasjóðum og því að ég vinn fyrir traustan vinnuveitanda með frábæru fólki, líður vel með konunni minni og dætrum og á stað þar sem kreppan er ekki eins yfirþyrmandi og á mörgum öðrum stöðum.
En auðvitað er ég að tapa eins og allir. Lánin hækka og ráðstöfunarféð lækkar. Það að maður hafi það samt af hefur blekkt mann til að sætta sig við ástandið.
Svo heyrir maður endalausar sorgarsögur af hrikalegu hlutskipti ættingja og vina, sem hafa tapað milljónum, vinna hjá fyrirtæki sem ekki getur borgað laun eða hefur verið sagt upp störfum. Jafnvel dæmi þar sem logið hefur verið að fólki í langan tíma þangað til of seint var að bregðast við!
Þá verð ég reiður. Ofboðslega, ofboðslega reiður.
Ég er samt ákveðinn í því að taka þátt í uppbyggingunni eins vel og mér er mögulegt. Það frábæra fólk sem nú er í framhalds-, grunn- og leikskólum landsins verða að geta treyst því að við öll reynum að taka þátt í að hreinsa upp óráðsíu og blindni spilltra auð-, embættis- og stjórnmálamanna nútímans og reyna að hjálpa þeim að læra af okkar vitleysu.
Við megum ekki gleyma því að við eigum öll okkar þátt í þessu. Margir hafa dansað í kringum gullkálfinn og gleymt því að sá dans endar að lokum og alvaran tekur við. Við höfum öll kosið í kosningum og margir lítið pælt í því hvert atkvæðið á að rata. Innantóm slagorð og hugguleg plaköt búin til á auglýsingastofum verið hismið sem skýldi kjarnanum.
Hverju er að treysta? Stórt spurt, en ég veit bara eitt.
Ég verð að treysta almenningi og þjóðinni. Við verðum að sjá til þess að okkar kjörnu fulltrúar endurspegli þá þjóð sem byggir venjulega landið okkar. Við þurfum þverskurð okkar til að stjórna. Ég vill treysta því að þetta ástand verði til að við öðlumst aftur trú á raungildi þess að byggja land og þjóð.
Treystum því.......
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Því miður örugglega bara byrjunin.....
21.10.2008 | 17:31
Held að þessi frétt komi nú fáum á óvart.
BAUHAUS ekki líklegir til Íslands í bili. Auðvitað er gengið ein ástæðan, en hin sú að ljóst er að svakalegur samdráttur verður í verslun með bygginga- og heimilisvörur eins og þær sem þeir hugðust selja.
Það sem mér finnst einna verst að nú stendur orðið þvílíkt af húsnæði autt að erfitt er að sjá hvað um það allt á að verða. Næstu ár verða ár samdráttar og því ljóst að nú þegar eru til miklu fleiri íbúðir en þörf verður fyrir um sinn.
Hvað þá verslunarhúsnæði!
Einn af mörgum, mörgum hausverkjum okkar verður að reyna að fylla upp í þær íbúðir, hús og verslanir sem nú standa auð eða eru í byggingu. Öll framtíðarpæling um nýtt húsnæði er örugglega úr sögunni.
Því held ég að við sjáum Bauhaus ekki hér næstu 5 árin og ég held líka að verslunum með byggingar- eða heimilisvörur fækki umtalsvert!
![]() |
Flestum starfsmönnum Bauhaus sagt upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Var nú sennilega aldrei möguleiki
17.10.2008 | 15:55
Hvað þá eftir hremmingarnar að undanförnu!
Við þurfum bara að bæta þessu í vonbrigðapakkann okkar, það er stöðugt að verða ljósara að Ísland er aftur kominn á kortið sem smáþjóð. Auðvitað erum við smáþjóð og nú er komið að því að hugsa vel um það að nýja útgáfan okkar, Ísland 2009, verði umburðarlynd smáþjóð þar sem allir skipta máli.
Við höfum eilítið misst okkur í "heimsyfirráð eða dauði" síðustu 15 ár, það er ljóst að heimsyfirráðunum náum við aldrei og því kominn tími á að hugsa betur um heimahagana okkar allra.
Það skiptir okkur í Snæfellsbæ allavega engu hvort við, Austurríkismenn eða Tyrkir erum í Öryggisráðinu!
![]() |
Ísland náði ekki kjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þörf umræða
16.10.2008 | 17:04
Viðurkenni tvískinnung, fylgist með Klovn og hef mjög gaman að mörgu þar.
Ég hins vegar hef hugsað nákvæmlega eins og kemur fram í pistli Jóhannesar að viðsnúningur aðstæðnanna í Dagvaktinni þætti hneyksli. Ég er líka viss um að þetta er meðvitaður gjörningur þáttasemjenda og kannski þess vegna er ég ekki búinn að birta mínar hugsanir.
Fyndnin að ganga fram af fólki er komin á ystu mörk og stígur stundum útfyrir.
Ég á ekki stráka, en ef svo væri vissi ég ekkert verra en ef að þeir lentu í aðstæðum Ólafs í Dagvaktinni, að verða kynferðisleikfang vergjarnrar fyllibyttu.
Kannski erum við svo dofin í þrengingum okkar á skerinu að við erum ekki að velta svona fyrir okkur.....
![]() |
Má grínast með nauðganir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)