Færsluflokkur: Dægurmál

En framtíðin???

Veit ekki hvort maður á eitthvað að velta sér upp úr þessari ræðu Davíðs, enn einni tilraun hans til að skerpa á línunni milli flokkanna í ríkisstjórninni um leið og hann fríar sig.  Reyndar er ég hjartanlega sammála honum í því að hinir raunverulegu sökudólgar sleppa ótrúlega vel! 

Það er þó ekki neinum til gagns að hann segi ekki skýrt hver það er í þjóðfélaginu sem skuldar 1000 milljarða (Hvaða land leyfir svoleiðis) og svo þarf hann auðvitað að upplýsa þjóðina sína hvers vegna á okkur dundu hryðjuverkalög.  Annað finnst mér landráð.

En einn stóri vandi allra í dag er að það eru allir svo uppteknir af því að hrista af sér bankakreppuruslið að enginn getur talað um framtíðina.

Sennilega ættu fjölmiðlarnir að hætta að tala við stjórnmálamenn og reyna bara að finna spákonur!  Þær allavega vilja endilega tala um framtíðina.  Sjaldgæfur eiginleiki þessa dagana......


mbl.is 6 fundir með seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungir hnífar í Framsóknarflokknum!

Sennilega stærstu pólitísku tíðindin þennan veturinn, ef ekki síðustu 20 árin.  Þrátt fyrir allt tal um skoðanakannanir er Guðni búinn að vera einn af stóru leikmönnunum á vellinum síðustu 12 ár og var núna í vetur búinn að viðhafa stór orð um framtíðina, nú síðast fyrir helgi.

En það er ljóst að fundurinn um helgina skilur flokkinn eftir í ljósum logum stafnanna á milli!!!

Framsóknarflokkurinn varð til sem dreifbýlisflokkur fyrst í stað og lengst af hefur flokkurinn verið talsmaður samvinnu og horft fyrst og fremst til frumgreina í atvinnulífi í bland við stóriðjudrauma.  Hvergi fundust ötulli stuðningsmenn álvera úti á landi!

Framsóknarflokkurinn er eiginlega ekki til í Hafnarfirði, var í skjóli eins manns í Kópavogi og Reykjavík þarf kannski ekki að fara mörgum orðum um.

En í dag virðist hugsjón höfuðborgarframsóknarmannanna um eiginhagsmunapot og hægri sveiflu í átt til nýfrjálshyggjunar verða sú leið sem flokkurinn fer í.  Fáum orðum þarf að fara um hringekjusnúningana í kirkjugörðum þessa dagana, þar sem gömlu Framsóknarhetjurnar horfa upp á nýjan flokk orðinn til.  Eiginlega með ekkert sameiginlegt þeim gamla.

Án Guðna og Bjarna verður gaman að sjá hvar Framsóknarmenn finna sér sérstöðu í pólitík.  Ég sé hana ekki.  Ef þeir ætla sér að verða Evrópusinnar er hreinlegast að ganga til liðs við Samfylkinguna.  Sennilega er B.Ingi þá eðlilegasti kostur þeirra til að komast þangað inn.

Ef þeir ætla sér að horfa til stóriðjunnar sem lausnar er langgáfulegast að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og reyna að losa tök þeirra fáu frjálshyggjupostula sem þar munu verða eftir.  Þá væri upplagt fyrir Valgerði að reyna að komast áfram þar, eða Páll Magnússon, fóstursonur Gunnars J. Birgissonar í pólitík.

Þeir sem eftir eru í flokknum verða seint taldir Framsóknarmenn af gamla skólanum og ótrúverðugt yrði fyrir þá að ætla að sveifla þeim áherslum sem þeir hafa nú skorið frá með þeim sem hafa kvatt völlinn!

Hvað gerist þá hjá þeim sem eru Framsóknarmenn?  Mun Frjálslyndi flokkurinn taka við þeim sem stofnuðu kvótakerfið?  Held ekki.... Munu Ómar eða Steingrímur taka við stóriðjusköpurunum?  Held ekki.....  Stofna Guðni og Bjarni nýjan flokk með áherslu á vöxt frumgreinanna, styrkja til sprotafyrirtækja og setja fram hugmyndir um stóriðju á tveimur til þremur stöðum á landinu????

Vitiði, ég held það.  Þá verður fyrst stuðið að sjá hverjir verða hvar? 

En ljóst er að Framsóknarflokkurinn verður fyrstur í hreinsunareldinn, en hvernig hann kemur þaðan út veit enginn!!!


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott ákvörðun!

Herdís Egilsdóttir á þessi verðlaun heldur betur skilin!

Eldhugi í langan tíma, hefur eytt mörgþúsund klukkustundum í að kenna lestur og önnur undirstöðuatriði í íslenskunni, málinu okkar.

Finnst þessi verðlaun alltaf verða skemmtilegri, ekki bara verið að pikka út "stór" nöfn í hópum rithöfunda, heldur er leitað í alvöru fólk sem hefur lagt sig fram við að glæða málvitund okkar allra.

Til hamingju Herdís!


mbl.is Herdís Egilsdóttir fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB? Er það rétt í stöðunni.....

Nú er orðið ljóst að Ingibjörg Sólrún ræður ferðinni.  Hún ætlar að fara í það núna að semja um IceSave svo að Evrópa taki á móti okkur í sambandið sitt.

Auðvitað skil ég það ósköp vel og satt að segja var ég eiginlega alltaf viss um það að við ættum engan séns í að ná miklum árangri í þessari baráttu okkar.  Hér var ekki heimavöllur íslenskra ólgandi miða á ferðinni heldur útrásarvitleysingar sem fóru á útivöll og létu mala sig.  Við verðum auðvitað að fylgja gildandi reglum og það er því orðið ljóst að skattarnir mínir hækka, börnin mín munu borga brúsann og sennilega barnabörnin....

Ég hef virkilega viljað skoða ESB sem vettvang.  Það ræðst mest af því að mig langar meira að tengjast Evrópu en Ameríku og ég held að við þurfum handleiðslu um margt.

Hins vegar verð ég að viðurkenna að réttlætiskenndin mín og þjóðernisrembingur hefur þessa dagana orðið til þess að ég er orðinn óviss um hvort við eigum að treysta þessum þjóðum sem ráða ríkjum í ESB.  Við höfum séð heimsvaldaandlit Bretlands, sem hefur reynt að arðræna okkur frá því á 16.öld og svo sáum við í gær hrokafullan mann sem vonandi var ekki að tala fyrir hönd allra Þjóðverja.  Sá var að koma til Íslands til að sækja peninga.  Vitleysingur!

Ég hef áður skrifað um stærð okkar.  Á undanförnum árum hafa margir stjórnmálamenn orðið breiðir þegar umræðan um ESB fer í gang.  Vissir um að sambandið bíði spennt eftir stórþjóðinni, sem nýlega ætlaði sér inn í Öryggisráð SÞ.

Í dag er ljóst að við erum örþjóð í alþjóða samfélagi og morgunljóst að rödd okkar í evrópsku samhengi er mjóróma.  Sýnist nú þessar þjóðir ekkert vera að vanda sig við það að búa landinu okkar þolanlega framtíð.  Kannski ekki þeirra hlutverk.

En eigum við ekki að bíða og sjá hvað þeir vilja fyrir okkur gera áður en við hlaupum upp og sækjum um að skríða til þeirra á hnjánum. 

Ég held að betra sé að leita svangur að mat en að liggja á hnjánum og bíða eftir brauðmolunum af stóra borðinu. 

Sjáum hvað setur.......


mbl.is Von um niðurstöðu í IceSave-deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáþjóð í vanda!

Formlega.

Ekki vafi að fjármálaumsýsla ákveðinna einstaklinga hefur nú hent Íslandi ansi aftarlega á vinsældalistum heimsins og sífellt að verða augljósara að lítið er til ráða.

Á undanförnum 20 árum hafa sumir Íslendingar verið uppteknir af heimsyfirráðum, eða allavega því að byggja upp okkar 300 þúsund manna samfélag sem stórþjóð.  Valdhafar og eftirlitsstofnanir ríkisins hafa annað hvort sofið eða einfaldlega verið blekkt til að þegja og láta mennina, "Víkingana" um að vaða yfir heimsbyggðina.

Í gær voru viðtöl við Hollendinga sem þessir menn sviku.  Í dag eru fréttir af 30 þúsund Þjóðverjum sem eru reiðir og voru sviknir.  Hvað verður á morgun?

Það er morgunljóst að sterkustu þjóðir Evrópu hafa tekið ákvörðun um að ganga gríðarlega hart fram og beita öllum aðferðum tiltækum svo að þeirra þegnar sleppi.  Þeim er auðvitað alveg sama um Íslendinga í nútíðinni og framtíðinni.  Skatthlutfall þeirra og eignamissir klagar ekki uppá neinn í þessum löndum og alger staðreynd að við þurfum ekki að reikna með neinu öðru en erfiðleikunum.

En kannski er það ekki skrýtið, þegar við horfum til þess að skilaboðin sem heimurinn hefur fengið frá okkur er að "efnahagsundrið" á Íslandi væri hinn fullkomni sannleikur kapítalismans og allir ráðamenn hafa lofsungið menn sem í dag eru annað tvenna, klaufar með mikilmennskubrjálæði eða hreinir svikarar.  Sem eiga það sameiginlegt með ríkisstjórnum fyrrnefndra landa að vera sama um flest á Íslandi, enda flestir flúnir í öruggt skjól þar sem þeir veita drottningarviðtöl og benda á aðra.

Svarið liggur ekki lengur á hreinu.  Einföldun ráðamanna í upphafi var enn ein tilraun til sögufölsunar og nú þarf að fara að taka til í skápnum.  Blaðamannafundir í Iðnó voru hjóm eitt og uppfullir af draumórum um að allt yrði í lagi bráðum.

Ég held að núna sé að koma í ljós mikilvægi þess að áhersla allra þarf að liggja hjá hinum almenna Íslendingi og leiðarljósið á að liggja í því að hér verði lífvænlegt í framtíðinni.

Sú framtíð verður að byggja á þeirri augljósu staðreynd að við erum smáþjóð, ein sú minnsta í heimi og okkar hegðun verður að vera í samræmi við það.  Við verðum að nýta það sem landið okkar og miðin gefa, fyrirtækin okkar eiga að líta til þess að lifa vel á íslenskum mörkuðum og stjórnmálamennirnir okkar eiga að verða aftur þingmenn fólksins allan sinn starfstíma, ekki bara á meðan prófkjörsbarátta og kosningar eru í gangi.

Víkingar hafa verið eitthvað sem við höfum horft á í ákveðnum ljóma.  Í öðrum löndum voru víkingar mikill óyndisflokkur sem við hefðum sennilega ekki viljað fá í heimsókn.  Sama hefur hent landið okkar núna, flokkur karla hefur farið í mikið strandhögg í Evrópu og rænt þar miklum verðmætum.  Hér heima situr hnípinn og þögull flokkur fólks sem áttar sig ekki á þeirri staðreynd að hugmyndafræði samfélagsins er gjaldþrota eins og flest okkar fyrirtæki og svakalega mörg heimili.

En eins og kotbændurnir í Hrafnkelsdal sem þurftu að taka á sig skelli fyrir Freysgoðann sinn er það nú okkar staða.  Við kotararnir þurfum að fara að sjá aðgerðir sem munu sýna okkur fram á það að verið sé að hugsa til okkar.  Við búum ennþá við ofríki goðanna okkar sem langar að vaða í víking til að verða stórir og fá áheyrn hjá konungum til að lesa þar ljóð!

Því að stórveldisdraumar smáþjóðarinnar hafa orðið ofveðri að bráð, eins og forðum þegar víkingarnir hættu að sigla og fóru að yrkja jarðir Íslands og stunda miðin.  Eftir stendur að við erum smáþjóð í vanda og hér skipta allir máli.  Hver og einn þegn samfélagsins.

IMF er nú vopn kúgaranna, nýlenduþjóðanna eða hvað við viljum kalla þá.  Venjulegir borgarar þessa lands gerðu ekki allir eitthvað af sér.  Standa upp takk, og verja þá!!!!!


mbl.is Afgreiðslu umsóknar frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að axla ábyrgð!?!?

Finnst nú menn mæra Bjarna karlinn um of!

Bjarni Harðarson er einn skemmtilegasti ræðumaður sem ég hef heyrt í.  Síðast heyrði ég í honum á Skólastjóraþingi á Selfossi þar sem hann fór á kostum, ég hreinlega hélt ég myndi deyja úr hlátri á köflum!

Oft á tíðum hefur verið gaman að fylgjast með brölti hans á þingi, í sjónvarpsþáttum og á blogginu.  En stundum labbar hann yfir strikið.

Sem hann svo sannarlega gerir þarna!  Ég ætla nú ekki að verða stuðningsmaður Valgerðar Sverrisdóttur, dettur það ekki í hug, en hvað í ósköpunum reikna menn með að annað væri hægt að gera?

"Fyrirgefðu Valgerður!  Það er stærsta kreppa í íslenskri pólitík og ég ætlaði að nota tækifærið og rýra traust kjósenda Framsóknarflokksins á þér, koma þér út í horn í þingflokknum og komast til valda sjálfur.  En við skulum bara gleyma því og vinna saman"?

Ekki möguleiki, ekki nokkur möguleiki.  Ef Bjarni hefði setið áfram hefði Valgerður orðið að víkja, annars hefði Framsóknarflokkurinn algerlega tapað því litla fylgi sem hann þó hefur núna.  Það er sorglegast að sennilega var Bjarni að bregðast við því að fólk vill breytingar.

Bara eins og stundum áður var hann of fljótur til og lék vanhugsaðan leik.  Slíkra stjórnmálamanna þörfnumst við ekki í dag.  En Framsókn stendur veikar eftir og satt að segja orðið sorglegt að sjá að stjórnarandstaða og valdabrölt í borginni virðist bara færa flokkinn enn neðar. 

Ég held að leið þeirra úr ógöngunum verði að leita í upprunann og skoði hvenær þær voru síðast við farsæl völd og ánægðir í sínum flokki, á tíma Steingríms.  Áherslur hans voru vinsælar meðal þjóðarinnar "fyrir nýfrjálshyggju" og sannarlega er tími fyrir þær á Íslandi á ný.

Ef ekki, þá deyr Framsóknarflokkurinn.......


mbl.is Guðni: Bjarni axlar ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn að vakna?

Verð að viðurkenna að ég er bara að byrja trúa því að eitthvað sé á réttri leið.  Ragnheiður og Guðfinna, meira að segja Pétur Blöndal að átta sig á því að þjóðin er að heimta aðgerðir og viðbrögð.

Auðvitað er þetta hárrétt hjá þeim og ljóst að steinaldarhugmyndir um Alþingi Íslendinga sem afgreiðslusal fyrir ríkisstjórn eru renna út á tíma.

Enda ljóst að Alþingi hefur alls ekki verið starfi sínu vaxið nú um sinn.  Ég er mjög glaður að sjá skólastjórana á þingi, áðurnefndar konur og þann mæta dreng Guðbjart Hannesson ætla að ganga í lið með almenningi þessa lands og heimta umræðu og tafarlausar aðgerðir.

Smátt og smátt kemur í ljós hverjum verður treystandi að vinna þarna áfram......


mbl.is Þingmenn eins og afgreiðslufólk á kassa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfrétt vegna sigurs lýðræðisins í Bandaríkjunum!

Fylgdist með kosningunum fram á nótt, gafst þó upp áður en klárt var hvernig færi.

Gaman var að fylgjast með vinnu sjónvarpsmannanna sem höfðu lagt mikið á sig einmitt til að sjá hvar stuðningur við frambjóðendanna var mestur, eftir kynjum, innkomu í launum, húðlit og alls konar öðrum hlutum.

Og sennilega í fyrsta sinn síðan ég veit ekki hvenær eru það sennilega kjósendurnir frá miðstéttinni og niðurúr sem vakna kátastir í Bandaríkjunum í dag!  Það er að mínu mati stærsti sigur lýðræðisins, þegar að fjöldi hins venjulega fólks gleðst meira en "elítan" í samfélaginu sem hefur átt sína kjötkatla.

Nú þarf Barack HUSSEIN Obama að sýna fram á það að hann er maður allrar þjóðarinnar og nú er að mínu mati komið að stóru stundinni hans.  Ég tel Obama ekki eiga séns í að eignast sömu áruna og Bill Clinton, hvað þá John F. Kennedy.  Hann er góður ræðumaður í anda Morfísmanna, hægur og yfirvegaður og er að vinna þessar kosningar að stórum hluta út á það að Ameríka vill breytingar frá bulli George W. Bush sem ég tel að sagan dæmi sem versta forseta í sögu landsins.

Mikið hefur verið gert úr litarhætti hans, sem vissulega er mikil frétt, en það held ég að valdi honum enn meiri pressu.  Án vafa munu hópar "ekki hvítra" nú reikna með miklum ávinningum í réttindabaráttu sinni og að þeir líti glaðari daga, en það er auðvitað ekki sjálfgefið.  Á þingmannsárum hans hefur hann ekki verið "kynþáttaþingmaður", heldur mun frekar verið öflugur í efnahagsmálum og félagsþjónustu fyrir alla, óháð öllu.

Sem auðvitað verður að vera.

Í dag hefur maður meiri trú á Bandaríkjum Norður Ameríku sem þjóð.  Ég reyndar held að John McCain hafi verið góður kostur líka, en það að þjóðin hefur nú kosið ungan blökkumann sem sinn stjórnanda eru skilaboð, skýr, um að Bandaríkin verða að breytast.

Ég held að heimsbyggðin gleðjist yfir því af heilum hug, við erum mörg orðin þreytt á heimsveldishyggju landsins og yfirgangi.  Vonandi nær Barack Obama að breyta því með dyggri aðstoð síns fólks!


mbl.is Konur og minnihlutahópar tryggðu sigur Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður að meiri, hárrétt ákvörðun Bogi!

Alveg hárrétt athugað hjá skynsömum manni.

Það er leitandi að manni sem getur sinnt þessu starfi, hagsmunatengsl í svo litlu landi eru gríðarleg og vandfundinn sá maður í valdakerfi Íslands sem ekki tengist bankakerfinu á einn eða annan hátt!  Það er að mínu mati algerlega ljóst að finna þarf vammlausan mann til að stýra því GRÍÐARLEGA verki sem verður að finna sakamenn í þessum bankagraut.

Það er alveg pottþétt að þá er að finna og með þessari yfirlýsingu hefur Bogi sýnt þjóðinni það að hann metur réttlætið ofar eigin vegtyllu eða verki.  Að ekki sé nú talað um hans persónuleg tengsl í gegnum son hans.

En nú þarf að spyrja.  Hverjum í valdastétt Íslands getur þjóðin treyst?  Þorgerður Katrín hefur stigið fram í dag og gert hreint fyrir sínum dyrum.  Aðrir í ríkisstjórn og á Alþingi eiga að fylgja, svo flokkarnir með sitt bókhald.  Það þarf landhreinsun takk!!!!

Gott væri nú t.d. ef Geir útskýrði þá ótrúlegu setningu sína varðandi það að "hann hitti Björgúlf Thor oft þegar hann væri á landinu".  Í ljósi orða hans í dag um Icesave er ljóst að annað hvort var Geir að ljúga að þjóðinni sinni eða þá það að hann var leiddur í sömu gildru og svo margir, að treysta gjörðum Björgúlfanna.

Takk fyrir Bogi og Þorgerður Katrín.  Hver vill vera næstur????


mbl.is Bogi Nilsson hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka kreppa í íþróttunum - en ekki ennþá hjá Jóni Ásgeiri

Hlaut að koma að því að Abramovich yrði að lifa eðlilegu lífi.  Gígantískt tap hans upp á hundruðir, ef ekki þúsundir, íslenskra milljarða í rússnesku fjármálakreppunni þýðir auðvitað að ekki er hægt að leika sér með fokdýra leikfangið.

Bara alveg eins og ef maður á 650 hestafla fólksbíl sem eyðir 40 lítrum á hundraðið.  Maður dregur úr þeim leik og eins hendir nú á Brúnni.

Það hlakkar ekkert í mér samt, Chelsea er fornfrægt lið með mikla sögu og það bíður þess held ég skelfileg framtíð.  Ekki í vetur kannski, en á næstu 2 - 3 árum.  Þegar verið gefið upp að þeir kaupa ekki nýja leikmenn í janúar og nú er verið að segja upp einhverjum minni spámönnum.  Þessir 15 ná þó varla að jafna laun Terry eða Lampard og því held ég að á hreinu sé að ef að ástandið í fjármálum heimsins lagast ekki sé ekki langt að bíða þess að slíkar stjörnur verði kvaddar.

Ég vona samt vegna margra félaga minna sem halda með Chelsea að hér sé ekki nýtt Leedsdæmi á ferðinni, það væri hroðalegt.

Varðandi mitt lið, Liverpool.  Nú er það í eigu tveggja amerískra "kaupahéðna" sem ekki hafa viljað missa sig í eyðslu.  Arabi bíður á hliðarlínunni að kaupa klúbbinn, sem leikfang.  Ég vill ekki undir nokkrum kringumstæðum að liðið mitt hljóti þau örlög að geta keypt alla leikmenn heimsins í 7 - 10 ár og spila svo við Cheltenham, Huddersfield og Bristol Rovers í kjölfarið.

Því auðvitað hrynur nú fjármagn til íþróttafélaga og þá losa auðmennirnir sig við leikföngin. 

Nema auðvitað Jón Ásgeir sem ríkið var að lána peninga til að kaupa alla fjölmiðlana.  Var þetta það sem Ólafur Ragnar vildi?  Sá þarf nú að svara fyrir það að hafa ekki skrifað undir ákveðið frumvarp sem sennilega varð til þess að ákveðinn maður hætti við að hætta í pólitík og fékk sér bankastjórastól.......


mbl.is Uppsagnir hjá Chelsea í sparnaðarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband